Athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 10:47:19 (3608)

1999-12-21 10:47:19# 125. lþ. 51.91 fundur 248#B athugasemdir um álver á Reyðarfirði í skýrslu norska sendiherrans# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega bjóða velkomna ráðherra Sjálfstfl. á ráðherrabekkina. Þeir hafa ekki sést mikið í þessari mikilvægu umræðu og það hlýtur að vekja athygli allra viðstaddra að allur tólf manna skarinn er nú mættur. Ég vek athygli á þessu vegna þess að það hefur verið alveg ljóst frá upphafi umræðunnar um mál sem ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á að það er Framsfl. sem er látinn bera hitann og þungann af því deilumáli sem nú er rætt á Alþingi og alls staðar í þjóðfélaginu og það er kominn tími til að þjóðin öll fái að vita að þetta mál er á ábyrgð Sjálfstfl. og forsrh. Davíðs Oddssonar. Þetta vil ég árétta í upphafi máls míns.

Herra forseti. Það má vel vera að ástæða sé til fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar að bera stjórnarandstöðuna sökum vegna þess að hún ber inn á Alþingi alvarlegan fréttaflutning en má ég þá spyrja: Er það ekki dálítið alvarlegt fyrir ríkisstjórnina þegar sendiherra Noregs á Íslandi ritar skýrslu, sendir hana Magne Bondevik forsætisráðherra, sendir hana norska utanríkisráðuneytinu, olíu- og orkumálaráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu og segir það skoðun sína að þetta mál ætli að þróast í nýtt deilumál Íslendinga og Norðmanna?

Herra forseti. Það er ekki stjórnarandstaðan sem er að halda þessu fram. Það er sendiherra Noregs á Íslandi sem er að fjalla um pólitískt ástand hér og mál sem ríkisstjórnin rekur fram af mikilli hörku. Það er staðreyndin.

Herra forseti. Afskaplega er ég ánægð að heyra að hæstv. umhvrh. eigi ekki þann hlut að máli eins og hér hefur verið kynnt vegna þess að umhvrh. mun úrskurða að lokum um umhverfismatið og ef þessi frétt væri að hluta til sönn, sem hún reynist greinilega ekki vera miðað við viðbrögðin hér, þá hefði íslenska ríkisstjórnin sannarlega verið í vondum málum.