Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 418  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Annar minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega þann losarabrag sem verið hefur á mati á þjóðhagslegum forsendum fjárlagafrumvarpsins þar sem allt of skammur tími var gefinn til að meta upplýsingar sem nefndinni bárust. Þó er rétt að ítreka að þrátt fyrir þennan skamma tíma má greina alvarleg hættumerki í efnahagslífinu af þessum gögnum þar sem boðaðar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum hafa ekki gengið eftir. Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir aukinni verðbólgu og meiri viðskiptahalla.
    Tekjur ríkisins mótast allt of lítið af varanlegum virðisauka. Of stór hluti teknanna er til kominn vegna mikillar neyslu í þjóðfélaginu og nú er svo komið að þrátt fyrir mikinn tekjuafgang og fyrirheit um að greiða niður skuldir er það einfaldlega erfiðleikum háð. Annars vegar er gjaldeyrisforði lítill, hins vegar treystir ríkisstjórnin sér ekki til að greiða niður innlendar skuldir vegna þensluáhrifa. Niðurstaðan er því sú að vaxtalaust fjármagn safnast upp í Seðlabankanum. Þrátt fyrir að hættumerkin í efnahagslífinu hafi verið ljós undanfarna mánuði sýna endurskoðaðar spár fram á enn meiri viðskiptahalla en áður var gert ráð fyrir og ekki er fyrirsjáanlegt hvenær hægt verði að nýta uppsafnað fjármagn til að greiða niður erlendar skuldir.
    Við 2. umræðu fjárlaga var mikið rætt um eftirlit með stofnunum og verklagsreglur til að tryggja að þær haldi sér innan ramma fjárlaga. Nauðsynlegt er að slíkar reglur séu skýrar og algildar. Eftirlitshlutverk fjárlaganefndar er þar ekki undanskilið, það þarf að vera skýrt svo að nefndin sé í stakk búin að sinna hlutverki sínu sem best.
    Reiknilíkön eru æ meira að ryðja sér til rúms. Í breytilegu þjóðfélagi verður að vera svigrúm til ákvarðanatöku, annars er hætta á ósveigjanleika og stöðnun. Veiku löggjafarvaldi hættir til að skýla sér í blindni á bak við reiknilíkön og horfa fram hjá þörfum þegnanna og velferð.
    Vinstri hreyfingin — grænt framboð hefur m.a. lagt til:
          að tekinn verði upp þrepaskiptur tekjuskattur af launatekjum sem hlífi fólki með lægri tekjur við óhóflegri skattbyrði en felur í sér hátekjuskatt,
          að fjármagnstekjur, þ.m.t. arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé almennings verði skattlagðar á svipaðan hátt og aðrar tekjur,
          að skattlagning á hreinum hagnaði fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna og frádráttarheimildir vegna gamalla rekstrartapa og fleiri slíkra atriða verði þrengdar um leið og hvatt verði til nýsköpunar með sérstökum ívilnunum,
          að kannaðar verði búsetutengdar ívilnanir til jöfnunar og leiðréttingar,
          að lögð verði áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlindanna og teknir upp vistvænir (grænir) þjóðhagsreikningar þar sem verðgildi ósnortinnar náttúru er metið og fórnarkostnaður ef á hana er gengið, en aukið verðmæti náttúrunnar jafnframt fært til hagnaðar fyrir næstu kynslóðir.
    Vinstri hreyfingin — grænt framboð leggur áherslu á að stefnumörkun og áherslur í fjármálastjórn ríkisins verða að byggjast á sterkri sýn á það samfélag og umhverfi sem við viljum búa — ekki aðeins okkur sjálfum heldur miklu frekar komandi kynslóðum.

Alþingi, 15. des. 1999.



Jón Bjarnason.