Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 14:12:32 (3627)

1999-12-21 14:12:32# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er eldri en tvævetur í pólitík. Ég sagði það almennum orðum að ég hefði af því áhyggjur að ef þessi áform yrðu skotin í kaf núna og ekki yrði af frekari framkvæmdum, þyrfti mjög mikið til að koma þannig að hægt yrði að setja ný áform af þessum toga í gang á nýjan leik. Ég spyr hv. þm. af hreinskilni hvort hann sjái raunverulegan pólitískan möguleika á því, hvaða ríkisstjórn sem sæti, að fara af stað með virkjunaráform af einum eða öðrum toga. Ég spyr hann af fullkominni hreinskilni um það því að ég hef áhyggjur af því að ef niðurstaðan yrði sú að menn settu á stopp, yrði það stóra stoppið. Þetta get ég auðvitað ekkert fullyrt um og ég hélt því ekki fram, herra forseti, að einstakir þingmenn hefðu sagt eða barist fyrir því. Hins vegar segir pólitísk tilfinning mín það að svona sé þetta mál í pottinn búið.

Hvað varðar síðan hinn þátt málsins að hér hafi nokkrir þingmenn sérstaklega lagst í víking gegn málinu vegna þess að orkuna ætti að nýta úti á landi, þá voru það ekki mín orð. Ég sagði að það væri ekki að undra að þeir Austfirðingar og landsbyggðarmenn settu málið upp með þeim hætti í ljósi þess að 1991 stóð til að flytja þessa orku suður yfir heiðar til að reisa stórt álver í kjördæmi mínu, Reykjaneskjördæmi. Þá heyrðist ekki múkk, ekki hljóð úr horni. Og er það að undra þó að Austfirðingar, sem hafa beðið í 20 ár, segi sem svo: Loksins þegar á að nýta orkuna í heimahéraði, þá finna menn vandamál undir hverjum steini.