Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:22:58 (3637)

1999-12-21 15:22:58# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti ekki von á öðru en hv. þm. byggist við því að fá svör við spurningum sínum. Ég sá það auðvitað þegar ég kom í þennan ræðustól að útilokað væri að ljúka þingi og senda hv. þm. í einni taugahrúgu heim í jólafrí og með alla óvissuna á herðum sér þannig að það varð að létta óvissunni af hv. þm. Þessar yfirlýsingar hafa legið fyrir frá upphafi. Auðvitað verður ekki ráðist í þessar framkvæmdir nema búið sé að semja um alla þætti málsins nema þá að tryggingar, sem ég lýsti áðan, séu fyrir því að Landsvirkjun verði ekki fyrir neinum skaða af málinu.

Ég sagði í gær í andsvari við hv. þm. að allir þeir samningar sem Alþingi þarf að fjalla um sem er fjárfestingarsamningur, sem er skattasamningur, sem er lóðarsamningur, munu koma inn á Alþingi eins og ávallt hefur gerst. Sama gildir um orkusamninginn sem þarf ekki að fara til sérstakrar umfjöllunar. Hann var til umfjöllunar á sínum tíma í hv. iðnn. þingsins þar sem farið var yfir skýrslu erlendra sérfræðinga á því hversu mikil hætta væri á að Landsvirkjun yrði fyrir einhverjum skaða. Það var auðvitað gert.