Byggðastofnun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:16:46 (3723)

1999-12-21 19:16:46# 125. lþ. 51.5 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:16]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að nefndin sem ég vitnaði til, þ.e. Rannsóknarráðið er að vinna að þessari tillögugerð. Ég veit ekki hvað felst í tillögum þeirra en mér er sagt að þeir muni ljúka störfum mjög fljótlega. Ég hef ekki trú á því að þeir muni leggja til að þessi starfsemi verði öll sameinuð undir iðnrn. Ég er þeirrar skoðunar að hún eigi að heyra undir menntmrn.

Ég tek undir áhyggjur hv. þm. og deili þeim að vissu leyti með honum. Það þarf að gæta að því að starfsemi rannsóknastofnana færist ekki öll utan af landi hingað til Reykjavíkur. Það þarf að passa það. Í mínum huga er lítið mál að koma þessari starfsemi upp úti á landsbyggðinni. Við búum í upplýsingasamfélaginu þar sem enginn vandi er að færa upplýsingarnar frá einum stað til annars. Við eigum að koma þessum rannsóknum fyrir á heimaslóð eftir því sem hægt er.