Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 337  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 27. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
     Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 12. október sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 45 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða, að hafnalið undanskildum. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 3.639,3 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2.
    Meiri hluti nefndarinnar þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umræðu afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða 3. umræðu ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Í breytingartillögum við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga var lögð til tæplega 2 milljarða kr. hækkun á framlögum til sjúkrastofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og kom sú fjárhæð til viðbótar tæplega 2 milljörðum kr. sem þegar höfðu verið lagðir til í frumvarpinu. Farið er fram á svipaða fjárhæð í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2000, til viðbótar tæplega 2 milljarða kr. hækkun sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í frumvarpinu til reksturs sjúkrastofnana. Framlögunum er ætlað að koma til móts við áætlaðan uppsafnaðan halla sjúkrastofnana til ársloka 1999 og koma rekstri flestra stofnana á réttan kjöl árið 2000. Ljóst er að stjórnendur nokkurra stofnana þurfa að taka verulega á í fjármálastjórn til að reksturinn verði í jafnvægi.
    Á liðnu vori var orðið ljóst að rekstur sjúkrastofnana stefndi talsvert fram úr fjárlögum þrátt fyrir að gerðar hefðu verið ráðstafanir í lok síðasta árs til að greiða uppsafnaðan halla þeirra og leiðrétta rekstrargrunninn. Voru þær aðgerðir í samræmi við álit svonefnds faghóps heilbrigðisráðuneytisins sem fjallaði um málið. Ekki var brugðist við hallarekstrinum á árinu þrátt fyrir skriflega áréttingu heilbrigðisráðuneytisins um nauðsyn þess að stofnanir héldu útgjöldum sínum innan fjárheimilda. Ríkisendurskoðun var á haustdögum fengin til að fara yfir vandann og greina umfang hans fyrir afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga nú í lok ársins.
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að rekstrarhalli stofnana hafi verið gerður upp í árslok 1998, en að á þessu ári hafi aftur sigið á ógæfuhliðina og rekstur stofnana farið langt umfram heimildir fjárlaga. Nú er svo komið að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana í árslok 1999 er áætlaður tæplega 4,2 milljarðar kr. og þar af eru um 3,6 milljarðar halli sem myndast hefur á þessu ári. Skiptist hann á launakostnað og önnur rekstrargjöld í svipuðum hlutföllum og þessi gjöld vega í heildarútgjöldum sjúkrastofnana. Meginskýringin á umframútgjöldum á launalið er að útfærsla kjarasamninga í mörgum stofnunum virðist hvorki hafa verið í samræmi við þau fyrirmæli og leiðbeiningar sem gefnar voru út né fyrirliggjandi fjárheimildir. Ekki liggja enn fyrir skýringar á hækkun annarra rekstrarliða en launakostnaðar og ekki er að fullu lokið við að greina hvað skýrir frávik á hverjum stað.
    Í tillögunum er verulegum viðbótarfjármunum varið til reksturs sjúkrastofnana. Það eru fjármunir sem fara í kostnaðarhækkanir sem þegar eru áfallnar. Ljóst er að bæta má fjármálastjórn stofnana heilbrigðisráðuneytisins og gera hana skilvirkari en hún nú er. Það er mjög brýnt að ná tökum á þeim vanda og leita í því sambandi allra hugsanlegra leiða svo að stofnanirnar fari að fjárlögum í framtíðinni. Þannig verði einnig tryggt að nýtt fé fari til að ná fram stefnumiðum stjórnvalda en ekki verði um leiðréttingar eftir á að ræða. Ljóst er að til að rekstur allra sjúkrastofnana verði innan fjárheimilda þarf meira til en fjárframlög úr ríkissjóði. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þessar fjárveitingar verði felldar niður í fjáraukalögum ársins 2000.
    Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlögin eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.
    Ríkisendurskoðun mun gefa ráðuneytum og Alþingi skýrslu um framgang málsins á næsta ári. Samhliða verður komið í veg fyrir að stjórnendur stofni til skulda í lánastofnunum og safni upp óeðlilegum viðskiptaskuldum. Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegar tölur úr launabókhaldi berist reglulega.
    Kannað verður hvort breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu og staða framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda verður skýrð. Jafnframt verður á næsta ári ráðist í að ákvarða framlög til stofnana hlutlægt og reiknilíkönum beitt við skiptingu fjárveitinga á stofnanir í fjárlögum fyrir árið 2001. Markmiðið verður eins og fram hefur komið að tryggja að stofnanir verði reknar innan fjárheimilda og að stjórnendur beri ábyrgð með sama hætti og í öðrum atvinnurekstri.
    


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi. Gerð er tillaga um 139,5 m.kr. hækkun fjárveitinga á þessum lið. Í fyrsta lagi er lögð til 6 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.01 Alþingiskostnaður. Aðallega er um að ræða akstur, flugferðir og símakostnað þingmanna. Þá er gerð tillaga um 1,5 m.kr. hækkun framlags til fastanefnda Alþingis vegna aukins ferðakostnaðar.
             Gerð er tillaga um tímabundið framlag að upphæð 8 m.kr. til alþjóðasamstarfs. Þar er í fyrsta lagi um að ræða 4 m.kr. hækkun til að mæta hærri útgjöldum við Norðurlandaráðsþing en í upphaflegri áætlun. Þá þarf að hækka árgjald til Vestnorræna ráðsins um 1 m.kr. samkvæmt samþykkt landsdeilda Íslands, Færeyja og Grænlands. Loks er ætlunin að styrkja þjónustu alþjóðasviðs við Íslandsdeild Norðurlandaráðs á næsta ári með ráðningu á einum viðbótarstarfsmanni og er gert ráð fyrir 3 m.kr. til þess.
             Einnig er lögð til 3 m.kr. hækkun á framlagi til almenns rekstrar þingsins til nýs stöðugildis. Áformað er að styrkja þjónustu við rekstur tölvubúnaðar og þjónustu í tengslum við fjarvinnslu ræðna í þeim tilgangi að auka hraða í útgáfu þeirra, þar á meðal á netið.
             Lagt er til tímabundið framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður að fjárhæð 8 m.kr. til endurnýjunar á tölvu- og hugbúnaði.
             Loks er gerð tillaga um tímabundið framlag að upphæð 113 m.kr. á viðfangsefninu 6.21 Fasteignir. Er þar annars vegar um að ræða 98 m.kr. til að gera gagngerar breytingar á innréttingum í húsnæði sem Alþingi hefur tekið á leigu á 2. hæð Austurstrætis 10A. Hins vegar er um 15 m.kr. framlag að ræða til þess að kosta breytingar á öðru skrifstofuhúsnæði í kjölfarið.
205     Framkvæmdir á Alþingisreit. Gert er ráð fyrir 60 m.kr. tímabundnu framlagi á viðfangsefninu 6.50 Nýbygging. Framkvæmdum við Skála á Alþingisreit verður frestað til haustsins 2000. Jafnframt þarf að gera ráð fyrir fjárveitingu til að loka grunni Skálans og lagfæra umhverfið svo að það verði sómasamlegt á næsta ári. Einnig þarf að endurhlaða suður- og vesturvegg Alþingisgarðsins næsta vor.
610     Umboðsmaður Alþingis. Lögð er til 3,6 m.kr. hækkun fjárveitinga til að sinna auknum verkefnum hjá umboðsmanni á næsta ári. Verður fjárveitingunni að mestu leyti varið til að standa undir launakostnaði lögfræðings við embættið.

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Alls er óskað eftir 44,5 m.kr. hækkun á framlagi til liðarins. Í fyrsta lagi er farið fram á tímabundið 22 m.kr. framlag til Vesturfarasetursins á Hofsósi. Samkvæmt samningi milli forsætisráðuneytisins og Vesturfarasetursins á Hofsósi mun ríkissjóður leggja setrinu til 12 m.kr. á ári í fimm ár frá og með 1999. Framlaginu skal varið til að byggja upp gamla þorpskjarnann á Hofsósi fyrir þjónustu og afþreyingu fyrir fólk af íslenskum ættum sem býr í Norður-Ameríku. Þá er í samningnum sérstaklega kveðið á um sýningu um Stephan G. Stephansson og er framlag til þess 10 m.kr. á árinu 2000. Gert er ráð fyrir 16 m.kr. framlagi í fjáraukalögum. Alls er áætlað að heildarframlag til Vesturfarasetursins eigi eftir að nema 86 m.kr.
             Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 1974 skal árlegt framlag til Gjafar Jóns Sigurðssonar nema árslaunum prófessors við Háskóla Íslands. Laun prófessora hafa hækkað að undanförnu og er því gerð tillaga um að framlag til sjóðsins hækki í samræmi við það. Nú eru árslaun prófessors 2 að meðtöldum sex einingum á mánuði alls 3 m.kr. Því er gerð tillaga um að hækkun árlegs framlags verði 0,5 m.kr.
             Þá er farið fram á 22 m.kr. tímabundið framlag á árinu 2000 vegna ófyrirséðs kostnaðar landafundanefndar. Nú þegar dagskrá nefndarinnar í Vesturheimi liggur fyrir er ljóst að fara þarf fram á viðbótarfjárheimild til að standa undir kostnaði sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri áætlunum nefndarinnar. Fyrst og fremst er um að ræða kostnað við kynningu á viðburðum og viðbótardagskráratriði.
221     Byggðastofnun. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til Byggðastofnunar, 502 m.kr., flytjist til iðnaðarráðuneytis frá forsætisráðuneyti í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Flutt hefur verið frumvarp til laga um þetta á yfirstandandi haustþingi. Fjárveiting til viðfangsefnisins 01-221 1.10 Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni, samkvæmt frumvarpinu, færist þar með á nýtt viðfangsefni, 11-411 1.11, hjá iðnaðarráðuneyti en fjárveitingin nemur 65 m.kr. Sama á við um 137 m.kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 01- 221 6.01 Byggðastofnun sem færist á nýtt viðfangsefni, 11-411 1.10, hjá iðnaðarráðuneyti og 300 m.kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 01-221 6.41 Þátttaka í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni sem flyst sömuleiðis á nýtt viðfangsefni hjá iðnaðarráðuneyti 11-411 6.41.
271     Ríkislögmaður. Lögð er til 5 m.kr. hækkun á fjárveitingu til að ráða lögfræðing að embætti ríkislögmanns. Verkefnum embættisins hefur fjölgað á undanförnum árum og er talið nauðsynlegt að bæta við lögfræðingi til að ekki þurfi að vísa frá verkefnum, svo sem lögfræðilegum álitsgerðum og lögfræðilegri aðstoð við ráðuneyti vegna samningagerðar af ýmsu tagi.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands. Lagt er til að framlag til skólans hækki um 109 m.kr. Í fyrsta lagi er lagt til að 47,6 m.kr. framlag til verði flutt af viðfangsefni 1.20 Rannsóknarnám yfir á viðfangsefni 1.06 Kennslu- og vísindadeildir í framhaldi af nýlegum samningi skólans við menntamálaráðuneytið um framlög til kennslu í skólanum.
             Þá er lagt til að 46,5 m.kr. framlag til ritakaupa verði fært af viðfangsefni 6.41 á nýtt viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður, í framhaldi af nýgerðum samningi við háskólann um framlög til kennslu sem byggð eru á reiknilíkani fyrir háskóla. Fyrirhugað er að gera tillögur um frekari breytingar á viðfangsefnum Háskóla Íslands til samræmis við samninginn og niðurstöðutölur líkansins. Til sama liðar er lagt til að veitt verði 109 m.kr. framlag í samræmi við forsendur samnings menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um kennslu í skólanum sem undirritaður var í byrjun október sl.
205     Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Óskað er eftir 1,4 m.kr. tímabundnu framlagi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leita eftir hækkun fjárveitingar til að standa straum af kostnaði við undirbúning fyrir þátttöku í norrænu víkingaaldarsýningunni Vikings: The North Atlantic Saga sem opnuð verður í Smithsonian-stofnuninni í Washington 29. apríl 2000 og íslensku bókmenntasýningunni Bókmenntaarfur — örlög þjóðar sem opnuð verður í þingbókasafninu í Washington 24. maí 2000.
210     Háskólinn á Akureyri. Áætlað er að framlög til liðarins hækki alls um 30 m.kr. Lögð er til 12 m.kr. hækkun á fjárveitingum sem varið verður í fjarnám fyrir leikskólakennara í samræmi við fyrirhugaðan samning menntamálaráðuneytis við skólann. Skortur hefur verið á leikskólakennurum undanfarin ár en þessi leið veitir ófaglærðum starfsmönnum leikskóla möguleika á að stunda leikskólakennaranám.
             Jafnframt er lögð til 18 m.kr. hækkun fjárveitinga til rannsóknastarfsemi og er þar annars vegar um að ræða 15 m.kr. tímabundna fjárveitingu til að stytta biðlista kennara eftir rannsóknarleyfi sem skólanum ber að veita og hins vegar 3 m.kr. til að sinna alþjóðlegum skuldbindingum en Háskólinn á Akureyri er í samvinnu við fjölmarga háskóla á norðurslóðum.
215     Kennaraháskóli Íslands. Lagt er til að viðfangsefni Íslenska menntanetsins falli niður þar sem rekstur og eignir þess hafa verið seld. Við þetta falla niður 24 m.kr. gjöld og jafnháar sértekjur Kennaraháskólans, enda stóðu notendagjöld undir rekstrinum.
             Þá er ráðgert að 14,5 m.kr. framlag ríkisins til endurmenntunar grunnskólakennara verði flutt af lið Kennaraháskóla Íslands yfir á lið 02-720 Grunnskólar, almennt. Af þeim lið verða framlög ríkisins til þessa þáttar í rekstri grunnskóla greidd þeim menntastofnunum sem halda endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi kennara samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið.
231     Rannsóknarráð Íslands. Lagt er til að 8 m.kr. verði færðar af fjárlagalið Rannsóknarráðs Íslands á nýjan lið, 02-983 1.17 Launasjóður höfunda fræðirita, þar sem óheppilegt er talið að blanda styrkveitingum saman við rekstur ráðsins vegna hættu á ógagnsæi í uppgjöri og óljósrar stöðu á framlögum til sjóðsins í framtíðinni.
299     Háskóla- og rannsóknastarfsemi. Gerð er tillaga um 138,5 m.kr. hækkun á fjárveitingum liðarins. Lögð er til 5 m.kr. hækkun á framlagi til Nýsköpunarsjóðs námsmanna en það hefur staðið í stað undanfarin ár. Nemendum hefur hins vegar fjölgað og æ fleiri sækja um styrk og hefur sjóðurinn þurft að hafna fjölmörgum áhugaverðum rannsóknarverkefnum.
             Enn fremur er gerð tillaga um að veita Reykjavíkurakademíunni 5 m.kr. tímabundið framlag árið 2000 sem gangi til nauðsynlegs rekstrar og umsýslu hennar. Fjárhæðin færist á nýtt viðfangsefni, 1.73 Reykjavíkurakademían. Reykjavíkurakademían er félag sjálfstætt starfandi fræðimanna sem stofnað var fyrir þremur árum til að skapa ungum fræðimönnum ný skilyrði til starfa.
             Lagt er til að fjárveiting til viðfangsefnisins 1.90 hækki um 128,5 m.kr. Er annars vegar óskað eftir óskiptri fjárveitingu að upphæð 100 m.kr. til að ljúka samningum við háskóla um verkefni þeirra og fjárveitingar á grundvelli reiknireglna menntamálaráðuneytisins um fjárveitingar til háskóla. Frá því að unnið var að gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000 hefur komið í ljós mun meiri aðsókn að háskólanámi en reiknað var með og gæti fjölgunin numið ígildi allt að 400 nemenda í fullu námi, meðal annars í fjarnámi. Að síðustu er lagt til að veitt verði framlag að fjárhæð 28,5 m.kr. til sama viðfangsefnis til að auka svigrúm til samninga vegna fjölgunar nemenda í Samvinnuháskólanum og Háskólanum á Akureyri.
319     Framhaldsskólar, almennt. Alls er óskað eftir 80 m.kr. hækkun liðarins . Þar af er gert ráð fyrir 30 m.kr. framlagi til viðfangsefnisins 1.14 sérkennsla. Hækkun um 20 m.kr. fer til að mæta kostnaði við fjölgun nemenda í sérkennslu og til að undirbúa og bæta við námsári í sérkennslu haustið 2000. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að kostnaður við að bæta við einu námsári haustið 2000 verði 15 m.kr. Við endurskoðun á kostnaði kom í ljós að fjárhæð þessi er vanáætluð, ekki síst vegna kostnaðar við undirbúning. Gert er ráð fyrir að allt að 60 nemendur njóti þessarar fræðslu víðs vegar á landinu. Jafnframt er óskað eftir 10 m.kr. framlagi til kennslu fyrir skjólstæðinga Barnaverndarstofu. Breyting varð á kennslu vistmanna eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 í 18 ár. Sveitarfélög greiða kennslu nemenda á grunnskólaaldri til 16 ára en talið er eðlilegt að ríkissjóður greiði kennslu þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri. Gerður hefur verið samningur við Barnaverndarstofu um að annast kennslu þessara nemenda og er reiknað með 20 nemendum og 500 þús. kr. meðalframlagi á nemanda.
             Að lokum er óskað eftir 50 m.kr. til viðbótar þeim 42 m.kr. sem er áætlað fyrir á þessu viðfangsefni í fjárlagafrumvarpi og er ætlað að mæta fjölgun nemenda og óvæntum kostnaði. Endurnýjun samninga við framhaldsskóla árið 2000 sem nú stendur yfir hefur leitt í ljós meiri nemendafjölgun en ráð var fyrir gert.
451     Símenntun og fjarvinnsluverkefni. Lagt er til að framlög til liðarins hækki um 34,6 m.kr. Af því munu 20 m.kr. renna til Kennaraháskóla Íslands til að hægt verði að fjölga þar nemendum í fjarnámi. Mikil aðsókn hefur verið í fjarnám við skólann, bæði grunn- og framhaldsnám, og þurfti að neita tveimur af hverjum þremur umsækjendum um aðgang að grunnskólakennaranámi sl. vor.
             Hins vegar er gerð tillaga um 14,6 m.kr. tímabundið framlag til liðarins til að auka svigrúm þeirra aðila sem nefndir eru í greinargerð með frumvarpinu, auk þeirra sem óskað hafa eftir framlagi til fjarkennsluverkefna, þ.e. til kaupa á fjarfundabúnaði í Öræfum og Suðursveit, uppbyggingar fjarkennslu í Húnaþingi vestra og fjarnáms í hjúkrunarfræði í Reykjanesbæ í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Vísað er til nánari ákvörðunar menntamálaráðherra um fjárveitingar af liðnum.
720     Grunnskólar, almennt. Lagt er til að 14,5 m.kr. framlag ríkisins vegna endurmenntunar grunnskólakennara verði flutt af lið 02-215 Kennaraháskóli Íslands yfir á lið 02-720 Grunnskólar, almennt. Af þeim lið verða framlög ríkisins til þessa þáttar í rekstri grunnskóla greidd þeim menntastofnunum sem halda endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi kennara samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið.
884     Jöfnun á námskostnaði. Farið er fram á að fjárveiting til jöfnunar námskostnaðar verði aukin um 76,7 m.kr. Forsætisráðherra skipaði í september 1997 nefnd samkvæmt tilnefningu allra þingflokka til þess að fjalla um byggðamál í tengslum við breytingu á kjördæmaskipan. Meðal fjölmargra tillagna sem samstaða var um í nefndinni er að framlög til jöfnunar námskostnaðar verði aukin.
902     Þjóðminjasafn Íslands. Alls er gerð er tillaga um 23 m.kr. hækkun fjárveitinga til liðarins sem fari annars vegar til viðfangsefnisins 1.01 Þjóðminjasafn Íslands, 11 m.kr., og hins vegar til viðfangsefnisins 1.10 Byggða- og minjasöfn, 12 m.kr.
             Ætlunin er að veita safninu 5 m.kr. tímabundna fjárveitingu árið 2000 sem varið verði til að halda áfram Reykholtsrannsóknum en markmið þeirra er að kanna og afla nýrrar þekkingar um menningar- og minjasögu staðarins og einnig var þeim frá upphafi ætlað að styrkja atvinnulíf og búsetu í Reykholti.
              Þá verði 5 m.kr. varið til skráningar á gögnum þess í fjarvinnslu í tölvuskráningarkerfi sem nefnist Sarpur. Þjóðminjasafnið geri áætlun í samvinnu við þróunarsvið Byggðastofnunar um skipulag fjarvinnsluverkefna næstu árin en fyrstu umferð skráningar verði lokið á næstu fimm árum. Kerfið hefur verið unnið í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtæki og fengist hefur 12 m.kr. styrkur frá Rannsóknarráði Íslands sem greiðist á næstu þremur árum. Markmiðið með verkefninu er að staðla og samræma skráningu og leit að menningarsögulegum upplýsingum, bæta aðgengi að slíkum heimildum og að tryggja sem besta varðveislu menningarsögulegra gagna. Hluta innsláttar hentar að vinna í fjarvinnslu, þ.e. innslátt upplýsinga sem eru til handskrifaðar eða vélritaðar, en frumskráningu gagna þarf að vinna að mestu á safninu þar sem gripirnir eru geymdir.
             Einnig er óskað eftir 1 m.kr. tímabundnu framlagi til að halda áfram rannsóknum í Laxárdal í Nesjum en nýlegur uppgröftur þar hefur gefið sterkar vísbendingar um að þar sé að finna blótstað bænda.
             Gerð er tillaga um 12 m.kr. hækkun fjárveitinga til byggða- og minjasafna sem skiptist á þrjá staði. Í fyrsta lagi er lögð til 4 m.kr. hækkun til þess að ráða minjavörð til starfa á Norðurlandi vestra. Með gildistöku þjóðminjalaga í ársbyrjun 1990 var mörkuð sú stefna að starfsemi Þjóðminjasafnsins á landsbyggðinni skyldi efld með stofnun embætta minjavarða. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir 3 m.kr. tímabundnu framlagi til Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti sem verði varið til lokafrágangs nýrrar álmu safnsins og uppsetningu muna. Loks er lagt til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag í tengslum við það að Vesturbyggð er þátttakandi í menningarborg Evrópu. Fyrirhugað er að tengja menningardagskrá við unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Vestur-Barðastrandarsýslu um verslunarmannahelgina árið 2000 og gera landsmótið að fjölskylduhátíð.
903     Þjóðskjalasafn Íslands. Lagt er til veitt verði 0,5 m.kr. fjárveiting til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga vegna aukinna verkefna.
919     Söfn, ýmis framlög. Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag til nýs viðfangsefnis, 6.22 Sögusetrið á Hvolsvelli, til uppbyggingar þess.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Gert er ráð fyrir 18 m.kr. hækkun til liðarins. Lagt er til að fjárveitingar til Endurbótasjóðs menningarstofnana verði hækkaðar um 10 m.kr. Miðað er við að sú skerðing á mörkuðum tekjum sjóðsins sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu lækki jafnmikið. Fyrirhugað er að flytja breytingartillögu um það við 3. umræðu þegar 6. gr. frumvarpsins verður til umfjöllunar. Skipting liðarins er sýnd á sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið.
             Í öðru lagi er um að ræða 8 m.kr. tímabundna fjárveitingu sem er áframhaldandi stuðningur við uppbyggingu og endurbætur á húsinu Kaupvangi á Vopnafirði sem byggt er af sama byggingarmeistara og byggði Alþingishúsið. Húsið er talið hafa verulegt gildi fyrir sögu bæjarins og bæjarmyndina í heild. Unnið hefur verið að því í samvinnu við húsafriðunarnefnd að hefja endurbætur á húsinu og byggja það upp sem næst upprunalegu útliti.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lagt er til að framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands hækki um 4 m.kr. vegna hlutdeildar ríkisins í launahækkunum hljóðfæraleikara árið 2000 samkvæmt kjarasamningi.
982     Listir, framlög. Áformað er að hækka framlög til liðarins um 5 m.kr. Óskað er eftir 2,5 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.23 Bandalag íslenskra leikfélaga. Fjármunum bandalagsins er varið til sameiginlegra verkefna aðildarfélaganna, svo sem reksturs þjónustumiðstöðvar, útgáfu leiklistartímarits, námskeiðahalds o.fl. Bandalagið verður 50 ára á næsta ári og er fyrirhugað að gefa út sögu þess og halda veglega leiklistarhátíð á Akureyri í júní.
             Jafnframt er gerð tillaga um 2,5 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.24 Starfsemi atvinnuleikhópa sem renni til Bandalags sjálfstæðra leikhúsa. Mikill og stöðugur vöxtur hefur verið í starfi sjálfstæðu leikhúsanna síðasta áratuginn og sáu meira en 200.000 gestir sýningar þeirra síðasta leikár. Þá standa þau fyrir leikferðum milli leikskóla og grunnskóla og um landið allt og hefur starfið víðtæk atvinnuskapandi áhrif.
983     Ýmis fræðistörf. Lögð er til hækkun á viðfangsefninu 1.11 Styrkir til útgáfumála um 1,2 m.kr. og er sundurliðun fjárveitinga sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið.
             Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til að kaupa Íslendingasögur á ensku til að gefa erlendum bókasöfnum og stofnunum í tilefni af afmæli landafunda Leifs Eiríkssonar.
             Lagt er til að 8 m.kr. verði færðar af fjárlagalið Rannsóknarráðs Íslands á nýjan lið, 02- 983 1.17 Launasjóður höfunda fræðirita, þar sem óheppilegt er talið að blanda styrkveitingum saman við rekstur ráðsins vegna hættu á ógagnsæi í uppgjöri og óljósrar stöðu framlaga til sjóðsins í framtíðinni.
             Loks er lögð til 2,5 m.kr. tímabundin hækkun á viðfangsefninu 1.23 Hið íslenska bókmenntafélag til að styrkja starfsemi þess.
             Framlög til liðarins munu alls hækka um 21,7 m.kr.
984     Norræn samvinna. Óskað er eftir 2,5 m.kr. hækkun fjárveitingar vegna endurnýjunar samnings um menningarsamstarf við Færeyinga og Grænlendinga.
988     Æskulýðsmál. Óskað er eftir 4 m.kr. hækkun liðarins. Lögð er til 3 m.kr. hækkun fjárveitinga til Bandalags íslenskra skáta til að styrkja rekstur þess.
             Auk þess er lagt er til að Landssamband KFUM og KFUK fái 1 m.kr. hækkun á framlagi, en starfsstöðvum þess um landið hefur fjölgað og kostnaður aukist.
989     Ýmis íþróttamál. Til íþróttamála er áætlað að hækka framlög um 11 m.kr. Munar þar mestu um 10 m.kr. hækkun á framlagi til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands til að styrkja rekstur þess. Þannig gefst því meira svigrúm til að sinna málefnum sérsambanda, m.a. Körfuknattleikssambands Íslands sem farið hefur fram á styrk vegna Norðurlandsmóts karlalandsliða í körfuknattleik.
             Enn fremur er lögð til 1 m.kr. fjárveiting til Skáksambands Íslands vegna aukins umfangs í starfi sambandsins.
999     Ýmislegt. Ráðgerð er 16,9 m.kr. hækkun til liðarins. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar safnahúss í Búðardal sem færist á viðfangsefni 1.45 Eiríksstaðanefnd. Tillögur eru um sýningar og móttöku ferðamanna í gamla kaupfélagshúsinu.
             Þá er gerð tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Hestamiðstöðvar Íslands sem fyrirhugað er að komið verði á fót í Skagafirði. Er framlagið liður í byggðatengdu átaksverkefni um gæðastefnu, ræktun, tamningu, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins sem gert er ráð fyrir að verði styrkt í fimm ár. Í tillögum við aðra fjárlagaliði er gert ráð fyrir alls 20 m.kr. til viðbótar til verkefnisins, þar af eru 10 m.kr. á liðnum 04-891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði hjá landbúnaðarráðuneyti, 5 m.kr. á liðnum 10- 190 Ýmis verkefni hjá samgönguráðuneyti og 5 m.kr. á liðnum 11-299 Iðja og iðnaður, framlög hjá iðnaðarráðuneyti.
             Þá er lagt til að viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög hækki um 1,9 m.kr. Skipting þess er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans.

03 Utanríkisráðuneyti

101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa. Óskað er eftir 5,3 m.kr. fjárveitingu til aðalskrifstofunnar. Þar af eru 5 m.kr. ætlaðar til verkefna landafundanefndar og til að standa straum af ýmsum kostnaði í tengslum við þátttöku utanríkisráðuneytisins í verkefnum landafundanefndar árið 2000, bæði aukakostnaði aðalskrifstofu og sendiskrifstofa í Bandaríkjunum og Kanada. Utanríkisráðuneytið fékk á árinu 1999 3 m.kr. framlag frá landafundanefnd vegna kostnaðar á því ári en nefndin mun ekki leggja ráðuneytinu til meira fé og því er sótt um þessa fjárveitingu. Jafnframt er sótt um 0,3 m.kr. til að standa straum af væntanlegum kostnaði við þátttöku Íslands í starfi Norður-Suðurstofnunar Evrópuráðsins sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi 2. nóvember sl. að gerast aðili að.
190     Ýmis verkefni. Sótt er um 5 m.kr. framlag til reksturs Hafréttarstofnunar Íslands sem stofnuð var með sérstökum samningi á milli utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og rektors Háskóla Íslands 31. mars sl. Kostnaður er áætlaður 10 m.kr. á ári og skiptist hann jafnt á milli ráðuneytanna en háskólinn leggur til aðstöðu. Markmið stofnunarinnar er að bæta þekkingu á réttarreglum á sviði alþjóðlegs hafréttar, einkum hvað varðar auðlindanýtingu, afmörkun efnahagslögsögu og réttarstöðu einstakra hafsvæða. Stofnunin skal vera ráðgefandi og vinna að rannsóknum og er ráðgert að hún taki til starfa um næstu áramót.
201     Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Heildarhækkun til fjárlagaliðarins er áætluð 57,1 m.kr. og skiptist hún á þrjú viðfangsefni.
             Í fyrsta lagi er farið fram á 11,8 m.kr. framlag til viðfangsefnisins 1.10 Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli til að efla tollgæslu og fíkniefnavarnir með því að ráða þrjá tollverði. Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum án þess að teljandi fjölgun hafi orðið á tollvörðum og er talið nauðsynlegt að bregðast við því. Áætlað er að auka eftirlit á flughlöðum, þjónustu við flugvélar í fraktflugi og eftirlit með umferð vöru og fólks.
             Þá er óskað eftir 42,1 m.kr. fjárveitingu til liðarins 1.20 Ríkislögregla á Keflavíkurflugvelli. Er þar farið fram á 21 m.kr. til að koma til móts við vanda embættisins miðað við óbreyttan rekstur á næsta ári. Þennan vanda má einkum rekja til verulegrar aukningar á umferð fólks og vöruflutningum um Keflavíkurflugvöll sem kallar á aukna tollgæslu og öryggiseftirlit lögreglu. Þessu hefur m.a. verið mætt með ráðningu tveggja nýrra starfsmanna, mikilli fjölgun afleysingafólks á álagstímum og með mikilli yfirvinnu. Fyrirhugað er að þessi útgjaldaaukning, að fjárhæð 21 m.kr., verði að fullu fjármögnuð með hækkun vopnaleitargjalds úr 90 kr. í 125 kr. á hvern fullorðinn farþega sem fer frá Íslandi. Vopnaleitargjaldið er fært í fjárreiðum sem ríkistekjur sem renna til embættisins.
             Jafnframt því er 21,1 m.kr. fjárveiting ætluð til þess að ráða tíu lögreglumenn hjá ríkislögreglustjóra til að efla landamæraeftirlit í tengslum við skuldbindingar Íslands í Schengen-samningnum. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður á árinu 2001 verði ríflega 47 m.kr. Áætlað er að ráða smám saman í stöðurnar árið 2000.
             Loks er sótt um tímabundið framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður að upphæð 3,2 m.kr. Þar af verði 1 m.kr. varið til kaupa og þjálfunar á nýjum fíkniefnaleitarhundi og 2,2 m.kr. til að kaupa bifreið undir fíkniefnaleitarvél sem var keypt í fyrra fyrir 6 m.kr., en er vannýtt vegna þess að ekki er til bifreið til að flytja hana á milli embætta og stofnana þegar þurfa þykir. Ætlunin er að vélin nýtist fleirum en sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli.
303     Sendiráð Íslands í London. Sótt er um 12 m.kr. til leigu og reksturs á nýju skrifstofuhúsnæði hjá sendiráði Danmerkur fyrir sendiráð Íslands í London. Lóðarleigusamningur núverandi húsnæðis rennur út eftir fimm ár og er æskilegt að selja eftirstöðvar hans áður en hann verður verðlaus. Miðað er við að sendiráðið fái húsnæðið 1. maí nk. eftir gagngerar endurbætur sem verða að mestu kostaðar af Dönum, en leigukostnaður á ári verður 17,5 m.kr.
320     Sendiráð, almennt. Farið er fram á tímabundið framlag að fjárhæð 6 m.kr. til að endurnýja búnað sendiráðsins í London þegar það flytur í nýtt húsnæði. Um er að ræða endurnýjun á vinnuaðstöðu fyrir átta starfsmenn, þ.m.t. kaup á tækni- og skrifstofubúnaði fyrir fundarsal og sýningaraðstöðu.
401     Alþjóðastofnanir. Farið er fram á 0,7 m.kr. fjárveitingu á þessum fjárlagalið til að greiða aðildargjöld vegna þátttöku Íslands í starfi Norður-Suðurstofnunar Evrópuráðsins. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 2. nóvember sl. að gerast aðili að stofnuninni.

04 Landbúnaðarráðuneyti

221     Veiðimálastofnun. Gerð er tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til að sinna tilraunastarfi, þekkingaröflun og ráðgjöf um ræktun kræklings. Frumforsenda þess að kræklingaræktun verði að veruleika á Íslandi er að gera vandaðar tilraunir sem svari því hvort slík ræktun er raunhæf. Mikill áhugi hefur skapast hjá bændum á sjávarjörðum á Vesturlandi um þátttöku í slíku tilraunaverkefni.
261     Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til skólans hækki um 11,5 m.kr. Þar eru 7,5 m.kr. vegna lækkunar á sértekjum skólans. Þróun undanfarinna ára hefur verið sú að bæði þjónustutekjur og tekjur einstakra búgreina hafa lækkað.
             Einnig er gert ráð fyrir 4 m.kr. tímabundnu framlagi til almenns rekstrar skólans. Er annars vegar gert ráð fyrir 2 m.kr. til þess að mæta útgjöldum vegna skipulagsbreytinga við skólann í kjölfar nýrra búnaðarfræðslulaga og hins vegar 2 m.kr. til undirbúnings á framboði nýrra námsbrauta við háskólann.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 9 m.kr. hækkun framlags til Hólaskóla á viðfangsefninu 6.20 Fasteignir og lóðir. Þar er um að ræða 5 m.kr. tímabundið framlag til að hægt sé að hefja stækkun reiðskemmu og mæta þannig aukinni þörf fyrir aðstöðu til kennslu í hestamennsku og hrossarækt. Skólinn er miðstöð rannsókna á þessu sviði og stendur til að lengja námið og fjölga nemendum. Enn fremur er tillaga um 4 m.kr. tímabundið framlag til að ljúka við endurbyggingu skólahússins.
283     Garðyrkjuskóli ríkisins. Lagt er til að veittar verði 10 m.kr. tímabundið til nýs viðfangsefnis, 6.21 Fasteignir. Til stendur að byggja garðyrkjumiðstöð við skólann og verður þar öll fagþjónusta garðyrkju undir sama þaki, svo sem leiðbeiningarþjónusta, aðsetur ráðunauta, tilraunastjóra, Sambands garðyrkjubænda, endurmenntunarstjóra, svo og móttaka og skrifstofur kennara og skólastjóra.
331     Héraðsskógar. Lagt er til að 10 m.kr. verði millifærðar til Héraðsskóga af liðnum 3.41. Átak í landgræðslu og skógrækt. Fjárveitingin rennur til stækkunar Héraðsskógasvæðisins á Norður- og Austur-Héraði.
341     Átak í landgræðslu og skógrækt. Gerð er tillaga um 1 m.kr. tímabundið framlag til Landssamtaka skógareigenda til uppbyggingar á félagsstarfi samtakanna. Auk þess er lögð til 10 m.kr. millifærsla til Héraðsskóga af liðnum eins og fyrr er getið og lækkar því fjárveiting til hans um 9 m.kr.
343     Landshlutabundin skógrækt. Lögð er til breyting á heiti liðarins sem var Suðurlandsskógar en verður nú Landshlutabundin skógrækt. Liðurinn er hækkaður um 59 m.kr. alls sem renna til þriggja verkefna.
             Í fyrsta lagi er lagt til að veitt verði 17 m.kr. tímabundið framlag til nýs viðfangsefnis, 1.13 Vesturlandsskógar. Fjárveitingin er til undirbúnings og stofnsetningar Vesturlandsskóga.
             Í öðru lagi er gerð tillaga um 17 m.kr. tímabundið framlag til styrktar skógrækt á Vestfjörðum. Það er nýtt viðfangsefni, 1.15 Skjólskógar, Vestfjörðum.
             Að síðustu er ráðgert að veita 25 m.kr. tímabundið framlag til nýs viðfangsefnis, 1.16 Norðurlandsskógar. Megintilgangur Norðurlandsskóga er að stuðla að skóg- og skjólbeltarækt á Norðurlandi og treysta með því byggð og að fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni. Markmiðið er að gefa sem flestum kost á að taka þátt í verkefninu.
801     Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Hér er um að ræða 32 m.kr. lækkun. Lagt er til að beinar greiðslur til bænda vegna mjólkurframleiðslu lækki um 31 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Heildarframleiðslumark mjólkur dregst saman um 0,99%, eða um eina milljón lítra frá áætlun frumvarpsins. Jafnframt mun greiðsla til Lífeyrissjóðs bænda lækka um 1 m.kr.
891     Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Ráðgerð er 31 m.kr. hækkun liðarins. Annars vegar hækkar viðfangsefnið 1.14 Átak í hrossarækt um 25 m.kr. tímabundið framlag. Um er að ræða tvö verkefni. Annað er átaksverkefni á vegum Félags hrossabænda, Landssambands hestamannafélaga, Félags tamningamanna og Bændasamtaka Íslands. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðuneytið leggi 15 m.kr. á ári næstu fimm ár til þessa samstarfs, samtals 75 m.kr. Hitt átaksverkefnið er um gæðastefnu, ræktun, tamningu, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins. Gert er ráð fyrir 10 m.kr. árlegu framlagi til þess verkefnis næstu fimm ár, samtals 50 m.kr.
             Þá er lagt til að veitt verði tímabundið framlag að fjárhæð 6 m.kr. til stækkunar Einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey á viðfangsefninu 6.91 Ýmis stofnkostnaður. Aukinn innflutningur dýra veldur því að stöðin getur ekki sinnt nema hluta þeirra beiðna sem berast um innflutning gæludýra, en tímabundin einangrun er forsenda þess að innflutningsleyfi fáist.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði 3 m.kr. tímabundið framlag viðfangsefnis 1.21 Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla til styrktar sjóvinnukennslu unglinga sem fram fer í skólaskipinu Haftindi. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg og í gildi er samningur félagsþjónustu Reykjavíkur og Haftinds um starfsþjálfun ungmenna.
             Gerð er tillaga um 26 m.kr. hækkun á framlagi til viðfangsefnisins 1.90 Ýmislegt til fjögurra verkefna. Í fyrsta lagi er tímabundið framlag að fjárhæð 15 m.kr. til að kynna erlendis sjónarmið Íslendinga varðandi sjálfbærar veiðar úr hvalastofnum.
             Þá er farið fram á 5 m.kr. framlag til reksturs Hafréttarstofnunar Íslands sem stofnuð var með sérstökum samningi utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og rektors Háskóla Íslands 31. mars sl. Kostnaður er áætlaður 10 m.kr. á ári og skiptist hann jafnt á milli ráðuneytanna, en háskólinn leggur til aðstöðu. Markmið stofnunarinnar er að bæta þekkingu á réttarreglum á sviði alþjóðlegs hafréttar, einkum hvað varðar auðlindanýtingu, afmörkun efnahagslögsögu og réttarstöðu einstakra hafsvæða. Stofnunin skal vera ráðgefandi og vinna að rannsóknum. Ráðgert er að hún taki til starfa um næstu áramót.
             Í þriðja lagi er lagt til að veitt verði 4 m.kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir ályktun Alþingis frá árinu 1997 um könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu í Arnarfirði annars vegar og í Húnaflóa hins vegar. Gert er ráð fyrir 2 m.kr. á hvorn stað.
             Loks er lagt til að High North Alliance verði veitt 2 m.kr. tímabundið framlag til áframhaldandi kynningar á sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar, einkum til að auka skilning umheimsins á nýtingu á sel og hval.
202     Hafrannsóknastofnunin. Á viðfangsefninu 6.90 Tæki og búnaður deilda og útibúa er sótt er um 4 m.kr. tímabundið framlag til að breyta leiguhúsnæði Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í Faxaskála og er gert ráð fyrir að flytja hluta almennrar starfsemi stofnunarinnar í það húsnæði.

06 Dómsmálaráðuneyti

210     Héraðsdómstólar. Alls er lögð til 5,5 m.kr. hækkun fjárveitingar á þessum lið. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 2,5 m.kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 1.01 Héraðsdómstólar fyrir sérstaka bakvakt dómara vegna yfirheyrslna yfir börnum á rannsóknarstigi vegna kynferðisafbrota. Kveðið er á um slíka bakvakt í nýjum ákvæðum í lögum um meðferð opinberra mála. Er lagt til að komið verði upp sérstakri bakvakt fimm héraðsdómara til að sinna yfirheyrslum yfir börnum á rannsóknarstigi.
             Í annan stað er gerð tillaga um 3 m.kr. tímabundið framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður til að koma upp sérútbúinni aðstöðu fyrir skýrslutökur af börnum í kjölfar breytinga á lögum um meðferð opinberra mála sem tóku gildi 1. maí 1999. Oftast er nauðsynlegt að skýrslutökur af börnum vegna meintra kynferðisbrota fari fram í sérútbúinni aðstöðu þar sem réttargæslumaður, verjandi, sakaður maður o.fl. hafi tök á að fylgjast með því sem fram fer í yfirheyrsluherbergi. Slíka aðstöðu með viðeigandi tækjabúnaði vantar við aðra dómstóla en Héraðsdóm Reykjavíkur. Er lagt til að slíkri aðstöðu með viðeigandi tækjabúnaði verði komið upp á Akureyri og í Hafnarfirði.
303     Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að liðurinn lækki alls um 22 m.kr. og verða breytingar á fjórum viðfangsefnum.
             Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 26 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.01 Ríkislögreglustjóri. Þar er lögð til hækkun á framlagi til embættis ríkislögreglustjóra um 19,5 m.kr. vegna hærri leigu- og rekstrargjalda embættisins í nýju húsnæði. Fyrirhugað er að embættið flytjist úr Auðbrekku 6 í Kópavogi í annað húsnæði við Skúlagötu 21 í Reykjavík en við þá breytingu verður öll aðstaða embættisins til fyrirmyndar. Leiga á ári að viðbættum auknum rekstrarkostnaði við stækkun húsnæðisins verður tæplega 21 m.kr. Á móti fellur niður um 1,2 m.kr. kostnaður vegna fasteignagjalda af eldra húsnæði í Auðbrekku. Tillagan miðast við að embættið flytji í nýja húsnæðið 1. mars árið 2000 og þurfi að greiða leiguna frá þeim tíma.
             Þá er gerð tillaga um að hækka framlag um 4 m.kr. til að fjölga starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um einn vegna verkefna sem tengjast rannsóknum á fíkniefnamálum.
             Loks er lagt til að framlag til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra verði hækkað um 2,5 m.kr. vegna samstarfsverkefna við erlend lögreglulið auk ferða og aðkeyptrar sérfræðiþjónustu í tengslum við rannsókn stórra mála sem teygja anga sína út fyrir landsteinana. Sem dæmi um slík mál má nefna nýlegt málverkafölsunarmál, rannsókn flókinna tollalagabrota o.fl.
             Viðfangsefnið 1.11 Rekstur lögreglubifreiða er nýtt. Á þessu ári var tekin upp sú nýbreytni að ríkislögreglustjóri annast rekstur lögreglubifreiða á landsvísu og leigir löggæsluembættunum bifreiðarnar. Embætti ríkislögreglustjóra sér þá um og kostar allt viðhald á bifreiðunum en löggæsluembættin greiða á móti leigu fyrir afnotin. Með leigutekjunum er annars vegar séð fyrir viðhalds- og rekstrarkostnaði og hins vegar fyrir endurnýjun bifreiðanna. Við það er miðað að rekstur og kaup á lögreglubifreiðum standi undir sér. Leigugjaldið verður endurskoðað árlega í ljósi útgjalda og sölutekna af bifreiðum til að tryggja að leigu- og sölutekjurnar samsvari útgjöldunum. Myndist halli eða afgangur af rekstri bifreiðanna færist sá mismunur yfir á næsta fjárhagsár og kemur til skoðunar við ákvörðun um kaup á nýjum bifreiðum og endurskoðun leigutekna. Sams konar fyrirkomulag á bifreiðarekstri hefur verið notað hjá Vegagerðinni og fleiri aðilum um langt árabil og hefur þótt gefa góða raun.
             Í tengslum við þessa útleigu á lögreglubifreiðum er gerð tillaga á tveimur viðfangsefnum embættisins um alls 197 m.kr. útgjöld sem fjármögnuð verði með jafnháum sértekjum. Þar af færast 112 m.kr. útgjöld á nýtt viðfangsefni, 1.11 Rekstur lögreglubifreiða, en á móti koma 185,5 m.kr. sértekjur af leigu bifreiðanna samkvæmt gjaldskrá. Tekjuafganginum, eða 73,5 m.kr., verður varið til að mæta útgjöldum við kaup á nýjum bifreiðum, 85 m.kr., umfram sölu á notuðum bifreiðum, 11,5 m.kr. Sá stofnkostnaður færist á viðfangsefnið 6.11 Bifreiðar. Með þeim breytingum sem þessar tillögur gera ráð fyrir verða fjárveitingar þessara tveggja viðfangsefna eins og sýnt er í eftirfarandi töflu í m.kr.:

Gjöld Tekjur Mismunur
06-303 1.11 Rekstur bifreiða 112,0 -185,5 73,5
06-303 6.11 Bifreiðar 85,0 -11,5 -73,5
Alls 197,0 197,0 0,0

             Í tengslum við þessar tillögur er einnig gert ráð fyrir 64 m.kr. fjárheimild sem ætluð er til að mæta kostnaði löggæsluembætta af leigugjöldum fyrir bifreiðarnar umfram það sem þau hafa greitt í bifreiðarekstur af eigin fjárveitingum undanfarin ár. Sú fjárheimild er færð á viðfangsefnið 06-490 1.10 Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Gert er ráð fyrir að þeirri fjárheimild verði skipt niður á löggæsluembætti í samræmi við sérstök yfirlit I með breytingartillögum meiri hlutans.
             Lögð er til 7 m.kr. hækkun framlaga á viðfangsefninu 6.01 Tæki og búnaður. Gerð er annars vegar tillaga um 2 m.kr. tímabundna hækkun fjárveitingar til embættisins á árinu 2000 í því skyni að efla fíkniefnalöggæslu með fíkniefnaleitarhundi. Um er að ræða kostnað bæði af kaupum á hundi og þjálfun hans. Unnt verður að nota hundinn til sérstakra verkefna hjá mismunandi embættum en ríkislögreglustjóri skipuleggur notkun fíkniefnaleitarhunda.
             Hins vegar er lagt til að veittar verði 5 m.kr. vegna kostnaðar við að taka öndunarsýni hjá ökumönnum til að varna ölvunarakstri. Kostnaður við hvert sýni er talinn nema 6.500 kr. og er hann endurkrafinn af þeim ökumönnum sem dæmdir eru eða undirgangast sátt fyrir ölvunarakstur. Gjaldið rennur í ríkissjóð. Nokkur óvissa ríkti um tíma varðandi áreiðanleika öndunarsýna, en eftir dóm Hæstaréttar þar að lútandi er nú viðurkennt að þessi aðferð teljist fullgild við ákvörðun á því hvort ökumaður sé ölvaður eða ekki. Hefur notkun aðferðarinnar nú hafist af krafti.
             Lagðar eru til breytingar á viðfangsefninu 6.11 Bifreiðir sem fyrr greinir. Lagt er til að fjárheimild til bifreiðakaupa hækki um 21 m.kr. og verða þá alls 85 m.kr. til ráðstöfunar á næsta ári. Um er að ræða hluta af fjárheimildum í tengslum við útleigu embættisins á lögreglubifreiðum. Miðað er við að heildarútgjöldin, bæði rekstur og stofnkostnaður, standi undir sér með sértekjum af leigugjöldum og sölu notaðra bifreiða. Nánari skýringar á þessari tilhögun er að finna með tillögu við viðfangsefnið 1.11 Rekstur bifreiða. Áætlun um kaup á nýjum lögreglubifreiðum miðast við að lögreglubifreiðar verði ekki eldri en fimm ára. Með því móti verður árleg endurnýjunarþörf um 85 m.kr. og verður hún fjármögnuð annars vegar með leigutekjum frá löggæsluembættum og hins vegar með sölu bifreiða.
             Þá er gert ráð fyrir að tekjur af sölu notaðra lögreglubifreiða hækki um 2,5 m.kr. frá því sem miðað er við í frumvarpinu. Reiknað er með örari endurnýjun lögreglubifreiða þannig að þær verði þar með í betra ásigkomulagi við sölu og seljist á hærra verði. Viðfangsefnið hækkar því alls um 18,5 m.kr.
305     Lögregluskóli ríkisins. Farið er fram á 15 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði við að útskrifa fleiri lögreglumenn úr lögregluskólanum. Fyrirhugað er að endurskipuleggja nám lögreglunema með því að stytta þjálfunartíma þeirra en þeir eru nú á fyrri námsönn að vori, vinna í 8–12 mánuði og koma síðan á seinni námsönn að hausti. Með því að stytta þjálfunartíma í fjóra mánuði og breyta fyrirkomulagi hans verður hægt að mennta lögreglumenn á einu ári. Úrbætur í löggæslu í landinu eru mjög háðar því að hægt verði að fjölga lögreglumönnum og mæta fækkun í lögregluliði sem verður vegna aldurs lögreglumanna. Með þessari breytingu yrðu útskrifaðir 64 lögreglumenn á næsta ári en 32 á ári eftir það. Varanlegur kostnaðarauki við breytta tilhögun helgast að mestu af því að skólinn tæki að sér að greiða lögreglunemum grunnlaun og fylgja þeim eftir á þjálfunartíma í stað þess að ráða þá sem almenna afleysingamenn að löggæsluembættunum.
311     Lögreglustjórinn í Reykjavík. Lögð er til 8,5 m.kr. hækkun fjárveitinga til almenns rekstrar hjá lögreglustjóranum í Reykjavík sem skýrist annars vegar af 20 m.kr. viðbótarframlagi til embættisins til þess að fjölga lögreglumönnum í Reykjavík um fimm. Stöðurnar eru ætlaðar til fíkniefnalöggæslu, aukins götueftirlits, grenndarlöggæslu og til að efla samstarf við nágrannaumdæmi.
             Hins vegar er lagt er til að millifærðar verði 11,5 m.kr. frá lögreglustjóranum í Reykjavík á nýtt viðfangsefni hjá embætti ríkislögreglustjóra, 1.11 Rekstur lögreglubifreiða, eins og fram kom í skýringum við það.
341     Áfengis- og fíkniefnamál. Gerð er tillaga um 12 m.kr. hækkun á fjárveitingu til þessa fjárlagaliðar. Annars vegar er um 2 m.kr. framlag að ræða til viðfangsefnis 1.25 Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála til að styðja við sérstök verkefni sem tengjast fíkniefnalöggæslu. Sérstök áhersla verður lögð á aukna þjálfun lögreglumanna til þess að takast á við fíkniefnabrot og að unnt verði að byggja upp slíka þekkingu til kennslu í lögregluskólanum.
             Hins vegar er gerð er tillaga um tímabundið framlag að fjárhæð 10 m.kr. á árinu 2000 sem ætlað er til kaupa á tækjabúnaði til að bæta og auka við þann búnað lögreglunnar í Reykjavík og annarra löggæsluembætta sem sérstaklega er ætlaður til fíkniefnarannsókna.
429     Sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði. Lagt er til að framlag til sýslumannsembættisins á Höfn í Hornafirði, viðfangsefni 1.20 Löggæsla, verði hækkað um 1,7 m.kr. vegna fyrirhugaðra úrbóta á húsnæði fyrir lögreglu en núverandi húsnæði er þröngt og óhentugt. Gert er ráð fyrir að embættið leigi stóran hluta fyrstu hæðar ráðhúss bæjarins þar sem það er nú þegar með aðstöðu og fái að auki afnot af bílageymslu sem var nýtt sem slökkvistöð. Breytingin leiðir til um 1,5 m.kr. hærri leigugjalda og um 0,2 m.kr. hærri rekstrarkostnaðar.
430     Sýslumaðurinn í Vík í Mýrdal. Lagt er til að fjárveitingar til sýslumannsins í Vík í Mýrdal hækki um 3 m.kr. til að hægt verði að bæta við lögreglumanni í umdæminu og yrði hann staðsettur í Vík.
433     Sýslumaðurinn á Selfossi. Lagt er til að veitt verði 4 m.kr. fjárveiting til að standa undir útgjöldum af nýju starfi fíkniefnalögreglumanns við embættið. Með fjölgun fíkniefnalögreglumanna hjá embættum í nágrenni Reykjavíkur er stefnt að eflingu skipulegs samstarfs sem ríkislögreglustjóri hefur komið á milli lögregluliða á suðvesturhorninu í baráttunni gegn fíkniefnabrotum.
434     Sýslumaðurinn í Keflavík. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til að mæta útgjöldum af nýju starfi fíkniefnalögreglumanns við embættið en hér er um að ræða framhald af sérstöku átaki í fíkniefnavörnum í Reykjanesbæ sem veittar voru 2 m.kr. til í fjárlögum þessa árs. Með fjölgun fíkniefnalögreglumanna hjá embættum í nágrenni Reykjavíkur er stefnt að eflingu skipulegs samstarfs sem ríkislögreglustjóri hefur komið á milli lögregluliða á suðvesturhorninu í baráttunni gegn fíkniefnabrotum.
437     Sýslumaðurinn í Kópavogi. Gerð er tillaga um 9 m.kr. hækkun framlaga embættisins og er hún af tvennum toga. Í fyrsta lagi er lagt til að framlag til yfirstjórnar verði aukið um 5 m.kr. í ljósi mikillar fólksfjölgunar og samsvarandi fjölgunar verkefna undanfarin ár hjá embættinu. Á síðasta ári fjölgaði íbúum í Kópavogi um rúmlega 1.500 og frá 1992 hefur íbúum fjölgað um rúmlega 4.500. Fjárveitingar hafa hins vegar ekki hækkað að raungildi. Framlag vegna þessa var hækkað um 2,5 m.kr. í fjárlagafrumvarpinu en í ljós hefur komið að sú hækkun mun ekki duga til og því er þessi viðbót lögð til.
             Í annan stað er lagt til að veitt verði 4 m.kr. fjárveiting til að standa undir útgjöldum við nýtt starf fíkniefnalögreglumanns við embættið. Með fjölgun fíkniefnalögreglumanna hjá embættum í nágrenni Reykjavíkur er stefnt að eflingu skipulegs samstarfs sem ríkislögreglustjóri hefur komið á milli lögregluliða á suðvesturhorninu í baráttunni gegn fíkniefnabrotum.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Gerð er tillaga um 64 m.kr. fjárheimild á viðfangsefninu 1.10 Ýmis sameiginlegur kostnaður undir þessum fjárlagalið. Sú fjárheimild er ætluð til að mæta kostnaði löggæsluembætta vegna leigu á lögreglubifreiðum frá embætti ríkislögreglustjóra umfram það sem þau hafa greitt í bifreiðarekstur af eigin fjárveitingum undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að fjárheimildinni verði skipt niður á löggæsluembætti í samræmi við sérstök yfirlit I með breytingartillögum meiri hlutans. Á móti fjárheimildinni koma jafnháar sértekjur af leigugjöldum hjá embætti ríkislögreglustjóra þannig að greiðsla úr ríkissjóði hækkar ekki. Nánari skýringar á þessari nýju tilhögun á rekstri lögreglubifreiða er að finna með tillögu við viðfangsefnið 1.11 Rekstur bifreiða undir liðnum 06-303 Ríkislögreglustjóri.
             Þá er gerð tillaga um að hækka framlag til viðfangsefnisins 1.60 Gagnalínukostnaður um 5,9 m.kr. vegna samkomulags dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Hagstofu Íslands um aðgang embætta dómsmálaráðuneytisins að hlutafélagaskrá og að þjóðskrá og daglegri uppfærslu hennar hjá þeim embættum. Í fjárlagafrumvarpinu eru felldar niður fjárheimildir á þessum lið þar sem ekki hafði verið tekið upp nýtt fyrirkomulag í samræmi við fjárlög ársins 1999 en nú hefur það gengið eftir. Samkvæmt samkomulaginu skal dómsmálaráðuneytið greiða Hagstofunni 3,2 m.kr. á næsta ári fyrir þjóðskrána, 4,2 m.kr. á árinu 2001 og 5 m.kr. árið 2002 og framvegis. Gjöld vegna afnota embættanna af hlutafélagaskrá eru áætluð 2,7 m.kr. á ári. Gera má ráð fyrir að tekjur Hagstofunnar hækki að sama skapi.
491     Húsnæði og búnaður sýslumanna. Gerð er tillaga um 10 m.kr. hækkun á framlagi vegna húsnæðis sýslumannsins í Stykkishólmi. Annars vegar er sótt um 5 m.kr. framlag til viðhalds á húsnæði Ólafsvíkurútibús sýslumannsins. Á síðasta ári var gengið frá kaupum ríkissjóðs á efri hæð húss þar sem sýsluskrifstofur og lögreglustöð hafa verið til húsa. Framkvæmdasýsla ríkisins lagði frummat á kostnað við viðhald og endurbætur á húsnæðinu. Sá kostnaður var talinn nema 16,5 m.kr. Húsnæðið verður fært í umsjá Fasteigna ríkissjóðs um næstu áramót. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir mun meiri kostnaði enda kom í ljós að húsið þarfnast viðhalds að utan sem ekki var í áætlun Framkvæmdasýslunnar.
             Heildarkostnaðaráætlun vegna nýbyggingar sýsluskrifstofu og lögreglustöðvar í Stykkishólmi sem samþykkt var hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir var án búnaðarkaupa, tölvulagna o.fl. Samkvæmt áætlun Framkvæmdasýslu ríkisins er talið að kostnaðarauki af þessu nemi um 8 m.kr. en hér er gerð tillaga um 5 m.kr. og gert ráð fyrir að embættið nýti núverandi innanstokksmuni eins og kostur er.

07 Félagsmálaráðuneyti

101     Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Farið er fram á 0,9 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.01 Yfirstjórn. Annars vegar er um að ræða 4 m.kr. hækkun til kærunefnda fjöleignarhúsamála og húsaleigumála sem gert er ráð fyrir að flytjist frá Íbúðalánasjóði til aðalskrifstofu. Húsnæðisstofnun ríkisins greiddi kostnað af starfsmanni þessara nefnda en í áætlun Íbúðalánasjóðs er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn kosti störf nefndanna.
             Á hinn bóginn er lagt til að 3,1 m.kr. fjárveiting til starfsemi fjölskylduráðs verði færð af liðnum á 07-999 1.46 Fjölskylduráð sem nýtt viðfangsefni.
302     Ríkissáttasemjari. Farið er fram á 3,5 m.kr. hækkun liðarins. Hluti hennar, eða 1,5 m.kr., er ætlaður til hækkunar á rekstrarútgjöldum embættis ríkissáttasemjara. Með flutningi embættisins í nýtt húsnæði á næsta ári þarf að gera ráð fyrir auknum húsnæðiskostnaði.
             Einnig er farið fram á 2 m.kr. tímabundið framlag til embættis ríkissáttasemjara til kaupa á búnaði og tækjum í nýtt húsnæði á viðfangsefnið 6.01 Tæki og búnaður. Í áætlun embættisins er gert ráð fyrir að kostnaður af búnaði og tækjakaupum nemi 6,5 m.kr. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir að 4,5 m.kr. greiðist af rekstrarafgangi ársins 1999 og er því sótt um 2 m.kr. viðbótarframlag á árinu 2000.
311     Jafnréttisráð. Lagt er til að tímabundið framlag til nefndar um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum verði hækkað um 0,8 m.kr. og verði þannig alls 5 m.kr. Nefndin var skipuð af félagsmálaráðherra árið 1998 og gert ráð fyrir starfsemi á hennar vegum í fimm ár.
400     Barnaverndarstofa. Farið er fram á 20 m.kr. framlag til reksturs meðferðarstöðvar Virkisins á Kjalarnesi í samræmi við tillögur um aukið framlag til fíkniefnavarna. Forsenda fjárveitingar er gerð þjónustusamnings sem m.a. feli í sér skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veitt er, en auk þess ákvæði um fjárhagslegt og faglegt eftirlit með starfseminni. Miðað er við að samningum verði lokið fyrir 1. mars nk.
700    Málefni fatlaðra. Fyrirhuguð hækkun til liðarins er samtals 14,6 m.kr. á viðfangsefninu 1.90 Ýmis verkefni. Í fyrsta lagi er óskað eftir 4,6 m.kr. tímabundnu framlagi vegna framkvæmda við handverkshús Ásgarðs í Lækjarbotnum, en húsið er aðflutt timburhús sem verið er að breyta og byggja við.
             Í öðru lagi er gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til þess að greiða fyrir endurnýjun samninga við sveitarfélög og sjálfseignarstofnanir sem annast þjónustu við fatlaða. Í fjárlagafrumvarpinu eru 27 m.kr. til ráðstöfunar í þessu skyni.
981    Vinnumál. Nefnd sem forsætisráðherra skipaði til að móta tillögur um stuðning stjórnvalda við handverksgreinar leggur til að veitt verði árlega 13 m.kr. framlag tímabundið í fjögur ár og að hlutur félagsmálaráðuneytis verði 3,3 m.kr. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru forsætisráðuneyti og Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Markmið verkefnisins er að stuðla að viðvarandi vexti handverks, að bæta menntun og þekkingu handverksfólks og efla gæðavitund í greininni. Farið er fram á sömu fjárhæð í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1999, þ.e. 3,3 m.kr.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi. Ráðgerð er 31,1 m.kr. hækkun til liðarins og skiptist hún á eftirfarandi átta viðfangsefni. Fyrir það fyrsta er ætlunin að hækka framlög til viðfangsefnisins 1.31 Félagasamtök, styrkir um 2,5 m.kr. Skipting fjárveitinganna er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans.
             Þá er lögð til 2,5 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Samtaka um kvennaathvarf til að koma til móts við aukinn launakostnað og viðhaldskostnað á húsnæði athvarfsins.
             Gerð er tillaga um 4,6 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Stígamóta en þar hefur bæst við eitt stöðugildi fræðslu- og kynningarfulltrúa. Þá hafa samtökin stofnað sjálfshjálparhópa fyrir börn og unglinga og stefnt er að því að mynda sjálfshjálparhópa fyrir þroskaheftar konur. Sérstakt verkefni verður unnið í tilefni tíu ára afmælis Stígamóta.
             Farið er fram á 10 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til endurhæfingarheimilis Krossgatna til að styrkja frekar rekstur þess. Starfsemi samtakanna hefur aukist ár frá ári og er eftirspurnin meiri en hægt er að anna.
             Lagt er til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag í eitt skipti til að mæta tekjutapi Byrgisins vegna óvæntra tafa á því að meðferðarstöðin í Rockville kæmist í gagnið. Framlagið er í samræmi við tillögur um aukið framlag til fíkniefnavarna. Forsenda fjárveitingarinnar er að samningi Byrgisins við utanríkisráðuneytið um afnot af aðstöðunni í Rockville verði framfylgt.
             Fyrirhugað er að 3,1 m.kr. fjárveiting til starfsemi fjölskylduráðs verði færð af lið 07- 101 1.01 Yfirstjórn á 07-999 1.46 Fjölskylduráð sem er nýtt viðfangsefni eins og fyrr segir.
             Gerð er tillaga um 1,4 m.kr. fjárveitingu til að styrkja starf prests sem þjónar nýbúum án tillits til trúar eða þjóðernis og starfar með félagsráðgjöfum Félagsstofnunar Reykjavíkurborgar og færist hún á viðfangsefnið 1.47 Félagsþjónusta við nýbúa.
             Að síðustu er gerð tillaga um að viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög hækki tímabundið um 2 m.kr. og framlagið verði veitt hjónum til að annast tvö alvarlega veik börn sín.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201     Tryggingastofnun ríkisins. Farið er fram á 16 m.kr. fjárveitingu vegna hækkunar á útseldri vinnu tölvu- og kerfisfræðinga umfram almennar verðlagshækkanir. Nær helmingur af öðrum gjöldum Tryggingastofnunar ríkisins er rekstur á upplýsingakerfum þar sem taxtahækkun á útseldri vinnu tölvu- og kerfisfræðinga vegur þungt.
203     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Lögð er til 76,3 m.kr. hækkun á liðnum. Annars vegar er lagt til að framlög til heimilisuppbótar lækki um 30 m.kr. Í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999 hafa forsendur ársins 2000 breyst og áætlun um heimilisuppbót er lækkuð um 30 m.kr.
             Hins vegar hækkar viðfangsefnið 1.51 Uppbætur um 106,3 m.kr. Þar er í fyrsta lagi lagt til að 8,5 m.kr. færist á óskiptan lið daggjaldastofnana til að breyta dvalarrými í hjúkrunarrými. Í öðru lagi er lagt til að 33,8 m.kr. verði fluttar til Hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri vegna áforma um breytingu dvalarrýmis í hjúkrunarrými. Loks er farið fram á 148,6 m.kr. óskipt framlag til að standa undir hækkun á daggjöldum dvalarheimila. Eftir að vistunarmat fyrir einstaklinga var tekið upp hefur hjúkrunarþyngd heimilanna aukist og hækkað rekstrarkostnað þeirra. Öll dvalarheimili fá greitt sama daggjaldið fyrir vistmenn sína en daggjald hefur ekki tekið mið af hjúkrunarþyngd.
204     Lífeyristryggingar. Gerð er tillaga um að framlög til lífeyristrygginga lækki um 80 m.kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Þar er annars vegar lagt til að framlög til tekjutryggingar ellilífeyrisþega lækki um 50 m.kr. og hins vegar að framlög til fæðingarorlofs lækki um 30 m.kr.
206     Sjúkratryggingar. Gerð er tillaga um hækkun framlaga á þremur viðfangsefnum undir þessum lið sem nemur alls 171,1 m.kr. Í fyrsta lagi er lögð til 21,1 m.kr. hækkun á framlögum til lækniskostnaðar og skýrist hún af tvennu. Annars vegar er farið fram á að framlögin hækki um 40 m.kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Hins vegar er gert ráð fyrir 18,9 m.kr. lækkun í kjölfar nýs samnings sem liggur fyrir við Krabbameinsfélag Íslands. Í honum er gert ráð fyrir að tveir fyrri samningar, þ.e. verksamningur Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 30. apríl 1992, og samningur Krabbameinsfélags Íslands við Tryggingastofnun ríkisins, dags. 31. janúar 1995, verði felldir saman í einn. Við þetta falla niður sérstakar greiðslur Tryggingastofnunar fyrir rannsóknir og sérskoðanir sem námu 18,9 m.kr. árið 1999.
             Þá er farið fram á að fjárveiting til hjálpartækjakaupa verði hækkuð um 30 m.kr. í ljósi útgjalda fyrstu tíu mánuði ársins 1999. Af sömu ástæðu er lagt til að framlög til þjálfunar hækki um 100 m.kr. og að framlög til sjúkradagpeninga hækki um 20 m.kr.
301     Landlæknir. Lagt er til að landlæknisembættið fái 5 m.kr. fjárveitingu til að stofna forvarnastöð með rannsóknir, fræðslu og ráðgjöf sem meginverkefni. Gert verður ráð fyrir stöðugildi rannsóknarmanns á forvarnastöð.
324     Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Óskað er eftir 8 m.kr. tímabundinni hækkun á fjárveitingum til kaupa á heyrnartækjum til að stytta biðtíma eftir þeim en hann er nú er allt að níu mánuðir.

Sjúkrastofnanir.
             Lagt er til að veitt verði 1.444,3 m.kr. hækkun á framlögum til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og samrekinna heilbrigðisstofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla stofnananna til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Sú hækkun á fjárveitingu sem hér er lögð til gerir stjórnendum kleift að samræma rekstrarkostnað við fjárheimildir ársins 2000. Framlagið er veitt með því skilyrði að stjórnendur stofnananna geri samning við heilbrigðisráðuneyti um að rekstur þeirra verði innan fjárheimilda árið 2000 og ákvæði í samningi verði í samræmi við það sem fram kemur um skipan þessara mála í inngangi. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að fjárveitingin verði felld niður með fjáraukalögum ársins 2000. Nánar er fjallað um þetta í inngangi en eftirfarandi er listi yfir stofnanir og framlag til hverrar um sig.

         Stofnun
M.kr.

        358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri          55,0
        371     Ríkisspítalar          675,0
         375     Sjúkrahús Reykjavíkur          210,0          
        400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði
         24,0
        505     Heilsugæsla í Reykjavík          60,0
        522     Heilsugæslustöðin Borgarnesi          5,9
        524     Heilsugæslustöðin Ólafsvík          1,8
         Stofnun
M.kr.     

        525
     Heilsugæslustöðin Grundarfirði          1,2
         526     Heilsugæslustöðin Búðardal          0,4
        552
     Heilsugæslustöðin Dalvík          2,3
        558
     Heilsugæslustöðin Norður-Þingeyjarsýslu          8,9
        574
     Heilsugæslustöðin Rangárþingi          2,4
         579     Heilsugæslustöðin Þorlákshöfn          0,4
        582
     Heilsugæslustöðin Hafnarfirði          5,7
        583
     Heilsugæslustöðin Garðabæ          5,6
         584     Heilsugæsla í Kópavogi          15,3
        585
     Heilsugæslustöðin Seltjarnarnesi          11,6
        586
     Heilsugæslustöðin Mosfellsbæ          6,9
        711
     Heilbrigðisstofnunin Akranesi          55,0
        715
     St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi          9,9
        721     Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði          5,0
        725     Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ          16,0
        731     Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík          3,0
        735
     Heilbrigðisstofnunin Hólmavík          3,0
        741     Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga          6,0
        745
     Heilbrigðisstofnunin Blönduósi          11,0
        751     Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki          11,0
        755
     Heilbrigðisstofnunin Siglufirði          11,0
        761     Heilbrigðisstofnunin Húsavík          20,0
        777     Heilbrigðisstofnun Austurlands          66,0
        781     Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum          26,0
        785     Heilbrigðisstofnunin Selfossi          53,0
        791     Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum          56,0

             Þá er lögð til 134,3 m.kr. hækkun á framlögum til hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Fjárhæðin er byggð á mati í samræmi við svonefnda RAI-hjúkrunarþyngdarstuðla. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla stofnananna til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Stjórnendum þeirra er ætlað að halda rekstri þeirra innan daggjalda sem hér eru lögð til árið 2000. Stefnt er að því að gera samninga við þær stofnanir sem enn er ósamið við um þjónustuna og greiðslu daggjalda úr ríkissjóði og framlög notenda fyrir hana. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að daggjöld verði óbreytt frá því sem miðað er við í frumvarpinu. Eftirfarandi listi sýnir stofnanir og framlag til hverrar um sig.            

         Stofnun
M.kr.

        368     Sólvangur, Hafnarfirði          27,3
        411
     Garðvangur, Garði          6,0
        412     Hjúkrunarheimilið Skógarbær          14,5
        414     Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu          0,6
        415     Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði          0,4
        416
     Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði          0,5
         Stofnun
M.kr.

        417
     Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn          0,1
        421     Víðines          2,7
        430     Sjálfsbjörg, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun          1,8
        432     Vistheimilið Bjarg          0,4
        435     Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða          5,3
        490     Vistun ósakhæfra afbrotamanna          8,5
        495     Daggjaldastofnanir
                        1.11    Seljahlíð, Reykjavík
         2,5
                        1.19    Hjallatún, Vík          1,2
                         1.21    Höfði, Akranesi          24,8
                        1.23    Hraunbúðir, Vestmannaeyjum          2,5
                        1.25    Barmahlíð, Reykhólum          1,3
                        1.27    Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi          2,4
                        1.29    Fellaskjól, Grundarfirði          0,8
                        1.33    Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi          1,2
                         1.35    Jaðar, Ólafsvík          0,6
                         1.37    Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri          16,7
                         1.47    Ás/Ásbyrgi, Hveragerði          8,1
                        1.49    Kumbaravogur, Stokkseyri          2,5
                        1.81    Hjúkrunarheimili í Garðabæ          1,6

358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Lögð er til 37 m.kr. hækkun framlags til stofnunarinnar. Þar af eru 6,5 m.kr. til ísótóparannsókna, 10 m.kr. til aukinnar starfsemi á sviði barna- og unglingageðlækninga, 14,5 m.kr. til reksturs göngudeildar fyrir geðdeild og barna- og unglingageðlækningar og 3,8 m.kr. til reksturs þjálfunarlaugar í Kristnesi sem tekin verður í notkun á næsta ári.
370     Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Lagt er til að millifært verði 32 m.kr. framlag innan þessa fjárlagaliðar af viðfangsefni 1.91 Þjónustusamningar við hjúkrunarheimili á viðfangsefni 1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Í frumvarpi til fjárlaga var 32 m.kr. fjárveiting til hækkunar rekstrargrunns hjúkrunarheimila millifærð á hlutaðeigandi stofnanir. Þau mistök urðu hins vegar að fjárveitingin var tekin af 08-370 1.01 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi í stað 08-370 1.91 Þjónustusamningar við hjúkrunarheimili. Óskað er eftir leiðréttingu á þessu til að koma í veg fyrir misskilning eftir afgreiðslu fjárlaga.
379     Sjúkrahús, óskipt. Gerð er tillaga um 87 m.kr. framlag til þessa nýja liðar. Annars vegar er um að ræða 37 m.kr. til ýmissa sjálfseignarstofnana og hins vegar 50 m.kr. til heilbrigðisstofnananna á Akranesi, Austurlandi, Selfossi og Suðurnesjum. Er framlaginu ætlað að auðvelda aðgerðir til að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Mun heilbrigðisráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fara nánar yfir forsendur fyrir framlögum til stofnananna. Síðan munu ráðuneytin leggja tillögu fyrir fjárlaganefnd um skiptingu framlagsins. Afgangsheimildir á þessum lið verða felldar niður.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir. Gerð er tillaga um 34 m.kr. hækkun viðfangsefnisins 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans. Hluti fjárhæðarinnar, eða 10 m.kr., er tímabundið framlag til endurbóta á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Alls er lögð til 57,2 m.kr. hækkun framlaga til þessa liðar og skiptist hún á fimm viðfangsefni. Í fyrsta lagi er lögð til 32,1 m.kr. hækkun fjárveitingar til leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands en drög að nýjum samningi við félagið liggja fyrir. Í honum er eins og að framan er getið gert ráð fyrir að tveir fyrri samningar, þ.e. verksamningur Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 30. apríl 1992, og samningur Krabbameinsfélags Íslands við Tryggingastofnun ríkisins, dags. 31. janúar 1995, verði felldir saman í einn. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir 13,2 m.kr. hækkun til að halda áfram óbreyttri starfsemi í skipulagðri krabbameinsleit hjá konum. Auk þess er gert ráð fyrir að 18,9 m.kr. greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir rannsóknir og sérskoðanir verði hluti af samningnum og færist fjárveiting vegna þeirra verka af liðnum 08-206 1.11 Sjúkratryggingar, lækniskostnaður.
             Þá er gerð tillaga um 13 m.kr. hækkun framlags til Krabbameinsfélags Íslands, viðfangsefnisins 1.32 Krabbameinsfélag Íslands, styrkir. Er þar annars vegar um 8 m.kr. hækkun framlags að ræða til félagsins en það hefur úthlutað styrkjum úr Rannsókna- og tækjakaupasjóði sínum til rannsókna á krabbameini. Með nýjum samningi við félagið er ekki gert ráð fyrir tekjum til rannsóknastyrkja eins og verið hefur fram til þessa. Því er lagt til að Krabbameinsfélagið fái framlag í Rannsókna- og tækjakaupasjóð til að standa undir úthlutun framangreindra styrkja. Hins vegar er um 5 m.kr. hækkun að ræða til styrktar almennri starfsemi félagsins.
             Lagt er til að Stórstúka Íslands fái framlag að fjárhæð 1,5 m.kr. til forvarnastarfa og er það á nýju viðfangsefni, 1.36 Stórstúka Íslands.
             Þá er gerð tillaga um 5,5 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til Krýsuvíkurskóla til að styrkja rekstur hans. Fangelsisyfirvöld, félagsmálayfirvöld, svæðisskrifstofa fatlaðra og fleiri aðilar leita í vaxandi mæli úrlausnar fyrir skjólstæðinga sína í Krýsuvíkurskóla.
             Loks er farið fram hækkun viðfangsefnisins 1.90 Ýmis framlög en þar er um að ræða tímabundið framlag að fjárhæð 5,1 m.kr. til rannsóknar á ónæmisástandi gegn rauðum hundum. Fram til ársins 1989 voru eingöngu þær konur á barneignaraldri sem ekki reyndust með náttúrulegt ónæmi fyrir rauðum hundum bólusettar gegn þeim. Í ársbyrjun 1989 hófst hins vegar almenn ungbarnabólusetning gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt við 18 mánaða aldur. Hinn 1. júlí 1999 voru börn sem fyrst fengu þrígildu bólusetninguna orðin 12 ára. Til að tryggja að ónæmisástand allra barna í landinu sé viðunandi er lagt til að rannsókn á ónæmisástandi 12 ára barna verði viðhaldið til 30. júní 2001. Áætlaður kostnaður við verkefnið er rúmlega 10 m.kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er farið fram á 2,6 m.kr. fjárveitingu sem er kostnaður við verkefnið frá miðju ári 1999. Á árinu 2000 er áætlaður kostnaður við verkefnið 5,1 m.kr. og 2,6 m.kr. árið 2001.
420     Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið. Lögð er til 35 m.kr. hækkun framlags til samtakanna. Í fyrsta lagi er farið fram á að veitt verði 30 m.kr. framlag til reksturs unglingadeildar SÁÁ á Vogi. Framlagið er í samræmi við tillögur um aukið framlag til fíkniefnavarna. Forsenda fjárveitingar er gerð þjónustusamnings sem m.a. feli í sér skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veitt er, en auk þess ákvæði um fjárhagslegt og faglegt eftirlit með starfseminni. Miðað er við að samningum verði lokið fyrir 1. mars nk. Þá er gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun á fjárveitingu til að styrkja rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri.
495     Daggjaldastofnanir. Lagt er til að 8,5 m.kr. framlag verði millifært á óskiptan lið daggjaldastofnana til að breyta dvalarrými í hjúkrunarrými.
496     Reynslusveitarfélagið Akureyri. Lögð er til 82,2 m.kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins 1.11 Hjúkrunarrými. Í fyrsta lagi er þar lagt til að 33,8 m.kr. verði fluttar til Hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri vegna áforma um breytingu dvalarrýmis í hjúkrunarrými af liðnum 08-203 1.51 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eins og fram kemur í skýringum við þann lið.
             Í annan stað er lagt til að veitt verði 33,4 m.kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér.
             Loks er gerð tillaga um 15 m.kr. aukið framlag á þennan fjárlagalið. Skýrist það af fjölgun um 15 hjúkrunarrými á Hlíð á Akureyri í tengslum við framlengingu á samningi við Akureyrarbæ. Um er að ræða sex ný hjúkrunarrými og breytingu á níu dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Hjúkrunarrými fyrir íbúa 67 ára og eldri hafa verið fæst á starfssvæði sveitarfélagsins miðað við aðra landshluta.
497     Reynslusveitarfélagið Hornafjörður. Lagt er til að veitt verði 10,7 m.kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér. Jafnframt er lagt til að heiti fjárlagaliðarins 08-497 verði Reynslusveitarfélagið Hornafjörður en það er Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði samkvæmt frumvarpinu.
500     Heilsugæslustöðvar, almennt. Lögð er til 67,4 m.kr. fjárveiting á óskiptan lið á þessu viðfangsefni. Þar af eru 55 m.kr. vegna heilsugæslunnar í Reykjavík og 12,4 m.kr. til annarra heilsugæslustöðva. Eiga framlögin að auðvelda aðgerðir til að halda rekstrinum innan fjárheimilda árið 2000. Mun heilbrigðisráðuneyti og fjármálaráðuneyti ásamt Ríkisendurskoðun fara nánar í forsendur fyrir framlögum til einstakra stofnana. Ráðuneytin munu síðan leggja tillögu fyrir fjárlaganefnd um skiptingu framlagsins á einstakar stöðvar. Afgangsheimildir verða felldar niður á þessum lið.
505     Heilsugæsla í Reykjavík. Farið er fram á 10 m.kr. hækkun fjárveitingar til heilsugæslustöðvanna í Efstaleiti og Grafarvogi. Heilsugæslustöðin í Fossvogi flutti í nýtt og stærra húsnæði í Efstaleiti seint á árinu og hækkaði húsnæðiskostnaður við það. Einnig er ætlunin að auka starfsemi stöðvarinnar. Þá er áformað að flytja heilsugæslustöðina í Grafarvogi í nýtt og stærra húsnæði árið 2000. Er þá gert ráð fyrir að húsnæðiskostnaður hækki og að nokkur aukning verði á starfsemi stöðvarinnar.
510     Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Lagt er til að sértekjur lækki um 21,9 m.kr. en á móti lækki rekstrargjöld um sömu upphæð. Sértekjur stöðvarinnar hafa dregist saman og er áformað að laga fjárheimildir að raunverulegri veltu.
515     Heilsugæslustöðin Lágmúla í Reykjavík. Gerð er tillaga um að hækka launafjárveitingu heilsugæslustöðvarinnar um 20,8 m.kr. Þessi hækkun á launagrunni stöðvarinnar frá og með árinu 2000 er vegna breytinga á kjörum heilsugæslulækna og hjúkrunarfræðinga á tímabilinu frá 1997 til næsta árs samkvæmt kjarasamningum, aðlögunarsamningum og úrskurðum kjaranefndar. Einnig hafa verið millifærðar fjárheimildir til stofnunarinnar af launa- og verðlagsmálalið fjármálaráðuneytisins innan ársins 1999 til að mæta auknum launaútgjöldum áranna 1997–99. Öðrum heilbrigðisstofnunum hafa þegar verið bættar þessar hækkanir í fjárlögum og fjáraukalögum en þar sem heilsugæslustöðin við Lágmúla er einkarekin og ekki með launaafgreiðslu sína í launabókhaldi ríkisins var ekki lokið við endurmat á launagrunninum fyrir framlagningu fjárlagafrumvarpsins.
553     Reynslusveitarfélagið Akureyri. Lagt er til að veitt verði 20,5 m.kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér.
568     Reynslusveitarfélagið Hornafjörður. Lagt er til að veitt verði 4,1 m.kr. framlag til verkefnisins í kjölfar endurmats á rekstrarkostnaði. Samkvæmt tillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna verkefnisins til ársloka 1999 í samræmi við mat Ríkisendurskoðunar. Fyrirhugað er að endurnýja samning við reynslusveitarfélagið og eiga fjárveitingarnar að duga til að standa undir þeirri þjónustu sem það tekur að sér.
             Jafnframt er lagt til að heiti fjárlagaliðarins 08-568 og viðfangsefnisins 08-568 1.01 verði Reynslusveitarfélagið Hornafjörður en það er Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði samkvæmt frumvarpinu.
621     Forvarnasjóður. Farið er fram á 10 m.kr. framlag til Forvarnasjóðs til að sjóðurinn geti aukið styrki til verkefna á sviði forvarna gegn fíkniefnum.
721     Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði. Lagt er til að veitt verði 1 m.kr. framlag til stofnunarinnar til endurnýjunar á símkerfi stofnunarinnar.
725     Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ. Lagt er til að veitt verði 4 m.kr. framlag til stofnunarinnar sem verði nýtt til kaupa á skyggnimagnara (C-boga) fyrir stofnunina. Viðbótarframlag til kaupanna mun síðan koma af tækjakaupalið sjúkrahúsanna á næsta ári.
751     Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki. Gerð er tillaga um 8 m.kr. hækkun framlags til stofnunarinnar. Annars vegar er lagt til að veittar verði 6 m.kr. til meiri háttar viðhalds, þ.e. til endurnýjunar á gluggum í austurálmu, til lagfæringa á aðkeyrslu að stofnuninni og til frágangs lóðar umhverfis hana. Þá er lagt til að veitt verði 2 m.kr. framlag til sjúkraflutninga til að mæta kostnaði við það að tveir sjúkraflutningamenn fari í útkall í stað eins áður.

09 Fjármálaráðuneyti

214     Yfirskattanefnd. Lagt er til að launafjárveiting til nefndarinnar hækki um 3 m.kr. í kjölfar mats á kostnaðaráhrifum af úrskurði kjaranefndar 21. júlí sl. um laun nefndarmanna sem hafa það starf að aðalstarfi. Ný launakjör gilda frá 1. maí 1999 og hefur kostnaðarauka ársins 1999 verið mætt með fjárheimild af launa- og verðlagsmálalið fjármálaráðuneytis.
261     Ríkistollstjóri. Gerð er tillaga um 7 m.kr. hækkun á fjárveitingu til ríkistollstjóra. Þar er annars vegar um að ræða 3 m.kr. fjárveitingu til embættisins til að unnt verði að gefa tollvörðum sem bera sérstaka ábyrgð í fíkniefnamálum tækifæri til endurmenntunar og starfsþjálfunar, bæði innan lands og erlendis. Ætla má að um geti verið að ræða 20 tollverði sem öðrum fremur þurfi að eiga kost á slíkri þjálfun. Fyrirhugað er að ríkistollstjóraembættið hafi umsjón með skipulagningu endurmenntunar á þessu sviði í samvinnu við hlutaðeigandi embætti. Kostnaður við slíka endurmenntun yrði þá greiddur af ríkistollstjóraembættinu til að tryggja að tollstjórar setji ekki kostnað fyrir sig við ákvarðanir um námsleyfi starfsmanna.
             Hins vegar er lagt til að fjárveiting til stofnunarinnar verði hækkuð um 4 m.kr. til að efla starf hennar að fíkniefnavörnum. Stofnunin fyrirhugar að koma á samstarfi við ríkislögreglustjóra um að hafinn verði undirbúningur þess að koma á sjálfvirku, tölvuvæddu tolleftirlitskerfi byggðu á áhættugreiningu. Gert er ráð fyrir að ráðinn verði sérstakur verkefnisstjóri að þessu verkefni sem samræmi samvinnu milli embætta ríkistollstjóra og ríkislögreglustjóra.
262     Tollstjórinn í Reykjavík. Farið er fram á 18 m.kr. tímabundið framlag á árinu 2000 til kaupa á bifreið með gegnumlýsingarbúnaði. Tollgæslan hefur leitað árangursríkra leiða til að rannsaka fleiri sendingar sem koma til landsins og stemma stigu við smygli fíkniefna. Talið er að gegnumlýsingartækni geti orðið notadrýgst og líklegust til árangurs fyrir tollgæsluna í Reykjavík. Tækið sem fyrirhugað er að kaupa getur skoðað sendingar í nokkuð stórum umbúðum og yrði því komið fyrir í bifreið þannig að hægt yrði að færa það á milli staða.
381     Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Gerð er tillaga um 45 m.kr. fjárheimild á nýju viðfangsefni, 1.08 Eftirlaun hæstaréttardómara, undir þessum fjárlagalið. Jafnframt er gerð tillaga um 10 m.kr. fjárheimild á öðru nýju viðfangsefni, 1.91 Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun. Við breytta framsetningu á fjárlögunum 1998 í kjölfar nýrra laga um fjárreiður ríkisins féllu þessar greiðslur út í áætlanagerð um nýja sundurliðun lífeyrisskuldbindinga og -greiðslna. Tillögunni er ætlað að laga fjárheimildir liðarins að endurbættri áætlanagerð í samræmi við breytta framsetningu fjárlaganna.
995     Skýrsluvélakostnaður. Gerð er tillaga um 70 m.kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 6.90 Tölvukerfi, óskipt undir þessum fjárlagalið. Hækkun á kostnaði vegna upplýsingakerfa hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Stafar þetta einkum af hækkun taxta fyrir útselda vinnu í upplýsingageiranum og auknum kröfum til kerfanna. Á þessu ári voru útgjöld vegna upplýsingakerfa mun meiri en áætlað var og á það einkum við um skattvinnslukerfi á vegum ríkisskattstjóra. Fjármálaráðuneytið er að láta gera úttekt á kostnaði við þessi kerfi. Fyrstu niðurstöðu er að vænta fyrir lok þessa árs en fjárveitingin er ætluð til að standa undir áætlaðri útgjaldaaukningu á þessu sviði.

10 Samgönguráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um hækkun fjárveitinga sem nemur alls 64 m.kr. á þessum lið. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 8 m.kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til rekstrar Slysavarnaskóla sjómanna.
             Þá er lögð til 2 m.kr. hækkun á framlagi til Slysavarnafélagsins Landsbjargar til rekstrar á björgunarskipinu Þór í Vestmannaeyjum.
             Í þriðja lagi er gerð tillaga um tímabundna 49 m.kr. fjárveitingu til markaðsátaks í Norður-Ameríku. Niðurstaða verkefnis sem bandarískt markaðsráðgjafarfyrirtæki vann um markaðssetningu Íslands í Norður-Ameríku er sú að samstilltar aðgerðir til að kynna Ísland og íslenskar vörur eigi að geta skilað árangri. Aðgerðir kosta að lágmarki 70 milljónir íslenskra króna á ári í fimm ár, alls 350 m.kr. Lagt er til að íslensk stjórnvöld standi undir allt að 70% framangreinds kostnaðar í a.m.k. fimm ár gegn því að fulltrúar þeirra fyrirtækja sem hagsmuna eiga að gæta á mörkuðum Norður-Ameríku skuldbindi sig til að leggja fram allt að 30% mótframlag á því tímabili.
             Loks er gerð tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Hestamiðstöðvar Íslands sem fyrirhugað er að koma á fót í Skagafirði. Er framlagið liður í byggðatengdu átaksverkefni um gæðastefnu, ræktun, tamningu, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins sem gert er ráð fyrir að verði styrkt í fimm ár. Í tillögum við aðra fjárlagaliði er gert ráð fyrir alls 20 m.kr. til viðbótar til verkefnisins, þar af eru 10 m.kr. á liðnum 04-891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði hjá landbúnaðarráðuneyti, 5 m.kr. á liðnum 02-999 Ýmislegt hjá menntamálaráðuneyti og 5 m.kr. á liðnum 11-299 Iðja og iðnaður, framlög hjá iðnaðarráðuneyti.
211     Vegagerðin. Alls er gerð tillaga um 239 m.kr. hækkun framlaga til Vegagerðarinnar. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 14 m.kr. fjárveitingu til yfirstjórnar en það svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára. Sambærileg breyting er lögð til á öðrum viðfangsefnum.
             Þá er lögð til 488 m.kr. hækkun á styrkjum til ferja og sérleyfishafa. Annars vegar er þar lagt til að 475 m.kr. fjárveiting verði flutt af viðfangsefninu 6.55 Ferjur og flóabátar á viðfangsefnið 1.11 Styrkir til ferja og sérleyfishafa þar sem útgjöld vegna ferja eru rekstrartilfærslur til fyrirtækja fremur en stofnkostnaður. Hins vegar er þar gerð tillaga um 13 m.kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára.
             Jafnframt þessu er lagt til að heiti viðfangsefnisins 1.11 verði Styrkir til ferja og sérleyfishafa í stað Styrkir til sérleyfishafa samkvæmt frumvarpinu.
             Lagt er til að hluti áætlaðs framlags til viðfangsefnis 5.52 Þéttbýlisvegir í frumvarpinu, eða 251 m.kr., færist á viðfangsefnið 5.05 Þjónusta. Er það í samræmi við breytta framsetningu á fyrirhugaðri vegáætlun fyrir árin 2000–2004 sem lögð verður fram á Alþingi. Loks er er gerð tillaga um 52 m.kr. fjárveitingu til þessa viðfangsefnis sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára.
             Af sama toga eru breytingar sem lagðar eru til á viðfangsefninu 5.10 Viðhald og nema 200 m.kr. Þar er lagt til að hluti áætlaðs framlags til viðfangsefnis 5.52 Þéttbýlisvega í frumvarpinu, eða 153 m.kr., færist á viðfangsefnið í samræmi við breytta framsetningu á fyrirhugaðri vegáætlun fyrir árin 2000–2004 sem lögð verður fram á Alþingi. Jafnframt er gerð tillaga um 47 m.kr. fjárveitingu en það svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára.
             Á viðfangsefninu 5.52 Þéttbýlisvegir verða breytingar sem nema 392 m.kr. til lækkunar. Þar er í fyrsta lagi gerð tillaga um 12 m.kr. fjárveitingu en það svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar sem ekki var gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þá er sem fyrr greinir lagt til að hluti áætlaðs framlags til viðfangsefnisins í frumvarpinu, eða 251 m.kr., færist á viðfangsefnið 5.05 Þjónusta og hins vegar að 153 m.kr. færist á viðfangsefnið 5.10 Viðhald. Er það í samræmi við breytta framsetningu á fyrirhugaðri vegáætlun fyrir árin 2000–2004 sem lögð verður fram á Alþingi.
             Lagt er til að fjárveitingar til nýframkvæmda hækki alls um 88 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 350 m.kr. frestun hafnaframkvæmda á lið 10-335 Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að þar af verði 35 m.kr. fluttar til Vegagerðarinnar og komi til frestunar á framkvæmdum í vegamálum. Gert er ráð fyrir samsvarandi hækkun fjárveitingar á viðfangsefninu 6.70 Hafnamannvirki hjá Siglingastofnun. Í annan stað er gerð er tillaga um 123 m.kr. fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar sem ekki var gert ráð fyrir í frumvarpinu.
             Gerð er tillaga um fjárveitingu sem svarar til 3% hækkunar á verðlagi á milli áranna 1999 og 2000 í samræmi við forsendur gildandi vegáætlunar á nokkrum öðrum viðfangsefnum. Til landsvega nemur hún 2 m.kr., til tilrauna 3 m.kr., til safnvega 6 m.kr., til styrkvega 1 m.kr. og til reiðvega 1 m.kr. Í frumvarpinu er sem fyrr segir ekki gert ráð fyrir þessari verðlagshækkun milli ára.
             Lækkun sú sem lögð er til á viðfangsefninu 6.55 Ferjur og flóabátar, 475 m.kr., er vegna fyrrgreinds flutnings fjárhæðarinnar á viðfangsefnið 1.11 Styrkir til ferja og sérleyfishafa þar sem útgjöld vegna ferja eru rekstrartilfærslur til fyrirtækja fremur en stofnkostnaður.
335     Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að framlög til stofnunarinnar hækki alls um 46,1 m.kr. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 8 m.kr. tímabundið framlag til yfirstjórnar til að standa straum af kostnaði við undirbúningsrannsóknir vegna hafnargerðar við álvershöfn sem hugsanlega verður byggð í Reyðarfirði.
             Þá er gerð tillaga um 45 m.kr. hækkun fjárveitinga til hafnamannvirkja. Annars vegar er þar um 35 m.kr. hækkun að ræða. Í fjárlagafrumvarpinu er sem fyrr greinir gert ráð fyrir 350 m.kr. frestun hafnaframkvæmda á lið 10-335 Siglingastofnun Íslands. Lagt er til að þar af verði 35 m.kr. fluttar til Vegagerðarinnar og komi til frestunar á framkvæmdum í vegamálum. Gert er ráð fyrir samsvarandi lækkun fjárveitingar á viðfangsefninu 6.10 Nýframkvæmdir hjá Vegagerðinni. Hins vegar er um tvær leiðréttingar að ræða sem samtals nema 10 m.kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1999 er leiðrétt framsetning fjárlaga ársins 1999 með millifærslu á 5,5 m.kr. af viðfangsefninu 6.70 Hafnamannvirki yfir á 6.73 Tollaðstaða á Seyðisfirði og millifærslu á 4,5 m.kr. af viðfangsefninu 6.70 Hafnamannvirki yfir á 6.76 Ferjubryggjur. Þau mistök urðu hins vegar við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2000 að þessar millifærslur voru einnig gerðar þar og er lagt til að fjárhæðin, 10 m.kr. verði færð til baka á 6.70 Hafnamannvirki. Að sama skapi lækka fjárveitingar því um 5,5 m.kr. á viðfangsefninu 6.73 Tollaðstaða á Seyðisfirði og um 4,5 m.kr. á viðfangsefninu 6.76 Ferjubryggjur.
             Gerð er tillaga um að viðfangsefni 6.74 Lendingarbætur hækki um 0,3 m.kr. Sundurliðun er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið.
             Loks er gerð tillaga um að framlag til sjóvarnargarða hækki um 2,8 m.kr. vegna sjóvarna í Leiru í Gerðahreppi.
651     Ferðamálaráð. Lagt er til að fjárveiting til viðfangsefnisins 1.11 Ferðamálasamtök landshluta hækki um 10 m.kr. til að styrkja rekstur upplýsingamiðstöðva í ferðaþjónustu.

11 Iðnaðarráðuneyti

299     Iðja og iðnaður, framlög. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til Hestamiðstöðvar Íslands sem fyrirhugað er að komið verði á fót í Skagafirði. Er framlagið liður í byggðatengdu átaksverkefni um gæðastefnu, ræktun, tamningu, þjálfun, sölu, kynningu og notkun íslenska hestsins sem gert er ráð fyrir að verði styrkt í fimm ár. Í tillögum við aðra fjárlagaliði er gert ráð fyrir alls 20 m.kr. til viðbótar til verkefnisins. Þar af eru 10 m.kr. á liðnum 04-891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði hjá landbúnaðarráðuneyti, 5 m.kr. á liðnum 10-190 Ýmis verkefni hjá samgönguráðuneyti og 5 m.kr. á liðnum 02- 999 Ýmislegt hjá menntamálaráðuneyti.
301     Orkustofnun. Gerð er tillaga um 3,5 m.kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til orkurannsókna sem varið verði til að ljúka rannsóknum á Geysissvæðinu en sérstök Geysisnefnd hefur starfað að því að efla rannsóknir á hverasvæðinu.
371     Orkusjóður. Gerð er tillaga um að fjárveitingar til Orkusjóðs verði hækkaðar um 6 m.kr. til að auka svigrúm hans til að veita styrki til jarðhitaleitar.
399     Ýmis orkumál. Lagt er til að niðurgreiðslur á rafhitun hækki um 160 m.kr. Er það áfangi í framkvæmd stefnu í byggðamálum sem samþykkt var fyrir árin 1999–2001. Samkvæmt henni verður áfram unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis.
411     Byggðastofnun. Um nýjan fjárlagalið er að ræða og er gert ráð fyrir 502 m.kr. til hans. Eins og greint er frá í skýringum við liðinn 01-221 Byggðastofnun er gert er ráð fyrir að fjárveitingar til Byggðastofnunar flytjist til iðnaðarráðuneytisins frá forsætisráðuneyti í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Flutt hefur verið frumvarp til laga vegna þessa á yfirstandandi haustþingi. Fjárveiting viðfangsefnisins 01-221 6.01 Byggðastofnun samkvæmt frumvarpinu, 137 m.kr., færist þar með á nýtt viðfangsefni, 11-411 1.10, hjá iðnaðarráðuneyti. Sömuleiðis færist fjárveiting til viðfangsefnisins 01- 221 1.10 Atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni, 65 m.kr., á nýtt viðfangsefni, 11-411 1.11. Loks er gert er ráð fyrir að fjárveiting til viðfangsefnisins 01-221 6.41 Þátttaka í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni færist á nýtt viðfangsefni hjá iðnaðarráðuneyti, 11-411 6.41.

12 Viðskiptaráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði framlag að fjárhæð 2 m.kr. til kærunefndar um ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem fyrirhugað er að taki til starfa í janúar árið 2000. Skv. 17. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þurfa kærendur að greiða 120 þús. kr. fyrir hvert mál sem þeir bera upp við kærunefndina. Gert er ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp til breytingar á þeim lögum þar sem lagt verði til að málskotsgjald kærunefndarinnar falli niður. Er gerð tillaga um framlag úr ríkissjóði til að fjármagna nefndarlaun og störf nefndarinnar þar sem hún verður af þessum tekjum.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Alls er farið fram á 13 m.kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.23 Ýmis umhverfisverkefni. Ber þar fyrst að geta tímabundins 8 m.kr. framlags til nefndar um endurnýtingu úrgangs. Nefndinni er ætlað að gera tillögur um umhverfisátak á sviði endurnýtingar úrgangs eins og boðað er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Áætlað er að nefndin starfi í þrjú ár og að kostnaðurinn verði nokkru lægri síðari tvö árin.
             Þá er óskað eftir 3 m.kr. tímabundinni fjárveitingu vegna kostnaðar við Staðardagskrá 21, en það er heiti á sérstakri heildaráætlun bæjar- og sveitarfélaga um sjálfbæra þróun. Undanfarna 18 mánuði hefur verið unnið að samstarfsverkefni ríkisins og ákveðinna sveitarfélaga um verkefnið Staðardagskrá 21. Til þess að ljúka verkefninu þarf aukið fjármagn úr ríkissjóði, alls 3 m.kr. á árinu 2000.
             Loks er um að ræða 2 m.kr. framlag til nýskipaðrar 16 manna nefndar um hálendismál. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn og er henni ætlað að fjalla um svæðisskipulag miðhálendisins og aðalskipulag innan marka miðhálendisins. Skal nefndin sjá til þess að aðalskipulag sé í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í svæðisskipulagi miðhálendisins og að samræmis sé gætt milli aðalskipulagsáætlana sveitarfélaga á svæðinu.
             Auk þessa er lagt til að heiti viðfangsefnisins 14-190 1.58 verði Náttúrugripasöfn í stað Náttúrugripasafn í Vestmannaeyjum samkvæmt frumvarpinu.
205     Náttúruvernd ríkisins. Farið er fram á 5 m.kr. vegna vinnu við gerð náttúruverndaráætlana. Samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, skal slík áætlun vera tilbúin fyrir landið allt eigi síðar en árið 2002. Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun koma að verkinu. Hlutverk Náttúruverndar er að afla gagna og meta verndargildi vistkerfa og náttúruminja.
210     Veiðistjóri. Óskað er eftir 3 m.kr. tímabundnu framlagi til embættisins sem fari til rannsókna á hreindýrastofninum á Austurlandi. Unnið er að gerð samnings um að Náttúrustofa Austurlands taki þær að sér.
310     Landmælingar Íslands. Farið er fram á 16,5 m.kr. hækkun á framlögum til stofnunarinnar. Annars vegar er um að ræða 4,5 m.kr. fjárveitingu til undirbúnings nýs verkefnis á sviði fjarkönnunar. Með fjarkönnun er átt við mælingu á rafsegulgeislun frá lofthjúpi jarðar og yfirborði jarðar, úr flugvél eða gervitungli, úrvinnslu mælinganna og myndræna framsetningu þeirra. Með þessu verkefni er stuðlað að samvinnu stofnana og aukinni notkun fjarkönnunargagna til umhverfisvöktunar sem er liður í framkvæmd umhverfisstefnu.
             Hins vegar er gerð tillaga um 12 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Landmælinga Íslands til að mæta lækkun á sértekjum.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands. Ráðgerð er 4,5 m.kr. hækkun fjárveitinga til stofnunarinnar á viðfangsefnið 1.02 Setur í Reykjavík. Óskað er eftir 2,5 m.kr. tímabundnu framlagi til næstu fimm ára til áframhaldandi útgáfu jarðfræðikorta. Við gerð fjárlaga fyrir árið 1999 var samþykkt að veita 2,5 m.kr. til þessa verkefnis til að efla gerð jarðfræðikorta og hraða útgáfu korta í mælikvarðanum 1:250.000.
             Þar að auki er er farið fram á tímabundið 2 m.kr. framlag á árinu 2000 til rannsókna á áhrifum veiðiálags á rjúpnastofninn. Verkefnið er til þriggja ára og er heildarkostnaður 11 m.kr. Þar af verða 6 m.kr. fjármagnaðar með framlögum úr veiðikortasjóði, 2 m.kr. á ári til ársins 2002. Þegar er búið að veita 1 m.kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar í þetta verkefni vegna rannsókna á árinu 1999 og verður framlag ríkissjóðs 1 m.kr. árin 2001 og 2002.
             Gert ráð fyrir 2 m.kr. hærri sértekjum vegna styrkja úr rannsóknarsjóðum og samsvarandi kostnaði vegna rannsókna á áhrifum veiðiálags á rjúpnastofninn.
403     Náttúrustofur. Lagt er til að Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík verði veitt 3,5 m.kr. tímabundið framlag árið 2000 til rannsókna á Hornströndum. Um er að ræða refarannsóknir, rannsóknir á gróðri og smádýralífi og vatnarannsóknir. Áætlaður kostnaður er 5 m.kr. og mun bilið brúað með framlögum annars staðar frá.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

801     Vaxtagjöld ríkissjóðs. Gerð er tillaga um að fjárveiting vegna gjaldfærðra vaxta ríkissjóðs lækki um 600 m.kr. í kjölfar endurskoðunar á þeirri áætlun í frumvarpinu. Helstu breytingar eru að talið er að vaxtakostnaður af spariskírteinum og ríkisbréfum verði lægri vegna áforma um áframhaldandi forinnlausnir slíkra bréfa á næsta ári. Á móti vegur að reiknað er með nokkru hærri vaxtagjöldum af ríkisvíxlum vegna hærra vaxtastigs á innanlandsmarkaði. Loks er gert ráð fyrir að dragi úr fjármögnun með erlendum veltilánum og að vaxtastig af þeim lánum fari lækkandi. Áhrif þessara breytinga á greidd vaxtagjöld ársins 2000 eru talin verða svipuð og er reiknað með að þau lækki um 550 m.kr. frá fyrri áætlun frumvarpsins.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. des. 1999.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.



Hjálmar Jónsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján Pálsson.




Fylgiskjal I.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Skarphéðinn Berg Steinarsson frá forsætisráðuneyti og Björn Friðfinnsson og Ásdísi Sigurjónsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrargjöld forsætisráðuneytis hækki um 454 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Þar vegur þyngst aukinn kostnaður við hátíðahöld á næsta ári til að minnast 1000 ára afmælis kristnitöku á Íslandi og landafundanna í Norður-Ameríku, eða hækkun sem nemur 356 millj. kr. Við umfjöllun um þessa liði óskaði nefndin eftir frekari sundurliðun á kostnaði frá fulltrúa ráðuneytisins. Samkvæmt upplýsingum frá honum renna af rúmum 324 millj. kr. til kristnitökuafmælisins rúmar 190 millj. kr. til framkvæmda á Þingvöllum vegna kristnihátíðar, um 76 millj. kr. til dagskrár hátíðarinnar á Þingvöllum, tæpar 20 millj. kr. til rekstrar kristnihátíðarnefndar og rúmlega 28 millj. kr. til annarrar dagskrár nefndarinnar og í annan kostnað. Þá kemur fram í gögnum frá ráðuneytinu að á vegum landafundanefndar hafi verið skipulagðir ýmsir viðburðir í Bandaríkjunum og Kanada á næsta ári til að kynna íslenska menningu og er kostnaðurinn við það áætlaður ríflega 58 millj. kr. Enn fremur mun landafundanefnd veita styrki til ýmissa verkefna, þar á meðal framleiðslu heimildarmynda og gerðar, þýðinga og útgáfu bóka í Norður-Ameríku.
    Þá kemur fram í frumvarpinu að útgjöld embættis forseta Íslands hækka um 26,8 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs og var óskað skýringa á hækkun útgjalda milli ára. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er annars vegar um að ræða 16,6 millj. kr. tímabundna hækkun og hins vegar 8,5 millj. kr. varanlega hækkun fjárheimilda. Framlög til embættisins hækka tímabundið vegna margra opinberra heimsókna sem eru fyrirsjáanlegar og tengjast árþúsundamótum, endurnýjunar embættisbifreiðar, viðhalds á gestahúsi embættisins að Laufásvegi 72 og uppfærslu tæknibúnaðar að Bessastöðum. Varanleg hækkun stafar af auknum launakostnaði í kjölfar ákvörðunar Kjaradóms í maí sl. og hækkun almenns launakostnaðar embættisins.
    Loks ræddi nefndin nokkuð um fjárveitingar til vímuefnavarna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 35 millj. kr. fjárveitingu til átaks í löggæslu vegna fíkniefnamála og er sú fjárhæð óbreytt frá fjárlögum þessa árs. Eru nefndarmenn sammála um að góður árangur lögreglunnar að undanförnu í fíkniefnamálum sé mikilvægur þáttur í baráttunni gegn vímuefnum og að því sé nauðsynlegt að veita áfram fé til átaks í löggæslu á þessu sviði.
    Þingmenn nefndarinnar sem skrifa undir álitið með fyrirvara munu gera grein fyrir afstöðu sinni við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Alþingi, 22. nóv. 1999.



Valgerður Sverrisdóttir, varaform.
Hjálmar Jónsson.
Guðrún Ögmundsdóttir, með fyrirvara.
Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara.
Katrín Fjeldsted.
Sverrir Hermannsson, með fyrirvara.
Ásta Möller.
Ólafur Örn Haraldsson.
Helga Guðrún Jónasdóttir.




Fylgiskjal II.


Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Örlyg Geirsson skrifstofustjóra, Gísla Þór Magnússon deildarstjóra og Aðalstein Eiríksson ráðgjafa og frá fjármálaráðuneyti Leif Eysteinsson deildarstjóra. Frá Kennaraháskóla Íslands komu Þórir Ólafsson rektor og Guðmundur Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og frá Háskóla Íslands Páll Skúlason rektor og Gunnlaugur H. Jónsson háskólaritari. Þá komu á fund nefndarinnar frá Tækniskóla Íslands Guðbrandur Steinþórsson rektor og deildarstjórarnir Ingimar Jónsson, Þór Steinarsson og Sverrir Arngrímsson, frá Listaháskóla Íslands Hjálmar H. Ragnarsson rektor og Jóna Finnsdóttir framkvæmdastjóri, Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri og Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóra frá Ríkisútvarpinu, Þórarinn Eyfjörð og Gunnar Helgason frá Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Þór Magnússon þjóðminjavörður, Hjörleifur Stefánsson minjastjóri og Guðný Gerður Gunnarsdóttir safnstjóri frá Þjóðminjasafni, Þorsteinn Gunnarsson rektor frá Háskólanum á Akureyri og loks Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor, Agnar Hansson framkvæmdastjóri og Sigrún Edda Jónsdóttir skrifstofustjóri frá Viðskiptaháskólanum í Reykjavík.
    Þeir fjárlagaliðir sem snúa að menntamálum voru ræddir ítarlega á fundum nefndarinnar.
Á fjárlagaliðnum 884 Jöfnun á námskostnaði er í frumvarpinu gert ráð fyrir 267,5 millj. kr. Útgjöld til þessa liðar voru samkvæmt reikningi fyrir árið 1998 170,4 millj. kr. og samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1999 258,9 millj. kr. Meiri hluti nefndarinnar bendir á nauðsyn þess að áfram verði framfylgt markaðri stefnu um jöfnun námskostnaðar.
    Heildargjöld til fjárlagaliðarins 982 Listir, framlög eru áætluð 433,4 millj. kr. sem er 77 millj. kr. hækkun frá fjárlögum fyrra árs. Þar er m.a. gert ráð fyrir hækkun framlags til starfsemi áhugaleikhópa til að styrkja félög á landsbyggðinni. Meiri hlutinn bendir á nauðsyn þess að styrkja slíkt menningarstarf og lýsir jafnframt ánægju sinni yfir stefnu nýstofnaðs Listaháskóla Íslands í þeim efnum.
    Stefnt er að því að þriggja ára nám fyrir fatlaða á framhaldsskólastigi verði að veruleika haustið 2000. Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að námið verði vel skilgreint og að nemendur fái þá þjónustu í skólanum sem þeim ber miðað við þroska.
    Fram kom hjá fulltrúum Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri að mikil áhersla er lögð á fjarnám fyrir leikskóla- og grunnskólakennara. Meiri hlutinn leggur áherslu á að aukinni þörf fyrir kennaramenntað fólk á þessum skólastigum sé m.a. mætt með meiri fjárframlögum til fjarkennslu.
    Helga Guðrún Jónasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. nóv. 1999.



Sigríður A. Þórðardóttir, form.
Ólafur Örn Haraldsson.
Tómas Ingi Olrich.
Kristinn H. Gunnarsson.
Árni Johnsen.




Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.


    Minni hluti menntamálanefndar tekur undir þann lið í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar sem varðar lýsingu á umfjöllun nefndarinnar um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar.
    Hins vegar er það skoðun minni hluta nefndarinnar að stærri hluti af tekjum ríkisins þurfi að renna til menntamála en nú er áætlað ef tryggja á gæði menntunar. Ýmislegt gott er gert í menntakerfi okkar en því miður verður oft minna úr framkvæmdum en ætlað er vegna stöðugs fjárskorts.
    Minni hlutinn fagnar því að nú á haustdögum var undirritaður samningur við Háskóla Íslands um að kennslukostnaður verði framvegis greiddur eftir reiknilíkani. Ætti það að bæta stöðuna hvað varðar þann þátt en eftir stendur að samkvæmt frumvarpinu er allt of litlu fé varið til rannsókna og ósamið um hvernig með þann lið sé farið.
    Mikið vantar líka upp á að Háskólinn á Akureyri eigi fyrir brýnum verkefnum en alls vantar 65 millj. kr. upp á fjárveitingar samkvæmt útreikningum hans. Auk þess hefur skólinn sett fram mjög vel útfærðar hugmyndir um fjarkennslu í hjúkrun og fyrir verðandi leikskólakennara, hvort tveggja mjög brýn mál, sem ekki er unnt að framkvæma nema til komi sérstök fjárveiting, um 20,5 millj. kr., en ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi.
    Kennaraháskóli Íslands hefur lagt fyrir nefndina mjög vel rökstudda beiðni um 32 millj. kr. hækkun á rekstrarfjárveitingu auk þess sem hann fer fram á 15 millj. kr. aukafjárveitingu til endurbóta á húsnæði skólans á Laugarvatni. Mikill kennaraskortur er jafnan í landinu og hefur menntamálaráðherra lýst því yfir að hann verði best leystur með fjarnámi en Kennaraháskólinn verður nú vegna fjárskorts að hafna tveimur af hverjum þremur nemendum sem sækja um kennaranám. Skólinn getur ekki fjölgað nemendum í fjarnámi nema til komi aukafjárveiting upp á 20 millj. kr. á ári.
    Eftir fund með forsvarsmönnum Viðskiptaháskólans liggur fyrir að mikið vantar upp á að hann fái fjárveitingar sem þarf til að gera skólann að þeirri stofnun sem ætlað var og hafa samningar um reiknilíkan fyrir skólann gengið hægt.
    Tækniskóli Íslands má sæta því, nú þegar stefnt er að því að gera verklegan þátt mennta sem mestan, að þar eru framlög á nemanda skorin niður milli ára svo að nemur háum fjárhæðum. Minni hlutinn skorar á fjárlaganefnd að taka fjárveitingastefnu til stofnunarinnar til rækilegrar athugunar svo að skólinn fái í fyrsta lagi þann tækjakost sem hann þarfnast og öðru lagi það fé sem til þarf svo að skólinn geti gegnt lögboðnu hlutverki sínu en ætla honum ekki lækkun framlags á hvern nemanda, einum þeirra skóla á háskólastigi sem fá framlög á fjárlögum. Það er alvarleg áminning til forsvarsmanna þjóðarinnar að skólinn sér þann kost vænstan í stöðunni að taka ekki við nýnemum árið 2000.
    Það fé sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að renni til listaháskólans kemur augljóslega ekki til með að duga stofnun á háskólastigi en skólinn er nú á þróunarskeiði og er raunhæft að ætla að bæta þurfi miklu við í fjáraukalögum næsta árs.
    Fjárhagsstaða ýmissa framhaldsskóla hefur batnað síðan farið var að nota reiknilíkanið en þó hafa komið í ljós nokkrir vankantar. Í líkaninu er aðeins reiknað með virkum nemendum og ef skólar taka við mörgum nemendum með lélegan grunn og brottfall verður þar af leiðandi mikið koma þeir mjög illa út. Brýnt er að ráða bót á því. Áformað er að greiða sérstaklega 90 millj. kr. til stjórnunar-, skipulags- og umsjónarstarfa fyrir árið 2000 og ber að fagna því. Sömuleiðis er áætlað að veita 100 millj. kr. til að efla rekstur og stjórnun. Hins vegar er áríðandi að veita sérstakt framlag til eflingar námsráðgjöf í framhaldsskólum eins og óskað hefur verið eftir.
    Tillaga um byggðaáætlun vakti vonir ýmissa um að meira fé yrði veitt til lista og menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Því miður hafa þær vonir brugðist að mestu leyti og má benda á að framlög til áhugaleikhúsanna hækka um 1 millj. kr. milli ára, að því er sagt er til að styrkja leiklistarstarfsemi á landsbyggðinni. Liðurinn námsaðstoð sem ætlaður er framhaldsskólanemendum af landsbyggðinni er óbreyttur milli ára, en í byggðaáætlun forsætisráðherra var gefið fyrirheit um að slík aðstoð yrði efld. Það mál hlýtur að þurfa að skoða milli umræðna.
    Að lokum skal minnt á að brýnt er að gera könnun á framfærslukostnaði námsmanna og endurskoða upphæð grunnlána úr LÍN en námsmenn telja sig eiga eftitt með að ná endum saman nú í góðærinu enda hafa námslán alls ekki hækkað í takt við tilkostnað. Rétt er að hafa í huga að þarna er um lán að ræða, ekki styrki, sem verða öll endurgreidd með vöxtum. Miklar hömlur eru á hversu lengi fólk getur notið þessara lána og endurgreiðslukrafan er tiltölulega hörð.

Alþingi, 30. nóv. 1999.

Sigríður Jóhannesdóttir.
Svanfríður Jónasdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir.



Fylgiskjal IV.


Álit

um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.

    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Stefán Skjaldarson skrifstofustjóra og Pétur Ásgeirsson rekstrarstjóra frá utanríkisráðuneyti.
    Í áliti sínu til fjárlaganefndar undanfarin ár hefur utanríkismálanefnd minnt á mikilvægi þess að málefni utanríkisþjónustunnar séu í stöðugri endurskoðun, meðal annars með það fyrir augum að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best. Í mars 1998 skilaði nefnd, er utanríkisráðherra skipaði, áliti um framtíð utanríkisþjónustunnar þar sem meðal annars voru settar fram tillögur um staðsetningu nýrra sendiráða og forgangsröðun verkefna. Utanríkismálanefnd telur eðlilegt og í samræmi við fyrri álit sín að vekja athygli fjárlaganefndar á niðurstöðum framangreinds álits um framtíð utanríkisþjónustunnar.
    Á fundi nefndarinnar um fjárlagafrumvarpið kom fram að ákveðinn hluti af fjárveitingu næsta árs er ætlaður til að koma alþjóðasamningum á netið og fagnar nefndin því. Leggur nefndin einnig áherslu á að tafir á útgáfu C-deildar Stjórnartíðinda verði unnar upp skipulega. Þá teldur nefndin mikilvægt að utanríkisráðuneytið hafi nægilegt fjármagn til að sinna verkefnum sínum.
    Að öðru leyti sér utanríkismálanefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við fjárlagafrumvarpið.

Alþingi 17. nóv. 1999.

Tómas Ingi Olrich, form.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.
Einar K. Guðfinnsson.
Vilhjálmur Egilsson.
Sighvatur Björgvinsson.
Margrét Frímannsdóttir.
Steingrímur J. Sigfússon.

Fylgiskjal V.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.



    Landbúnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Guðmund Sigþórsson, Ingimar Jóhannsson og Sveinbjörn Eyjólfsson frá landbúnaðarráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá heimsótti nefndin Bændasamtök Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins og hitti að máli Ara Teitsson, Sigurgeir Þorgeirsson, Þórólf Sveinsson, Gísla Karlsson og Ernu Bjarnadóttur.
    Nefndin vekur sérstaka athygli á erfiðri stöðu loðdýrabænda og nauðsyn á sambærilegri niðurgreiðslu á loðdýrafóðri og verið hefur. Þá hafa rauntekjur sauðfjárbænda lækkað um 20% frá 1991 til 1998 um leið og 15% kaupmáttaraukning hefur orðið í þjóðfélaginu.
    Nefndin gerir að öðru leyti ekki sérstakar athugasemdir en einstakir nefndarmenn munu koma fram athugasemdum sínum við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. nóv. 1999.

Hjálmar Jónsson, form.
Guðjón Guðmundsson.
Einar Már Sigurðarson.
Kristinn H. Gunnarsson.
Drífa Hjartardóttir.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Valgerður Sverrisdóttir.
Þuríður Backman.


Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Sjávarútvegsnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Á. Steinþórsdóttur og Dórótheu Jóhannsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnuninni og Hjörleif Einarsson og Jón Heiðar Ríkharðsson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þá komu á fund hennar Þórður Ásgeirsson og Gylfi Ásbjartsson frá Fiskistofu.
    Í máli fulltrúa Hafrannsóknastofnunarinnar kom fram að í kjölfar breytinga á launakerfi opinberra starfsmanna, sem haft hefði í för með sér aukin útgjöld stofnunarinnar, hefði verið ráðist í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir sem m.a. hefðu haft í för með sér að starfsmönnum hefði verið fækkað um fjóra. Þá kom fram að endurnýjun á skipaflota stofnunarinnar hefði aukinn rektrarkostnað í för með sér.
    Fulltrúar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins telja að fjárveiting til stofnunarinnar sé of lítil miðað við verkefni sem fyrir liggja og nægi ekki til brýnna verkefna á næsta ári miðað við tillögur í frumvarpi til fjárlaga. Ljóst er að gagnstætt Hafrannsóknastofnuninni og Fiskistofu hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins lagt áherslu á uppbyggingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ályktanir Alþingis. Upplýst er að þessi uppbygging hefur kostað um 10 millj. kr. og leggur sjávarútvegsnefnd til að stofnuninni verði veitt viðbótarfjárframlag af þessum sökum í fjárlögum næsta árs.
    Hjá fulltrúum Fiskistofu kom fram að rekstur hennar hefur verið innan fjárlagaheimilda undanfarin ár. Upplýst var að Fiskistofa á varasjóð að fjárhæð 95 millj. kr. Eru það áform stofnunarinnar að nýta féð til þess að standa straum af kostnaði við verkefni sem árlegar fjárveitingar nægja ekki til.
    Guðmundur Hallvarðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. nóv. 1999.



Einar K. Guðfinnsson, form.


Sturla Þorsteinsson.


Hjálmar Árnason.


Kristinn H. Gunnarsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Bergljót Halldórsdóttir.


Jóhann Ársælsson.


Svanfríður Jónasdóttir.




Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Á fund nefndarinnar komu Berglind Ásgeirsdóttir, Sturlaugur Tómasson og Gunnar Bragi Sveinsson frá félagsmálaráðuneyti og Bragi Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu.
    Í frumvarpinu kemur fram að raunhækkun rekstrarútgjalda hjá félagsmálaráðuneyti frá fjárlögum 1999 er 212 millj. kr., eða um 7%. Ástæða hækkunarinnar er m.a. auknar fjárveitingar til Barnaverndarstofu til að fjölga meðferðarrýmum fyrir börn og unglinga. Þörfin hefur aukist mjög á síðustu árum, ekki síst með hækkun sjálfræðisaldurs árið 1998 úr 16 í 18 ár. Áætlað er að veita 70 millj. kr. til að koma á fót neyðarmóttöku fyrir unglinga auk þess sem 30 millj. kr. verða veittar til nýs langtímameðferðarheimilis að Skjöldólfsstöðum, en starfsemi þar mun hefjast í febrúar nk. Nefndin bindur vonir við að aukið framlag til stofnunarinnar í frumvarpinu verði til þess að bæta úr brýnustu þörfinni. Í máli fulltrúa Barnaverndarstofu kom hins vegar fram að þörf á langtímavistun væri mikil og til að vinna bug á henni þyrfti enn að fjölga rýmum.
    Þá ræddi nefndin um málefni fósturforeldra og fósturbarna. Eitt af verkefnum Barnaverndarstofu er þjálfun og undirbúningur fósturforeldra. Börn sem setja verður í fóstur hafa mjög mismunandi þarfir og að mati Barnaverndarstofu væri æskilegt að koma upp kerfi að erlendri fyrirmynd þar sem miðað er við að hæfni og þjálfun fósturforeldra sé í samræmi við þarfir barnanna. Vill nefndin taka undir með fulltrúa stofnunarinnar um mikilvægi þess að vel sé búið að þessum málaflokki.
    Nefndin vekur athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir lækkun á útgjöldum atvinnuleysistryggingasjóðs um 290 millj. kr. þar sem horfur eru á minnkandi atvinnuleysi. Gert var ráð fyrir 2,5% atvinnuleysi í forsendum fjárlaga þessa árs, í frumvarpinu er miðað við að atvinnuleysi verði 2,2%, en í október mældist það um 1,4%. Einnig er í tengslum við minnkandi atvinnuleysi gert ráð fyrir 85 millj. kr. lækkun á útgjöldum vegna námskeiðahalds, átaksverkefna og annarra tengdra úrræða. Ljóst er því að atvinnuleysistryggingasjóður mun styrkjast á nýjan leik.
    Nefndin fjallaði einnig um málefni fatlaðra en raunhækkun framlags til málaflokksins í frumvarpinu er um 192 millj. kr., eða um 5,6%. Rúmlega helmingur þess, um 100 millj. kr., eru ný útgjöld, fé sem er ráðstafað í samræmi við tillögur nefndar sem ráðherra skipaði til að fjalla um biðlista eftir þjónustu hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra. Fer hluti af þeirri fjárhæð til reksturs nýrra sambýla en sex ný heimili verða komin í fullan rekstur á næsta ári auk þess sem fjögur til viðbótar verða sett á stofn. Þá fer hluti framlagsins til að efla skammtímaþjónustu í Reykjavík og á Reykjanesi. Telur nefndin þessa hækkun vera til bóta.
    Nefndin stendur öll að áliti þessu en Kristján Pálsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu sinnar í fjárlaganefnd og fulltrúar minni hlutans, Guðrún Ögmundsdóttir, Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon, setja fyrirvara um eftirfarandi atriði:
     Minni hlutinn telur allt of langt gengið í skerðingu á tekjum framkvæmdasjóðs fatlaðra. Af mörkuðum tekjum að fjárhæð 575 millj. kr. á sjóðurinn aðeins að fá til ráðstöfunar 235 millj. kr. á næsta ári, þannig að skerðingin nemur 340 millj. kr. Slík skerðing markaðra tekna til úrbóta í málefnum fatlaðra sé í engu samræmi við aðstæður og þörf fyrir uppbyggingu í viðkomandi málaflokki. Enn fremur megi minna á umræður um að flytja málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna.
    Minni hlutinn vill einnig taka fram að þótt nokkur hækkun sé á framlögum til málefna barna og unglinga, þannig að eitthvað slái á það ófremdarástand sem ríkt hefur hvað varðar skort á meðferðarúrræðum, telji hann ekki nóg að gert.
    Minni hlutinn minnir að síðustu á að enn er ófrágengið hvernig ríkissjóður mun koma til móts við þau sveitarfélög sem þyngstar byrðar bera vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis. Ekki er gert ráð fyrir beinum framlögum úr ríkissjóði í afskriftarsjóð, sbr. ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 44/1998, um Íbúðalánasjóð.

Alþingi, 26. nóv. 1999.



Arnbjörg Sveinsdóttir, form.


Guðrún Ögmundsdóttir, með fyrirvara.
Pétur H. Blöndal.
Ólafur Örn Haraldsson.
Kristján L. Möller, með fyrirvara.
Kristján Pálsson, með fyrirvara.
Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.
Drífa Hjartardóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.




Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti Svanhvíti Jakobsdóttur skrifstofustjóra og Dagnýju Brynjólfsdóttur deildarstjóra.
    Fram kom í máli fulltrúa ráðuneytisins að rekstrarhalli sjúkrahúsanna í Reykjavík nemi um 900–1.000 millj. kr. Ástæðan er einkum aukinn launa- og lyfjakostnaður. Ríkisendurskoðun hefur nú verið falið að fara yfir rekstrarstöðu sjúkrahúsanna og leggja m.a. mat á afkomu ársins 1998 og áætlaða afkomu ársins 1999. Meiri hluti nefndarinnar bindur vonir við að skýrslan, sem væntanleg er í lok þessa mánaðar, eigi eftir að varpa frekara ljósi á þennan vanda og leiða til bættrar stöðu sjúkrahúsanna.
    Í frumvarpinu eru áform um allt að 1.000 millj. kr. lækkun lyfjaútgjalda á næsta ári. Meiri hlutinn leggur áherslu á nauðsyn þess að áfram verði leitað leiða til að ná fram raunhæfum sparnaði í heilbrigðiskerfinu, m.a. með sameiginlegum innkaupum og heildarútboðum.
    Jón Kristjánsson skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hann á sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 15. nóv. 1999.



Valgerður Sverrisdóttir, form.
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
Tómas Ingi Olrich.
Katrín Fjeldsted.
Jón Kristjánsson, með fyrirvara.
Ásta Möller.




Fylgiskjal IX.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Útgjöld til heilbrigðismála hafa á síðustu árum verið um helmingur útgjalda ríkisins og því er óhemju mikilvægt að árangur náist í rekstri heilbrigðiskerfisins jafnframt því sem haldið er þjónustustigi sem lög um heilbrigðisþjónustu segja til um, auk þess sem eftirsóknarvert hlýtur að teljast að ná árangri í því að nýta það fjármagn sem best sem þangað fer. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2000 liggur það fyrir að um 4,9 milljarða kr. hækkun verður á milli áranna 1999 og 2000 á framlögum til heilbrigðis- og tryggingamála. Þessi hækkun milli ára er meiri en nokkru sinni fyrr og þrátt fyrir hana liggur það fyrir að enn mun vanta 1,5–2 milljarða kr. inn í kerfið svo að endar nái saman. Sjúkrahúsin í Reykjavík hafa verið sérstaklega til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun vegna halla en það lítur út fyrir að þar vanti um 1 milljarð kr. og auk þess vantar verulega fjármuni til sjúkrastofnana út um allt land. Launahækkanir eru taldar ein helsta ástæða þessa mikla skorts á fjármagni en einnig hefur lyfjakostnaður verið verulega vanáætlaður. Á milli áranna 1998 og 1999 var talið að skuldahalinn í heilbrigðiskerfinu hefði að mestu leyti verið gerður upp ef frá voru talin nokkur sjúkrahús á landsbyggðinni, en fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár sýnir að það er langt frá því að svo sé.
    Reynsla síðustu ára og þróunin í útgjöldum til heilbrigðismála sýnir að stjórnvöld hafa lítil tök á málum í þessum málaflokki. Ár eftir ár hafa áætlanir verið gerðar sem ekki standast þegar á hólminn er komið og ávallt kemur fjárþörfin jafnmikið á óvart. Þetta sýnir að sú áætlanagerð, sem fjárlögin hafa byggst á, er gjörsamlega óraunhæf og bendir til þess að fjármögnunarleiðin sem við búum við í heilbrigðiskerfinu í dag hefur gengið sér til húðar. Yfirsýn skortir algerlega og úrræði þau sem notast hefur verið við hafa dugað skammt. Fjárlögin taka hvorki á innri rekstrarfjárþörf né uppsöfnuðum vanda heilbrigðisstofnana og ekkert gefur tilefni til að ætla að breyting verði á þeim vinnubrögðum og að fram komi fjárlagafrumvarp sem byggist á meiri vissu en núverandi frumvarp. Minni hlutinn leggur áherslu á að horfst verði í augu við þessar staðreyndir og að leitað verði nýrra leiða við fjármögnun líkt og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar þar sem fjárveitingar eru í auknum mæli tengdar þjónustumagni hverrar stofnunar. Þannig bera stjórnvöld líka ábyrgð á þjónustustigi stofnana um leið og fjárveitingar eru ákvarðaðar, en núverandi kerfi gerir ekki ráð fyrir að þetta fari saman. Kerfi fastra fjárlaga sem byggist á því að rekstrarkostnaður fyrri ára er lagður til grundvallar hverju sinni mælir afar illa þær breytingar sem eru oft á álagi á stofnunum á milli ára og hvetur minni hlutinn til þess að leitað verði leiða til að þróa nákvæmari mælikvarða á starfsemi hvers sjúkrahúss.
    Þá gagnrýnir minni hlutinn það sérstaklega hvernig staðið er að málum varðandi sjúkrahúsin í Reykjavík. Nú stefnir í að stjórnir þeirra verði sameinaðar von bráðar en nú þegar hefur einn forstjóri verið ráðinn fyrir sjúkrahúsin tvö. Minni hlutinn hefur spurst fyrir um það hvort áætlanir hafi verið gerðar um fyrirhugaða sameiningu sjúkrahúsanna hvað varðar fjárhagslega hagræðingu og mat á áhrifum á faglegt starf. Jákvæð svör hafa ekki fengist við þessum spurningum og telur minni hlutinn það óráðsíu að fara út í að sameina sjúkrahúsin án þess að ítarlegar úttektir liggi fyrir á þessum þáttum.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands er rekin með umtalsverðum halla, í reksturinn vantar nú um 150 millj. kr. til að koma honum í viðunandi horf. Þessi upphæð stafar að hluta til af eldri skuldum þeirra heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana sem sameinaðar voru í Heilbrigðisstofnun Austurlands 1. janúar sl. og sömuleiðis af vanáætlaðum kostnaði við að stofna og reka nýja heilbrigðisstofnun. Með tilliti til þess að hægt verði að reka Heilbrigðisstofnun Austurlands af öryggi og samkvæmt þeim skyldum sem stofnuninni er ætlað að sinna, m.a. með rekstri bráðaspítala, er nauðsynlegt að gera stofnuninni kleift að greiða upp umtalsverðan halla og taka tillit til starfsemi hennar við fjárveitingar. Við óbreytt ástand heldur Heilbrigðisstofnun Austurlands áfram að safna tugum milljóna króna skuld á ári vegna Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupsstað. Það er pólitísk ákvörðun að halda stofnuninni innan þess fjárlagaramma sem þegar hefur verið settur og getur ekki þýtt neitt annað en að leggja niður bráðaþjónustu á Fjórðungssjúkrahúsinu. Heilbrigðisstofnun Austurlands er ný stofnun og er þar mjög horft til þess hvernig gengur að samreka fjölda ólíkra heilbrigðisstofnana innan læknishéraðsins.

Alþingi, 15. nóv. 1999.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Þuríður Backman.





Fylgiskjal X.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga, nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Auði Eyvinds frá samgönguráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Magnús Oddsson ferðamálastjóri frá Ferðamálaráði, Sigurberg Björnsson og Jón Leví Hilmarsson frá Siglingastofnun Íslands, Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni og Hlífar Þorsteinsson, Pétur H. Helgason, Björn Sigurðsson og Oddur Einarsson frá Félagi sérleyfishafa.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins hækka um 150 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Helstu breytingar eru að framlög til rekstrar Flugmálastjórnar hækka um 51 millj. kr. og framlag til Ferðamálaráðs hækkar um 20 millj. kr. vegna endurbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum. Þá hækkar framlag til aðalskrifstofu og til ýmissa verkefna um 24 millj. kr. Viðhalds- og stofnkostnaður hækkar nokkuð og eru mestu breytingar þar 552 millj. kr. hækkun til vegamála og 183 millj. kr. lækkun á framlagi til Siglingastofnunar.
    Í útgjaldaramma ráðuneytisins hefur verið gert ráð fyrir frestun framkvæmda fyrir alls 1.000 millj. kr. Þar af eru 550 millj. kr. vegna frestunar framkvæmda hjá Vegagerðinni, 350 millj. kr. hjá Siglingastofnun Íslands og 100 millj. kr. vegna frestunar framkvæmda við flugvelli.
    Í máli ferðamálastjóra kom fram að fjármagn skorti til rannsókna og þróunarstarfa. Kvað hann það vera í verkahring Ferðamálaráðs að annast rannsóknir og þróunarstarf og að það hefði til þess fólk en fjármagn skorti til þessara starfa.
    Vegamálastjóri kvað 274 millj. kr. vanta á gjaldahlið stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu til að framkvæmdir gætu orðið eins og gert er ráð fyrir í vegáætlun. Væri frestun framkvæmda samkvæmt því ekki 550 millj. kr. eins og ríkisstjórnin hefði ákveðið heldur 824 millj. kr. Kvaðst hann telja að úr þessu yrði bætt við meðferð fjárlaganna í þinginu. Þá lagði vegamálastjóri áherslu á að þau verkefni sem yrði frestað yrðu áfram á vegáætlun, en með þeirri athugasemd að þeim væri frestað um eitt ár.
     Nefndin fjallaði nokkuð um þann fjárhagsvanda sem blasir við sérleyfishöfum. Kom fram í máli fulltrúa samgönguráðuneytisins að unnið sé að úttekt á vandanum og í kjölfar hennar megi vænta breytinga á reglum varðandi starfsemi sérleyfishafa. Telur meiri hlutinn brýnt að því starfi verði flýtt eins og unnt er.
    Árni Johnsen skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Lúðvík Bergvinsson og Jón Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. nóv. 1999.

Árni Johnsen, form., með fyrirvara.
Hjálmar Árnason.
Helga Guðrún Jónasdóttir.



Fylgiskjal XI.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hluti samgöngunefndar bendir á að eins og frumvarpið nú liggur fyrir er ekki staðið við þau fyrirheit sem Alþingi og ríkisstjórn gáfu með þingsályktun á síðstliðnu vori um aðgerðir í byggðamálum og með áliti þverpólitískrar nefndar skipaðrar af forsætisráðherra um sama efni frá því í mars á þessu ári. Þar er m.a. lögð áhersla á stórátak í samgöngubótum, vega- og jarðgangagerð á landsbyggðinni, sem ekki sér stað í þessu frumvarpi til fjárlaga 2000. Skerðing verðbóta á gjaldahlið vegáætlunar er mótmælt, svo og skerðingu fjár til hafnabóta úti á landi. Minni hlutinn áskilur sér rétt til að styðja og flytja nýjar tillögur og breytingatillögur við einstaka fjárlagaliði samgönguráðuneytis við 2. og 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins. Jón Bjarnason skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 30. nóv. 1999.

Jón Bjarnason, með fyrirvara.
Kristján L. Möller.




Fylgiskjal XII.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október sl.
    Nefndin fékk á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Jón Ingimarsson, Jón Ögmund Þormóðsson, Kristmund Halldórsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Hallgrím Jónasson og Karl Friðriksson frá Iðntæknistofnun, Þorkel Helgason frá Orkustofnun og Kristján Jónsson og Ársæl Guðmundsson frá Rarik. Þá fór nefndin í vettvangsferðir til Einkaleyfastofunnar, Samtaka iðnaðarins og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.
    Í máli og skriflegu erindi fulltrúa Orkustofnunar komu fram óskir um auknar fjárveitingar á fjárlögum 2000 sem taki mið af nýjum lögum um auðlindir og þjóðlendur og þeim auknu skyldum sem lög þessi leggja á stofnunina. Jafnframt þurfi stofnunin að taka mið af þeirri breytingu sem er í vændum með nýrri skipan raforkumála og gæta almannahagsmuna í samskiptum við fyrirtæki sem verða í samkeppni innbyrðis. Sérstaklega kom fram að virkjanaverkfræðing vanti til starfa við stofnunina. Er gert ráð fyrir að kostnaður vegna árslauna og hlutdeildar í sameiginlegum kostnaði nemi 6,4 millj. kr. á ári. Nefndin leggur til að stofnuninni verði gert kleift að ráða verkfræðing til starfa.
    Í máli og skriflegu erindi fulltrúa Iðntæknistofnunar kom fram það mat starfsmanna að hlutfall sértekna sé of hátt til þess að stofnunin geti sinnt því hlutverki sínu að stuðla að nýsköpun og eiga frumkvæði að nýjum framsæknum verkefnum. Bent var á að þróunin hafi orðið sú að stofnunin sé nú einungis þátttakandi í minni verkefnum á vegum Evrópusambandsins þar sem hún hafi ekki svigrúm til að standa skil á mótframlögum í stór verkefni. Þá kom fram að Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Iðntæknistofnun hyggjast í samvinnu sín á milli efla líftæknirannsóknir hér á landi og laða til sín sérfræðinga með menntun á þessu sviði. Til þess að gera stofnununum kleift að byggja upp þekkingargrunn sem nýtist báðum atvinnuvegunum telja fulltrúar þeirra nauðsynlegt að þeim sé tryggð sérstök fjárveiting til uppbyggingar aðstöðu og færni á þessu nýja sviði líftæknirannsókna. Iðntæknistofnun óskar því eftir 10 millj. kr. frá hvoru ráðuneyti næstu fimm árin, en hvor stofnun um sig mun leggja fram til þessarar uppbyggingar a.m.k. 7 millj. kr. á ári.
    
Fulltrúar frá Rarik, sem komu á fund nefndarinnar, upplýstu að í nóvember 1998 hefði iðnðarráðherra skipað nefnd til að endurskoða samning sem iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Rafmagnsveitur ríkisins gerðu um arðgreiðslur, gjaldskrármál o.fl. Samninginn skyldi endurskoða m.a. með hliðsjón af mati Kaupþings á markaðsvirði fyrirtækisins þar sem sérstaklega væri tekið tillit til þess sem kallað hefur verið félagslegur þáttur í starfsemi Rarik.
    Iðnaðarnefnd leggur áherslu á að framangreindu nefndarstarfi ljúki sem allra fyrst þar sem mótsögn virðist felast í því að Rarik þurfi að skila 2% arði á sama tíma og stofnunin þarf að sinna félagslegum verkefnum, eins og dreifingu og sölu raforku í strjálbýli. Þá vill nefndin benda á mikilvægi þess að móta stefnu um hvar leggja skuli þriggja fasa línur og að gerð verði langtímaáætlun í því sambandi, en kostnaður við að koma á þrífasa rafmagni til allra notenda nemur um 8,6 milljörðum kr.
    Loks mælist nefndin til þess að erindum þeim sem Einar Einarsson og Landssamband hugvitsmanna hafa sent fjárlaganefnd verði vísað til iðnaðarráðherra.
    Ísólfur Gylfi Pálmason skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að hann á sæti í fjárlaganefnd.

Alþingi, 24. nóv. 1999.

Hjálmar Árnason, form.
Pétur H. Blöndal.
Drífa Hjartardóttir.
Sturla D. Þorsteinsson.
Guðjón Guðmundsson.
Jóhann Ársælsson.
Ásta R. Jóhannesdóttir.
Árni Steinar Jóhannsson.
Ísólfur Gylfi Pálmason, með fyrirvara.




Fylgiskjal XIII.



Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 12. október 1999.
    Nefndin fékk á sinn fund Þórð H. Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneyti.
    Nefndin ræddi um útgjaldamarkmið ríkisstjórnarinnar sem leitast á við að ná með frumvarpinu en þar kemur fram að framlögum til ýmissa málaflokka verður slegið á frest eða þau lækkuð tímabundið í því augnamiði. Má þar nefna að lögð er til tímabundin frestun á framkvæmdum við snjóflóðavarnir hjá Ofanflóðasjóði. Nefndin ræddi einnig Staðardagskrá 21 og mælir með því að það verkefni verði framlengt.
    Nefndinni varð tíðrætt um þann þátt frumvarpsins þar sem lagt er til að innheimtur verði aðgangseyrir að friðlýstum svæðum og tekjunum verði varið til uppbyggingar á þeim svæðum þar sem aðgangseyrir er tekinn. Heimild fyrir gjaldtökunni hefur verið í náttúruverndarlögum um skeið og slík heimild er í núgildandi lögum, nr. 44/1999, sem samþykkt voru fyrr á þessu ári, en hefur hingað til ekki verið nýtt. Í máli fulltrúa umhverfisráðuneytisins kom fram að starfandi væri nefnd sem ynni að tillögum um fyrirkomulag gjaldtökunnar. Ekki liggur fyrir hvernig henni verður háttað en nefndin leggur áherslu á að henni verði kynntar útfærslur á gjaldtökunni áður en fullnaðarákvörðun verður tekin.
    Kolbrún Halldórsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Kristján Pálsson og Ísólfur Gylfi Pálmason skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu sinnar í fjárlaganefnd.
    Gunnar Birgisson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 1999.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Kristján Pálsson, með fyrirvara.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.
Katrín Fjeldsted.
Össur Skarphéðinsson, með fyrirvara.
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara.
Ásta Möller.
Ísólfur Gylfi Pálmason, með fyrirvara.