Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 365  —  205. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Ara Teitsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Gísla Karlsson, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Jóhann Ólafsson og Kristínu Önnu Sverrisdóttur, fulltrúa starfsmanna Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, og Guðmund Sigþórsson, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu. Umsagnir bárust nefndinni frá Lánasjóði landbúnaðarins, Framleiðsluráði landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Samkeppnisstofnun, Landsamtökum sláturleyfishafa og Landssambandi kúabænda.
    Á undanförnum árum hefur verkefnum Framleiðsluráðs landbúnaðarins fækkað. Þá hefur staða þess nokkuð breyst, sérstaklega eftir stofnun Bændasamtaka Íslands, en náin tengsl hafa frá upphafi verið milli ráðsins og annarra samtaka bænda. Benda má á að Bændasamtök Íslands skipa 14 af 15 mönnum sem sæti eiga í Framleiðsluráði. Því hefur endurskipulag á framkvæmd verkefna Framleiðsluráðs verið til umræðu innan bændasamtakanna um nokkurt skeið og samþykkti síðasta búnaðarþing samhljóða þær hugmyndir að fela Bændasamtökum Íslands flest þau verkefni sem Framleiðsluráð hefur haft á hendi.
    Meiri hlutinn minnir á að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga gilda að því leyti sem Bændasamtökum Íslands er fengið í hendur opinbert vald með þeirri breytingu sem gerð er á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993. Í 2. mgr. 70. gr. laganna er veitt heimild til að leggja á dagsektir ef aðili tregðast við að láta Framleiðsluráði skýrslur í té, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Ekki hefur verið sett reglugerð um þetta atriði en verði það gert telur nefndin að ráðherra verði að kveða á um beitingu dagsekta en ekki Bændasamtökin.
    Meiri hlutinn leggur til eina orðalagsbreytingu á 4. gr. frumvarpsins. Er hún til að taka af öll tvímæli um að Bændasamtök Íslands komi í stað Framleiðsluráðs landbúnaðarins í tilvitnuðum greinum laganna.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „„Framleiðsluráð landbúnaðarins“ í 2. gr. laganna og sömu orða í“ í 4. gr. komi: „Framleiðsluráð landbúnaðarins“ og „Framleiðsluráð“ í 2. gr.

Alþingi, 8. des. 1999.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.



         Þuríður Backman,


með fyrirvara.


Guðjón Guðmundsson.