Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:17:53 (3632)

1999-12-21 15:17:53# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra í ræðu minni við umræðuna hvort hann hefði síðan hann tók við embætti, og nú er komið á sjötta ár síðan, skoðað tillögu Orkustofnunar um annars konar virkjun á Eyjabökkum, Hraunavirkjun, og ef hann hafi ekki skoðað það mál eða látið skoða það, hvers vegna hann hafi ekki gert það. Í þeirri tillögu kemur fram að hægt sé að fá 15--20% lægra orkuverð með því að virkja þarna með öðrum hætti og byggja þarna upp virkjun sem geti skilað helmingi meiri orku en sú Fljótsdalsvirkjun sem er til umræðu.

Ég krefst svara af hæstv. ráðherra vegna þess að ef menn ætla að sökkva þeim náttúruverðmætum sem þarna eru, þá er það þó a.m.k. lágmarkið að það sé gert þannig að menn nýti þá möguleika sem svæðið gefur til orkuöflunar.