Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 22:14:53 (3589)

1999-12-20 22:14:53# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[22:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hægt að segja um Landsvirkjun að þar hafi verið unnið mikið gróðurstarf á þeim virkjunarsvæðum þar sem þeir hafa verið, í kringum Blöndu og miklu víðar. Þeir hafa gert þetta mjög faglega og ég veit ekki annað en að landeigendur og aðrir sem koma að þessu séu mjög ánægðir með samstarfið við Landsvirkjun hvað þetta varðar. Ég veit ekki annað en að fræðimenn séu það einnig og ég held við höfum ekki neinu að kvíða varðandi þessa virkjun frekar en hinar.

Varðandi eitt atriði, herra forseti, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á í sinni ágætu ræðu var bréf sem hann hafði fengið frá Ágústi H. Bjarnasyni grasafræðingi þar sem hann heldur því fram að þessi virðulegi fræðimaður hafi ekki farið á Eyjabakkasvæðið. Hann segir í grein í Morgunblaðinu 9. desember --- bréfið sem hv. þm. Össur fékk er síðan 4. desember --- en hann segir hér í þessu Morgunblaðsviðtali, með leyfi forseta:

,,Hvað varðar gagnrýni um að hann hafi ekki farið um allt svæðið segir Ágúst: ,,Því miður komst ég ekki út í Eyjar vegna vatnavaxta en fór inn allt Snæfellsnes og inn undir Háöldu.````

Með öðrum orðum þýðir þetta að farið hefur verið frá neðsta hluta væntanlegs lóns og alveg upp að jökli, sem sagt meðfram austurhlíðum Snæfells. Það er náttúrlega sannanlega vestari hlutinn við Jökulsá í Fljótsdal og að sjálfsögðu nákvæmlega sami gróðurinn meðfram fljótinu beggja megin. Og þessi vísindamaður var fyrst og fremst að kanna hvort, samkvæmt rannsóknum Hjörleifs Guttormssonar og fleiri, væri ástæða til að ætla að þetta svæði hefði breyst á þeim 20 árum sem liðin voru frá því að þeir höfðu farið þarna um.