Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 18:08:09 (3679)

1999-12-21 18:08:09# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[18:08]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Með virkjun Jökulsár í Fljótsdal verður spillt gríðarlega miklum náttúruverðmætum sem aldrei verða aftur fengin. Verndun íslenskrar náttúru, ekki síst náttúruperlna á hálendi landsins, er eitt brýnasta verkefni í umhverfismálum Íslendinga. Við berum ekki aðeins ábyrgð á íslenskri náttúru, heldur ber okkur einnig að gæta þeirra verðmæta vegna komandi kynslóða.

Mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt lögformlegu ferli tryggir að fullnægjandi rannsóknir fari fram og mat óháðra sérfræðinga verði lagt fram. Enn fremur verði þá betur kannaðir aðrir virkjunarkostir, lagaóvissu eytt og áhrif á byggðir og mannlíf verði ljósari. Því styð ég að Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum og segi já.