Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:44:15 (3614)

1999-12-21 11:44:15# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var beint til mín spurningu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi viðtal sem ég átti á síðasta ári en þar sagði ég að ég útilokaði ekki frekari uppbyggingu vatnsaflsvirkjana. Það var rétt eftir haft. Ég sagði einnig að það væri von mín að Landsvirkjun tæki frumkvæðið, og þeir höfðu alveg möguleika á því að gera það en gerðu það ekki, að setja þetta í lögformlegt umhverfismat.

Ég dró einnig fram í þessu viðtali að Landsvirkjun hefur í dag virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun og að við yrðum að hafa í huga að þeir hefðu varið háum fjárhæðum til þess að undirbúa þetta mál og gætu líklega krafist skaðabóta ef virkjunarleyfið yrði tekið af fyrirtækinu þannig að ég dró það fram að þetta mál væri alls ekki einfalt eins og við öll vitum á hinu háa Alþingi. Ég sagði einnig að það væri mitt almenna sjónarmið að náttúran ætti að njóta vafans og ég stend alveg fyllilega við það. Það er mitt almenna sjónarmið. En þetta mál er þannig vaxið að búið var að gefa út virkjunarleyfi til Landsvirkjunar áður en lögin um umhverfismat voru sett og hún hefur það virkjunarleyfi.

Það sem hefur síðan gerst eftir að þetta kom fram er að Landsvirkjun tók þá ákvörðun að senda sínar rannsóknarniðurstöður á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar til stjórnvalda og til þingsins um leið og þær lágu fyrir. Það fannst mér afar gott. Í framhaldinu geta þingmenn tekið ákvörðun á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem til eru, þó að reyndar sé deilt um hvað þær séu mikilvægar, og gert upp hug sinn í málinu. Ég tel því að við séum með þetta mál í umhverfismati. Þó að það sé alls ekki hægt að kalla það lögformlegt umhverfismat þá erum við með það í umhverfismati. Við erum að meta umhverfisáhrifin af þessari virkjun.