Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 370  —  205. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Frumvarpið um niðurlagningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins er skref í rétta átt en með því er stefnt að einföldun og hagræðingu í landbúnaðarkerfinu. Margbreytileiki kerfisins, flókið sjóðakerfi og allur sá fjöldi aðila sem hafa komið að eftirliti, stýringu og framkvæmd þess hafa gert það að verkum að bændur, sem og aðrir, hafa átt erfitt með að átta sig á gerð þess og tilgangi – og jafnvel þeim markmiðum sem það vinnur að. Þar að auki hefur kerfið stundum stuðlað að háu verði til neytenda en þó of litlum afrakstri til bænda.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er vissulega verið að fækka þeim sem hafa hlutverk við útfærslu kerfisins, ekki síst þar sem verkefnum hefur fækkað og er það jákvætt. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að benda á nokkra vankanta á frumvarpinu, atriði sem vekja spurningar og geta dregið úr því að markmið þess náist.
    Í fyrsta lagi er ráðstöfun 190 millj. kr. í sjóði Framleiðsluráðs óljós og spurning er hver „eigi“ þessa fjármuni í raun og hvert þeir eigi að renna. Lífeyrissjóður bænda er hugsanlegur rétthafi, annar væri ríkissjóður, f.h. skattgreiðenda, og sá þriðji allir bændur í landinu. Þá er ekki ljóst hvernig fara skuli með sjóðinn. Nefnt hefur verið að ekki skuli hreyft við höfuðstólnum, en vextir og ávöxtun verði á ári hverju notuð af Bændasamtökunum en eingöngu í sértæk verkefni sem áður lutu stýringu Framleiðsluráðsins. Allt er þetta þó mjög laust í reipum í frumvarpinu.
    Annað meginatriði, sem þörf er að staldra við, er hlutverk Bændasamtakanna í opinberri stjórnsýslu. Í frumvarpinu og athugasemdum með því kemur skýrt fram að Bændasamtökin þurfa að lúta stjórnsýslulögum, sem og upplýsingalögum, þegar þau taka við verkefnum Framleiðsluráðs því að þar með er þeim fegnið opinbert vald til að taka ákvörðun um réttindi og skyldur einstaklinga. Er það meðvituð stefna stjórnvalda að velta opinberum verkefnum á herðar hagsmunasamtaka, stéttarsamtaka, eins og Bændasamtökin eru? Og vilja samtök á borð við Bændasamtökin í raun þróast frekar í þá veru, þar sem fulltrúar þeirra eru allt í senn: 1) þrýstihópur bænda gagnvart opinberum aðilum, 2) „verktaki“ eða fulltrúi þessara sömu opinberu aðila gagnvart bændum, umbjóðendum sínum, 3) félagsleg samtök bænda með fjölmörg verkefni af sama toga og hjá launþegasamtökunum, sem og samtökum atvinnurekenda? Þessi verkefni Bændasamtakanna munu óhjákvæmilega kalla á mótsagnir og erfiðleika. Enda þótt Bændasamtökin hafi áður haft samstarf við opinbera aðila af ýmsu tagi þá er hér um eðlisbreytingu að ræða sem nauðsynlegt er að skoða gaumgæfilega.
    Í þriðja lagi er sá sparnaður í rekstri sem að er stefnt og nefndur er í athugasemdum með frumvarpinu ekki í hendi og aðilar málsins hafa ekki gert skýra grein fyrir því í hverju hann liggur. Við 1. umr. málsins, sem og við umfjöllun nefndarinnar, var spurningum um sundurliðun sparnaðar svarað með almennum hætti. Þar kom ítrekað fram að fækkun starfsmanna yrði lítils háttar og að núverandi starfsmenn Framleiðsluráðs mundu flestir halda störfum sínum. Í skriflegri umsögn Bændasamtakanna er hins vegar gerð grein fyrir mun meiri niðurskurði í mannahaldi og umstalsverðum sparnaði í húsnæði, fundahaldi, ferðalögum, sérfræðiþjónustu og fleiru. Sú áætlun samtakanna ber vott um ákveðna bjartsýni og óhjákvæmilegt er að setja spurningamerki við hvort sú sparnaðaráætlun standist. Reynslan mun skera úr um það. Sparnaður mun því sennilega fyrst og síðast byggjast á fækkun þeirra verkefna sem áður voru á verksviði Framleiðsluráðs.
    Þrátt fyrir fyrrgreindar ábendingar og athugasemdir mun minni hlutinn, neðangreindir þingmenn Samfylkingarinnar, ekki standa gegn samþykkt frumvarpsins. Mikil nauðsyn er á þjóðarsátt sem brjóti bændum leið út úr þeirri fátæktargildru sem landbúnaðarstefna stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur leitt íslenska bændur í síðustu ár og áratugi. Í ljós hefur komið að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa áttað sig á því að mikilvægt er að snúa við blaðinu. Niðurlagning Framleiðsluráðsins er tilraun til þess. Minni hlutinn metur þá viðleitni og greiðir því atkvæði með frumvarpinu þrátt fyrir nokkra augljósa ágalla, m.a. þá sem nefndir hafa verið hér að framan.

Alþingi, 10. des. 1999.



Guðmundur Árni Stefánsson,


frsm.


Einar Már Sigurðarson.