Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:44:09 (3606)

1999-12-21 10:44:09# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vissi ekki af þessum fundi. Og hvaða skýrsla er þetta? Þetta er sendiskýrsla frá sendiherranum á Íslandi til norskra stjórnvalda. Þannig skýrslur eru sendar frá sendiráðum, ég segi ekki daglega, en áreiðanlega mánaðarlega. Af hverju menn sjá ástæðu til þess að leka þessari skýrslu út veit ég ekki, þ.e. hvað mönnum gengur til í þeim efnum.

Ég hef lesið þessa skýrslu og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fer hér með tilvitnanir í orð hæstv. umhvrh. og ég skildi hann þannig að hann vitnaði líka í orð mín. Það eru ekki tilvitnanir. Það er ein tilvitnun ... (ÁRJ: Í fréttunum í morgun. Í ríkisfréttunum.) Ég heyri það á hv. stjórnarandstöðu að það er alveg nóg fyrir hana að hlusta á fréttir á morgnana og það er ekkert verið að skoða þær fréttir. Það er ekkert verið að athuga áreiðanleika þeirra frétta. Það er bara farið í umræður utan dagskrár á Alþingi alveg eins og þegar Bill Arkin segir eitthvað, þá hefur stjórnarandstaðan alltaf farið í umræður utan dagskrár. Þetta er sambærilegt mál. Það er alveg sama hvað sagt er í fréttum á morgnana. Það er alltaf ástæða til þess að rjúka í umræður utan dagskrár í stað þess að kynna sér málin einhvern tíma.