Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:37:41 (3603)

1999-12-21 10:37:41# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að mínu mati mjög alvarlegt þegar því er haldið fram á hv. Alþingi að íslensk stjórnvöld hafi haft í hótunum við Norðmenn. (Gripið fram í.) Ef íslensk stjórnvöld vildu reka þetta mál með þeim hætti, ætli það sé þá ekki líklegt að það hefði verið tekið upp við norska ráðherra?

Málið er akkúrat á hinn veginn. Andstæðingar þessa máls á Íslandi og stjórnarandstaðan hafa verið að reyna að gera það að pólitísku máli sem íslensk stjórnvöld hafa verið algerlega andvíg vegna þess að virkjunarmálið er alíslenskt mál sem kemur ekki Norsk Hydro við eða Norðmönnum. Álverið er viðskiptamál milli íslenskra aðila og fyrirtækisins Norsk Hydro.

Ég átti síðast fyrir nokkrum dögum samtal á förnum vegi við norska viðskiptaráðherrann þar sem við fórum yfir þetta mál og við vorum algerlega sammála um þessa túlkun. Því er rangt að haft hafi verið í hótunum við norsk stjórnvöld, enda væri fráleitt að reyna að gera málið að pólitísku máli eins og það liggur. En svo virðist að það sé áhugamál m.a. stjórnarandstöðunnar á Alþingi að gera málið að pólitísku máli og þess má sjá stað í skýrslu norska sendiherrans.