Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 382  —  195. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES).

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðing frá utanríkisráðuneyti, Arnór Halldórsson deildarstjóra og Stefán Ásmundsson þjóðréttarfræðing frá sjávarútvegsráðuneyti og Jón Gunnar Ottósson forstjóra og Kristinn H. Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Æðarræktarfélagi Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands og listi yfir aðildarríki samningsins frá utanríkisráðuneyti.
    Markmið samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, CITES, er að vernda þessar tegundir dýra og plantna með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Samningurinn nær bæði til viðskipta með lifandi dýr og dauð, sem og með plöntur. Hann er í eðli sínu alþjóðlegur viðskiptasamningur sem inniheldur reglur um innflutning, útflutning og endurútflutning þeirra dýra og plantna sem skráð eru í viðaukum við samninginn, svo og um aðflutning þeirra úr sjó. Dýr og plöntur sem falla undir samninginn eru talin upp og flokkuð í þremur viðaukum eftir því hvaða reglur gilda um alþjóðaverslun með þau, sbr. 2.–5. gr. samningsins.
    Aðildarríki samningsins voru 145 í ágúst 1999. Öll nágrannaríki okkar eru aðilar að samningnum og flest Evrópuríki nema Ísland, Albanía og Írland. Með aðild getur Ísland haft áhrif á það hvaða tegundir eru skráðar í viðauka við samninginn. Þetta er m.a. mikilvægt í ljósi vaxandi umfjöllunar um skráningu fisktegunda í viðaukana. Hvert aðildarríki fer með eitt atkvæði, en nú eru Íslendingar einungis áheyrnaraðilar.
    Hvað snertir vísindalegt mat á vegum CITES kom fram á fundi nefndarinnar að skrifstofa CITES-samningsins hefur þar lykilhlutverki að gegna. Skrifstofan óskar eftir vísindalegu áliti frá þeim milliríkjastofnunum sem hún telur málið varða hverju sinni, sbr. ákvæði 15. gr. Álitsgjafar um tillögu Noregs um að færa hrefnu í Norður-Atlantshafi úr I. viðauka yfir í II. viðauka fyrir síðasta aðildarríkjaþing voru t.d. Alþjóðahvalveiðiráðið og NAMMCO. Ef umfjöllunarefnið væri fiskur á sama hafsvæði má búast við að Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, yrði álitsgjafi.
    Samkvæmt 23. gr. samningsins geta aðildarríki hans gert fyrirvara um tilteknar tegundir sem tilgreindar eru í viðaukum I–III við samninginn. Aðildarríki, sem gert hefur fyrirvara við skráningu tiltekinnar tegundar í viðauka, skoðast sem ríki sem ekki er aðili að samningnum að því er varðar verslun með viðkomandi tegund. Aðeins er unnt að gera fyrirvara þegar ríki gerist aðili, sbr. 2. tölul. 23. gr., og við breytingar á viðaukunum, sbr. 3. tölul. 15. gr. og 2. tölul. 16. gr. Einstakar tegundir geta síðan aðeins farið inn og út af listum eftir formlegar breytingar á viðaukunum, sbr. 15. gr. Meginreglan er sú að breytingar eru háðar samþykki 2/ 3 hluta þeirra aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
    Fram kom bæði í máli og umsögn fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands að stofnunin teldi ekki ástæðu til að gera fyrirvara um neinar tegundir eða tegundahópa nema hvalategundir sem eru í viðauka I. Stofnunin telur enga ástæðu til að gera athugasemdir við tegundir sem hafa aldrei sést hér við land, engar veiðar hafa verið stundaðar á eða eru svo sjaldséðar að engar líkur eru á að þær verði veiddar í fjárhagslegum tilgangi. Þá kom fram að hvítabjörn sé skráður í viðauka II. Ný lagaákvæði er varða þessa tegund voru sett með lögum nr. 64/ 1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og ætti skráning tegundarinnar í viðauka II að vera í samræmi við þau ákvæði. Þá kom einnig fram að nokkrar tegundir íslenskra fugla eru í viðaukum I og II, svo sem haförn, fálki, og smyrill og uglutegundirnar brandugla og snæugla, auk þess sem nokkrar tegundir sem hafa fundist hér á landi sem flækingsfuglar er þar að finna. Allar þessar fuglategundir eru alfriðaðar hér á landi og gilda enn fremur ýmis sérákvæði um framangreindar fimm tegundir ránfugla og uglna. Þær ættu því ekki að vera því til fyrirstöðu að Ísland gerðist aðili að CITES-samningnum og ekki er talin ástæða til að gera fyrirvara um þær. Í umsögn stofnunarinnar var þess að auki getið að fimm íslenskar tegundir séu að finna í viðauka III, þ.e. rostungur, grafönd, skriðönd, urtönd og rauðhöfðaönd. Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki athugasemd við það og sér ekki ástæðu til að skrá aðrar íslenskar tegundir í viðauka III. Loks kom fram að engar íslenskar plöntutegundir, þar á meðal háplöntur, fjallagrös og þörungar, væru taldar upp í viðaukum samningsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 13. des. 1999.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Steingrímur J. Sigfússon.


Katrín Fjeldsted.