Atkvæðagreiðsla um Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 18:45:36 (3716)

1999-12-21 18:45:36# 125. lþ. 51.93 fundur 250#B atkvæðagreiðsla um Fljótsdalsvirkjun# (um fundarstjórn), SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þar sem ég hef ekki verið á Alþingi nema eilítið lengur en hæstv. forseti verður að búast við því að ég sé ekki orðinn fullnuma í þeim fræðum sem hér standa. Ég spurði hæstv. forseta einfaldrar spurningar og hæstv. forseti hlýtur að svara þeirri spurningu. Þegar um er að ræða tvær atkvæðagreiðslur um nákvæmlega sömu tillöguna og niðurstöður fyrri og síðari atkvæðagreiðslunnar eru ekki þær hinar sömu, þá spyr ég hæstv. forseta og hann hlýtur að svara því með hvaða úrslitum og hvaða niðurstöðu í þessari atkvæðagreiðslu ætlar hann sem forseti Alþingis að afgreiða málið til hæstv. ríkisstjórnar.