Reynslusveitarfélög

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 21:44:58 (3747)

1999-12-21 21:44:58# 125. lþ. 52.6 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 125. lþ.

[21:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 454 og varðar það að bæta einu ári við gildistíma þessara heimildarlaga fyrir reynslusveitarfélög eða reynsluverkefni á vegum sveitarfélaga.

Tilefni þessarar tillögu er að borist hafa um það óskir frá m.a. sveitarfélaginu Reykjavík og það sjónarmið hefur víðar komið fram hjá sveitarstjórnarmönnum, svo sem á fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og eins frá einstökum sveitarstjórnarmönnum víðar að af landinu, a.m.k. í eyru þess sem hér talar að óheppilegt sé að gildistími laganna um reynslusveitarfélög renni út nokkrum mánuðum fyrir næstu reglubundnar sveitarstjórnarkosningar en eins og gildistíma frv. er stillt af falla lögin úr gildi í lok ársins 2002.

Það hafa sem sagt komið fram þau sjónarmið, herra forseti, að heppilegra væri að gildistíminn væri einu ári lengri þannig að hann næði fram yfir næstu reglulegar sveitarstjórnarkosningar og þó reyndar sjö mánuðum betur þannig að ekki skapaðist nein tímapressa af því að mögulega kæmi til að skorta lagaheimildir fyrir áframhaldandi reynsluverkefnum þegar líður að lokum gildistíma frv. eins og það er úr garði gert og þá fáeinum mánuðum fyrir í hönd farandi sveitarstjórnarkosningar.

Rétt er að vekja athygli á því, herra forseti, að hér er um heimildarákvæði að ræða, hér er um heimildarlög í eðli sínu að ræða þannig að vandséð er að það geti komið að sök að leyfa lagaheimildinni að vera fyrir hendi og leyfa henni að lifa óháð því hvort á hana reynir eða á henni þurfi að halda eða ekki. Ég hvet hv. þm. til að hugleiða það hvort ekki sé rétt að verða við þessum vel rökstuddu óskum þeirra sveitarfélaga eða sveitarstjórnarmanna sem sett hafa fram beiðnir um að þarna verði aðeins meira svigrúm fyrir hendi og hef ég átt og á erfitt með að skilja, herra forseti, andstöðu ýmissa aðila fyrir því að gera þessa sjálfsögðu breytingu.