Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:26:58 (3640)

1999-12-21 15:26:58# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Flótti hæstv. iðnrh. aftur í fortíðina í hvert skipti sem eitthvað er saumað að hæstv. ráðherra er afar athyglisverður. Hæstv. iðnrh. og viðskrh. sótti áðan rök hér jafnvel svo langt aftur og svo langt í burtu frá efninu sem í níu ára gamlan búvörusamning og segir það sína sögu um málflutningsstöðu hæstv. ráðherra.

Að ég hafi sagt að enginn hafi neitt vit á samningagerð nema ég sjálfur, ekkert slíkt fólst í mínu máli. Það sem ég sagði hins vegar, herra forseti, og stend við og meina er að samningsstaða Íslendinga almennt í þessu máli er hörmuleg. Ég lýsti þeirri skoðun minni og því mati mínu að íslenskir aðilar væru sem á hnjánum í því tilliti vegna þess að þetta mál er keyrt áfram á flokkspólitískum forsendum en ekki faglegum og ekki viðskiptalegum.