Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 22:18:39 (3591)

1999-12-20 22:18:39# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[22:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti vænt um að hæstv. iðnrh. yrði gert viðvart. Ég tel eðlilegt að hann sé hér viðstaddur. Ég er ekki aðili að því samkomulagi sem hv. síðasti ræðumaður og hæstv. ráðherra kunna að hafa gert um fjarveru hins síðarnefnda en mér er ekkert að vanbúnaði að hefja mál mitt í trausti þess að hæstv. ráðherra komi innan skamms.

Ég tel, herra forseti, eðlilegt að rifja það upp, af því að við erum nú komin hér dálítið djúpt inn í mikla umræðu, að í raun er hér um óvenjulegan og afar sérkennilegan málatilbúnað að ræða. Hér liggur fyrir tillaga frá hæstv. ríkisstjórn til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Þessi tillaga er ábyggilega nánast einstök í þingsögunni. Hún er einhvers konar beiðni til Alþingis um stuðningsyfirlýsingu við mál sem er á ferðum úti í bæ.

Þetta stafar að sjálfsögðu af þeirri klemmu sem málið var í. Annars vegar halda Landsvirkjun og ríkisstjórn því fram að þeir hafi allar tilskildar heimildir til að hefjast handa við framkvæmdina. Hins vegar treysta stjórnvöld eða fyrirtækið sér ekki til að halda málinu áfram öðruvísi en að fá þessa sérstöku samþykkt, stuðningsyfirlýsingu samþykkta á Alþingi. Með öðrum orðum er ekki verið að afla sérstakrar heimildar fyrir samningagerð, lagaforsendna í málinu eða annars af því tagi. Nei, menn segjast hafa það allt saman en eftir sem áður kemur málið hér fyrir þingið í formi þessa sérkennilega fyrirbæris þar sem kallað er eftir einhvers konar stuðningsyfirlýsingu þingsins við að framkvæmdin haldi áfram. Þetta er óvenjulegt, herra forseti, og vekur auðvitað strax ýmsar spurningar, t.d. um tilganginn með þessum málflutningi.

Ég tek það skýrt fram að ég held að það hafi verið til bóta að Alþingi fékk málið til umfjöllunar, reyndar til viðbótar öðrum sem lágu fyrir. Af því hefur kviknað talsverð umræða og komið fram ýmsar skoðanir á málinu.

Mér sýnist, herra forseti, að tvennt hafi aðallega gengið hæstv. ríkisstjórn til. Þetta er greinilega einhvers konar örþrifaráð Framsfl. sem virðist hafa átt að þjóna tvíþættum tilgangi. Sagan segir að þetta sé rakið til sérstaks neyðarfundar ráðherra Framsfl. á Austurlandi síðsumars þegar þeim þótti örvænt um stöðu sína í málinu. Fyrri ástæðan, herra forseti, er greinilega sú, sem kannski er því miður að einhverju leyti að heppnast hér hjá stjórnarflokkunum, þá sérstaklega Framsfl., að komast hjá því að grundvallarspurningin um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar komi til afgreiðslu á Alþingi.

Þessi skrýtni málatilbúnaður er öðrum þræði klæðskerasaumaður til að komast hjá því að Alþingi standi frammi fyrir þeirri grundvallarspurningu skýrt og afdráttarlaust. Hefði þetta mál ekki komið frá ríkisstjórn hefði að sjálfsögðu orðið enn erfiðara fyrir meiri hlutann hér að koma í veg fyrir að efnisleg afgreiðsla fengist á endurfluttu þingmáli um að Alþingi tæki af skarið í því efni.

Seinni megintilgangur þessa skrýtna málatilbúnaðar, herra forseti, er augljóslega að binda samstarfsflokkinn, þ.e. samstarfsflokk Framsfl., og gera samsekan í málinu. Á því leikur enginn vafi að hæstv. iðnrh. og framsóknarforustan taldi sig í sálarháska stödd á haustdögum, með allar byrðarnar af óvinsældum þessa máls á herðunum og þá hraklegu stöðu í sambúð umhvrn. og iðnrn. í þessu máli en samstarfsflokkinn fríspilandi. Þetta er hin meginástæðan fyrir þessum skrýtna málatilbúnaði.

Ég held að þessar tilraunir Framsfl. séu báðar á góðri leið með að mistakast. Umfjöllunin hér hefur dregið fram svo mikla veikleika í undirbúningi málsins að sennilega standa stjórnarflokkarnir verr að vígi í áróðri sínum nú en þeir gerðu þó í haust. Umfjöllunin hefur einfaldlega sýnt fram á hversu órafjarri er að hér sé um sómasamlegan grundvöll slíkrar ákvarðanatöku að ræða.

Í öðru lagi hefur meiri hlutinn hér á Alþingi veikt stöðu sína stórkostlega frammi fyrir alþjóð með því að beita þannig vinnubrögðum í þingnefndum og í kringum þetta mál að ámæli sætir í þjóðfélaginu. Í þriðja lagi, herra forseti, held ég að þessari málsmeðferð sé á allan hátt svo ábótavant að öll þjóðin skynji að um málamyndaafgreiðslu sé að ræða. Allir sjá að þessi skrýtna stuðningsyfirlýsing við þetta mál er knúin í gegn af handjárnuðum og samanbörðum meiri hluta stjórnarflokkanna. Menn eru sérstaklega teknir á beinið t.d. af þingflokksformanni Framsfl., hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, ef það vottar fyrir því að menn ætli að hafa sjálfstæða skoðun á málinu og vísað til flokksaga úr þingflokki Framsfl.

Þetta sjá menn í gegnum og skynja að hér er ekki á ferðinni hlutlæg og efnisleg afgreiðsla Alþingis á þessu máli. Það er því miður ekki svo, herra forseti. Þetta er fyrirframákvörðun um að berja í gegnum þingið og fá stimpil þingsins á málamyndatilbúnaði, stuðningsyfirlýsingu við það sem ríkisstjórn, fyrirtækið Landsvirkjun og væntanlegir framkvæmdaraðilar álvers hafa komið sér saman um að búa til.

Herra forseti. Vinnubrögðin hér í þinginu hafa afhjúpað áframhaldandi veikleika í meðferð málsins. Þar er ekki aðeins um að ræða tilraunir til að hindra að hér komi til efnislegrar atkvæðagreiðslu grundvallarspurning um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Eins hafa vaknað spurningar vegna ákvörðunar meiri hlutans og forustunnar hér í þinginu um að hafna óskum um að almenningur komist að þessu máli, t.d. á opnum fundum með þingnefndum, þvert ofan í yfirlýsingar, sjálfbirgingslegar yfirlýsingar um að allri þjóðinni sé hleypt að málinu í gegnum Alþingi. Er það í samræmi við yfirlýsingar sem koma bæði frá hæstv. iðnrh. og frá hv. formanni iðnn. um að þetta ferli væri meira og minna sambærilegt við lögformlegt mat á umhverfisáhrifum af því að þingið taki málið í sínar hendur og almenningur komist að málinu í gegnum þingið? Eitt af því fyrsta sem meiri hlutinn beitti valdi til að gera var að hafna óskum um að nefndirnar byðu sameiginlega þeim sem sérstaklega vildu koma á fund nefndarinnar á opinn borgarafund eða annan slíkan vettvang.

Munnlegum og bréflegum óskum um að kalla fyrir nefndirnar einn aðalmálsaðilann, þ.e. fyrirtækið Norsk Hydro, hefur verið hafnað. Það er kannski ein alvarlegasta valdbeitingin í meðferð þessa máls þegar betur er að gáð. Það er nánast óskráð hefð í þingstörfum, í samræmi við anda þingskapalaganna og í samræmi við allar hefðir, að senda mál út til umsagnar eða kalla til gesti samkvæmt óskum nefndarmanna, ekki síst þá sem hlut eiga að málinu. Ég held að það sé leitun að verra dæmi um valdbeitingu af þessu tagi, um að komið hafi verið í veg fyrir að jafnafgerandi aðili að máli, eins og fyrirtækið Norsk Hydro sannarlega er í þessu efni, væri kallaður til. Það er þrátt fyrir þau marggefnu tilefni til þess í meðferð málsins. Því var engu að síður hafnað, fyrst í umhvn. og borið við tímaskorti og síðan í iðnn. Ég þekki fá dæmi þess, herra forseti, að meiri hluti í þingnefnd eða í þinginu hér hafi beitt valdi sínu með jafnólýðræðislegum og óþingræðislegum hætti.

Auk þess má nefna að hv. form. iðnn., sem væri nú ákaflega æskilegt að lyki framgöngu sinni í þessu máli með því að vera hér við umræðuna, blés til fjölmiðlafunda og baðaði sig í sviðsljósinu og tilkynnti að í krafti nýrrar tækni hefði nú verið opnuð heimasíða fyrir iðnn. Þar átti öllum þegnum, þeim sem kæmust á netið, að gefast kostur á að komast í milliliðalaust samband við nefndina.

Samt hafa menn enn einu sinni beitt meiri hluta sínum og valdi til að ómerkja þessi fögru fyrirheit með því að fallast ekki á að þetta fylgdu með sem eðlilegar umsagnir. eða verða við óskum um fundi sem bárust nefndum með rafpósti. Það var sem sagt ekki tekið gilt, þegar á hólminn var komið, þvert ofan í hin fögru fyrirheit og hástemmdu lýsingar formanns iðnn. á því að þarna væri brotið í blað í sögu þingsins, það væri að opnast og efla tengsl sín við þjóðina, m.a. með því að opna heimasíðuna.

[22:30]

Herra forseti. Þessi dæmi, og reyndar mætti nefna fleiri, sýna að það skortir svo mikið upp á að hér hafi meiri hlutinn í þinginu unnið eðlilega að framgangi málsins að málsmeðferðin er þegar af þeim sökum ómarktæk. Hún er ekki marktæk. Þetta eru ekki þingræðislega samboðin vinnubrögð og það eykur enn á þá slagsíðu sem er á þessum málatilbúnaði öllum, dregur betur fram í dagsljósið en áður var að tilgangurinn er ekki sá að fá hér hlutlæga og vandaða umfjöllun um málið. Hann er allur annar. Hann er þessi stimpiltilgangur og samsektargjörð stjórnarflokkanna þannig að þeir séu báðir með þetta á herðunum.

Engu að síður er það nú svo að pólitískir skýrendur eins og leiðarahöfundar Morgunblaðsins telja að þetta muni nú ekki duga því Sjálfstfl. muni sleppa frá málinu meira og minna hvítþveginn og syndin verða öll á herðum Framsfl.

Herra forseti. Það er reyndar athyglisvert hversu oft á undanförnum vikum leiðarahöfundar Morgunblaðsins og höfundar Reykjavíkurbréfa hafa séð sig knúna til þess að setja opinberlega ofan í við ríkisstjórnina fyrir það hvernig hún heldur á þessu máli. Í tvígang hafa leiðarahöfundar Morgunblaðsins lýst yfir stuðningi við þá sjálfsögðu ósk að þeirra mati, fyrst hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og síðan einnig hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, fulltrúa okkar í iðnn., að fyrirtækið Norsk Hydro væri kvatt fyrir þingnefndirnar. Í tvígang hefur það í leiðurum Morgunblaðsins verið talin eðlileg og réttmæt og sjálfsögð ósk. Og jafnoft eða oftar hefur sérstaklega verið sett ofan í við ríkisstjórnina fyrir vinnubrögðin í þessu máli auk þess sem rök hafa verið færð fram fyrir því í ítarlegu máli að þessi framkvæmd eigi að fara í hið lögformlega umhverfismat.

Herra forseti. Í þriðja lagi vil ég víkja að einum þætti þessa máls sem ég sé mig knúinn til að gera hérna lítillega að umtalsefni þó aðrir hafi reyndar þegar gert það og málið hafi fengið nokkra umfjöllun hér bæði í dag og á laugardaginn var og það er það sem ekki er hægt að kalla annað en sérstaka og ógeðfellda aðför, fyrst hæstv. utanrrh., formanns Framsfl., og síðan þó einkum og sérstaklega formanns iðnn., Hjálmars Árnasonar, að embætti skipulagsstjóra og skipulagsstjóra sjálfum. Tónninn var gefinn af hæstv. utanrrh. í umræðum hér um þetta mál fyrir nokkrum vikum síðan og það vakti auðvitað mikla athygli að hæstv. utanrrh. skyldi velja sér að gera skipulagsstjóra þá, á þeim tímapunkti málsins, sérstaklega að umtalsefni á þann hátt sem hann gerði. En þannig var að hæstv. utanrrh. lét í raun og veru að því liggja að þingmenn væru hæfari til þess að meta umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar en embætti skipulagsstjóra eða skipulagsstjóri ríkisins sem þó hefur lögum samkvæmt verið falið það hlutverk af þinginu. Það var í raun mjög sérkennilegt útspil af hálfu hæstv. utanrrh. sem mun nú reyndar hafa valdið því að skipulagsstjóri skrifaði nefndum ráðherra bréf og leitaði eftir skýringum á því hvert væri verið að fara með þessum ummælum.

En síðan kom hv. þm. Hjálmar Árnason eins og frægt er orðið og lét að því liggja hér á laugardaginn, og ekki bara lét að því liggja heldur fullyrti í raun og veru að skipulagsstjóri hefði á fundi iðnn. leynt nefndina upplýsingum og það var engin leið að ráða í orðalag hv. þm. öðruvísi en þannig að um vísvitandi gjörning hefði verið að ræða. Ef það var ekki hugsun hv. þm. Hjálmars Árnasonar, formanns iðnn., þá var engin ástæða til að orða hlutina eins og hann gerði.

Það er auðvitað geysilega alvarleg ásökun að ásaka opinberan embættismann um að leyna þingnefnd upplýsingum, en upplýsingagjöf fyrir þingnefndir er jú ein af ríkum skyldum hins opinbera kerfis og Alþingi hefur sérstakan og lögvarinn rétt eins og kunnugt er til þess að krefja um upplýsingar. Og það þarf mjög sterk rök til þess að verða ekki við slíku og þá og því aðeins að hægt sé að bera við öðrum lögvörðum og ríkari rétti eða stjórnarskrárvörðum rétti manna til friðhelgi einkalífs og einkaupplýsinga eða annarra slíkra hluta. Hér er að sjálfsögðu ekkert slíkt á ferðinni þannig að augljóst mál er að upplýsingaskyldan við nefndirnar er rík.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. Hjálmar Árnason var í umræðum í dag að reyna að forða sér yfir í það að það væru ágallar á skýrslu skipulagsstjóra þar sem farið er fram á frekara mat, en niðurstaða hennar er frekara mat á áhrifum 480 þús. tonna álsvers í Reyðarfirði. Það er allt annar hlutur. Skýrslan er opinbert plagg sem að sjálfsögðu er hægt að taka og grandskoða og gagnrýna og menn þurfa ekkert endilega að vera sáttir við það eftir atvikum hvernig hún er fram sett af hálfu embættisins. En þá er líka hægt að ræðast við um það. En að standa í þessum ræðustóli og bera opinberum embættismanni það á brýn að hann hafi leynt þingnefnd upplýsingum á fundi í þingnefnd og velja sér þennan vettvang þar sem viðkomandi embættismaður hefur að sjálfsögðu ekki tök á að verja sig og talað er í krafti þinghelgi, er afar dapurlegur gjörningur þegar menn geta svo ekki staðið við hann. Mér finnst hv. þm. Hjálmar Árnason stórkostlega maður að minni að fara nú á þennan flótta yfir í skýrsluna og hverfa í raun þannig frá ummælum sínum hér á laugardaginn var --- ég bíð nú útskriftar ræðu hans frá ræðuritun Alþingis --- án þess að vera þá maður til þess að draga þau ummæli til baka og beina gagnrýni sinni að öðrum þáttum og reyna þá að rökstyðja þá hluti.

Nú sat ég að sjálfsögðu ekki fundi þessarar nefndar og hef ekki tök á því að blanda mér í það sem slíkur sem þarna fór fram. En eins og þetta birtist mér og ég hef hér farið yfir þetta þá er hlutur hv. þm. Hjálmars Árnasonar afar dapurlegur. Þetta tvennt minnir auðvitað óhugnanlega á aðrar sambærilegar tilraunir sem bera keim af því að það eigi að tyfta menn og refsa mönnum fyrir að hafa skoðanir eða framkvæma embættisgjörninga sem koma sér illa fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Það var t.d. afar athyglisvert, herra forseti, þegar hæstv. iðnrh. svaraði þáverandi einnig opinberum embættismanni, Tryggva Felixsyni nokkrum sem þá vann, að ég hygg hjá fjmrn. Ekki sjaldnar en í þrígang sá hæstv. iðnrh. ástæðu til að minna embættismanninn á það hver væri vinnuveitandi hans með því að tala um embættismann í þjónustu ríkisstjórnarinnar, opinberan embættismann o.s.frv. Nú var hér um að ræða svar við blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu undir nafni þessa manns og hann var að skrifa sem einstaklingur og ekki talandi fyrir hönd ráðuneytisins eða slíks.

Er það þá virkilega orðið þannig, herra forseti, á Íslandi að mönnum sé ekki einu sinni frjálst að hafa sínar persónulegu skoðanir? Ef þær koma sér illa fyrir viðkomandi ráðherra eða ríkisstjórn þá eru þeir teknir á beinið og barðir eins og hæstv. iðnrh. gerði þarna með því augljóslega að minna manninn aftur og aftur á það hvar hann væri í vinnu. Það er von að spurt sé, herra forseti, þegar dæmin hrannast upp af þessu tagi og framkoman við menn er með þessum hætti.

Staðreyndin er sú að þetta mál í okkar litla fámennissamfélagi ber mikinn keim af því að allir helstu aðilar sem eðlilegt væri að leita mætti til um hlutlæga og hlutlausa afstöðu, svo dæmi sé tekið varðandi t.d. hinar þjóðhagslegu forsendur málsins, eru meira og minna flæktir í það. Einstaklingar eiginlega á öllum vígstöðvum sem það mál varða eru þvers og kruss, fyrrverandi eða núverandi starfsmenn í iðnrn. eða nátengdir og krossaðir í þessu máli, enda er það fyrst og fremst svo að sjálfstætt starfandi aðilar utan úr bæ virðast einir vera í stöðu til eða hafa áhuga á eða möguleika til að halda uppi sjálfstæðri gagnrýni.

Herra forseti. Ég tel að allar forsendur ákvarðanatöku í þessu máli séu undirorpnar svo mikilli óvissu og málatilbúnaðurinn allur svo veikur að það sé algjörlega ósamboðið stærð og mikilvægi málsins. Við erum að ræða hérna um stærstu fyrirhugaða, ef af yrði til fullrar stærðar, fjárfestingu Íslandssögunnar. Það hefur aldrei áður verið á borðinu í einum pakka önnur eins gríðarleg fjárfesting og þetta álver í fullri stærð upp á 480 þús. tonn og tilheyrandi virkjanir yrðu. Það yrði meira en heils árs fjárlög íslenska ríkisins, nokkuð á þriðja hundrað milljarða kr. ef að líkum lætur, þ.e. álverið í fullri stærð og allar tilheyrandi virkjanir.

Er það þá boðlegt að leggja upp, leggja af stað, í slíkan mögulegan leiðangur á jafnveikum forsendum, umdeildum og með jafnmiklar efasemdir uppi um fjölmarga veigamikla þætti málsins og raun ber vitni? Hvað sem aðstandendur málsins hér reyna að segja þá þýðir ekki að neita því að uppi er þessi lagalega óvissa, uppi eru miklar efasemdir um arðsemi í málinu, stórkostlega er ábótavant undirbúningsrannsóknum og upplýsingasöfnun og margir fleiri endar eru lausir sem varða efnislega þætti, stjórnsýslulega, lögformlega eða lagalega o.s.frv.

Ég ætla hér að staldra við eina fjóra þætti sem flokka má undir réttaróvissu eða lögformleg atriði, herra forseti. Það fyrsta er auðvitað hið margfræga ákv. til brb. II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum og spurningin um það hvort þessi virkjun falli í raun undir það ákvæði með öllu því sem skoða verður í því sambandi. Frábið ég mér þá lögskýringar af því tagi að þar sem einhverjar aðrar fyrr framkvæmdar virkjanir hafi farið fram, þá sé málið sannað úr því að ekkert var látið á það reyna eða þau mál komu ekki upp til sérstakrar skoðunar. Það er að sjálfsögðu ekki frambærileg röksemdafærsla heldur verður að rökstyðja málið á efnislegum forsendum ef það á að halda.

Ég held að það hljóti að vera stórkostlegt vafamál ef það mál gengi til enda, sem það kannski gerir fyrir dómstólum, innlendum eða erlendum, að þetta í raun fái staðist á grundvelli þessa löngu útgefna virkjunarleyfis í ljósi þess að önnur tilskilin leyfi og ýmsar aðrar lögformlegar forsendur málsins voru ekki fyrir hendi. Þar má nefna að sjálfsögðu framkvæmdaleyfi. Þar má nefna nauðsynlegar skipulagslegar forsendur og fleira.

Herra forseti. Skipulagsmálin koma hér við sögu. Og það verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst með ólíkindum ef umfjöllun um þetta mál á að ljúka á Alþingi á jafnóskýrum forsendum og þau mál virðast nú standa á. Mér þykir vænt um að hæstv. félmrh. er viðstaddur umræðuna sem ráðherra málefna sveitarfélaganna því að sjálfsögðu hlýtur það að geta komið til kasta hæstv. félmrh. að gæta þess að yfir þau sé ekki vaðið í þessum efnum. Þó svo að viðkomandi löggjöf sem þarna á í hlut sé sett af umhvrh., þ.e. skipulags- og byggingarlög, þá er það þó þannig að hæstv. félmrh. er almennt sá ráðherra sem fyrir hönd sveitarfélaganna fer með þeirra mál og, við skulum segja, gætir þeirra hagsmuna að breyttu breytanda.

Herra forseti. Nú er það óumdeilt að hvorki aðalskipulag né deiliskipulag er fyrir hendi í Fljótsdalshreppi til að heimila þessar framkvæmdir. Það er óumdeilt. Og það var að því er virðist óumdeilt á árunum í kringum 1991--1993 að þessa forsendu skorti. Til marks um það eru bréfaskipti Fljótsdalshrepps og Landsvirkjunar endurtekin á þeim árum. Þetta hefur komið fram, herra forseti, hér í umræðunum að hluta til og er að hluta til rakið í greinargerð en þó ekki að öllu leyti að því er ég hef bestar heimildir um.

Það kemur fram að strax í nóvember 1990 ritaði Landsvirkjun bréf og fór þess á leit í samráði við Skipulag ríkisins að hreppsnefndin leyfði byggingu Fljótsdalsvirkjunar í samræmi við skipulagslög. Sveitarstjórn svaraði með bréfi dagsettu 20. nóvember og lýsti þá því að frestað hefði verið að taka afstöðu til málsins. Vísað var til þess að útvega þyrfti gögn og upplýsingar um rétt og stöðu hreppsnefndar í þessum málum. Aftur ritaði Landsvirkjun 23. nóvember sama ár og óskaði eftir að fá að ráðast í gerð aðkomuganga. Hreppurinn heimilaði gerð aðkomuganga með bréfi dagsettu 30. nóvember 1990.

Er þá ekki þarna, herra forseti, þegar komin ákveðin sönnun þess að í einstaka framkvæmdaþætti eða framkvæmdina sem slíka verður ekki ráðist öðruvísi en með samþykki sveitarstjórnar? Ætla skyldi maður það og að Landsvirkjun hafi í reynd með þessu viðurkennt stöðu sveitarfélagsins og rétt þess.

[22:45]

Áfram heldur málið og áfram halda þessar bréfaskriftir, fyrst frá skipulagsstjóra til hreppsins þar sem tilkynnt er um að skipulagsstjórn hafi samþykkt að mæla með leyfisveitingunni, þ.e. fyrir aðkomugöngunum. Og í maí, nánar tiltekið 13. maí 1992 óskar Landsvirkjun enn á ný eftir leyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun og á grundvelli sömu málsgreinar og lagagreinar skipulagslaga.

Með bréfi dagsettu 24. júní 1992 svaraði hreppsnefndin bréfi Landsvirkjunar á þá leið að ekki hafi verið tekin endanleg afstaða til málsins og telji sveitarstjórn æskilegt að aðilar fundi um þessi mál og önnur sem sveitarstjórn hefði áhuga á að ræða. Svo eru í greinargerð með tillögu iðnrh., sem margoft hefur verið vitnað til, þessi fleygu orð, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps fyrir frekari framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun en áðurgreindum aðkomugöngum.``

Herra forseti. Ég hef ástæðu til að ætla að hér sé ekki öll sagan rakin. Ég hef grun um að svo seint sem á árinu 1993 hafi lögfræðingur fyrir hönd Fljótsdalshrepps skrifað Landsvirkjun og lýst fyrir hönd sveitarstjórnar eða yfirvalda sveitarfélagsins þau tilbúin til viðræðna við Landsvirkjun um málið. En þar virðist hinum formlegu eða bréfuðu samskiptum Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps ljúka, þ.e. með þessu bréfi frá lögfræðingi sveitarfélagsins svo seint sem á árinu 1993.

Síðan hefur sveitarstjórnin ekki formlega fengið erindi frá Landsvirkjun það ég best veit en óformlegir fundir hafa átt sér stað með lögfræðingum og yfirmönnum Landsvirkjunar annars vegar og forsvarsmönnum sveitarfélagsins og að ég hygg lögfræðingi þeirra hins vegar.

Hins vegar eru nú liðnar allmargar vikur án þess að sveitarstjórn hafi nokkuð frá fyrirtækinu heyrt. Og vegna þeirrar sérkennilegu lagatúlkunar sem uppi hefur verið hér að því er virðist á köflum, að ekki þurfi frekari leyfi til þá hlýt ég nú að spyrja hæstv. umhvrh., og auðvitað væri æskilegt að hæstv. iðnrh. úttalaði sig einnig í þessum efnum, en hann ber ábyrgð á þessari greinargerð hér m.a.: (Iðnrh.: Búinn að því.) Líta menn svo á að ekki þurfi skipulagslega samþykki sveitarstjórnar fyrir frekari framkvæmdum? (Gripið fram í.) Og er þá ekki ljóst, herra forseti, að ófullnægt er þeirri forsendu málsins að í aðalskipulagi og deiliskipulagi Fljótsdalshrepps verði þessar heimildir teknar inn og þær samþykktar, eða a.m.k. að sveitarstjórnin á grundvelli annarra úrræða þá gefi formlegt samþykki sitt?

Ef svarið við þessu er játandi --- ef hæstv. ráðherrar gætu borið saman bækur sínar á eftir. Ég skal gera hlé á ræðu minni ef hæstv. iðnrh. vill hvísla einhverju að hæstv. umhvrh. um málið. (Iðnrh.: Það er allt annað ...) Nú, það er gott. Ég var sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra og vil þá spyrja í fyrsta lagi: Hvað veldur því að málið er jafnlangt framgengið og raun ber vitni án þess að farið hafi fram á nýjan leik formleg samskipti við Fljótsdalshrepp um leyfisveitingar í þessu máli? Hvað veldur þeirri undarlegu töf í ljósi þess hvernig Landsvirkjun hamraði á því á sínum tíma að fá slíkar heimildir?

Hvað hyggjast stjórnvöld gera í þessu máli? Er hæstv. umhvrh. ekki þeirrar skoðunar að óumflýjanlegt sé að með þetta mál fari að núgildandi skipulagslögum? Er nokkur minnsti vafi á því að þessar framkvæmdir hljóta hvað það varðar að falla undir núgildandi skipulagslög?

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá þetta skýrt fram og í raun held ég að málið sé alvarlegra en þetta. Ég held, herra forseti, að færa megi fyrir því mjög sterk rök að virkjanaleyfi Landsvirkjunar frá árinu 1991 hafi í reynd aldrei orðið virkt vegna þess að þessum lögformlegu skilyrðum sem til viðbótar þurftu að sjálfsögðu að koma, var aldrei fullnægt. Það voru aldrei gefin út framkvæmdaleyfi og aldrei var fullnægt þeim skipulagsforsendum sem leyfið hlaut að þurfa að byggja á áður en hafist gætu framkvæmdir, að öðru leyti en það sem snýr að aðkomugöngunum. Og þá hlýtur það að bætast við röksemdir sem benda í þá átt að það að ætla nú á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum frá sínum tíma að undanskilja þessa framkvæmd í dag lögformlegu mati á umhvefisáhrifum, veikist enn að miklum mun hafi lögformlegum forsendum virkjanaleyfisins verið svo stórlega áfátt sem raun ber vitni og þá má færa fyrir því rök, að mínu mati, að virkjanaleyfið hafi í reynd aldrei verði virkt.

Herra forseti. Ég vil spyrja í þriðja lagi hvað varðar þessi atriði um skipulagsmál í sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Er það ekki svo að í núgildandi skipulagi fyrir Reyðarfjarðarhrepp, sem áður var en er nú hluti af Fjarðabyggð, sé ekki gert ráð fyrir stóriðju á því svæði sem áformuð staðsetning álversins er? Þýðir það ekki að sömuleiðis þar er eftir skipulagsvinna sem á eftir að fara fram og hlýtur að þurfa að koma til og vera forsenda áður en aðrar ákvarðanir og leyfisveitingar fyrir álverinu geta átt sér stað? Ég þykist vita að í skipulagi fyrir þetta svæði í Fjarðabyggð sé ekki gert ráð fyrir stóriðju eða stóriðnaði, en í því sveitarfélagi hugsanlega talað um minni og meðalstóran iðnað eða venjulegan iðnað.

Fjórða og síðasta atriðið, herra forseti, varðar einn þátt hins þjóðréttarlega samhengis þessa máls, ef svo má að orði komast, þ.e. skuldbindingar okkar út á við sem eru auðvitað margar. Hér hafa fyrri ræðumenn nefnt nokkrar þeirra svo sem Ríó-samninginn þar sem við höfum skuldbundið okkur til að taka upp svonefnda varúðarreglu í samskiptum við náttúruna og fleira í þeim dúr.

En ég ætla aðeins að gera hér að umtalsefni, herra forseti, þá staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið upp í íslenskan rétt þá tilskipun Evrópusambandsins sem varðar mat á umhverfisáhrifum og við höfum samningsbundið okkur til að gera, þ.e. tilskipun Evrópusambandsins, 85/337/EBE, frá 27. júní 1985 sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar, og tilskipun 97/11/EC, frá 3. mars 1997. Síðan þarf þarna að líta til dómafordæma Evrópudómstólsins sem bætast við þegar rétturinn er túlkaður.

Herra forseti. Ekki er um það deilt, hygg ég, að þessa tilskipun höfðum við skuldbundið okkur til að taka upp í réttinn hér í marsmánuði sl. og það er ljóst. (Gripið fram í: Ágúst.) Ágústmánuði. Jæja, það gildir nú einu. En sá tími er a.m.k. liðinn sem við áttum að hafa til að koma þessu í verk. Við slíkar gjörðir, herra forseti, stofnast ákveðinn réttur þegnanna á svæðinu og sem þeim á að vera tryggður. Ef sá réttur er ekki stofnaður þá geta ríkin, eins og dæmin sanna, orðið skaðabótaskyld.

Herra forseti. Nú væri gott ef hæstv. utanrrh. væri einhvers staðar í nágrenninu því eitthvað heyra þessi mál nú undir hæstv. utanrrh. Á ég þá ekki við stóriðjumálin heldur EES-samskiptin. Nú stendur svo á að nýfallinn er hæstaréttardómur sem hlýtur að geta komið mjög til skoðunar í þessu samhengi, a.m.k. sem lögjöfnunar- eða lögskýringargagn. Ég held að sá dómur eigi eftir að vekja meiri athygli en hingað til hefur orðið og þó síðar verði. Ég fór í að lesa þennan dóm og reyna að átta mig á því hvort hann gæti haft eitthvert gildi gagnvart þeim þætti þessa máls að Íslendingar hafa vanefnt að taka upp þá tilskipun í umhverfismálum sem ég vitnaði til hér áðan.

Herra forseti. Þannig var að málið höfðaði aðili sem vann hjá hlutafélagi sem varð gjaldþrota vegna þess að launakröfu sem forgangskröfu í búið var synjað af ábyrgðasjóði launa með vísan til laga, innlendra laga, þar sem ákvæði voru sem heimiluðu að falla frá eða leysa ábyrgðasjóðinn undan greiðsluskyldu ef um náinn skyldleika var að ræða við eigendur eða stjórnendur fyrirtækja þannig að sá sem í hlut átti átti að mega vita um stöðu fyrirtækisins. Þannig var þessi réttur hér hjá okkur.

En Íslendingar áttu sem sagt að hafa tekið upp í löggjöf landsins tilskipun Evrópusambandsins nr. 80/987 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og þessi tilskipun var tekin upp í 24. tölulið 18. viðauka við EES-samninginn. Þessi tilskipun færði í þessu tilviki viðkomandi þolanda meiri rétt að mati hans eða lögmanns hans og á þeim grundvelli var stefnt.

Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að ekki væri samræmi milli tilskipunarinnar og innlendra laga og væri misræmið verulegt hvað varðaði málþolandann. Vísað var til álits EFTA-dómstólsins þess efnis að samkvæmt grundvallarreglum EES-samningsins bæru aðilar hans skaðabóta\-ábyrgð gagnvart einstaklingum á því tjóni sem hlytist af ófullnægjandi lögfestingu tilskipunarinnar. Samningsaðilarnir, í þessu tilviki íslenska ríkið sem ber ábyrgð á framkvæmdinni hér, skapar sér, með öðrum orðum, bótaskyldu ef það tekur ekki upp í réttinn réttarbætur af þessu tagi. Niðurstaðan er sem sagt sú að meginmál EES-samningsins hefði, eins og áður sagði, lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og væri eðlilegt að lögin sem lögfestu samninginn væru skýrð svo að einstaklingar ættu kröfu til þess að íslenskri löggjöf væri hagað til samræmis við EES-reglu. Tækist það ekki eða væri það ekki gert, má væntanlega umorða það, leiddi það af lögum og meginreglum og markmiðum EES-samningsins að ríkið yrði skaðabótaskylt að íslenskum rétti. Að þessu virtu, svo og aðdraganda og tilgangi laga nr. 2/1993, var skaðabótaábyrgð ríkisins vegna ófullnægjandi lögfestingar tilskipunarinnar talin fá næga stoð í þeim lögum, en ljóst þótti að stefnandi hefði fengið greiðslur úr ábyrgðasjóði launa hefði aðlögunin verið með réttum hætti. Varð niðurstaðan því sú að ríkið hefði í verulegum mæli brugðist þeirri skyldu að tryggja stefnanda réttindi til greiðslu úr ábyrgðasjóði launa við gjaldþrot að íslenskum rétti svo sem því hefði borið. Bæri ríkið skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þessara mistaka og færi um bótaábyrgð þess samkvæmt almennum reglum um bótaábyrgð hins opinbera varð því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ríkið skyldi greiða stefnanda skaðabætur vegna synjunar ábyrgðasjóðsins.

Herra forseti. Hér virðist sú niðurstaða vera alveg skýr sem ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að koma mikið á óvart. Ég hygg að þeir sem fóru í gegnum umræðuna á sínum tíma, á árunum 1992--1993 um EES-samninginn, minnist þess að einmitt svona var þetta reifað þá af þeim sem um fjölluðu, þ.e. að þetta væri ekkert val. Menn eiga ekkert val í þessum efnum og menn geta ekkert trassað þetta utan endis. Við höfum skuldbundið okkur með lögum sem hér hafa verið sett til að taka upp þennan rétt, nema gripið sé þá til neitunarvalds eða öryggisákvæða, og ef við gerum það ekki þá getur það skapað stöðu af þessu tagi, að þegnar landsins eigi ríkari rétt samkvæmt tilskipunum í Evrópuréttinum og þá geta þeir sótt sér hann fyrir dómstólum. Og það veldur skaðabótábyrgð eða annarri ábyrgð íslenska ríkisins ef slíkur réttur er frá þeim tekinn. Ef túlkað er á svipaðan hátt að meginhugsun og meginandi laganna um mat á umhverfisáhrifum sé m.a. sá að gefa almenningi kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, sem er næsta borðleggjandi í þessum efnum með sama hætti og í dómnum er túlkað að andi laganna um ábyrgð ríkissjóðs vegna launagreiðslna í gjaldþrotum sé sá að bæta mönnum laun sem þeir brenna inni með ef fyrirtæki verða gjaldþrota, þá er mjög líklegt að niðurstaðan í máli sem höfðað væri á þessum grundvelli, þ.e. að vegna vanefnda íslenskra stjórnvalda á að taka þessa nefndu tilskipun um umhverfismál upp í réttinn, mundi skerða stöðu manna og þar bæru þá íslensk stjórnvöld ábyrgð.

[23:00]

Ég held, herra forseti, að lögfræðingar ríkisstjórnarinnar ættu að fara að kíkja á þessi mál. Þarna er enn ein fallöxin hangandi yfir þessum málatilbúnaði öllum. Eins og mig rekur minni til hefur nánast hvert einasta mál sem gengur t.d. sem prófmál eða til enda fyrir EFTA-dómstólnum eða Evrópudómstólnum sjálfum og varðar rétt almennings af þessum toga verið dæmt á ýtrustu forsendum þeim rétti í vil. Réttarþróunin er að flestra mati sem til þekkja sú. Það kæmi því mjög á óvart ef túlkun réttarins að þessu leyti yrði ekki almenningi í vil í þeim skilningi t.d. að menn ættu lögvarinn rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar mál af þessu tagi væru á ferðinni. Og það þýðir sama og lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Af þeim ástæðum einum gætu íslensk stjórnvöld verið komin með þessi mál í bullandi vanda þó ekki kæmi allt hitt til sem við bætist. Ég held að fróðlegt væri að heyra hvort menn hafa litið á þennan þátt málsins sem varðar hina miklu óvissu að þessu leytinu til.

Nú háttar svo til að mál mun hafa verið hafið fyrir þessum erlenda dómstóli hvað varðar frammistöðu íslenskra stjórnvalda og verða menn þá að sjá hverju fram vindur með það, en mér sýnist ljóst, herra forseti, að tilefnin og möguleikarnir sem menn hafa fyrir dómstólum bæði innan lands og utan séu mörg og margvísleg og ærin, jafnbrotakenndur og allur málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar er í þessum efnum.

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þá veikleika í rannsóknargögnum og undirbúningsskjölum þessa máls sem snúa að umhverfinu. Ég mun þó fara mjög hratt yfir sögu, enda hafa ýmsir aðrir þingmenn gert prýðilega grein fyrir þeim hlutum á undan mér. Ég nefni þar hv. þingmenn Ólaf Örn Haraldsson, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Össur Skarphéðinsson svo einhver nöfn séu nefnd. Allir þessir hv. þingmenn hafa að mínu mati gert svo vel rökstuddar og alvarlegar athugasemdir við mörg af þeim gögnum sem hér liggja fyrir, þar á meðal hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, ég held í 13 liðum eða voru það 23 tölusettir liðir, að mér finnst það mjög sérkennilegt og metnaðarlítið, herra forseti, ef aðstandendur málsins ætla að reyna að fara í gegnum umræðuna hér án þess að svara þeim. Ég spyr t.d.: Skrifaði hæstv. iðnrh. niður spurningar og athugasemdir flokksbróður síns, formanns umhvn. Alþingis, og ætlar hann að virða hann þess að svara þeim? Fáum við greinargerð frá iðnrn. þar sem komið er inn á þá gagnrýni og þá veikleika sem formaður umhvn. Alþingis fór yfir í ræðu sinni? Fáum við það eða á að sulla þessu áfram eins og gert hefur verið hingað til án þess að virða slíkar vel rökstuddar skoðanir og aðfinnslur eiginlega svars?

Málatilbúnaður af því tagi, herra forseti, er og verður ekki trúverðugur. Tugir atriða hafa komið fram sem kölluðu á ítarleg og rökstudd svör eða a.m.k. tilburði til þess að hafa slíkt uppi.

Af fjölmörgum þáttum í náttúrufræðum þessa máls, herra forseti, sem ræðumaður hefði getað haft yndi af að fara yfir, t.d. allt sem lýtur að jarðfræði og jarðefnum á svæðinu, spurningum um rof og aðra slíka hluti, ísaldarmenjar og því um líkt, ætla ég að takmarka mig við tvennt eða þrennt. Það fyrsta eru jarðvegshraukarnir eða múgarnir, sem ég hef nú stundum leyft mér að nefna þá og veit ég ekki almennilega af hverju það nafn hefur fest mér í munni, en ég hygg að í gömlum fræðum hafi þetta stundum verið nefnt því nafni.

Ég fór á þetta svæði í sumar, hafði reyndar komið þar áður en ekki gert þar jafnvíðreist og farið jafnvandlega um það og ég gerði í sumar með leiðsögn góðra manna. Og sá er munurinn á mér og ýmsum sem nefndir hafa verið til sögunnar að ekkert hindraði för og við gátum farið um alla þá hluta svæðisins sem okkur lysti. Ég ætla þá að segja hér til þess að hafa sagt það að ég var mjög djúpt snortinn af þessu svæði. Mér finnst menjarnar við jökulgarðana, hraukarnir, lónið, Eyjafellið og næsta nágrenni á syðri hluta svæðisins vera næsta einstök í sinni röð, ein allra fallegustu svæði af þeim toga sem ég hef komið á á landinu og hef ég þó gert þokkalega víðreist um hálendi Íslands, leyfi ég mér að halda fram, einkum það sem er norðan jökla.

Ég tel að hraukarnir séu svo einstök náttúrufyrirbæri, svo víðfeðm, mikil og sterk að leitun sé að öðru eins, og þau séu meðal nokkurra helstu sérstakra gersema sem við eigum af þessu tagi. Á Íslandi eru margar heimssögulega merkilegar síðjökultíma- og ísaldarlokamenjar, það er óumdeilt. Erlendir vísindamenn hafa um áratuga skeið komið tugum og hundruðum saman til Íslands, alveg sérstaklega til að skoða hinar merku menjar frá síðjökultíma, ísaldarlokum og landmótunina sem síðan er hér orðin í þessu merkilega unga landi, sem er eitt af yngstu löndum heimsins og þar á ofan mjög mótað af náttúruöflunum alveg fram á líðandi stund, þ.e. jöklunum á sínum tíma og svo eldgosum og öðrum hlutum síðar.

Ég fullyrði það að menjarnar framan við Eyjabakkajökul, að hraukunum ekki minnst töldum, eru afar merkilegar og sérstæðar í sinni röð. Það er kannski helst hægt að jafna hvað jökulgarða og slíka hluti varðar, t.d. jaðar- og hliðarmóreinunum við Kvíárjökul og því sem finna má á Breiðamerkursandi og víðar, saman við það sem þarna er á ferðinni. Mér finnst menn, hverjir sem það nú eru, og veit ég ekkert um höfundarrétt á því, býsna kaldir að taka þannig til orða að hér sé ekki um einstök, fágæt og stórfelld verðmæti að ræða. Ég held að ef þetta væri sett í rétt ljós og metið, t.d. af vísindasamfélagi heimsins, þá þætti þessi eina ástæða býsna gild gagnvart því að fórna ekki þessu svæði, þó ekkert annað kæmi til en þessi einstöku fyrirbæri sem þarna eru á ferðinni. Og að skjóta því að í framhjáhlaupi og fjalla ekkert um það frekar að mögulega sé eitthvað sambærileg fyrirbæri að finna á Svalbarða segir mér nú harla lítið í viðbót, og nefna svo til Kringilsárranann sem á svo kannski að sökkva undir Hálslón, eru enn minni vísindi að mínu mati. Þarna er ósköp einfaldlega farið yfir hlutina á ódýran hátt, herra forseti, nánast gert lítið úr þessum sérstöku og fágætu menjum.

Herra forseti. Annað sem ég staldra lítillega við er spurningin um lónið sjálft, um fok úr lónstæðinu og um rof við vatnsborðið í kringum lónið. Ég undrast hversu einfaldlega menn ætla að afgreiða þá hluti. Mér finnst það stórkostlegur galli og veikleiki á skýrslunni að það er nánast ekkert gert úr hinu afar sérstaka eðli þessa lóns sem þarna verður. Það verður allt öðruvísi en þau lón önnur sem við höfum hingað til byggt, þ.e. manngerð stöðuvötn, því að þetta lón hefur þann stórkostlega annmarka að vera mjög víðáttumikið en grunnt og skila í rauninni mjög lítilli miðlun af því að það er afar óhagkvæmur geymir. Þetta er svipað og ætla að geyma vatn á grunnri undirskál eða diski, flötum diski. Og menn borða yfirleitt ekki grautinn sinn af flötum diski, er það, herra forseti? Nei, af því það kemst lítið á hann í einu.

(Forseti (HBl): Það fer nú eftir því hvort það er þurrmeti eða vökvi.)

Og sullast út úr ef það er vökvi, herra forseti. Þetta er alþýðleg eðlisfræði sem allir skilja, að flatur diskur eða grunnur diskur er ekki mjög góður vatnsgeymir. Þannig er þetta uppistöðulón. Það eru 43 km2 í fullri vatnshæð en það er aðeins 500 gígalítra miðlun. Það er mjög lítið miðað við jafngífurlegt flatarmál sem fer undir vatn. Það sem er þó alvarlegra, herra forseti, er að þetta lón á nánast að tæma þannig að yfirborð þess skreppur saman niður í 8 km2 í lægstu vatnsstöðu. Með öðrum orðum, það verður nánast allt þurrt þegar það verður í lægstu vatnsstöðu. Þetta er allt öðruvísi fyrirbæri en Þórisvatn og jafnvel Blöndulón þar sem vatnsborðssveiflurnar eru mun minni. Geri ég þó ráð fyrir að mönnum þyki ýmsum nóg um þar. En sú er ástæðan að þetta lón hefur það eðli að vera eins og pönnukaka í laginu, vera í rauninni afar óhagkvæm miðlun í öllu tilliti. Fyrir það fyrsta er landið allt gróið, það er jafnflatt og raun ber vitni og miðlunin ekki meiri en þetta og síðan á nánast að tæma lónið, þurrka það upp í lægstu stöðu.

Að Hálslóni undanskildu, herra forseti, eru því miður meira og minna öll lónstæði sem menn hafa talað um á hálendinu norðan Vatnajökuls sama marki brennd. Af hverju? Af því að þetta er háslétta, þetta er meira og minna gömul háslétta og hún er tiltölulega flöt. Það eru því engir góðir kostir til stórfelldrar miðlunar á þessu svæði. Og öllum þeim lónum sem menn tala þarna um fylgja stórfelldar fórnir í umhverfi. Ekki er nú Arnardalslón betra sem verður svipað að stærð, leggst nánast allt yfir gróið land og sömu sögu má næstum segja um Fagradal. Að því leyti er þó Hálslón skömminni skást að það er ekki nema lítið eitt stærra en Eyjabakkalón en er þó með um fjórfalda miðlun eða um 2.000 gígalítra eða hátt í það. (Gripið fram í: Nei, 1.500.) Ja, ég hef nú séð tölur alveg frá 1.500 upp í 1.800 og á einum stað 2.000 í þessum gögnum, og þar er nú eitt ósamræmið sem þarf að skoða. En þó það væri ekki nema 1.500 þá er það þreföld miðlunin úr Eyjabakkalóni.

Með öðrum orðum, herra forseti, það er alveg sama hvernig menn nálgast þetta mál, það er alveg hörmulega óhagstætt að sökkva öllu þessu fagra og sérstaka landi undir svona gífurlegt vatnsflæmi og fá jafnlitla miðlun út úr því eins og raun ber vitni. Það er leitun að grátlegri kosti til að geyma á vatn en þessum flötu og fögru Eyjabökkum.

Herra forseti. Ég fullyrði að menn renna að verulegu leyti blint í sjóinn með hverjar afleiðingar þess verða að tæma þetta lón svona algjörlega á vorin eins og menn ætla að gera eða á veturna og skilja það þannig eftir að vori. Ég hef miklar efasemdir um að hægt sé að taka erlendar formúlur, flytja þær til Íslands á eldfjalla- og öskukenndan jarðveg og undirstöðu þar sem frost og þíða skiptast á með öðrum hætti en gerir á nefndu svæði í útlöndum, og fá mikið vit út úr því að reikna slíkt út frá halla á vatnsbökkum og öðru slíku. Ég hef mjög miklar efasemdir um að út úr því komi mikil vísindi. Og ég hef líka mjög miklar efasemdir um að samanburður við önnur fyrri lón Landsvirkjunar gefi okkur mikið í þessum efnum af því að aðstæður eru þar að verulegu leyti og í grundvallaratriðum ólíkar.

Ég óttast að ljót sár myndist, einkum við lónsbakkana að austanverðu, og ég óttast að ekki verði fallegt um að litast í þurrum og hlýjum suðvestanvindum, t.d. í júnímánuði ef vorað hefur vel, lónið er galtómt, ísa hefur leyst og víðáttumiklar leirsléttur með 2--4 mm lagi af fínum leir eða silti blása upp í vindinum.

[23:15]

Ég hvet menn til að fara og sjá, t.d. úr lofti ef vel viðrar þegar flogið er norður yfir heiðar, hversu langt norður í Blöndulónið áraurarnir eru nú þegar komnir. Það vakti undrun mína að sjá í sumar bæði af landi og eins úr lofti hve mikið hefur gerst þar á skömmum tíma. Hvernig mun þetta verða með Eyjabakka? Jú, þar mun setmyndunin verða mest innst á svæðinu, þar fyllist lónið fyrst og þar myndast sléttur sem smátt og smátt og verða að hræðilegum eyðimörkum þegar þær eru ofar vatnsborðs. Það verða ekki mjög skemmtileg fyrirbæri hygg ég, herra forseti, í þurrkatíð, hlýindum og hvössum suðvestanáttum.

Hafa engir verið á norðaustan- og austanverðu landinu í strekkings suðvestanvindi þegar strókarnir taka sig upp af aurunum norðan við Dyngjujökul og sjá mökkinn leggja norðaustur yfir hálendið þannig að það verður móska í lofti alla leið út á sjó? Það minnir mann helst á Eddukvæðin, herra forseti, lýsingarnar sem mætti hafa um það, birtuna og allt sem því fylgir.

Ég held, herra forseti, að þarna séu atriði sem menn hafi því miður gefið allt of lítinn gaum og afgreitt án verulegrar umhugsunar. Ein helsta huggunin í þessu máli er þó að að sjálfsögðu er Jökulsá í Fljótsdal ekki nándar nærri jafnaurug og Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum, sem eru afkastamestu fljót landsins og afkastamestu flutningstæki náttúrunnar við að flytja jarðefni á haf út. Þó munar um þau hundruð þúsund tonna sem Jökulsá í Fljótsdal ber fram á ári hverju.

Herra forseti. Ég met það svo að þetta mál í heild sinni sé svo stórt að óverjandi sé að hleypa því af stokkunum eins og hér á að gera. Ég get bara ekki sætt mig við það. Ég sé í hendi mér, herra forseti, möguleikana á að sporna gegn frekari áföngum, stækkun og fleiri virkjunum ef þetta hjól fer af stað. Þeir verða ekki beysnir. Ég óttast, herra forseti, og ég hef lengi kviðið því að menn séu í raun að slá af umhverfis- og náttúruvernd og friðun þessa svæðis norðan og norðaustan jökla. Ég óttast að í kjölfarið mundi fylgja, knúið m.a. af efnahagslegri nauð vegna álvers og virkjunar sem Íslendingar ættu nánast einir, krafan um áframhaldandi framkvæmdir og stækkun, virkjun Jökulsár á Dal, síðan Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. Ég óttast að þá verði viðspyrna til að standa þar í móti ekki eins og vera ætti, m.a. vegna þess að menn munu segja: Það er þegar búið að fórna hluta þessa svæðis. Það er ekki ósnert lengur og ekki til varðveislu eins og það var, hálfur skaðinn er þegar skeður og munar lítið um það sem eftir er.

Hvers vegna í ósköpunum, herra forseti, er ekki málið í heild sinni tekið fyrir og sett í eitt heildarmat þannig að við vöndum þá ákvarðanatöku um nýtingu, ekki nýtingu eða tilhögun nýtingar á öllu þessu svæði? Hvers vegna förum við ekki yfir það rækilega hvort eða hvernig við nýtum eitthvað af afli jökulánna norðan og norðaustan Vatnajökuls? Þannig vildi ég nálgast málið. Eða hvar, herra forseti, getur hæstv. iðnrh. sagt okkur að taka eigi orkuna í frekari áfanga upp í 480 þús. tonna álver? Hvar ætlar hæstv. iðnrh. að taka hana? Eru aðrir líklegir kostir í stöðunni en Jökulsá á Dal, Kreppa og Jökulsá á Fjöllum? Ef svo er hverjir eru þeir? Hvert ætlar hæstv. iðnrh. að sækja orkuna ef lagt er af stað með vilyrði og skuldbindingu stjórnvalda til að fara í fulla stærð?

Herra forseti. Ég tel að allt svæðið frá Ódáðahrauni í vestri, með Herðubreið og Herðubreiðarlindum, með Öskju og Dyngjufjöllum, með Kverkfjöllum og Krepputungu, með Fagradal og Arnardal og allt norður til Jökuldalsheiðar, upp um Hrafnkelsdal að Snæfelli og allt nágrenni þessa svæðis, myndi eina heildstæða og stórbrotna einingu. Þetta er stærsta, eins og margir hafa sagt --- því miður er kannski ekki rétt að segja ósnortna --- lítt snortna víðerni í Evrópu. Um það er ekki deilt. Það hefur marga einstæða eiginleika.

Ég tel ekki hægt að fara og plokka þar innan úr rúsínurnar og segja svæðið svo jafngott á eftir. Það er bara ekki þannig, því miður. Ég held að allir sem taka sig til og keyra meira og minna malbikaða vegi upp með Þjórsá átti sig á því að það svæði hefur að verulegu leyti breytt um eðli. Gott og vel, menn fóru þar út í nýtingu. Ég held að að mörgu leyti séu gild sjónarmið að klára þá nýtingu eftir því sem ásættanlegt er úr því að hún er hafin á annað borð. En svæðið er allt annað en það var á sínum tíma. Þar eru núna malbikaðir vegir, stutt á milli sjoppa og margs konar mannvirkja sem maður sér nánast hvert sem litið er. Auðvitað hefur þetta svæði gjörbreytt um eðli, það er af öðrum karakter. Við öðru er ekki að búast.

Svo mun líka fara um svæðið norðan jökla ef farið verður út í þessi stófelldu nýtingaráform, sér í lagi ef það verður gert af jafnmikilli hörku gagnvart þeim sem reyna að verja þar perlur eins og Eyjabakka, Jökulsá á Fjöllum, Kreppu, Arnardal og Fagradal, svo eitthvað sé nefnt.

Því miður, herra forseti, þá held ég að þessu máli hafi verið teflt í mjög óskynsamlega stöðu fyrir alla málsaðila. Fyrir þá sem bera umhverfisverndina einkum fyrir brjósti augljóslega, þeir hafa átt erfitt uppdráttar með sjónarmið sín í málinu þannig að á þau væri hlustað og tillit til þeirra tekið, þó ekki væri nema krafan um að farið sé lögformlega í mat á umhverfisáhrifum. Fyrir stjórnvöld einnig sem að mínu mati hafa teflt málinu í mikinn hnút, þverklofið þjóðina í málinu. Sérstaklega er þó málið slæmt fyrir Framsfl. sem er í þessu máli í þeirri stöðu að engin vinningsleið er sjáanleg. Ég held að hvernig sem málið fer þá hafi Framsfl. með framgöngu sinni skaðað sig stórkostlega.

Látum það nú vera. Það er ekki sérstakur hausverkur ræðumanns. Ég held að fyrir Austfirðinga hafi þetta mál teflst hörmulega. Ég líð önn fyrir það á köflum hvernig komið er í þeim efnum. Hvað sem menn segja um hlutföll þar, hvort þau eru 25:75 eða 80:20, með eða á móti þá skiptir það ekki máli, á Austurlandi er djúpstæður og erfiður ágreiningur um þetta mál. Fyrir Austfirðingafjórðung í heild held ég að þetta hafi ekki verið þægilega eða að öllu leyti skemmtileg umræða. Ég hef miklar áhyggjur af því á hvorn bóginn sem málið fer að þá sé ekki bitið úr nálinni með það hversu vel þetta eigi eftir að reynast Austfirðingum.

Sé t.d. litið til þess, herra forseti, hver samningsstaða Íslendinga er í málinu eins og á þessu hefur verið haldið, er líklegt að hún sé mjög sterk? Er líklegt að íslensk stjórnvöld geti haft alla þá fyrirvara á að samþykkja niðurstöðuna sem þau þyrftu að hafa? Er heppilegt að stjórnvöld keyri málið áfram en ekki væntanlegir framkvæmdaraðilar?

Ég skil að þeir sem hafa áhuga á að byggja álver, græða peninga á því að reka álver og þeir sem eru í þeim bisness að virkja, vilji drífa framkvæmdirnar áfram. Þeir eiga auðvitað að gera það. En eiga stjórnvöld landsins að vera aðaljarðýtan á bak við málið? Er það heppilegt? Svarið er auðvitað nei. Þau eiga frekar að halda sér til baka og segja: Já, reynið þið að semja um orkuverð og aðra slíkt, láta rannsaka umhverfið og svona. Við höfum alla fyrirvara á um endanlegt samþykki og stuðning við málið. Þannig ætti það að vera. Þannig hygg ég að það sé í öðrum ríkjum, en ekki hér.

Hér hafa mál skipast þannig, og ekkert nýtt, að íslensk stjórnvöld ganga í það með miklu offorsi að koma þessu á koppinn. Þau eru náttúrlega á engan hátt í hlutlausri eða hlutlægri afstöðu gagnvart málunum. Menn geta sjálfsagt sagt að þeirra hlutverk, einhverjir mundu gera það, sé að drífa þessi mál áfram. En er það ekki pínulítið gamaldags, eða hvað? Er það grundvallarhlutverkið hjá stjórnvöldum nú um stundir að keyra aðra hlið málsins áfram með þessum hætti? Öllum er ljóst að hin hliðin, þar sem menn eiga að vera á varðbergi t.d. hvað umhverfismálin snertir, er bara ekki með. Hún er skuggahlið einhvers staðar langt aftan við hús.

En kannski var, herra forseti, aldrei von á góðu. Staðreyndin er sú að okkur Íslendingum hefur gengið illa að losa okkur upp úr því fari, því gamla blinda stóriðjufari sem hér ríkti að mörgu leyti með dapurlegum árangri. Þegar fyrsta stóriðjuverið var byggt á sínum tíma lá svo mikið á að við það var gerður einhver hörmulegasti raforkusamningur sem um getur á byggðu bóli. Flestir held ég að viðurkenni það í dag. Hann var svo hörmulega lágur að fyrirtækið Landsvirkjun væri sjálfsagt gjaldþrota í dag ef ekki hefði náðst fram endurtekin leiðrétting á honum. Menn gætu svo sem rifjað upp hver var upphafsmaður að því að herja á um þá leiðréttingu og rífa Íslendinga lausa úr þeim hörmungarsamningum sem upphaflegu raforkusamningarnir til álversins í Straumsvík voru. Á annan tug milljarða hefur skilað sér í þjóðarbúið vegna þeirra hækkana sem um samdist á níunda áratugnum.

Í þessari umræðu hafa samskiptin við Elkem Spigerverk verið rifjuð upp og það var nú eins og það var. Það fyrirtæki gerði fína samninga um að eiga heilmikið í stóriðjufyrirtæki uppi á Íslandi og þurfti vart að borga nokkuð fyrir það. Það gerði enn þá betri samninga um að taka að sér að selja framleiðsluna fyrir háa þóknun á ári hverju sem fyrrv. framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur kallað blóðpeninga. Seint hefur okkur gengið að læra, herra forseti.

Ég er hér með bók sem ég held mikið upp á í vissum skilningi. Ég ætla að gæta hennar vel því ég held að þegar frá líður eigi hún eftir að reynast --- ég skal sýna forseta líka --- þvílíkur bautasteinn um framgöngu íslenskra stjórnvalda í þessum efnum. Frá árinu 1995 er plaggið og mun þykja merkilegt og sögulegt þegar þar að kemur. Lægsta orkuverð í Evrópu, fyrir nýja samninga. Stökkbretti inn í Evrópu. Ætli við mundum ekki þýða þetta þannig, ,,spring-board``, stökkbretti inn í Evrópu. (Gripið fram í.) Fyrir hverja? Bandaríkjamenn trúlega. Lægsta orkuverð í Evrópu, komið þið. Stökkbrettið og lægsta orkuverðið. (Gripið fram í: En hver er kostnaðurinn við álið?) Svo komu hér fleiri rúsínur um það hversu einstaklega þægilegir menn væru í samningum um kaup og kjör á Íslandi. Ekki þyrfti að borga mönnum mjög mikið í laun, það þótti enn ein ástæðan til þess að koma. Síðan kom að umhverfismálunum: ,,Minimum`` og ,,red tape``. Það er ekki verið að nöldra mikið í umhverfismálum á Íslandi.

Svona var verið að markaðssetja Ísland fyrir opinbert fé svo seint sem árið 1995. (Iðnrh.: Og er enn.) Og er enn, segir hæstv. iðnrh. og er sjálfsagt hreykinn af. (Iðnrh.: Við erum samkeppnishæf.) Já. Þetta er stórkostlegt, herra forseti. Svona á að fara í samningaviðræður. Ef við værum að spila brids þá mundi maður samkvæmt þessu segja við andstæðinginn: Sko, ég er með svoleiðis hunda, nú skaltu dobla. Nú skaltu redobla mig, doblaðu og doblaðu því ég er með hunda á hendinni.

[23:30]

Nei, auðvitað leggja menn af stað á hnjánum þegar þetta hugarfar er á bak við. Staðreyndin er líka sú, herra forseti, að ástæða er til að hafa áhyggjur. Maður gæti bundið vonir við að menn hefðu eitthvað lært en þegar það birtist okkur hvernig þetta mál er keyrt áfram fer hrollur um mig. Tölurnar um hlutföllin hvað stóriðjan borgar í rafmagn og hvað almenningur borgar, segja sína sögu. Þegar sömu aðilar hafa talað um að réttlætanlegt væri að selja raforku til stóriðju á 20--35% lægra verði en til almennings, fyrir því væru alveg gild rök en ekki miklu meira, en við blasir ár eftir ár að innlendi markaðurinn er að borga um þrefalt verð, þá verður að gefa skýringar á þeim mun. Hver er þá að borga með hverjum? Hver er að borga með hverjum þegar rafmagnsverðið er jafnvel ár eftir ár í kringum 88, 90 aurar á kwst. til stóriðjunnar?

Er það virkilega svo að menn komist í gegnum umræðurnar um arðsemi með því að segja einfaldlega að menn gefi sér rangar forsendur? Eru allir þeir hagfræðingar sem reiknað hafa undanfarna daga og vikur að gefa sér rangar forsendur? Hverjar eru þá forsendur Landsvirkjunar í þessum efnum? Ef raforkuverðið er svona gott af hverju er þá ekki hægt að gefa upplýsingar um það? Auðvitað er barnalegt að bera við einhverjum viðskiptaleyndarmálum þegar altalað er að allir viti allt sem þeir þurfi að vita um þessi mál úti í hinum stóra heimi. (Gripið fram í: Eigum við ekki fyrst að semja um það?) Jú, semjið þá um almennilegt raforkuverð og komið svo og biðjið um að fá framkvæmdirnar í ... (Gripið fram í.)

Staðreyndin er auðvitað sú, herra forseti, að því miður hefur þetta mál teflst þannig að öllum er ljóst og væntanlega ekki síst fyrirtækinu Norsk Hydro, sem verður fyrir þeirri furðu, sem ég spái að það hafi vakið í höfuðstöðvum þess fyrirtækis, þegar þaðan berst yfirlýsing um að þeir mundu í sjálfu sér ekki missa áhuga á álverinu né setja sig upp á móti framkvæmdinni þó að hún færi í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Þá kemur ekki umsvifalaust skeyti frá umhvrh. sem fagnar þessu og telur nýjan flöt á því að ræða málið í því samhengi að fyrst fari fram umhverfismat. Nei, það koma neyðarhringingar um að þessi yfirlýsing sé dregin til baka og að andlitinu á hæstv. iðnrh. sé bjargað.

Hvað haldið þið nú að Norsk Hydro-menn læri af þessu? Já, þeir eru svona gráðugir í þetta. Ja, þeir þurfa þá líklega ekki mikið fyrir rafmagnið. Allt ber að sama brunni, herra forseti. Hér eru íslensk stjórnvöld á hnjánum af því að þetta mál er keyrt áfram í pólitískri herleiðingu og það lýtur ekki hlutlægum forsendum. Það er alveg ljóst, herra forseti, að einhvern veginn hefur þetta mál þróast þannig í höndum framsóknarmanna að þeir eru í slíkum örvæntingarleiðangri að koma þessu máli fram að menn eru meira og minna á hnjánum gagnvart hlutum af þessu tagi, samningum um orkuverð, umhverfishlið mála og annað í þeim dúr.

Síðan er sú hætta, herra forseti, augljós að til þess að komast hjá frekari pólitískum hremmingum og herkostnaði en orðinn er og til þess að lokka að fjárfestana fari menn alveg niður í svartasta botn með orkuverðið. Ástæða þess að Landsvirkjun er líkleg til að gera það líka er m.a. sú staða sem fyrirtækið er í. Hún er í öðru lagi sú að sagan hræðir, sporin hræða, hjá því fyrirtæki í þeim efnum. Það er fullkomin ástæða til að spyrja að því: Hafa menn lært eitthvað, hefur eitthvað breyst?

Hvers vegna er framleiðslan þá ekki sett í sjálfstætt dótturfyrirtæki sem verður að standa efnahagslega á eigin fótum þannig að engar deilur þurfi að vera uppi um það hver sé að borga með hverjum? (Gripið fram í.) Nei, það gæti nefnilega verið. Skiptir þá þrátt fyrir allt máli að hafa bakið á Jóni og Gunnu á bak við fjárfestinguna upp á að hlaupa ef á þarf að halda? Það skyldi nú ekki vera? Það skyldi nú ekki vera þrátt fyrir allan fagurgalann um að lækka sérstaklega rafmagnið á Íslandsmönnum?

Herra forseti. Auðvitað er það svo að það á ekki að vera sá metnaður sem Alþingi sýnir þessu máli að það láti bjóða sér viðskiptaleynd á raforkuverðinu. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Mun raforkuverðið verða upplýst í iðnn. þegar samningar liggja fyrir, þó í trúnaði verði? Mun það verða gert? Eða verður því jafnvel neitað að þeir sem eiga að skoða málið faglega fyrir hönd þingsins hafi aðgang að slíkum upplýsingum þó í trúnaði væri sem ég sé reyndar harla litla ástæðu til að vera að pukrast með því ekki reikna ég með að það mundi breyta miklu?

Herra forseti. Örfá orð um byggðamálin og þó þau væru fleiri. Aðstandendur álversins hafa gjarnan ráðist á þá sem hafa gagnrýnt og spurt: Hvað viljið þið gera? Það hefur verið aðalframlag t.d. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hefur farið í ótal andsvör við málefnalegar ræður sem hafa verið fluttar að ég tel í þessari umræðu í það heila tekið. Menn hafa að sjálfsögðu verið ósammála, það hafa komið fram sjónarmið frá báðum hliðum, sem er vel, þannig eiga umræður og rökræður að vera á hinu háa Alþingi. Það hefur verið alveg sérstakt hlutskipti sem þeir hafa valið sér, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Kristján Pálsson, sem hafa verið mjög í því að rjúka til í andsvörum við málefnalegar ræður sem hafa verið fluttar með satt best að segja á köflum mjög sérkennilegum hætti. Annars vegar hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sérstaklega verið að prófa menn í því hvað þeir meini með lögformlegu umhverfismati ef þeir séu ýmist með eða móti virkjuninni. Telur hann, að mér skilst, hvort tveggja jafnvitlaust því menn eigi bara annaðhvort að vera með eða á móti virkjuninni og þá þurfi ekkert umhverfismat. Hins vegar hefur hv. þm. mjög oft afgreitt byggðamálin þannig að hann hefur sagt við þá sem hafa haft efasemdir um byggingu þessarar virkjunar og tilheyrandi álvers: Já, en hvað ætlið þið þá að gera? Er það þá þannig sem umræðan snýr að það standi upp á stjórnarandstöðuna eða gagnrýnendur máls af þessu tagi að koma með öll svörin? Mætti ekki snúa þessu við og spyrja: Hvað annað en álver? Hvað er ríkisstjórnin með annað en álver? Hvað fyrir aðra, önnur byggðarlög og aðra landshluta? Hverju eru menn nær í Dölum, í Húnavatnssýslum, á Vestfjörðum, á norðausturhorni landsins, í Skaftafellssýslum o.s.frv. þó að þetta álver rísi við Reyðarfjörð og jafnvel þó að vonir rættust um að það yrði mönnum til einhverrar viðspyrnu þar í byggðamálum, sem eru vissulega ýmis sjónarmið uppi gagnvart? Er það þá þannig að ríkisstjórn Íslands og t.d. þeir aðilar sem hafa borið ábyrgð á byggðamálum í á níunda ár, eins og hæstv. forsrh., með frammistöðu af því tagi sem blasir við alþjóð, geti keypt sér fjarvistarsönnun frá hinum almenna atvinnu- og byggðavanda í landinu með þessu máli og lamið á þeim sem hafa efasemdir um málið eða eru því andvígir með rökstuddum hætti, t.d. vegna umhverfissjónarmiða? Það er ekki mjög rismikill málflutningur, satt best að segja. Það er það ekki, og menn vaxa ekki af slíku í mínum huga.

Við í þingflokki Vinstri hreyfingar -- græns framboðs höfum gert byggðamál að mikilvægu forgangsmáli hjá okkur. Eitt af okkar fyrstu stóru þingmálum í haust var till. til þál. um víðtækar aðgerðir í byggðamálum þar sem við erum ekki að reyna að leysa vandann með innfluttum patentlausnum í stykkjavís og með stóriðjukostum af þessu tagi, sem geta aldrei nema í besta falli orðið lausn fyrir mjög takmarkað svæði. Það liggur alveg í augum uppi. Við höfum verið að reyna að nálgast þetta með aðgerðum sem tækju á sjálfum grunni byggðanna, undirstöðunum sem eru að veikjast og valda því að af margvíslegum ástæðum horfir jafnógæfulega fyrir landsbyggðinni og raun ber vitni.

Það er ekki í grunninn atvinnuleysið sem hrjáir landsbyggðina mest. Það eru fjölmargar samþættar undirliggjandi ástæður sem eru til að mynda vel greindar í skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors. Vandinn er samsettur úr fjölmörgum félagslegum og efnislegum þáttum. Það má færa fram mjög sterk rök fyrir því ef ekkert breytist nema að til komi vinnustaðurinn einn, sem sækir sér jafnvel að einhverju leyti vinnuafl úr öðrum greinum atvinnulífs á sama svæði þá geti það breytt sorglega litlu fyrir viðspyrnuna á viðkomandi svæði ef áfram hallar á menn í öllum þeim þáttum öðrum sem nú gerir.

Jú, menn geta að sjálfsögðu sagt: Þetta verður þó alltént eitthvað til bóta. Gott og vel, ég vil svo sannarlega leyfa mönnum að njóta vafans í þeim efnum. En ég óttast því miður, herra forseti, að jafnvel þó svo að af þessu verði reynist það minna hjálpræði byggðum á Austurlandi en margir hverjir binda þar vonir við og það væri sorglegt. Hitt veit ég, herra forseti, að verði ekki af þessum framkvæmdum verður það skelfilegt. Það hef ég reynt að segja allan tímann. Þurfa menn ekki að gæta sín áður en þeir keyra upp væntingar umfram efni í þessu máli, ef svo færi nú að ekki verði af framkvæmdunum? Getur þá niðurstaðan af málflutningi af því tagi, eins og við höfum heyrt að þetta sé stærsta byggðamál allra tíma, orðið önnur en sú með gagnályktun, að ef ekki verður af framkvæmdunum verði það áfall? Ég held ekki, því miður. Auðvitað væri það mjög slæmt ofan í þá erfiðu stöðu sem menn eru að berjast í á þessu svæði eins og reyndar meira og minna annars staðar á landsbyggðinni því miður.

Það er ekki þannig, herra forseti, hvort sem menn hafa minnsta áhuga á því eða leggja á það trúnað eða ekki, að við sem erum andstæðingar þessara stóriðjuframkvæmda gerum það vegna þess að okkur skorti skilning á eða samúð með Austfirðingum í þeirri erfiðu stöðu sem þeir eru í í byggðamálum sínum. Það eru aðrir hlutir sem vega þyngra þegar við tökum ákvörðun okkar og geta menn ekki bara viðurkennt að þannig er það að við komumst að ólíkum niðurstöðum vegna þess að hlutirnir vega misþungt hjá okkur?

Hægt væri að segja mönnum ýmislegt af því t.d. hvernig biðin eftir álveri fór með Akureyri og Eyjafjörð á sínum tíma. Það jaðrar við að hægt sé að tala um glataðan áratug á því svæði þegar umræðan snerist meira og minna öll um það að nú væri álver eina von manna. Sem betur fer hvarf það svo út úr myndinni enda leitun að óheppilegri stað fyrir álver en hinn þrönga og staðviðrasama Eyjafjörð --- sem er því miður að vísu býsna skyldur veðurfarslega Reyðarfirði --- og menn fóru að snúa sér að öðrum hlutum og hefur gengið sæmilega og þó auðvitað engan veginn nógu vel.

Herra forseti. Að lokum verður að segja alveg eins og það er að það jaðrar við að maður geti haft samúð með Framsfl. vegna þess að ég skil að flokkurinn er búinn að koma þessu máli í hörmulega sjálfheldu og á sér enga vinningsvon í stöðunni. Hann er keyrður áfram í þeirri blindgötu sem þetta mál var sett í, flokkspólitískra hagsmuna í upphafi fyrir alþingiskosningarnar síðustu og finnur enga leið út. Stjórnarflokkunum hefur því miður ekki lánast að finna sér neina leið, þó ekki væri nema koma eitthvað til móts við hinar skiptu skoðanir í þjóðfélaginu í þessu máli þannig að mönnum gengi þá betur að búa við niðurstöðuna hver sem hún verður því það munu menn þurfa að gera. Þjóðin ætlar væntanlega að halda áfram að lifa saman í landinu hvernig sem málinu lýkur og andstæðingar virkjunarmála sem og stuðningsmenn jafnt hinum sem hafa kannski ekki mjög heitar skoðanir í málinu til eða frá.

Það er þó þannig að samúð manns með Framsfl. minnkar þegar manni er ljóst að um sjálfskaparvíti er að ræða. Það er vissulega þannig og sannast enn hið fornkveðna að sjálfskaparvítin eru verst. En þetta er sjálfskaparvíti og ekkert annað en sjálfskaparvíti Framsfl. að keyra málin í þennan hnút sem raun ber vitni. Það var formaður Framsfl., hæstv. iðnrh., sem gerði sig tíðindamann og merkisbera þessa máls í aðdraganda alþingiskosninga á Austurlandi og það er iðnrh. Framsfl. sem hefur keyrt áfram með þeim hætti sem raun ber vitni og alþjóð veit og metur að verðleikum ef marka má skoðanakannanir, og það er umhvrh. Framsfl. sem hefur staðið jafnlinlega í ístaðinu í þeim efnum eins og menn hafa horft upp á.

[23:45]

Herra forseti. Það er dapurlegt þegar stjórnvöld eru ekki í takt við þjóð sína, daga uppi með einhverjum hætti í málum. Staðreyndin er sú að hér hafa menn ekki hvað varðar viðhorf og framgöngu á æðstu stöðum, í ríkisstjórn, ráðuneytum og í sumum stofnunum og fyrirtækjum, sem þessu máli tengjast, áttað sig á því að það eru breyttir tímar, það er breytt gildismat og það eru breytt viðhorf. Það eiga menn að hlusta á og það eiga menn að viðurkenna. Ég held að ekki þýði að keyra hlutina áfram með þeim hætti og í þeim dúr sem menn hafa verið að gera og nota næstum áratuga gamlar ákvarðanir á hæpnum forsendum til að réttlæta að standa nú að málum, rétt augnabliki fyrir aldamótin, með þeim hætti sem er sannarlega úr takti við þau viðhorf sem nú ríkja. Andi allra þeirra gerninga, sáttmála og lagasetninga sem við sjáum í kringum okkur, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópu og meira að segja á Íslandi gengur í aðra átt. Að nálgast þessi mál með öðrum hætti, að umgangast náttúruna, verðleggja hana, virða og meta á allt annan og ríkari hátt en fyrr.

Herra forseti. Mér finnst líka að framganga stjórnarflokkanna sé mótuð af viðhorfi þeirra til valdsins sem hafa kannski haft of mikið af því og of lengi, að þeir séu orðnir yfir það hafnir að hlusta mikið á þjóðina nema þá rétt fyrir kosningarnar á fjögurra ára fresti þegar nauðsynlegt er að reyna að ná eyrum fólksins. Síðan er valdið þeirra og þeirra einna. Það þyrmdi eiginlega yfir mig, herra forseti, þegar ég var í ónefndri þingnefnd um daginn að tala fyrir því að mál færu allvíða út til umsagnar og ég áttaði mig á því að það var vaxandi pirringur í röðum ónefndra þingmanna yfir þessum tillögum mínum þangað til einn þeirra hreytti út úr sér: Já, en það er búið að ákveða þetta. Já, það er nefnilega það. Það er búið að ákveða þetta. Hvers vegna þá að vera senda málið út til umsagnar? Hvers vegna að standa í þessum leiðindum? Af hverju erum við að tala fyrir öðrum sjónarmiðum úr því að það er búið að ákveða þetta? Jú, það er vegna þess, herra forseti, að það er skylda okkar. En hitt, að verða vitni að viðhorfi af því tagi, sem mér finnst anda í gegnum þetta mál, er dapurlegt.

Herra forseti. Að lokum. Sennilega er það íslenskt skáld sem menn tengja nú einna sterkast við þessar slóðir sem umrædd virkjun og mögulegar nágrannavirkjanir ættu að rísa á, Kristján Jónsson Fjallaskáld, sem er kenndur við fjallabyggðina á norðausturhálendinu. Hann bar reyndar beinin á Vopnafirði sem er fæðingarstaður hæstv. utanrrh. svo að maður haldi þeim sögulegu tengslum til haga og Kristján Jónsson var vel kunnugur á þessu svæði, það er vitað. Hann fór um þetta svæði bæði til smalamennsku og hann orti falleg kvæði um margar helstu náttúruperlur þessa svæðis.

Í ævisögu Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi eða umfjöllun hans um Kristján er komist mjög skemmtilega að orði um Fjallaskáldið og mannlífið á fjöllunum eins og það var í þá daga, á ofanverðri 19. öldinni, þegar Kristján Jónsson var þar á dögum ungur maður. Það á býsna vel við vegna þess að Benedikt höfðar til landsins af orðkynngi sinni. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í það sem Benedikt Gíslason frá Hofteigi sagði í þessari bók um mannlífið á fjöllum:

,,Það er viss hrikaháttur í sveitarlífinu. Fjallamenn eru ekki mysumenn í lífsháttum, margir greindir og vel lesnir menn, talsmáti fólks ákveðinn og oft næsta grófur og stórgerður. Það gerir landslagið, víðáttan blönduð auðnum við kjarnagresjur. Landið svíkur ekki og þá ber mönnum ekki að svíkja landið, hvorttveggja gefur mikið og heimtar mikið --- það er Fjallalíf.``

Af mörgum kvæðum Kristjáns um náttúruperlur á hálendinu svo sem eins og hið magnaða kvæði um Herðubreið og kvæði um fleiri staði og ferðalög á þessu svæði held ég þó kannski að Dettifoss sé magnaðastur því þar sameinast allt í mögnuðum kveðskap skáldsins, lotningin fyrir náttúrunni og fyrir hinu hrikalega fyrirbæri, Dettifossi, en líka svartmyrkrið sem grúfði yfir sál skáldsins sem var þá illa kominn þegar ljóðið var kveðið. En það er alveg ljóst að Kristján Jónsson sá framtíðina þannig fyrir sér að Dettifoss mundi kveða, syngja eða hlæja um aldir alda, hvort sem það yrði yfir beinum hans eða ekki. Ég ætla að leyfa mér að ljúka máli mínu, herra forseti, með því að lesa kvæðið Dettifoss eftir Kristján Jónsson Fjallaskáld:

\vskip 11.6pt plus 6pt minus 6pt

  • Þar sem aldrei á grjóti gráu
  • gullin mót sólu hlæja blóm
  • og ginnhvítar öldur gljúfrin háu
  • grimmefldum nísta heljarklóm,
  • Kveður þú, foss, minn forni vinur,
  • með fimbulrómi sí og æ.
  • Undir þér bergið sterka stynur,
  • sem strá í næturkuldablæ.
  • \vskip 11.6pt plus 6pt minus 6pt

  • Kveður þú ljóð um hali horfna
  • og hetjulíf á fyrri öld;
  • talar þú margt um frelsið forna
  • og frægðarinnar dapra kvöld.
  • Ljósgeislar á þér leika skærir,
  • liðnir frá sól í gegnum ský.
  • Regnbogalitir titra tærir
  • tröllauknum bárum þínum í.
  • \vskip 11.6pt plus 6pt minus 6pt

  • Ægilegur og undrafríður
  • ertu, hið mikla fossaval;
  • aflrammur jafnt þú áfram líður
  • í eyðilegum hamrasal.
  • Tímarnir breytast; bölið sára
  • það brjóstið slær, er fyrr var glatt;
  • en alltaf söm þín ógnarbára
  • ofan um veltist gljúfrið bratt.
  • \vskip 11.6pt plus 6pt minus 6pt

  • Stormarnir hvína, stráin sölna,
  • stórvaxin alda rís á sæ,
  • á rjóðum kinnum rósir fölna
  • í reginköldum harmablæ,
  • brennandi tár um bleikan vanga
  • boga, því hjartað vantar ró;
  • en alltaf jafnt um ævi langa
  • aldan í þínu djúpi hló.
  • \vskip 11.6pt plus 6pt minus 6pt

  • Blunda vil ég í bárum þínum,
  • þá bleikur loksins hníg ég nár,
  • þar sem enginn yfir mínu
  • önduðu líki fellir tár.
  • Og þegar sveit með sorgarhljóði
  • syngur döpur of ann´ra ná,
  • í jörmunelfdum íturmóði
  • yfir mér skaltu hlæja þá.
  • Þetta, herra forseti, var kvæði Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds um Dettifoss.