Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 16:05:07 (3660)

1999-12-21 16:05:07# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar eftir því að óvissu sé eytt. Í hugum okkar sem stöndum að þessu máli er engin óvissa og ekki heldur í hugum lögfræðinga umhvrn. Þetta var skoðað sérstaklega og sú skoðun leiddi til þess að ráðuneytið telur að Landsvirkjun hafi á sínum tíma einungis þurft að sækja um undanþágu frá skipulagi vegna þess hluta virkjunarinnar sem var innan skipulagsskyldra marka sveitarfélagsins, þ.e. í byggðinni. Það er stöðvarhúsið og hluti aðkomuganganna sem er innan skipulagsskyldra marka sveitarfélagsins þannig að hér er engin sérstök óvissa. Hægt er að fara í þessa framkvæmd án deiliskipulags. (SJS: Án frekari leyfa frá sveitarfélaginu?) Hins vegar, virðulegi þm., ég er að reyna að svara þér í andsvari, hins vegar hefur það komið fram að Skipulagsstofnun sem veita þarf umsögn um þá beiðni að fá undanþágu frá skipulagi og þá á ég við á skipulagsskyldu svæði, ekki uppi á hálendinu heldur í byggðinni, mun að öllum líkindum ekki veita jákvæða umsögn gagnvart slíkri beiðni. Þá þarf Fljótsdalshreppur í þessu tilviki að fara í deiliskipulag varðandi þetta svæði eða kæra þessa umsögn skipulagsstjóra til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.