Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 18:46:43 (3718)

1999-12-21 18:46:43# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 515, tillögu sem ég boðaði --- á ég kannski að gera hlé á máli mínu á meðan menn koma sér út úr salnum, herra forseti?

(Forseti (HBl): Ætli hv. þingmenn geti ekki farið að haga sér þannig að mælt mál heyrist í salnum?)

Herra forseti. Ég held að það þurfi að fara að taka þá venju til athugunar að strax eftir atkvæðagreiðslur og aðra slíka hluti þegar mönnum er gefið orðið, þá standa tveir þriðju til þrír fjórðu hlutar þingmanna upp með miklu skvaldri og í 2--3 mínútur er ekki vinnufriður í salnum. Ég neyðist til, herra forseti, að vekja máls á þessu því að mér er farið að ofbjóða. Ég fer fram á það að þingflokksformenn taki þessi mál fyrir í þingflokkum sínum. Það er ekki góður svipur á því fyrir Alþingi, sama hver í hlut á og hvaða mál er á dagskrá eða hver er í ræðustól, að mönnum sé svo brátt í brók út úr þingsalnum þegar þeir hafa gert þá skyldu sína að greiða atkvæði að ekki sé vinnufriður í salnum næstu 2--3 mínútur. Mér finnst að menn gætu setið kyrrir smástund og reynt síðan að draga sig hægt og hljótt í hlé eins og segir í danslagatextanum.

Herra forseti. Ég ætla að mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 515 við frv. til laga um breytingu á lögum um Byggðastofnun. Ég boðaði þessa tillögu að nokkru leyti ...

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að verða við tilmælum hv. þm. sem er í ræðustól, 3. þm. Norðurl. e., þannig að hægt sé að tala úr ræðustóli. Hv. 3. þm. Norðurl. e. heldur áfram ræðu sinni.)

Ég þakka forseta. Ég er að reyna að brýna raustina þannig að þetta heyrist kannski frekar, a.m.k. á fremstu bekkjunum, en það er eins og í fleiri stofnunum að það heyrist oft illa og athyglin minnkar eftir því sem kemur aftar í bekkjaraðirnar.

Það var aðallega erindið, herra forseti, að mæla fyrir þessari litlu breytingartillögu.

Reyndar ætlaði ég að segja nokkur orð í viðbót um þetta mislukkaða mál hæstv. ríkisstjórnar og fer kannski vel á því að það sé hér í röðinni, næst á eftir því sem síðast var afgreitt. Eins og kunnugt er á ferðinni frægt hrossakaupamál stjórnarflokkanna sem þeim liggur mikið á að fá afgreitt núna fyrir jólaleyfið eða áramótin því þá stendur mikið til. Þá þarf að ganga frá því hverjir verða nýir kommissarar í Byggðastofnun, hver fær Seðlabankann og jafnvel heyrast fréttir af enn þá frekari hrókeringum í embættaveitingum svona til gamans núna milli hátíðanna þannig að eitthvað hafa ráðamenn að sýsla milli jóla og nýárs.

Ég hef fært fram fyrir því rök, herra forseti, og að ég tel alveg frambærileg að það sé síður en svo sjálfgefið og í raun býsna langsótt að flytja Byggðastofnun, ráðgefandi og stefnumótandi stofnun stjórnvalda um byggðamál og byggðaþróun, undir iðnrn. eða iðn- og viðskrn. Ég sé ekki beint hið skynsamlega og rökrétta samhengi í því, herra forseti, að taka þessa stofnun sem faglega ráðgjafar- og stefnumótandi stofnun og eftir atvikum að einhverju leyti framkvæmdatæki ríkisvaldsins og færa hana undir eitt af atvinnuvegaráðuneytunum og þá það atvinnuvegaráðuneyti sem hefur einna minnst tengsl við höfuðatvinnugreinar landsbyggðarinnar en það er iðnrn. nema þá kannski í fyllingu tímans ef hæstv. iðnrh. og stjórnvöldum tekst að troða álveri í hvern fjörð, þá verði það að lokum rökrétt að byggðamál heyri undir iðnrn. En þá framtíðarsýn held ég að ekki margir deili með hæstv. iðnrh. ef hann hefur hana þá sjálfur sem ég svo sem veit ekki.

Ég leyfi mér því, herra forseti, þar sem mér sýnist ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætli að knýja málið til afgreiðslu að leggja til þá breytingartillögu að standi til að færa forræði þessarar stofnunar til innan Stjórnarráðsins á annað borð, verði Byggðastofnun og byggðamál sem málaflokkur flutt undir félmrn. en ekki iðnrn. Helstu rök mín eru þau, herra forseti, að félmrn. fer með málefni sveitarfélaganna og það fer með húsnæðismál og það fer með fleiri viðamikla málaflokka sem eru að mörgu leyti nálægt því að geta kallast það sem annars staðar er talið til innanríkismála. Félmrn. er því að ýmsu leyti næst því að geta kallast einhvers konar innanríkisráðuneyti Íslendinga. Með því að færa byggðamál undir það ráðuneyti, og reyndar kæmu ýmsir fleiri málaflokkar jafnvel til greina, mætti hugsanlega styrkja þetta ráðuneyti og það væri gert í tengslum við þá endurskipulagningu og þann verkefnatilflutning á milli ríkis og sveitarfélaga sem gæti líka tengst þeim málum.

Atvinnuráðgjöf og atvinnuþróunarstarf er t.d. að miklu leyti á hendi sveitarfélaga og ein af skyldum sveitarfélaga samkvæmt lögum um sveitarstjórnarmál er, ef ég man rétt í 6. gr. þeirra laga eða framarlega í röðinni, að byggja upp og efla atvinnulíf á sínum svæðum. Því er að mörgu leyti eðlilegt og hagkvæmt að sama ráðuneyti fari með byggðamál og fari með ráðuneyti sveitarfélaga og þessi löggjöf heyrir undir.

Ég hafði gert ráð fyrir því, herra forseti, að fram kæmi einnig við 3. umr., ég vil spyrja að því, brtt. sem flutt var við 2. umr. af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og kölluð aftur til 3. umr. ef ég veit rétt og liggur þar með fyrir. Það er upplýst og ég þakka fyrir það og ég vil láta það álit mitt í ljós að ég styð þá tillögu. Ég tel tvímælalaust til bóta að breyttu breytanda að áfram yrði þingkjörin og þverpólitísk stjórn fyrir þessari stofnun. Ég tel reyndar, herra forseti, að færa megi fyrir því sterk rök að menn séu á góðri leið með að velja versta kostinn, velja millileið sem getur aldrei orðið annað en bastarður eðli málsins samkvæmt. Það er handskipuð eða handvalin sjö manna stjórn sem ráðherra einhendis tilnefnir stofnuninni og jafnmarga menn til vara. Í raun og veru er miklu betra að sleppa því að hafa sérstaka stjórn fyrir stofnuninni, gera hana að hreinni ríkisstofnun eða stjórnsýslustofnun sem ber beint og milliliðalaust ábyrgð gagnvart ráðherranum. Það eru hreinni og beinni brautir í stjórnsýslunni ef menn vilja ekki reyna að tryggja sjálfstæði og þverpólitískt bakland stofnunar af þessu tagi með þingkjörinni stjórn.

Mörg rök, herra forseti, gætu verið fyrir því að reyna að þróa Byggðastofnun, sérstaklega ef sú stofnun hefur viðamiklu og umtalsverðu hlutverki að gegna, þróa hana í burtu frá framkvæmdarvaldinu og í öfuga átt við það sem verið er að leggja til þannig að hún gæti staðið óháðari gagnvart pólitískum sviptivindum á hverjum tíma og væri þess umkomin að hafa sjálfstæðari stefnu ef svo bæri undir í þessum efnum og jafnvel lýsa henni þó í andstöðu væri við einhverjar ákvarðanir stjórnvalda. Það verður harla lítið, herra forseti, að gera með Byggðastofnun sem verður svo ofurseld undir vald ráðherrans að einu má gilda í framtíðinni hvort pappírarnir koma að nafninu til frá Byggðastofnun eða viðkomandi ráðuneyti. Ég tala ekki um ósköpin eins og stjórnsýsluhættir hafa verið að mótast í tíð núv. og reyndar síðustu ríkisstjórnar og viðhorf t.d. til faglegra ákvarðana og faglegrar framgöngu embættismanna hafa birst okkur að undanförnu frá hæstv. ríkisstjórn.

Að mínu mati, herra forseti, er því fátt gott um þessar breytingar að segja og í raun og veru nánast ekki neitt nema að tækifæri hafa gefist til að ræða lítillega um byggðamál í tengslum við umfjöllun Alþingis um málið. Þetta er ekki framfaraskref í byggðamálum á nokkurn hátt. Ekki er verið að efla þessa stofnun heldur að veikja. Það er verið að draga úr sjálfstæði hennar. Ekki eru í farvatninu auknir fjármunir til þessarar stofnunar og ekki eru breytingar sem eru á neinn hátt líklegar til að efla eða gera hana sérstaklega betur færa til að sinna hlutverki sínu. Ég legg því þessa brtt. fram sem varatillögu, herra forseti, í ljósi þess að mér sýnist því miður stefna í afgreiðslu málsins. Helst hefði ég kosið að það næði ekki fram að ganga. Ég mun greiða atkvæði gegn því en teldi þó þá breytingu sem ég legg til, sem og þá brtt. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er 1. flm. að, kannski eini flm., hvora tveggja vera til bóta og mun styðja þær.