Reynslusveitarfélög

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 21:48:34 (3749)

1999-12-21 21:48:34# 125. lþ. 52.6 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 125. lþ.

[21:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að hér sé ekki um frambærilega röksemdafærslu að ræða af hálfu hæstv. félmrh. Ég vek athygli á því að þetta er spurning um gildistíma heimildarlaganna en hér er ekki á ferðinni ákvörðun um það hversu lengi einstök reynsluverkefni kunna að standa. Það er annað mál óháð þessu. Og þó svo að málaflokkurinn málefni fatlaðra yrði að fullu og öllu fluttur yfir til sveitarfélaganna fyrir þessi tímamót, þá gætu reynsluverkefni á öðrum sviðum þess vegna lifað lengur, dæmi að taka á sviði skipulagsmála eða heilbrigðismála og þó svo jafnvel, herra forseti, að engin reynslusveitarfélagaverkefni féllu akkúrat saman við þessi tímamörk gætu heimildarlögin sem slík verið til staðar. Það eina sem verið var að fara fram á af hálfu þeirra sveitarstjórnarmanna sem báðu um rýmri fresti var að fyrir því yrði séð að sú staða kæmi ekki upp að lagaheimildina mundi bresta nokkrum mánuðum fyrir næstu reglubundnar sveitarstjórnarkosningar.

Ég hef ekki enn, herra forseti, þrátt fyrir mikinn vilja að reyna að átta mig á því hvað veldur stirfninni í þessu máli, fundið nein haldbær rök gegn því að leyfa að þessi lagaheimild verði fyrir hendi og mig undrar þetta mál mjög, herra forseti, og hlýt að fara að álykta sem svo að hér liggi eins og stundum er sagt einhver fiskur undir steini.