Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:35:51 (3648)

1999-12-21 15:35:51# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Tveir hæstv. ráðherrar hafa komið með þá skoðun sína í umræðunni, í gær hæstv. utanrrh. og í dag hæstv. iðnrh., að menn eigi að vera fylgjandi málinu vegna þess að ríkisstjórnin hafi trú á því. Nú er ekki hægt að byggja afstöðu sína í þessu máli á trúnni einni saman þó að trúarhátíð sé í nánd en mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. í framhaldi af máli hans áðan þar sem hann lýsti því yfir að allir samningar kæmu inn í þingið varðandi málið. Munu þingmenn verða upplýstir um orkuverðið og hvernig það muni tengjast álverði þannig að menn geti þá tekið afstöðu til þess þar hvort verði farið út í fjárfestingu af þessu tagi þar sem menn hafa haft ákveðnar efasemdir um að þessi virkjun og allur þessi rekstur muni geta staðið undir sér? Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Verður hægt að taka afstöðu til þess og verða þingmenn upplýstir um málið þegar það kemur inn í þingið með þessum samningum?