Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:29:23 (3642)

1999-12-21 15:29:23# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er nú að draga í land og hefur sennilega séð að það var ekki málflutningi hans sérstaklega til framdráttar að fara í skógarferðir af því tagi og vitna til alls óskyldra hluta aftan úr fortíðinni eins og hæstv. ráðherra var að gera. Það hefur gjarnan verið háttur hæstv. ráðherra þegar hann lendir í þrengingum í röksemdafærslu sinni.

Varðandi samningana sem hæstv. ráðherra mærir hér um stækkun og viðbætur í stóriðjumálum Íslendinga þá er ekki bitið úr nálinni með það hversu góðir þeir reynast okkur og hversu mikið almenningur á Íslandi á kannski enn eftir að borga með þeim fyrirbærum sem stóriðjusamningarnir eru. Þessir samningar hefjast, að ég hygg, flestir ef ekki allir á löngum afsláttartímabilum á mjög lágu verði og hæstv. ráðherra hefur sjálfur viðurkennt að það útskýri hið hraklega lága orkuverð sem borgað hefur verið undanfarin ár.

Í öðru lagi eru eftir atvikum einhver gólf í þessum samningum og í þriðja lagi er ávinningsvon Íslendinga bundin við tengingu á heimsmarkaðsverði eða Lundúnaverði á áli. Það er fullkomlega óséð um það enn þá hversu miklu þessir samningar vegna tenginganna við álverið eiga eftir að skila íslenska þjóðarbúinu.