Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 207  —  23. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um öryggi greiðslufyrirmæla og greiðslujöfnunar í greiðslukerfum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Verslunarráði Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu.
    Frumvarpið er lagt fram í því skyni að taka upp í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins og Evrópuþingsins nr. 26 19. maí 1998, um efndir og lok viðskipta í uppgjörskerfum fyrir verðbréf og greiðslur í fjármálaviðskiptum, sem felld var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999. Með því er brugðist við kerfisbundinni áhættu sem bent var á í svonefndri „Lamfalussy-skýrslu“ frá 1990 sem samin var fyrir seðlabankastjóra tíu helstu iðnríkja heims. Eiga ákvæði frumvarpsins það sammerkt með reglum sem gilda á þessu sviði að með þeim er stefnt að því að tryggja eins og unnt er skilvirk og örugg fjármálaviðskipti á sameiginlegum innri markaði Evrópu.
    Nefndin tók til sérstakrar skoðunar þau ákvæði frumvarpsins þar sem lagt er til að upp- gjör viðskipta í greiðslukerfum verði í engu raskað þrátt fyrir að gjaldþrotameðferð sé hafin á hendur einum þátttakenda í viðskiptunum og hvort breyta þyrfti gjaldþrotalögum vegna þeirra. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Aðallega er orðalag gert skýrara og markvissara en helstu efnisbreytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að aðilum sem starfrækja greiðslukerfi verði gert skylt að veita Seðlabanka Íslands upplýsingar um beina og óbeina þátttakendur sem aðild eiga að kerfinu, svo og breytingar á þeim.
     2.      Lagt er til að ráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. nóv. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Gunnar Birgisson.


Pétur H. Blöndal.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.


Páll Magnússon.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.