Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:40:50 (3652)

1999-12-21 15:40:50# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Til mín hefur verið beint ýmsum spurningum varðandi skipulagsmál. Þær hafa snúið að ýmsum leyfum og hvort framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun ættu ekki að heyra undir núgildandi skipulagslög. Hér er um afar flókið mál að ræða. Ég tel rétt að það skili sér inn í umræðuna hvernig þessum málum er háttað og tel því eðlilegt að fara aðeins yfir þau mál.

Umhvrn. skoðaði þessi mál sérstaklega, þ.e. deiliskipulag og byggingarleyfið og framkvæmdarleyfi, og hvernig þessi leyfi sneru að byggingu Fljótsdalsvirkjunar. Mig langar að vísa til minnisblaðs sem umhvrn. tók saman vegna þessa og sendi til hv. umhvn. Alþingis.

Þar kemur fram varðandi deiliskipulag og byggingarleyfi að í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sem tóku gildi 1. jan. 1998, segir að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags en engin heimild er til að byggja deiliskipulag á svæðisskipulagi.

Hvað varðar þær byggingar sem eru byggingarleyfisskyldar er ljóst að sveitarstjórn getur að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem kann að verða sótt um þótt ekki sé fyrir hendi aðalskipulag eða deiliskipulag, samanber heimild í 3. tölul. í ákvæði til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Skipulagsstofnun getur bundið samþykki sitt skilyrðum en samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun veitir hún ekki meðmæli fyrir svo umfangsmiklum framkvæmdum sem fylgja virkjuninni, til að mynda íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk, verkstæði o.fl. nema unnið sé deiliskipulag fyrir svæðið. Á þetta við um allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sem tengjast virkjuninni.

Þegar metið er hvaða byggingar séu byggingarleyfisskyldar í þessu tilviki verður það mat að eiga sér stað á grundvelli eldri byggingarlaga, þ.e. laga nr. 54/1978 og framkvæmd þeirra. Fyrir liggur að Skipulagsstofnun er ekki sammála þeirri skoðun iðn.- og viðskrn. að stöðvarhús virkjunarinnar sé hluti hennar og því ekki byggingarleyfisskylt. Þegar þessi ágreiningur kom í ljós kannaði umhvrn. sérstaklega framkvæmd laganna hvað þennan þátt snertir og niðurstaðan er sú að engin byggingarleyfi höfðu verið gefin út fyrir stöðvarhúsum vatnsaflsvirkjana sem byggðar voru á gildistíma þeirra laga. Ekki verður séð að ný skipulags- og byggingarlög hafi breytt framkvæmdinni og má í því sambandi benda á að ekki var gefið út byggingarleyfi fyrir Vatnsfellsvirkjun. Ráðuneytið er því þeirrar skoðunar eftir þessa athugun að stöðvarhúsið sé hluti virkjunar og því ekki byggingarleyfisskylt eins og ofangreind framkvæmd staðfestir. (Gripið fram í.) Það er rétt sem hér er kallað fram í að skipulagsstjóri sé annarrar skoðunar og þess vegna létum við kanna þetta sérstaklega og þetta er niðurstaða umhvrn.

Varðandi framkvæmdarleyfi hefur Skipulagsstofnun talið að þær framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun sem eru ekki byggingarleyfisskyldar séu framkvæmdaleyfisskyldar, skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þessa skoðun byggir Skipulagsstofnun á því að skipulags- og byggingarlög sem tóku gildi þann 1. jan. 1998 eigi við um Fljótsdalsvirkjun þó að stofnunin telji í greinargerð sinni að fyrir liggi leyfi til framkvæmda sem undanþiggur virkjunina mati á umhverfisáhrifum. Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar um að skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, eigi við samræmist ekki þeirri meginreglu íslensks réttar um bann við afturvirkni laga, sérstaklega um íþyngjandi ákvæði eins og í þessu tilviki nema lög mæli sérstaklega fyrir um slíkt.

[15:45]

Hafa verður í huga að framkvæmdir við virkjunina hófust sumarið 1991 og hefur ekki verið ágreiningur um það. 3. tölul. í ákvæði til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum, sem tóku gildi 1. janúar 1998, var settur til að ítreka að lögin væru ekki afturvirk og til að útbúa þeim framkvæmdum sem hafnar voru á grundvelli eldri laga farveg til að afgreiðast samkvæmt þeim.

Landsvirkjun sótti á sínum tíma, eins og komið var inn á fyrr í umræðunni, um undanþágu frá skipulagi --- ég ítreka það --- undanþágu frá skipulagi vegna virkjunarinnar samkvæmt 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga, nr. 19/1964, og fyrir liggur afgreiðsla sveitarstjórnar hvað varðar aðkomugöng virkjunarinnar. Ljóst er að virkjunin er ekki byggingarleyfisskyld framkvæmd en eldri byggingarlög kváðu á um að þótt mannvirki væru ekki byggingarleyfisskyld skyldu þau vera í samræmi við ákvæði skipulagslaga og lög um náttúruvernd.

Í eldri skipulagslögum segir að öll sveitarfélög séu skipulagsskyld og hefur ákvæðið verið skýrt á þann veg að miðhálendi Íslands hafi ekki verið skipulagsskylt, en samkvæmt eldri sveitarstjórnarlögum, þ.e. lögum nr. 8/1986, skiptist byggðin í landinu í staðbundin sveitarfélög. Eldri skipulagslög áttu því ekki við um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun utan marka sveitarfélaga, samanber og eldri byggingarlög, en spurningar hafa m.a. snúist að þessum þætti.

Skipulagsstofnun hefur engar efasemdir um að öll leyfi séu fyrir aðkomugöngum virkjunarinnar en þá stendur eftir stöðvarhúsið sem er og var innan marka sveitarfélagsins. Það er skoðun lögfræðinga umhvrn. eftir að hafa skoðað þetta sérstaklega að Landsvirkjun hafi einungis þurft að sækja um undaþágu frá skipulagi vegna þess hluta virkjunarinnar sem var innan skipulagsskyldra marka sveitarfélagsins, þ.e. stöðvarhússins og hluta aðkomugangna.

Ráðuneytið lítur svo á að undanþága samkvæmt 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga hafi ekki verið framkvæmdaleyfi í skilningi 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, enda er hér um nýtt lagaákvæði að ræða til að tryggja að framkvæmdir sem ekki voru byggingarleyfisskyldar en höfðu áhrif á umhverfið þyrftu sérstakt leyfi sveitarstjórna, sérstakt framkvæmdaleyfi. Ef undanþága 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga hefði verið túlkuð sem leyfi til framkvæmda þá hefði ákvæðí 27. gr. verið óþarft en því var skotið inn í skipulags- og byggingarlög í meðförum málsins á Alþingi. Það er rétt að ítreka hér að lögfræðingar umhvrn. telja að skipulags- og byggingarlög sem tóku gildi þann 1. janúar 1998 eigi ekki við um framkvæmdir sem voru hafnar fyrir gildistöku laganna.

Að lokum, virðulegur forseti, eftir þessa lesningu sem er afar flókin þar sem um mörg lög er að ræða sem eru hér undir, vil ég sérstaklega draga það fram að bæði Skipulagsstofnun og umhvrn. eru sammála um að Fljótsdalsvirkjun sé ekki matsskyld framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.