Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 14:17:30 (3630)

1999-12-21 14:17:30# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú er komið að lokum umræðu um till. ríkisstjórnarinnar til þál. (ÖS: Hver segir það?) um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þ.e. hér á Alþingi. Það er hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þessari umræðu er engan veginn lokið þótt umræðum ljúki hér. Nú síðast hellti hæstv. umhvrh. olíu á eldinn með því að leyfa sér að hafa í hótunum við Norðmenn. Hún hótar versnandi sambúð við Norðmenn ef stórfyrirtækið Norsk Hydro makki ekki rétt í þessu máli. Það hefur e.t.v. farið fram hjá mörgum í þessari umræðu en upplýsingar um þessa afstöðu Norðmanna eru ekki runnar frá Íslendingum, þær eru ekki frá Íslendingum komnar. Þær eru frá Norðmönnum komnar. Sendiherra Norðmanna á Íslandi sér ástæðu til að senda ríkisstjórn sinni upplýsingar um viðræður við umhverfisráðherra Íslands. Þar kemur fram að greinilega hefur verið haft í hótunum við Norðmenn ef þeir makki ekki rétt í þessu máli. Það er mjög alvarlegt.

En það er önnur ástæða fyrir því að ég segi að þessari umræðu sé ekki lokið. Ég vona að henni sé ekki lokið og ég ætla að lýsa ástæðunni fyrir því. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson rifjaði upp söguna, dró aðrar ályktanir og annan lærdóm af sögunni en ég vil gera. Það er mikilvægt að læra af sögunni og þar er að finna mörg dæmi sem hræða.

Í þáltill. ríkisstjórnarinnar er farið fram á að Alþingi lýsi stuðningi við framkvæmdir sem byrjað var á fyrir réttum áratug. Hvað stóð þá til að gera? Það er rétt að rifja það upp. Þá stóð til að virkja í Fljótsdal í tengslum við samninga sem þá stóðu yfir við alþjóðlega stórfyrirtækið Atlantal. Þegar framkvæmdir fyrir austan voru rétt hafnar sleit Atlantal viðræðunum. Þá var viðræðum slitið vegna þess, að því er íslensk stjórnvöld sögðu þá, að álverð á heimsmarkaði hefði skyndilega lækkað. Þáv. iðnrh. lýsti yfir að innan fárra mánaða eða missira, í hæsta lagi ára, mundu álfurstar þessir koma aftur þar eð ástæða skyndilegs brotthvarfs þeirra væri einungis tengd tímabundnum erfiðleikum á álmarkaði. Nú eru liðin hartnær tíu ár síðan þetta gerðist. Ekkert bólar á viðræðum þessara aðila við íslensk stjórnvöld.

Í tengslum við væntanlegan samning við þetta fyrirtæki var ráðist í framkvæmdir við væntanlega Fljótsdalsvirkjun upp á tæpan milljarð króna. Að auki, eins og við munum, festu íslensk stjórnvöld kaup á landi á Keilisnesi fyrir mikla fjármuni, 100--200 millj. kr. Ástæða þess að stjórnvöld telja sér ekki skylt að fara með væntanlega Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat, eins og lög segja til um með allar slíkar framkvæmdir, stafar af þessu bráðræði Landsvirkjunar á sínum tíma, að rjúka í framkvæmdir áður en ljóst var að samningar við hið erlenda stórfyrirtæki tækjust. Frammi fyrir þeirri hættu stöndum við aftur núna. Þess vegna segi ég: Það er mikilvægt að fá þessa umræðu aftur hingað inn.

Fyrir fáeinum árum boðaði íslenska ríkisstjórnin, þá var það hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson sem fór fremstur í flokki, að erlendir aðilar, sem reyndust vera Norsk Hydro, hygðu á fjárfestingu í álbræðslu á Reyðarfirði. Í fyrsta sinn í Íslandssögunni var rætt um að til þess gæti komið að fyrirtækið mundi einnig fjármagna fyrirhugaða virkjun, a.m.k. fjárfesta í henni. Umræðan hefur síðan snúist um að í undirbúningi væri að semja við Norsk Hydro vegna væntanlegrar álbræðslufjárfestingar fyrir austan. Eftir því sem á þessa umræðu hefur liðið hefur hlutdeild Norsk Hydro minnkað af einhverjum orsökum. Fyrst var tilkynnt um að þeir hygðust einungis fjárfesta í álverinu en Landsvirkjun mundi sjá um að afla orkunnar. Síðan hafa birst ýmsar tilkynningar, misvísandi að vísu, um væntanlegan en síminnkandi hlut Norsk Hydro í álversframkvæmdunum.

Til skamms tíma hefur þó verið talað um þá sem aðalsamningsaðila en að þeir kynnu að leggja sitt af mörkum, hugsanlega 20% í formi tæknilegrar sérfræðiaðstoðar. Allt þetta hljómar kunnuglega. Allt hefur þetta gerst áður.

Hliðstætt þessu stóð á 8. áratugnum til að reisa járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Þá var rokið til að hefja framkvæmdir við Sigölduvirkjun í tengslum við samningaviðræður við Union Carbide. Þegar virkjunarframkvæmdir voru komnar vel á veg ákvað Union Carbide að hætta við að fjárfesta. Þar með sat Landsvirkjun og þjóðin, að sjálfsögðu sem eigandi Landsvirkjunar, með sárt ennið og sá sig tilknúna, vegna þess að þegar var búið að fjárfesta að stórum hluta í nýrri virkjun, að fá inn nýjan fjárfesti sem vegna stöðu málsins gat sett samningamönnum ríkisins þá afarkosti að fá í sinn hlut 20% hlutafjár í væntanlegu fyrirtæki með því að leggja fram tækniþekkingu. Hið nákvæmlega sama er nú upp á teningnum í umræðunni um Norsk Hydro. Ekki skiptir minna máli að til viðbótar ætlar fyrirtækið að hafa milligöngu um að selja afurð fyrirtækisins gegn 3% söluþóknun. Þetta eru hinir frægu blóðpeningar sem fyrrv. forstjóri járnblendiverksmiðjunnar kallaði á sínum tíma og komst síðan undan eftir miklar raunir.

Annað dæmi um mistök Landsvirkjunar af þessu tagi er t.d. Blönduvirkjun sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vék að áðan. Þá voru sett fram þau rök að með því að hafa tiltæka orku mundi samningsstaða Íslendinga gagnvart áhugasömum fjárfestum í stóriðju verða betri. Á þeim tíma stóð til að reisa kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Síðan kom á daginn að hugsanlegir fjárfestar gerðu miklu meiri kröfur til arðsemi en Íslendingar höfðu talið, töluðu um 12--15% arðsemi í stað 5--7% sem áður hafði verið reiknað með. Hér erum við að nálgast þungamiðjuna í ræðu minni.

Í fyrsta skipti eru Íslendingar að reisa virkjun sem á að þjóna einni verksmiðju. Það er meira að segja svo að orkan frá Fljótsdalsvirkjun nægir ekki til að þjóna 120 þúsund tonna málmbræðslu í Reyðarfirði. Þar þurfa að koma til sögunnar 1.700 gígavattstundir en ekki tæplega 1.400 eins og koma mundu úr Fljótsdalsvirkjun. Kaupandinn er aðeins einn.

Nú er gert ráð fyrir einum kaupanda að þessari verksmiðju. Í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin, Norsk Hydro og Landsvirkjun sendu frá sér í júnílok í sumar voru gefin fyrirheit um að fyrir 31. desember, núna eftir fáeina daga, ætti að liggja fyrir samningur um orkuverð. Það bólar ekkert á honum. Í ljósi sögunnar, í ljósi samningaviðræðna við Atlantal sem runnu út í sandinn, í ljósi framkvæmdanna við Sigöldu á sínum tíma og samningaviðræðna sem þá fóru fram, í ljósi þess sem gerðist í tengslum við Blönduvirkjun og fyrirhugaða verksmiðju í Reyðarfirði sem aldrei reis og í ljósi þess að í fyrsta skipti er verið að reisa virkjun sem á að þjóna einum aðila þannig að um er að ræða geysilega áhættufjárfestingu, spyr ég: Mun ríkisstjórnin ráðast í virkjunarframkvæmdir áður en endanlega hefur verið gengið frá öllum samningum um þetta efni? Þetta er lykilatriði. Það verða að liggja fyrir skýr og afdráttarlaus svör frá ríkisstjórninni. Verður gefið grænt ljós á framkvæmdir í tengslum við þessa virkjun áður en öll kurl eru komin til grafar? Við verðum að fá skýr svör við þessu.

[14:30]

Herra forseti. Ég rakti í ræðu minni í gær ýmsa efnahagslega þætti og grunnforsendur í þessu máli og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það núna. En ég ræddi þar um stærð virkjunarinnar, verðið fyrir orkuna sem frá henni kemur og hélt mig þar í mínum reikniforsendum við háar tölur og hagstæðar fyrir Landsvirkjun. Ég ræddi um afskriftir og viðhalds- og rekstrarkostnað, stillti öllum kostnaði þar mjög í hóf til að fá út eins hagstæðar tölur og gerlegt var fyrir Landsvirkjun. Ég ræddi um arðsemiskröfur sem stillt væri upp, hélt mig við þær kröfur sem Landsvirkjun hefur sett fram sjálf og hæstv. iðnrh. hefur staðfest, 5--6% arðsemi, 5,5 af eigin fé, 5,2 af lánsfé. Ég vakti athygli á því að hér væri um mjög lága arðsemiskröfu að ræða, ekki síst þar sem um áhættufjárfestingu er að ræða. Þar er að jafnaði talað um 10--20% arðsemiskröfu. Alþjóðabankinn krefst 7% en hér er verið að tala um 5--6%. Þó stillti ég dæminu þannig upp til að við fengjum eins hagstæðar tölur fyrir Landsvirkjun og kostur er. Síðan ræddi ég um verðið á orkunni og er ég búinn að geta þess reyndar.

Út úr þessu hagstæða dæmi kom tap fyrir Landsvirkjun upp á 656 millj. á ári hverju og þetta hefur enginn hrakið, enginn. Ég bætti líka við til að stækka virkjunina upp í það sem þarf til að þjóna þessari álverksmiðju, um 27% upp í 1.700 gwst. Þá er tapið orðið 854 millj. kr. og er þá ekki reiknaður með kostnaður við losunarkvóta sem mundi færa tapið upp í milljarð. Ég hélt mig við þessar lágu tölur. Nú finnst mér alveg heiðarlegt, ef menn vilja, að ráðast í þessa rosaframkvæmd sem byggðastyrk, niðurgreiddan byggðastyrk. En það eru menn ekki að gera. Menn segjast vera að ráðast í arðsama fjárfestingu. Það segja menn. Til þess að hún verði arðsöm á þessum forsendum þarf verðið fyrir orkuna að vera, ekki 14 mill, ekki ein króna á kwst. eins og hún er núna og er þó hagstætt verð, heldur 1,50 kr., 20 mill, sem er miklu hærra verð en gerist nokkurs staðar í heiminum. Ég spyr: Hvers konar rugl er þetta? Hvers konar fúsk er hér á ferðinni?

Nú stöndum við frammi fyrir annarri hættu. Ég vildi gjarnan fá svör frá hæstv. iðnrh. þegar hv. þm. Kristján Pálsson lýkur sínu eintali við hæstv. ráðherra. Það er undarlegt að menn vilji tefja þessa umræðu nú. Ég segi að við stöndum frammi fyrir ákveðinni hættu. Hún er sú sem fram kom í grein í Morgunblaðinu á föstudaginn og er skrifuð af tveimur sérfræðingum Landsvirkjunar, Kristjáni Gunnarssyni og Stefáni Péturssyni. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Reynst hefur nauðsynlegt í þeim samningum sem gerðir hafa verið við nýja stóriðju á undanförnum árum, að semja um lægra orkuverð í upphafi sem verður í staðinn þeim mun hærra á síðari stigum samningstímans.``

Síðar segir: ,,Það má líkja þessu við leigusala sem leigir viðskipta- eða hagfræðistúdent húsnæði í langtímaleigu. Hann getur verið tilbúinn til þess að lækka leiguna tímabundið ef hann hefur tryggingu fyrir hærri leigugreiðslum á síðari stigum er greiðsluhæfi leigjandans hefur hækkað til muna.``

,,Hvers vegna hagfræðistúdent?``, kann einhver að spyrja. Vegna þess að menn í hagfræði fara á verðbréfaþing og fá hátt kaup. (KPál: Er þetta hættuleg auglýsing?) Ég veit ekki hvað vakir fyrir hæstv. iðnrh. En ég er ekki að grínast með þetta. Ég er að segja að við stöndum frammi fyrir þeirri hættu að menn reyni núna að ná samningum við álfyrirtæki á þeim forsendum sem oft er gert, að bjóða lágt verð í upphafi á meðan menn eru í námi í von um að verðið hækki þegar fram líða stundir. En gæti nú verið að í leiguhúsnæðinu Íslandi muni menn ekki una sínum hag þegar leigan verður hækkuð og vilji halda á vit annarra þjóða og í önnur lönd sem bjóða upp á hagstæðari húsaleigu, svo sem Mósambík, Malasíu og Kína? Í öllum þessum löndum er nú verið að bjóða upp á orkuverð sem er langt undir því sem við erum að bjóða, undir 10 mill. Ég er búinn að leiða rök að því í mínu máli að til þess að þessi fjárfesting borgi sig þá verðum við í það minnsta að fá 20 mill. Við verðum að fá 1,50 kr. fyrir hverja kwst.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. En ég ætla að segja að lokum að í umræðu um þetta mál hafa menn haldið því fram, nú síðast í morgun í umræðum um störf forseta og stjórn þingsins, að við ættum ekki að rugla saman annars vegar umræðu um orkuveituna og hins vegar um álverið. Í þáltill. sem við erum að taka til afgreiðslu er skírskotað til álbræðslunnar. Til þess er verið að reisa þessa virkjun. Nú spyr ég þar sem menn eru farnir að ávísa á íslenska lífeyrissjóði og íslenska þjóðfélagið sem ætli að reka þetta og fjárfesta í þessu: Ef þetta er slík gósenhít sem menn vilja vera láta, hvers vegna í ósköpunum munu þá ekki álrisar heimsins flykkjast hingað og berjast um þennan gullmola? Hvers vegna? Og þegar menn leyfa sér að koma hér upp eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson gerði hérna áðan, því miður, og talaði um það sem tilræði við byggðastefnu og Austfirðinga að samþykkja ekki þessa dellu, (KPál: Þetta er alveg rétt hjá honum.) þá verð ég, herra forseti, að lýsa mikilli undrun á slíkum málatilbúnaði og slíkri rökleysu vegna þess að ef eitthvað er þá er þetta tilræði við byggðastefnu og sérstaklega við Austfirðinga.