Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 636  —  379. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson,
Svanfríður Jónasdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Karl V. Matthíasson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 37. gr. laganna bætist nýr stafliður er verður a-liður og orðast svo: gróðurvinjar á hálendinu, 1 hektari að stærð eða stærri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hér er lagt til að gróðurvinjum á hálendi Íslands verði bætt við þær landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd. Ástæðan er sú að gróðurvinjar hálendisins eru sérstök landslagsgerð sem ekki einasta eru einstæðar á Íslandi heldur á heimsvísu. Það gildir bæði um ólík samfélög plantna og dýra sem á þeim dafna og um sérstaka blöndu lífræns jarðvegs og gosefna sem er undirstaða þeirra. Þær eru því ákaflega mikilsverðar frá vistfræðilegum sjónarhóli. Sömuleiðis má færa rök að því að vinjarnar séu ein af burðarstoðum ferðaþjónustu á hálendinu. Því miður eru dæmi um illa meðferð hálendisvinja. Þar má sem dæmi nefna Orravatnsrústir á Hofsafrétti, en þeim var til skamms tíma ógnað af ofbeit hrossa. Því er rík ástæða til að vernda þær, ekki síður en aðrar landslagsgerðir.
    Þær landslagsgerðir sem þegar njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögunum eru: a) eldvörp, gervigígar og eldhraun, b) stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m² að stærð eða stærri, c) mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri, d) fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m² að stærð eða stærri, og e) sjávarfitjar og leirur. Á 10. náttúruverndarþingi, 28.–29. janúar 2000, var samþykkt áskorun um að gróðurvinjum á hálendinu yrði bætt við upptalningu landslagsgerða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Þingið skilgreindi jafnframt gróðurvin sem einangrað svæði með samfelldum gróðri, og þeirri skilgreiningu er haldið í þessu frumvarpi. Þá er gengið út frá þeim mörkum miðhálendisins sem dregin eru á staðfestu skipulagi fyrir það.

Dýrmæti gróðurvinjanna.
    Helsta sérkenni miðhálendis Íslands eru hinar kröftugu andstæður sem birtast þar sem gróskuríkar vinjar rjúfa gráa og þurra auðn hálendisins. Víðast hvar teygir gróður sig upp af láglendinu og upp á hálendisbrúnina, en rofnar og verður slitróttur eftir því sem lengra dregur inn á hásléttuna. Að lokum tekur auðnin við og gróin lönd finnast aðeins á einangruðum blettum sem gróðurvinjar. Flestar vinjarnar eru síðustu leifar miklu víðfeðmara gróðurlendis sem við landnám var að líkindum að finna víða á hálendinu, en ofbeit, eldgos og mikil kuldaskeið unnu sameiginlega á. Nú er því miðhálendið að mestu auðnir þar sem gróður þekur einungis 1–2% af yfirborði landsins. Þessar séríslensku andstæður sem hvergi eiga sinn líka, grænn gróður við uppsprettulindir í auðninni miðri, skapa hið segulmagnaða aðdráttarafl sem í vaxandi mæli laðar að sér innlenda og erlenda ferðalanga. Af þeim sjónarhóli eru gróðurvinjarnar ómetanleg auðlind, eiga snaran þátt í að skapa þjóðinni ómældar tekjur af ferðamennsku sem á næstu öld er talin líkleg til að verða helsta tekjulind þjóðarinnar. Það eitt undirstrikar nauðsyn þess að varðveita gróðurvinjar hálendisins eins og kostur er.
    Dýrmæti gróðurvinjanna helgast þó miklu fremur af því að í vistfræðilegu tilliti njóta þær algerrar sérstöðu. Þær eiga sér enga hliðstæðu í öðrum löndum, og helst að þær megi bera saman við vinjar í þurrum og heitum eyðimörkum þótt loftslag og lífríki sé augljóslega gjörólíkt. Í lífríki hálendisins gegna gróðurvinjarnar í senn margbrotnum og mikilvægum hlutverkum. Þær eru eina athvarf fjölmargra tegunda plantna og dýra sem ekki dafna í auðninni umhverfis. Það gildir ekki síst um fugla, enda hafa sumar gróðurvinjarnar alþjóðlegt gildi sökum mikilvægis síns fyrir ýmsar tegundir þeirra. Jafnframt eru þær nær einu verksmiðjur lífræns efnis á hálendinu en frumframleiðni gróðurvinjanna er margfalt meiri en á gróðurleysunum umhverfis. Lífríki þeirra endurspeglar ljóslega mishæðir í landinu og þar með mismunandi snjóalög og rakastig í jarðvegi. Í skjóli þeirra dafnar gjarnan smágert mynstur ólíkra plöntusamfélaga sem innan lítils svæðis geta skapa fjölbreytt búsvæði fyrir margvísleg dýr. Lífríki gróðurvinjanna á hálendinu eru því ótrúlega margbrotin.

Mikilvægir fræbankar.
    Staðsetning gróðurvinjanna á hálendinu skiptir einnig miklu fyrir lífríkið sem innan þeirra dafnar. Gróðurvinjarnar geta því verið ákaflega ólíkar. Tegundaauðgi vinjanna á suðurhálendinu ber þannig sterkan keim af hafrænu og úrkomusömu loftslagi sem einkennir svæðið meðan landrænt loftslag norðan Vatnajökuls setur allt annan svip á gróðurvinjarnar þar. Fjölbreytni lífríkisins er að sjálfsögðu margfalt meiri innan vinjanna en á auðnunum umhverfis. Þær skipta því gífurlegu máli þegar líffræðileg fjölbreytni vistkerfa á miðhálendinu er metin. Í alþjóðlega samningnum um líffræðilega fjölbreytni, sem Íslendingar undirrituðu í Rio de Janeiro í júní 1992, segir að eitt af þremur höfuðmarkmiðum samningsins sé að vernda líffræðilega fjölbreytni. Samþykkt tillögunnar er því eindregið í anda samningsins.
    Gróðurvinjar hálendisins eru eins og áður segir dreifðar leifar gróðurlendis sem forðum teygði sig yfir miklu víðfeðmari hluta miðhálendisins. Gríðarleg gróðureyðing hefur átt sér stað frá landnámi. Orsakanna má leita til samspils náttúrulegra þátta eins og eldgosa og langvarandi og endurtekinna kuldaskeiða eftir miðja þrettándu öldina, þegar mesta hlýindaskeiði Íslandssögunnar slotaði, en ekki síst til ofbeitar búsmala mannsins. Um aldir hefur hálendið verið beitt. Þegar kuldaskeið hafa þrengt að kvikfénaði hefur ágangurinn á köflum efalítið gengið nærri náttúrulegri framleiðslu. Til marks um það má vísa til orða Páls Vídalíns, sýslumanns og höfundar Jarðabókanna ásamt Árna Magnússyni, sem lét svo um mælt snemma á átjándu öldinni „að ei skuli þarflaus hrossa fjöldi uppeta kjarna landkostanna, og spilla málnytunni …“ (Skýringar yfir fornyrði lögbókar, Reykjavík, 1854). Á þessari öld keyrði svo um þverbak með hreinni rányrkju á stórum flæmum hálendisins. Þetta hefur án nokkurs vafa haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fræmyndun og dregið úr möguleikum plantna á endurnýjun og dreifingu. Gróðurvinjarnar eru hins vegar ómetanleg uppspretta fræja. Þegar umhverfið breytist og verður hagstæðara gróðri á hálendinu í grennd við slíkar vinjar, t.d. vegna breytinga á lofthita eða minnkandi beitarálags, verða fræbankar gróðurvinja hálendisins ómetanlegir við uppgræðslu þess. Í þessu framtíðarhlutverki hálendisvinjanna felst ekki sísta röksemdin fyrir því að vernda þær sérstaklega.