Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 11:50:25 (3617)

1999-12-21 11:50:25# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[11:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. umhvrh. er að reyna að koma sér hjá því að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Ég spurði hæstv. ráðherra hvað hún hefði gert frá því að hún settist í ráðherrastól til að reyna að koma þessari framkvæmd í lögformlegt umhverfismat eins og hún taldi nauðsynlegt nokkrum mánuðum áður en hún varð ráðherra. Gerði hún tilraun til þess í ríkisstjórn að fá málið í lögformlegt umhverfismat?

Ég hef tvívegis kallað eftir því héðan úr þessum ræðustól núna. Ráðherrann kemur sér hjá því að svara. Þess vegna verð ég að draga þá ályktun, nema annað komi í ljós hjá hæstv. ráðherra, að ekkert hafi verið að marka orð hæstv. ráðherra í nóvembermánuði 1998 þegar hún var að reyna að fá kjósendur til að styðja sig eða stuðningsmenn Framsfl. í varaformannskjör og tefldi því m.a. fram að hún vildi lögformlegt umhverfismat, það hefur ekkert verið að marka hennar orð. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekkert gert í stól ráðherra til að fá málið í lögformlegt umhverfismat. Orð hennar sem hún viðhafði fyrir ári eru þá hreinlega marklaus.

Ef ráðherrann hefði haft áhuga á því að málið færi í lögformlegt umhverfismat, þá er ráðherrann yfirmaður umhverfismála og hefði haft alla stöðu til þess innan ríkisstjórnarinnar að fá ríkisstjórnina í lið með sér í því efni og fá málið a.m.k. í þá stöðu að Landsvirkjun hefði frumkvæði að því að setja málið í lögformlegt umhverfismat. Að vísa til þess að málið sé í einhverju umhverfismati innan þingsins er bara hlægilegt. Það er allt annað en lögformlegt umhverfismat þar sem fólkið í landinu fær tækifæri til þess að nota andmælarétt og segja hvað það vill í þessu efni.

Því miður finnt mér slæmt að þurfa að lýsa því yfir að ráðherrann hefur ekki farið með rétt mál þegar hún sagði í nóvember fyrir ári að hún vildi lögformlegt umhverfismat, það er ekkert að marka ráðherrann í því.