Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 19:55:08 (3738)

1999-12-21 19:55:08# 125. lþ. 51.31 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[19:55]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Það þingmál sem hér er til umfjöllunar á rætur sínar í löngu starfi í rjúpnarannsóknum. Vaxtarsproti þess var í þáltill. sem flutt var af þeim sem hér stendur. Í þeirri þáltill., sem samþykkt var á síðasta þingi, var fyrst og fremst miðað að því að rjúpnastofninn yrði rannsakaður sérstaklega með tilliti til vetraraffalla. Rannsóknir á vetrarafföllum eru afar mikilvægar, sérstaklega í ljósi þess að komið hefur fram að veiðar hafa áhrif en þó mismunandi eftir landshlutum. Ef grípa ætti til einhvers konar aðgerða vegna veiða þá er afar mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvernig veiðiálagið er og hvaða áhrif friðunaraðgerðir hafa.

Til að koma fótum undir þáltill. og framkvæmd í samræmi við hana hefur verið farin sú leið að sækja fé til verkefnanna annars vegar í ríkissjóð og hins vegar í veiðikortasjóðinn. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að þegar þáltill. var flutt var það ekki ætlunin þó svo ég fari að sjálfsögðu ekki með fjárveitinga- eða fjárlagavald í þinginu um leið og ég flyt þáltill. Ég tel að í fyrsta lagi beri ríkisvaldið þá skyldu að stunda rannsóknir á rjúpnastofninum burt séð frá því hvort veitt sé af honum eða ekki. Að mínu mati er það því verkefni ríkisins að fjármagna rannsóknirnar.

Í öðru lagi vil ég geta þess að veiðikortasjóðurinn er viðkvæmt fyrirkomulag, fyrst og fremst vegna þess hversu skamman tíma fyrirkomulagið hefur verið. Það byggir alfarið á góðri samvinnu og sátt milli veiðikortshafa, þ.e. skotveiðimannanna, veiðistjóra og umhvrn. Því er ekki að leyna að þetta samstarf hefur þurft að ganga í gegnum nokkrar hremmingar. Menn hafa ekki alltaf verið á eitt sáttir. Þar nægir að minna á harða gagnrýni sem fram kom strax við tilurð sjóðsins þegar hann var nýttur til að fjármagna fjárfestingar sem þurfti til þess að koma veiðikortasjóðnum af stað.

Ég ætla ekki að rekja þá hnökra sem á samstarfinu voru. Því er ekki að leyna að það stefndi í gott samkomulag veiðikortshafa við umhvrn. og veiðistjóra. Það að veiðikortagjaldið er hækkað, enda þótt það sé ekki mikið, verður til þess að veiðimenn finna fyrir þessu. Gjaldið var hækkað þó gefinn hafði verið ádráttur og að sumra mati algert loforð um að það yrði ekki hækkað. Þó að það hafi verið hækkað jafnlítið og raun ber vitni þá var það gert án samráðs við veiðimennina. Það var ekki einu sinni svo að haldnir væru fundir með skotveiðimönnum eða Skotvís sem eru samtök veiðimanna. Þetta var gert algerlega án samráðs við þá. Enn fremur hygg ég að leita hefði mátt samráðs við fleiri aðila.

Þá hefði e.t.v. mátt skoða aðrar hugmyndir en þær sem hér hafa komið fram, t.d. hugmynd sem ég heyrði nefnda, þ.e. að þeir sem eftir veiðikortum sækja borguðu hærra gjald ef þeir yrðu seinir til og sæktu um eftir ákveðinn tíma.

Ég vil þá koma að þeim þætti sem e.t.v. er mikilvægastur í þessu máli. Hann er sá að með því að setja samstarf veiðikortahafa við umhvrn. og veiðistjóra í uppnám eða hættu getum við átt von á að einhverjir hætti að greiða veiðikortin. Ég er ekki að hóta þessu fyrir hönd nokkurs manns en reynslan segir okkur að það gæti gerst. Hvar stöndum við ef þetta vöktunarkerfi sem við höfum verið að setja upp og byggir á góðu samstarfi brestur? Við erum þarna með vöktun sem ekkert eftirlit er hægt að hafa með. Ef kerfið brestur þá erum við illa sett og getum ekki fylgst með veiðum á fuglum og villtum dýrum. Ég tel því að hér sé afar óheppilega af stað farið með þessum málflutningi í þinginu. Það mun koma fram í afgreiðslu minni við málslok í þinginu.