Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 17:03:42 (3668)

1999-12-21 17:03:42# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 2. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. ,,Þetta er alíslenskt mál.`` Þannig hljóðaði yfirlýsing forsrh. landsins í morgun en hann er nú að burðast við að taka ábyrgð á stærsta pólitíska máli ársins, e.t.v. kjörtímabilsins. Það sem hann kallar alíslenskt er að ákveðið er að fara ekki í umhverfismat af því að Norsk Hydro vill ekki taka þá áhættu að þessi framkvæmd dragist, Norsk Hydro sem hugsanlega verður með 20% aðild að álveri og í formi tækniþjónustu.

Það sem forsrh. kallar alíslenskt er að mikil fjárfestingaráhætta fylgir þessu verkefni og hana bera íslenskir aðilar, Landsvirkjun, lífeyrissjóðir landsmanna og íslenskar fjármálastofnanir og það er vissulega alíslenskt.

En það sem mér finnst vera alíslenskt er barátta Austfirðinga við byggðaflótta og að þeir hafa bundið alla von sína við Noral-verkefnið sem ríkisstjórnin hefur stefnt í voða með vinnubrögðum sínum og við höfum rætt um í þrjá daga. Og Norsk Hydro er í lykilhlutverki við allan málabúnað stjórnvalda.

Ríkisstjórnin stóð í morgun frammi fyrir pólitísku mati óháðs aðila, sendiherra Noregs, sem lýsir tveimur kostum í stöðunni fyrir norsk stjórnvöld. Hann telur að báðir kostir geti reynst vondir fyrir sína þjóð. Annars vegar gæti Norsk Hydro hætt við allt saman og þá ættu norsk stjórnvöld yfir höfði sér reiði íslensku ríkisstjórnarinnar og kólnandi sambúð ríkjanna tveggja samanber ummæli sem sendiherrann vitnaði til og við skulum muna að norska ríkið á tæpan helming hlutabréfa í Norsk Hydro og hefur mikil völd í stjórn fyrirtækisins.

Hinn kosturinn sem sendiherrann bendir á er að Norsk Hydro fjárfesti í álveri á Austurlandi, þá muni andstæðingar framkvæmdanna á Íslandi og í Noregi leggjast á sveif með alþjóðlegum umhverfissamtökum, þar sem Norsk Hydro og norsk yfirvöld yrðu sökuð um að eiga þátt í að eyðileggja íslenskar náttúruperlur og þetta gæti skaðað ímynd Noregs.

Sendiherrann gerir sér grein fyrir því að það hvernig haldið er á málum hér gæti eyðilagt orðstír Noregs. Það er von að ríkisstjórn Íslands, forsrh., bregðist ókvæða við. Honum er nefnilega alveg sama um orðstír, a.m.k. á meðan hann getur látið Framsfl. bera þungann af ólýðræðislegum vinnubrögðum í þessu máli og það hefur hann svo sannarlega gert fram að þessu. Þjóðin á þess vegna að hlusta á það að forsrh. segist bera ábyrgð á málinu í dag. Hann ætlar að axla ábyrgð á því hvernig málið kemur fyrir þingið og er með yfirlýsingar um að taka á sig ábyrgð á því að ekki er farið með Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat sem er grundvöllur þeirrar sáttargjörðar sem nauðsynleg er varðandi svo umdeilda framkvæmd í dag.

Virðulegi forseti. Það er sorglegt hvernig Sjálfstfl. og reyndar ríkisstjórnin öll lætur kröfur um umhverfismat sem vind um eyrun þjóta. En það er athyglisvert að þegar óþægilegar fréttir berast þá skammar forsrh. stjórnarandstöðuna eins og hún hafi borið fréttirnar heim til Íslands.

Það er líka athyglisvert að á meðan hæstv. forsrh. gerir lítið úr fréttum um alvarlega stöðu málsins í Noregi þá mætir hann um leið í fyrsta sinn með fullskipað lið sitt á ráðherrabekkina og allir gera sér grein fyrir því hve illa honum verður við og hversu alvarlegt málið er.

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa fylgt nefndaráliti fulltrúa sinna í iðnn. úr hlaði í þessari umræðu og gert það vel. Þeir hafa gert skorti á gróðurrannsóknum ítarleg skil. Þeir hafa bent á að mótvægisaðgerðum er ábótavant og þar er eingöngu um óljósar hugmyndir að ræða. Þeir hafa bent á að engin tilraun er gerð til að meta Eyjabakkana sem hluta af miðhálendinu út frá mikilli stærð og dýrmætu svæði.

Eins og við vitum öll er miðhálendið mikil auðn. Þar er stórhrikalegt landslag með tiltölulega fáum en sérstæðum gróðurvinjum. Verðmæti þess að gera ekkert við land hefur ekki verið skoðað og það er áfellisdómur á ríkisstjórnina hvernig haldið hefur verið á máli, bæði varðandi það að meta land, að meta virkjun og hvaða virkjunarkostir eru í stöðunni. Þannig hefur Samfylkingin bent á að Hraunavirkjun hefur ekki verið skoðuð síðan árið 1991 þrátt fyrir að Orkustofnun hafi bent á að hún sé ódýr kostur. Þar er meiri orku að hafa og henni má áfangaskipta.

Það hefur komið fram að Landsvirkjun ætlar að skoða það á sumri komanda að hækka stífluna við Eyjabakka og ná þar með þeirri vatnsorku úr Fljótsdalsvirkjun sem þarf fyrir álver á Reyðarfirði. Og ef fórna á Eyjabökkum á auðvitað að skoða þann kost fyrir fram, en það mundi þýða lögformlegt umhverfismat og fram hjá því kemst þessi ríkisstjórn ekki. Þess vegna fer hún bara af stað með gamlan virkjunarkost og breytir svo framkvæmdunum eftir á. Þetta kallar maður að dansa í kringum eigin lög því það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem setti lög um umhverfismat.

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur verið vikið að heildarmati, en það hefur alls ekki fengið þá athygli sem þurft hefði. Skipulagsstjóri ríkisins hefur verið dreginn inn í þessa umræðu með afar vafasömum hætti og það er ómaklegt hvernig stjórnarliðar hafa reynt að skora keilur á kostnað virtra embættismanna. Það er alveg ljóst að Skipulagsstofnun hefur engu leynt, hvorki iðnn. né á öðrum stöðum þar sem við höfum unnið með Skipulagsstofnun að þessu máli. Þvert á móti hefur hún tekið inn í úrskurðarskýrslu sína allt það sem máli skiptir fyrir úrskurðinn sem felldur var. Það sést best á hve veikum grunni stjórnarliðarnir standa á því að þeir reyna að drepa málinu á dreif með þessum hætti.

Fram hefur komið ábending frá skipulagsstjóra um að ekki sé stoð fyrir því í lögum að gera mat á umhverfisáhrifum um heildarframkvæmd, að heildarmat færi fram á öllum tengdum kostum í stórri framkvæmd og þetta er mjög mikilvægt. Þessu eigum við að breyta í lögunum um mat á umhverfisáhrifum þannig að hægt sé að gera kröfu um heildarmat framkvæmda þegar þær ná yfir mörg svæði og um margar tengdar framkvæmdir er að ræða.

Framkvæmdaraðilinn kynnti 480 þús. tonna álver til Skipulagsstofnunar eins og kunnugt er en fyrsti áfanginn er eingöngu 120 þús. tonn. Að mínu mati erum við að þjóna Norsk Hydro með því að tilkynnt var 480 þús. tonna álver og þannig í raun vakin upp þau viðbrögð sem við höfum fjallað hér um á undanförnum dögum. Ef 480 þús. tonna álver verður hins vegar byggt þurfum við fyrst að reisa Fljótsdalsvirkjun til að útvega orku fyrir fyrsta áfanga álvers og til viðbótar henni Kröfluvirkjun eða Bjarnarflag, eða þá að hækka stífluna eins og ég hef oft gert að umtalsefni. Fyrir næsta áfanga álversins þarf Kárahnúkavirkjun sem dugir fyrir 360 þús. tonna álver. Enn þarf að virkja fyrir síðasta áfangann, en enginn veit hvar þá verður virkjað, hvort það verður Kreppa, Jökulsá á Fjöllum eða hvar menn ætla að bera niður.

Auðvitað ætti Alþingi Íslendinga að vera að skoða heildarframkvæmdina. Auðvitað ættum við núna að láta meta umhverfisáhrif heildarframkvæmda á hálendinu. Nei, hér er fyrsti áfangi knúinn í gegnum Alþingi án umhverfismats og fæstir gera sér grein fyrir því að þessi framkvæmd, Fljótsdalsvirkjunin, er upphaf að gífurlegu heildardæmi á svæðinu norðan jökla. Ef til vill verða þetta þrjár eða fleiri virkjanir, línur, jarðgöng, stíflur og lón. Landslagið verður gjörbreytt og við munum skoða það í áföngum og leggja mat á það í áföngum. En þannig eru lögin um mat á umhverfisáhrifum og þar sem þau ná ekki einu sinni fram að ganga við fyrsta áfangann þá eigum við að sameinast um það að endurskoða þau lög áður en næst verður áfram haldið.

Herra forseti. Eins og ég hef getið um í ræðu minni hafa þingmenn Samfylkingarinnar fylgt úr hlaði nefndaráliti og fylgt sannfæringu sinni í umræðum á Alþingi eins og komið hefur í ljós. Samfylkingin hefur flutt brtt. við þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Þetta er viðaukatillöga, þ.e. brtt. sem í raun telst viðauki við tillögu stjórnarflokkanna, og hljóðar viðauki okkar þannig, með leyfi forseta:

,,... enda hefjist framkvæmdir ekki nema að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 63/1993.``

Herra forseti. Ég er enn að láta mig dreyma um að þessi tillaga nái fram að ganga, að menn geri sér grein fyrir því eftir þessa umræðu um hvað málið snýst, hver sé grundvallarforsenda framkvæmda norðan Vatnajökuls.

Ég harma vinnubrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Mér finnast öll vinnubrögðin ólýðræðisleg. Ríkisstjórnin hefur neitað öllum ráðum sem við teljum mikilsverð til að komast að réttri niðurstöðu. Þetta harma ég, herra forseti, og lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og stjórnarflokkanna á Alþingi.