Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:03:16 (3720)

1999-12-21 19:03:16# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 3. umr. frv. til laga um Byggðastofnun. Ég hef áður í umfjöllun um frv. varpað fram athugasemdum bæði efnislega og síðan beint varðandi einstakar greinar sem ég hefði viljað óska svara við.

Það er í fyrsta lagi rökin fyrir því að setja þetta undir iðnrn., að færa stofnunina frá forsrn. og setja hana undir iðnrn., eitt afmarkað ráðuneyti. Við höfum atvinnuvegaráðuneyti; landbrn., sjútvrn., menntmrn. og félmrn. sem fer með verkefni sveitarfélaganna. Ég vil taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að iðnrn. er kannski það síðasta sem manni dytti í hug að setja þau verkefni og þá stofnun undir eins og hér er fyrirhugað að gera. En engu að síður í tengslum við það vil ég spyrja, ég veit reyndar ekki, hæstv. forseti, hver er til svara varðandi þetta frv. sem flutt er af einum ráðherra fyrir annan. (Gripið fram í: Það er ...) Það er hér alvarleg spurning sem ég hefði viljað varpa fram og ég harma að enginn ráðherra skuli sýna byggðamálum meiri virðingu en svo að hverfa ...

(Forseti (HBl): Ég hef gert ráð fyrir því að hæstv. iðnrh. verði kvaddur til.)

Ég þakka fyrir það því að byggðamálin eru ekki búin þó að hæstv. ráðherra hafi fengið samþykkta þáltill. um Fljótsdalsvirkjun, um áframhaldandi framkvæmdir á þeirri vinnu. Meðan ég bíð eftir hæstv. iðnrh. vil ég fara í önnur atriði.

Ég hef vakið athygli á því að verið sé að veikja stofnunina og verið sé að veikja verkefnaflokkinn með því að breyta henni úr sjálfstæðri stofnun í sérstaka stofnun og meiningin sé að gera þetta að stjórnsýsluskrifstofu eða skrifstofu í iðnrn. Ég hef gagnrýnt það. Ég tel að þarna sé verið að veikja málaflokkinn í heild. Það verði þá að gerast á grundvelli heildarsýnar. Ekki er lögð fram nein sérstök byggðasýn í frv., enda snýst það ekki um það. Þetta snýst um hrein tæknileg verklagsatriði og hvar einhverjir kontóristar eigi að sitja.

Ég hef líka vakið athygli á því, herra forseti, og óskað eftir því að það yrði kannað hvort 11. gr. frv. stenst miðað við stjórnsýslulega stöðu, þ.e. hvort þessari stofnun verði heimilt að veita lán með þeirri stjórnsýslulegu uppbyggingu sem fyrirhuguð er.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hæstv. iðnrh. er kominn. Það er eitt atriði, hæstv. forseti, sem ég hefði viljað spyrja hæstv. iðnrh. um. Það sem verið er að ýja þarna að um störf og aðkomu þessarar stofnunar að rannsóknum í þeim umræðum sem hafa heyrst --- fyrirgefið, hæstv. forseti, að ég ber þetta með þessu móti hér inn --- að að störfum sé nefnd sem eigi að kanna hvernig megi sameina rannsóknastofnanir atvinnuveganna í eitt og undir iðnrn. Ég hefði viljað spyrja hæstv. iðnrh. líka um þessa skýrslu hér þar sem gerð er tillaga um að þjappa saman rannsóknastofnunum atvinnuveganna upp á Keldnaholti og sem stofnanir sem heyra undir iðnrn. eiga aðild að, í ljósi þeirra orða sem standa bæði í 8. gr. og 2. gr. frv. um að stofnunin undir þessu ráðuneyti eigi að vera samræmingaraðili og eigi að vera rannsóknastofnun. Er eitthvað hæft í því að með vitund iðnrn. sé verið að vinna að uppbyggingu og sameiningu á stórtækum framkvæmdaáætlunum og hugmyndum um rannsóknastofnanir atvinnuveganna á Keldnaholti og færa þær saman undir iðnrn.? Ég vil fá svar við því hvort eitthvað sé hæft í þessu og hvort þetta sé þá hluti af þeim pakka sem hérna er verið að búa til.

Ég get ekki sagt annað, herra forseti, en að mér finnst þetta frv. til laga um Byggðastofnun hafa fært niður verðgildi byggðamála og stöðu þeirra. Það má vel vera að styrkja megi hana með öðrum hætti og ég tel að styrkja ætti hana með því að styrkja önnur ráðuneyti og láta þau vera meira meðvituð um verkefni sín, sjútvn. um fiskveiðistjórnina og landbrn. um stöðu sauðfjárbænda, ekki er hún svo beysin, frekar en að færa þau saman undir eitt ráðuneyti. Það getur orðið til þess að hin atvinnuvegaráðuneytin telji sig ekki þurfa að sinna þeim málaflokkum sem skyldi vegna þess að þau séu á hendi þessa ráðuneytis.

Herra forseti. Ég hefði talið að meiri þörf væri á því að leggja fram markvissar og ákveðnar aðgerðir í byggðamálum en að flytja frv. til laga einungis um vistaskipti á stofnun og færa hana niður í verðgildi. Ég ítreka, herra forseti, að ég vil gjarnan fá svör við aðild iðnrn. að samþjöppun rannsóknastofnana atvinnuveganna.