Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:39:41 (3732)

1999-12-21 19:39:41# 125. lþ. 51.30 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er kominn gamall kunningi, frv. til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég er mjög andvígur þessari lagabreytingu sem felur í sér að takmarka vald Alþingis en færa ráðherrum aukin völd í hendur. Ég vil mótmæla þeirri túlkun sem fram kom hjá hv. framsögumanni meiri hluta, Valgerði Sverrisdóttur, að þess hafi gerst þörf að taka af réttaróvissu. Réttaróvissan hefur skapast við það eitt að lögin voru brotin. Það gerðist þegar Landmælingar ríkisins voru fluttar frá Reykjavík til Akraness á sínum tíma án þess að fyrir því væri lagastoð.

Síðan hafa menn deilt um hvar ákvarðanir af þessu tagi skuli teknar. Ríkisstjórnin er greinilega á því máli og meiri hluti væntanlega að baki henni í því efni að ráðherrar eigi þar um að véla en eins og fram kom í fyrri umræðu um þetta mál á Alþingi erum við mörg þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að mál af þessu tagi komi til kasta Alþingis og þar séu málin rædd. Þess eru mörg dæmi þegar engar deilur eru á ferðinni að þetta gangi afar greiðlega fyrir sig þannig að hér er ekki verið að bæta úr neinni réttaróvissu. Hér er verið að gera það eitt að skerða og takmarka áhrif Alþingis og auka ráðherravaldið og treysta það. Ég mæli gegn því að þetta frv. til laga um Stjórnarráð Íslands verði samþykkt.