Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 645  —  387. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Eftir stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 lá VES nánast í dvala í rúma fjóra áratugi eða þar til árið 1991 er sambandinu var falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB) með Maastricht-sáttmálanum. Síðan þá hefur VES eflst verulega og gegnt æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu hefur verið ætlað að annast framkvæmd fyrirhugaðs varnarmálahluta ESB á það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum hefur verið litið á VES sem hlekkinn milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB. Á VES-þinginu koma saman þingmenn frá aðildarríkjum sambandsins. Árið 1999 var framtíð sambandsins sjálfs og stofnanatengsl VES við ESB og NATO efst á baugi í umræðum þingsins auk stöðu mála á Balkanskaga.
    Þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB var meira áberandi árið 1999 en áður. Á leiðtogafundi sambandsins í Köln 3.–4. júní var m.a. ákveðið að stefna að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000 og á fundi leiðtoganna í Helsinki 10.–11. desember komu leiðtogarnir sér saman um að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á fót nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópulöndunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Stefnt er að því að samþykkja sáttmála um skipan varnar- og öryggismála sambandsins í formennskutíð Frakka á síðari hluta ársins 2000. Javier Solana, fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO, var skipaður í nýtt embætti æðsta talsmanns ESB á sviði utanríkis- og öryggismála og var hann jafnframt skipaður framkvæmdastjóri VES. Framtíðarstaða evrópskra NATO-ríkja sem ekki eiga aðild að ESB er eitt þeirra atriða sem ekki hafa verið útkljáð, en í Helsinki var enn fremur samþykkt að setja á fót „viðeigandi stofnanir“ til samstarfs við önnur evrópsk bandalagsríki. Íslandsdeildin hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að núverandi aukaaðildarríki VES geti tekið þátt í þessari þróun, sem og framkvæmd þeirrar stefnu sem á endanum verður mótuð. Þá hefur Íslandsdeildin lagt áherslu á mikilvægi lýðræðislegs eftirlits þingmannasamkundu eins og VES-þingsins.

2. Markmið og skipulag VES-þingsins.
    VES-þingið kom fyrst saman árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Aðildarríki þingsins eru nú tíu talsins og eru þau öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum auk Danmerkur. Loks hafa sjö ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES.
    Eftirfarandi ríki eiga aðild að þinginu: Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland.
    Aukaaðild eiga Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland.
    Áheyrnaraðild eiga Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð.
    Samstarfsríki VES-þingsins eru Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Rúmenía, Slóvakía og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðsins og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna fjóra til fimm fundi á ári utan þingfundanna.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (grein 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið mikinn þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa heldur ekki rétt til að tala sitt eigið tungumál á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum, gera breytingartillögur og taka þátt í nefndarstarfi á annan hátt. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.

3. Stofnun Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Þar sem Ísland er aðili að NATO stóð Alþingi lengi til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boðið fyrst árið 1993, en árið áður hafði Ísland fengið aukaaðild að VES sem tók þó ekki formlega gildi fyrr en 6. mars 1995. Í umboði forsætisnefndar Alþingis tilnefndu Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og síðar Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins áheyrnarfulltrúa á desemberfundi VES-þingsins árin 1994 og 1995. Þegar Ísland hafði hlotið formlega aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu samþykkti forsætisnefnd á fundi í maí 1995 að stofna Íslandsdeild VES-þingsins.

4. Skipan Íslandsdeildar VES-þingsins árið 1999.
    Hinn 16. júní var ný Íslandsdeild kjörin að afloknum kosningum til Alþings 8. maí. Fram til 16. júní voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, þingflokki Alþýðuflokks (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar), og Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Alþýðuflokks (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar).
    Frá og með 16. júní voru aðalmenn Íslandsdeildar VES-þingsins Kristján Pálsson, formaður og Katrín Fjeldsted, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Hjálmar Jónsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar VES-þingsins er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 1999 var eftirfarandi:
Fram til 16. júní Frá og með 16. júní
Forsætisnefnd Lára Margrét Ragnarsdóttir Kristján Pálsson
    Til vara     Össur Skarphéðinsson     Katrín Fjeldsted
Stjórnarnefnd Lára Margrét Ragnarsdóttir Kristján Pálsson
    Til vara     Össur Skarphéðinsson     Katrín Fjeldsted
Stjórnmálanefnd Lára Margrét Ragnarsdóttir Kristján Pálsson
    Til vara     Össur Skarphéðinsson     Einar Oddur Kristjánsson
Varnarmálanefnd Össur Skarphéðinsson Katrín Fjeldsted
    Til vara     Kristján Pálsson     Hjálmar Jónsson
Nefnd um almannatengsl Össur Skarphéðinsson Lúðvík Bergvinsson
    Til vara     Þórunn Sveinbjarnardóttir
Tækni- og geimvísindanefnd Siv Friðleifsdóttir Lúðvík Bergvinsson
    Til vara     Þórunn Sveinbjarnard
Fjármála- og stjórnsýslunefnd Siv Friðleifsdóttir Katrín Fjeldsted
    Til vara     Hjálmar Jónsson
Þingskapanefnd Siv Friðleifsdóttir Katrín Fjeldsted
    Til vara     Hjálmar Jónsson

5. Starfsemi á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

a. Fyrri hluti 45. fundar VES-þingsins.
    Dagana 14.–17. júní var fyrri hluti 45. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu að þessu sinni Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður fráfarandi Íslandsdeildar, og Lúðvík Bergvinsson, sem 16. júní var kjörinn til setu í nýrri Íslandsdeild, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Helsta málefni fundarins var niðurstaða fundar leiðtogaráðs ESB í Köln 3.–4. júní, en þar var m.a. ákveðið að stefna að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000.
    Á fundinum voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirfarandi mál: breyttar starfsreglur eftir að Pólland, Tékkland og Ungverjaland hlutu aukaaðild að VES í kjölfar inngöngu í NATO, VES að loknum leiðtogafundum NATO og ESB, friðargæslu og öryggismál Afríku, evrópska gervihnetti, VES sem framkvæmdaraðila aðgerða til að hafa stjórn á hættuástandi, hreyfanleika evrópsks herafla, fjárlög VES og VES-þingsins, friðargæslu á Balkanskaga, stöðu mála í Kosovo og álit almennings á framlagi VES til stöðugleika í Albaníu.
    Eftirtaldir ávörpuðu fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Walther Stützle, aðstoðarvarnarmálaráðherra Þýskalands, Philip Gordon, deildarstjóri Evrópudeildar þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, Günter Verheugen, aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands, Jacques Poos, utanríkisráðherra Lúxemborgar, og Tom Spencer, fráfarandi formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins.
    Í umræðunni um VES að loknum leiðtogafundum NATO og ESB lagði Lára Margrét Ragnarsdóttir áherslu á að Íslendingar styddu eflingu Evrópusamstarfs um öryggis- og varnarmál, innan NATO. Íslendingar skildu vel og virtu starf ESB-ríkja í þá átt að efla sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu sambandsins, sem m.a. ætti að þróast yfir í sameiginlega varnarmálastefnu. Hún minnti hins vegar á að slík þróun hefði bein áhrif á evrópsk NATO-ríki utan ESB, þar á meðal Ísland. Því lýsti hún ánægju með að á leiðtogafundi NATO í Washington í apríl hefðu meðal annarra leiðtogar ellefu ESB-ríkja lýst yfir mikilvægi þess að tryggja sem mesta og öflugasta þátttöku evrópskra NATO-ríkja utan ESB í hugsanlegum aðgerðum vegna hættuástands undir stjórn ESB. Hún sagði mikilvægt að nýtt fyrirkomulag evrópsks samstarfs í öryggismálum yrði sem líkast þáverandi fyrirkomulagi fyrir aukaaðildarríki VES. Því fyrr sem það lægi fyrir, þeim mun betra fyrir samstarf NATO, ESB og VES, og fyrir evrópskt samstarf í öryggis- og varnarmálum, sagði Lára Margrét.

b. Síðari hluti 45. fundar VES-þingsins.
    Dagana 29. nóvember til 2. desember var síðari hluti 45. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson formaður, Katrín Fjeldsted varaformaður og Lúðvík Bergvinsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Framtíðarskipan Evrópusamsarfs í öryggis- og varnarmálum var í brennidepli á fundinum, en hún var einnig til umfjöllunar á leiðtogafundi ESB í Helsinki viku síðar. Meðal þess sem helst var rætt í þessu sambandi var staða evrópsku NATO-ríkjanna sem standa utan ESB (aukaaðildarríkja VES) annars vegar og skipan evrópsks þingmannasamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála hins vegar. Þá var Klaus Bühler, þingmaður kristilegra demókrata í Þýskalandi, kjörinn nýr forseti VES-þingsins og tók hann við af spænska jafnaðarmanninum Lluis María de Puig um áramót.
    Á fundinum voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirtalin málefni: framtíð evrópskra varnarmála og lýðræðislegs eftirlits, eflingu samstarfs milli VES-þingsins og þjóðþinganna við mótun evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu, samstarfsríkin og nýja skipan í öryggismálum Evrópu, með sérstakri áherslu á svæðisbundin öryggisvandamál, þróunina í átt til atvinnuhermennsku í Evrópu, evrópskan herafla, almenningsálitið og evrópsk öryggis- og varnarmál eftir leiðtogafund ESB í Köln, evrópskt samstarf í vopnaframleiðslu, framtíð gervitunglamiðstöðvar VES, Kína á tímamótum, nýjustu þróun í Suðaustur-Evrópu, stöðu mála í Kosovo, endurskoðaða reikninga þingsins fyrir fjárlagaárið 1998 og fjárlög þingsins fyrir árið 2000.
    Auk ávarpa fráfarandi og verðandi forseta þingsins ávörpuðu eftirtaldir fundinn og svöruðu spurningum þingmanna: Jan-Erik Enestam, varnarmálaráðherra Finnlands, formennskuríkis ESB síðari hluta ársins 1999, José Matos da Gama, utanríkisráðherra Portúgals, formennskuríkis ESB og VES fyrri helming ársins 2000, Javier Solana, framkvæmdastjóri VES og æðsti talsmaður ESB í utanríkis- og öryggismálum, og Charles Goerens, varnarmálaráðherra Lúxemborgar, formennskuríkis VES síðari helming ársins 1999.
    Kristján Pálsson tók þátt í umræðum um framtíð evrópskra varnarmála og lýðræðislegs eftirlits. Kristján lýsti ánægju sinni með skýrsluna og ályktunardrögin, þar sem m.a. var lögð áhersla á að við framtíðarþróun í evrópskum öryggis- og varnarmálum yrði að tryggja áframhaldandi og óskerta þátttöku aukaaðildarríkja VES. Kristján sagði Ísland styðja og hafa mikinn skilning á viðleitni evrópskra bandalagsríkja sinna við að efla mátt sinn í öryggismálum, en lagði áherslu á að slík þróun yrði til að efla NATO, sem áfram yrði grundvallarstofnun öryggis og friðar í Evrópu. Hann sagði Ísland og önnur aukaaðildarríki VES eiga grundvallarrétt á að taka þátt í mótun jafnt sem framkvæmd nýrrar skipanar í evrópskum öryggismálum. Þá vísaði Kristján til þess hvernig VES-þingið hefði ítrekað ályktað um nauðsyn þess að varðveita eða efla hlut aukaaðildarríkjanna í evrópskum öryggismálum og sagði algerlega nauðsynlegt að stofnun á borð við VES-þingið hefði uppi lýðræðislegt eftirlit með þeim. Hann sagðist eiga erfitt með að sjá Evrópuþingið taka við hlutverki VES-þingsins og þjóðþinganna í þessum efnum og hvatti þingmenn aðildarríkja ESB til að standa vörð um VES- þingið.
    Kristján beindi jafnframt þeirri spurningu til Javiers Solana hvert hann mæti mikilvægi slíkrar þingmannasamkundu sem VES-þingsins með hliðsjón af reynslu sinni af samskiptum við NATO-þingið í tíð sinni sem framkvæmdastjóri NATO og jafnframt hvaða stöðu hann sæi aukaaðildarríki VES hafa í nýrri skipan í evrópskum öryggismálum. Í svari sínu vísaði Solana að hluta til í ræðu sína og fyrri svör þar sem hann hafði lýst þeirri skoðun sinni að framlag þingsins væri mikilvægt og að hann mundi halda því á lofti í því mótunarstarfi sem fram undan væri. Hann sagði nauðsynlegt að nýta það millibilsástand sem mundi skapast til að starfa saman að mótun endanlegrar niðurstöðu og vísaði þar til sjálfs sín, ríkisstjórnanna, VES-þingsins og þjóðþinganna. Síðari hluta spurningar Kristjáns, um framtíðarstöðu aukaaðildarríkjanna, svaraði Solana þannig að nauðsynlegt væri að þau kæmu að mótun jafnt sem framkvæmd nýrrar stefnu „eins og hægt væri“. Hann lagði hins vegar áherslu á að fimmtán aðildarríki ESB tækju á endanum ákvarðanir í þessum málum.
    Hvað varðar þessi tvö atriði, framtíð aukaaðildarríkjanna annars vegar og þingmannastarfsins hins vegar, er fróðlegt að vitna til ræðu sem breski þingmaðurinn Jim Marshall, framsögumaður skýrslu um framtíðarskipan evrópskra varnarmála og lýðræðislegs eftirlits, flutti í lok umræðunnar um skýrsluna (og reyndar að loknum ávörpum framantalinna gesta). Þar dró hann saman umræðuna á þinginu og sagði tvennt standa upp úr. Í fyrsta lagi hefðu þingmenn almennt lagt áherslu á mikilvægi áframhaldandi þingmannasamstarfs á borð við VES-þingið. Í öðru lagi hefðu þingmenn almennt lagt áherslu á að breytt skipan í evrópskum öryggis- og varnarmálum mætti alls ekki ganga gegn hagsmunum aukaaðildarríkjanna og samstarfsríkjanna. Hann sagði skýrslu sína leggja áherslu á það og greindi jafnframt frá því að hann hefði sjálfur lagt fram nokkrar breytingartillögur við ályktunardrög sín til þess að efla þau skilaboð. Tryggja yrði að staða viðkomandi ríkja yrði ekki lakari í nýrri skipan. Tillögur Marshalls hlutu allar samþykki þingsins.

Alþingi, 21. jan. 2000.



Kristján Pálsson,


form.


Katrín Fjeldsted,


varaform.


Lúðvík Bergvinsson.



Fylgiskjal.

Ályktanir, álit og tilmæli til ráðherraráðs VES


samþykkt af VES-þinginu árið 1999.



    Fyrri hluti 45. þingfundar, 14.–17. júní.
     1.      Álit nr. 35 um endurskoðuð fjárlög VES-þingsins fyrir árið 1999.
     2.      Tilmæli nr. 642 um VES og evrópsk varnarmál eftir ríkjaráðstefnu ESB í Amsterdam.
     3.      Tilmæli nr. 643 um leiðtogafund NATO og þýðingu hans fyrir Evrópu.
     4.      Tilmæli nr. 644 um VES að loknum leiðtogafundum NATO og ESB.
     5.      Tilmæli nr. 645 um friðargæslu og öryggismál Afríku.
     6.      Tilmæli nr. 646 um evrópska gervihnetti.
     7.      Tilmæli nr. 647 um VES sem framkvæmdaraðila aðgerða til að hafa stjórn á hættuástandi.
     8.      Tilmæli nr. 648 um hreyfanleika evrópsks herafla.
     9.      Tilmæli nr. 649 um fjárlög VES fyrir árið 1999.
     10.      Tilmæli nr. 650 um friðargæslu á Balkanskaga.
     11.      Tilmæli nr. 651 um stöðu mála í Kosovo.
     12.      Tilmæli nr. 652 um álit almennings á framlagi VES til stöðugleika í Albaníu.

     Síðari hluti 45. þingfundar, 29. nóvember til 2. desember.
     1.      Ályktun nr. 101 um eflingu samstarfs milli VES-þingsins og þjóðþinganna við mótun evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu.
     2.      Tilmæli nr. 653 um áskorunina í evrópskum öryggismálum eftir leiðtogafund ESB í Köln.
     3.      Tilmæli nr. 654 um framtíð evrópskra varnarmála og lýðræðislegs eftirlits.
     4.      Tilmæli nr. 655 um Kína á tímamótum.
     5.      Tilmæli nr. 656 um þróunina í átt til atvinnuhermennsku í Evrópu.
     6.      Tilmæli nr. 657 um evrópskan herafla.
     7.      Tilmæli nr. 658 um almenningsálitið og evrópsk öryggis- og varnarmál eftir leiðtogafund ESB í Köln.
     8.      Tilmæli nr. 659 um evrópskt samstarf í vopnaframleiðslu.
     9.      Tilmæli nr. 660 um framtíð gervitunglamiðstöðvar VES.
     10.      Tilmæli nr. 661 um samstarfsríkin og nýja skipan í öryggismálum Evrópu með sérstakri áherslu á svæðisbundin öryggisvandamál.
     11.      Tilmæli nr. 662 um nýjustu þróun í Suðaustur-Evrópu.
     12.      Tilmæli nr. 663 um stöðu mála í Kosovo.