Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 676  —  415. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Árið 1999 fagnaði Evrópuráðið fimmtíu ára afmæli sínu. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra gegndi formennsku í ráðherranefnd ráðsins frá 7. maí–4. nóvember. Hérlendis var m.a. efnt til sérstaks Alþingis ungmenna dagana 29.–31. mars í tilefni af afmæli ráðsins. Þá fundaði stjórnmálanefnd Evrópuráðsþingsins á Íslandi mánudaginn 6. september og var fundurinn í tengslum við formennsku Íslands í ráðherranefndinni. Árið 1999 var því bæði sögulegt fyrir Evrópuráðið sjálft og fyrir þátttöku Íslands í starfi þess.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins sem snerta ýmis svið þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á fót lýðræði og réttarríki í löndum sínum. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en slíkar mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Sem dæmi um það má nefna að í Amsterdamsáttmála Evrópusambandsins (ESB) er að finna málsgrein þar sem undirritun mannréttindasáttmála Evrópu er gerð að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir inngöngu í sambandið. Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahagsaðstoð, lagaaðstoð, tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört. Árið 1989 voru þau tuttugu og tvö en eru nú fjörutíu og eitt talsins, auk þess sem fjöldi ríkja hefur sótt um aðild. Pólitískt vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár, en íbúar aðildarríkjanna eru um 750 milljónir.

2. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Þann 17. maí 1999 tóku gildi nýjar reglur um alþjóðanefndir Alþingis. Með breytingunni er m.a. lögð meiri áhersla á að aðalmenn sinni starfi Íslandsdeildanna en varamenn í forföllum þeirra. Ný Íslandsdeild var kjörin 16. júní að afstöðnum alþingiskosningum 8. maí.
    Fram til 16. júní voru aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Frímannsdóttir varaformaður, þingflokki Alþýðubandalags (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar), og Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Hjálmar Jónsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Frá og með 16. júní voru aðalmenn deildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.

3. Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðsþingið gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi Evrópuráðsins, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 527 fulltrúar sem skiptast til helminga í aðal- og varamenn. Öfugt við ráðherranefndina, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í fjórtán málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar, óháð þjóðerni. Þingið fundar fjórum sinnum á ári, í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og gera beinar tillögur til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
          vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir í samræmi við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina alevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Þingfundir þar sem menn starfa saman, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því mikilvægir, ekki síst fyrir nýfrjálsu ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Reynslan hefur sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

4. Þingfundur Evrópuráðsþingsins 1999.
a. Fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsins 1999.
    Dagana 25.–29. janúar var fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 1999 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Margrét Frímannsdóttir varaformaður og Hjálmar Jónsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Á fundinum bar það m.a. til tíðinda að kjörinn var nýr forseti þingsins og að samþykkt var að mæla með því við ráðherranefndina að Georgíu yrði veitt aðild að Evrópuráðinu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Á fundinum voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirfarandi mál: skýrslu „vitringanefndar“ ráðherraráðsins um þróun sameinaðrar Evrópu, framtíðarskipan milliríkjasamstarfs í Evrópu, pólitískan ramma fyrir samstarf Evrópuríkja á nýrri öld, umsókn Georgíu um aðild að Evrópuráðinu, skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins, trúarbrögð og lýðræði, ástand mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu og í Kosovo-héraði, drög að starfsreglum fyrir sérlegan fulltrúa Evrópuráðsins í mannréttindamálum, stöðu efnahagsmála í Rússlandi og Úkraínu, framlag Evrópuráðsþingsins til annarrar herferðar Evrópuráðsins gegn fátækt og félagslegri útskúfun, stöðu barna í Albaníu og líffæra- eða vefjaflutninga úr dýrum í menn eða á gervilíffærum og -vefjum.
    Eftirtaldir ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum þingmanna: Milan Kucan, forseti Slóveníu, Knut Vollebæk, utanríkisráðherra Noregs og formaður ráðherraráðs ÖSE, Valdas Adamkus, forseti Litháens, János Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, og Valentina Matvienko, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands.
    Mánudaginn 25. janúar var Russel-Johnston lávarður kjörinn í embætti forseta þingsins með miklum meiri hluta atkvæða. Hann hlaut 209 atkvæði en mótframbjóðandi hans, ítalski þingmaðurinn Flavio Rodeghiero, 31 atkvæði. Þá buðu 19 sig fram í allt að 19 embætti varaforseta. Til að ná kjöri varð hver og einn að hljóta meiri hluta atkvæða þingmanna, eða 143 atkvæði, og var þetta í fyrsta sinn sem kosið var samkvæmt þeirri reglu. Þá voru varaforsetarnir jafnframt í fyrsta sinn kjörnir í leynilegri atkvæðagreiðslu. Í fyrstu umferð náðu sex kjöri og hlaut Lára Margrét Ragnarsdóttir næstflest atkvæði, eða 156. Flest atkvæði hlaut breski þingmaðurinn Terry Davis, 163, en þess má geta að hann sóttist um þær mundir eftir embætti framkvæmdastjóra Evrópuráðsins sem kjörinn var á fundi Evrópuráðsþingsins í júní, líkt og síðar er greint frá. Sex frambjóðendur til viðbótar náðu kjöri til varaforseta í annarri umferð þriðjudaginn 26. janúar og loks náðu sjö kjöri í þriðju umferð miðvikudaginn 27. janúar Lára Margrét var jafnframt endurkjörin til varaformennsku í heilbrigðis- og félagsmálanefnd Evrópuráðsþingsins á fundi nefndarinnar mánudaginn 25. janúar.
    Hjálmar Jónsson tók þátt í umræðu um skýrslu um pólitískan ramma fyrir samstarf Evrópuríkja á nýrri öld. Í máli sínu fagnaði Hjálmar gerð skýrslunnar og sagði vel til fundið að ræða hlutverk Evrópuráðsins við upphaf nýrrar aldar og í tengslum við fimmtíu ára afmæli þessarar merku stofnunar. Hins vegar gagnrýndi Hjálmar umfangsmikið hlutverk sem skýrsluhöfundur, belgíski þingmaðurinn Paul Staes, ætlaði Evrópuráðinu. Hjálmar sagði meginhlutverk Evrópuráðsins vera að standa vörð um mannréttindi og virðingu við lög og reglur og að hlúa að þróun lýðræðis. Þar hefði Evrópuráðið unnið mjög gott starf og náð frábærum árangri í gegnum tíðina. Þá gagnrýndi Hjálmar umfjöllun í skýrslunni um sameiginlega öryggisstefnu aðildarríkjanna sem hann sagði ekki eiga við þar sem Evópuráðið væri annars vegar. Enn fremur gagnrýndi Hjálmar ofuráherslu á mikilvægi evrópskrar vitundar umfram þjóðernisvitund. Hann sagði slíkt markmið hvorki æskilegt né framkvæmanlegt og að það væri alls ekki hlutverk Evrópuráðsins né nokkurrar annarrar stofnunar að vinna að slíku. Loks sagði Hjálmar ástæðu til að minna nokkra þingmenn frá aðildarríkjum Evrópusambandsins á að sum ríki Evrópu hvorki væru aðilar né sæktust þau eftir aðild að sambandinu, sem sumir þeirra virtust stundum rugla saman við Evrópuráðið. Yfirþjóðleg evrópsk valdastofnun væri ekki heillavænleg framtíðarsýn.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir lagði fram spurningu til Knuts Vollebæks, formanns ráðherraráðs ÖSE. Hún spurði Vollebæk hvort hann teldi líklegt til árangurs, jafnvel réttlætanlegt, að senda 1.200 óvopnaða eftirlitsmenn til Kosovo til að hafa eftirlit með vægast sagt óstöðugu vopnahléi. Hún spurði hvort ekki væri í raun verið að setja eftirlitsmennina í óþarfa hættu og jafnvel vekja falska öryggiskennd á meðal íbúa héraðsins, líkt og gerðist með stofnun svonefndra griðasvæða Sameinuðu þjóðanna í Bosníu-Hersegóvínu á sínum tíma. Vollebæk sagðist ítrekað hafa gert báðum aðilum deilunnar það ljóst að þeir yrðu sjálfir að sýna samnings- og sáttavilja, öðruvísi yrði aldrei hægt að tryggja öryggi íbúanna. Jafnframt sagði hann eftirlitsstarf ÖSE vissulega þegar hafa skilað árangri, nærvera eftirlitssveitanna hefði víða dregið úr spennu og gert flóttamönnum kleift að snúa aftur til heimkynna sinna. Hins vegar viðurkenndi Vollebæk að öryggi eftirlitssveitanna sjálfra væri áhyggjuefni og sagði grannt fylgst með stöðunni. Hann minnti á að hersveitir á vegum Atlantshafsbandalagsins væru í viðbragðsstöðu í fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.
    Á fundi þingsins í september 1998 bar Lára Margrét Ragnarsdóttir fram spurningu til þáverandi formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins um stöðu mannréttindamála sem verið höfðu á borði ráðherranefndarinnar árum saman. Lára Margrét spurði hvers vegna fullnusta þeirra tæki jafnlangan tíma og raun bæri vitni. Fyrir fund þingsins í janúar hafði borist skriflegt svar frá ráðherranefndinni þar sem m.a. kemur fram að langan biðtíma eftir fullnustu mála megi t.d. skýra með vísan í réttarúrbætur í viðkomandi ríkjum eða með því að beðið sé eftir niðurstöðu úr öðrum sambærilegum málum sem hafa beri til hliðsjónar. Lára Margrét lagði aftur fram skriflega spurningu og spurði nú sérstaklega um framkvæmd eins máls sem snýr að tyrkneskum stjórnvöldum og annars máls sem snýr að frönskum stjórnvöldum. Ráðherrann svaraði því til að þegar hefði orðið jákvæð þróun í tyrkneska málinu, en enn hefði ekkert heyrst um málið sem sneri að frönskum stjórnvöldum.

b. Annar hluti þingfundar Evrópuráðsins 1999.
    Dagana 26.–30. apríl var annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 1999 haldinn í Strassborg. Að þessu sinni sótti einungis einn þingmaður þingið fyrir hönd Íslandsdeildar, Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, og sat hún einungis fyrri helming fundarins, en hann fór fram skömmu fyrir alþingiskosningar. Fundinn sat jafnframt Gústaf Adolf Skúlason, ritari Íslandsdeildarinnar. Dagana 28.–30. apríl var enn fremur haldið Evrópuráðsþing ungmenna í tengslum við fimmtíu ára afmæli Evrópuráðsins. Evrópuráðsþing ungmenna sóttu fyrir Íslands hönd Sigrún Sigurðardóttir og Sigurður Jóhannsson, en þau voru tilnefnd af stjórn Æskulýðssambands Íslands.
    Málefni Kosovo voru efst á dagskrá þingfundar Evrópuráðins, en jafnframt voru mál Bosníu-Hersegóvínu ofarlega á baugi. Þá hlaut Georgía formlega aðild að Evrópuráðinu og er 41. aðildarríki þess. Loks hófust formleg hátíðahöld í tilefni þess að Evrópuráðið fagnaði fimmtíu ára afmæli sínu þann 7. maí 1999.
    Á fundinum voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirtalin mál: skýrslu framkvæmdastjórnar um starfsemi Evrópuráðsþingsins, eftirlit með starfsemi innanríkisöryggisstofnana í Evrópu, átök í Kosovo og stöðu mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, ástand flóttamanna frá Kosovo, þörfina á aukinni efnahagssamvinnu ríkja Suðaustur-Evrópu, skuldbindingar Króatíu sem aðildarríkis Evrópuráðsins, komu flóttamanna til heimila sinna í Króatíu, stefnu Evrópuríkja í samgöngumálum og fjölmiðla og lýðræðismenningu.
    Eftirtaldir ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum þingmanna: Milos Zeman, forsætisráðherra Tékklands, Carlos Westendorp, eftirlitsmaður vesturveldanna í Bosníu-Hersegóvínu, Zivko Radisic, Alija Isetbegovic og Ante Jelavic, forsetar Bosníu-Hersegóvínu, Eduard Shevardnadze, forseti Georgíu, János Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Gret Haller, mannréttindaumboðsmaður ÖSE í Bosníu- Hersegóvínu, Rexhep Mejdani, forseti Albaníu, og Tadeusz Syryjczyk, samgönguráðherra Póllands.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir beindi í þriðja sinn spurningu til formanns ráðherranefndarinnar um aðgerðir nefndarinnar í tveimur mannréttindamálum tengdum frönskum og tyrkneskum stjórnvöldum. Fram kom í svari ráðherrans að hvorki tyrknesk né frönsk stjórnvöld hefðu í viðkomandi tilfellum fullnægt dómum mannréttindadómstólsins, en jafnframt að ekki væri öll von úti enn og að í dómsmálaráðuneyti Frakklands væru viðkomandi lög til endurskoðunar.
    Á Evrópuráðsþingi ungmenna voru ræddar skýrslur og ályktað um menntamál, þátttöku borgara í lýðræðisskipulaginu og um Kosovo.

c. Þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsins 1999.
    Dagana 21.–25. júní var þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 1999 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu nýkjörinnar Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður og Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara. Þá sótti Tómas Ingi Olrich fundi vísinda- og tækninefndar þingsins þar sem hann er að vinna að skýrslu á vegum nefndarinnar um stefnu Evrópuríkja í orkumálum.
    Meðal þess sem hæst bar á þinginu voru sérstakar umræður um stöðu mála í Kosovo og Júgóslavíu og um díoxínmengunarhneykslið í Belgíu. Ályktað var um bæði málin. Þá var austurríski þingmaðurinn Walter Schwimmer kjörinn nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins og tók hann við af Svíanum Daniel Tarschys þann 1. september. Schwimmer hlaut 138 atkvæði í annarri umferð kosninganna en mótframbjóðandi hans, breski þingmaðurinn Terry Davis, hlaut 136 atkvæði. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, ávarpaði þingið fyrir hönd ráðherranefndarinnar og svaraði jafnframt spurningum þingmanna.
    Að auki voru ræddar skýrslur og ályktað um eftirtalin efni: samskipti Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, ólöglegar athafnir sértrúarhópa, starfsemi Þróunarbanka Evrópu, sérstök skólakerfi fyrir fólk sem ekki hefur lokið grunnnámi, jöfnun á stöðu kynjanna í stjórnmálum, viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um félagsleg grundvallarréttindi, díoxín og öryggi matvæla, skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins, átök í Kosovo og stöðu mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu, vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar fólks með ólæknandi sjúkdóma og fólks á dánarbeði og um félagslegt hlutverk samvinnufélaga í Evrópu.
    Auk Halldórs Ásgrímssonar ávörpuðu eftirtaldir þingið og svöruðu flestir spurningum þingmanna: Helle Degn, forseti ÖSE-þingsins, Miguel Angel Martínez, forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Horst Köhler, forseti Þróunarbanka Evrópu, Viktor Tsjernómyrdín, sérlegur fulltrúi Rússlandsforseta vegna átakanna á Balkanskaga, og Petru Luchinschi, forseti Moldavíu.
    Í ávarpi sínu gerði Halldór Ásgrímsson m.a. grein fyrir hlutverki Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfi að loknum átökunum í Kosovo og heimsókn sinni til Bosníu-Hersegóvínu skömmu fyrir fundinn. Þá fjallaði hann um samskipti Evrópuráðsins við ÖSE og ESB, fjármál stofnunarinnar og innra skipulag hennar. Ráðherrann svaraði spurningum þingmanna að loknu ávarpi sínu. Lára Margrét Ragnarsdóttir beindi spurningu til hans um verkaskiptingu ÖSE og Evrópuráðsins við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana í Kosovo og spurði hvort hann teldi ekki eðlilegra að Evrópuráðið, sem mesta reynslu hefði á þessu sviði, gegndi þar stærra hlutverki en raunin væri. Ráðherrann svaraði því til að vissulega væri ávallt reynt að nýta þá stofnun sem besta þekkingu hefði á viðkomandi málaflokkum og sagði miður ef það væri ekki gert. Stöðugleikasáttmálinn um Kosovo gerði ráð fyrir mjög nánu samstarfi Evrópuráðsins og ÖSE í uppbyggingarstarfinu í héraðinu. Hins vegar lagði ráðherrann í svari sínu áherslu á að fjölþjóðastofnanir ættu ekki að keppa innbyrðis, það sem máli skipti væri að árangur næðist í starfi að sameiginlegum markmiðum. Í umræðunni um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar fólks með ólæknandi sjúkdóma og fólks á dánarbeði talaði Lára Margrét Ragnarsdóttir fyrir hönd flokkahóps hægri manna. Í máli sínu lagði Lára Margrét megináherslu á vellíðan sjúklinganna og sagði mestu máli skipta að lina þjáningar þeirra. Hún sagði t.d. að lyfjameðferð sem linaði óbærilegar þjáningar en gæti jafnframt stytt ævi sjúklingsins væri réttlætanleg ef full vitneskja og samþykki sjúklingsins lægi fyrir. Lára Margrét lagði áherslu á að allir sjúklingar með ólæknandi sjúkdóma og fólk sem lægi á dánarbeði ætti rétt á þeirri umönnun og meðferð sem tryggði eins góða líðan þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra og völ væri á.

d. Fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsins 1999.
    Dagana 20.–25. september var fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 1999 haldinn í Strassborg. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu fundinn þau Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Þórðar Bogasonar, forstöðumanns nefndasviðs skrifstofu Alþingis.
    Málefni Kosovo voru efst á baugi en jafnframt var mikið rætt um Austur-Tímor, auk árlegrar umræðu um OECD og stöðu efnahagsmála í heiminum. Ræddar voru skýrslur og ályktað um eftirtalin mál: skýrslu framkvæmdastjórnar um starfsemi Evrópuráðsþingsins, líftækni og hugverkarétt, hvernig lýðræðisríki í Evrópu bregðast við hryðjuverkum, skuldbindingar Slóvakíu á vettvangi Evrópuráðsins, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), sjálfbæra þróun við Miðjarðarhaf og Svartahaf og sérstaklega um samstarf þjóðþinga á svæðinu í þessu sambandi, nauðsyn aukinnar efnahagssamvinnu Miðjarðarhafslanda, átök á Austur-Tímor, OECD og stöðu efnahagsmála í heiminum, Kosovo og stöðuna í Suðaustur- Evrópu, efnahagslega uppbyggingu Suðaustur-Evrópu í kjölfar átaka í Kosovo, mat á stöðu mála í Júgóslavíu, sérstaklega í Kosovo og Svartfjallalandi, út frá mannúðarsjónarmiðum, hvernig Evrópuríki virða alþjóðleg lög um mannúð, framtíðarstöðu eldri borgara, aðferðir aðildarríkja við að tilnefna frambjóðendur í kosningu til dómara við mannréttindadómstólinn í Strassborg og kosningu dómara við mannréttindadómstólinn í Strassborg.
    Eftirtaldir ávörpuðu þingið og svöruðu spurningum þingmanna: Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra Íslands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Milo Djukanovic, forseti Svartfjallalands, Donald Johnston, framkvæmdastjóri OECD, Cornelio Sommaruga, forseti alþjóðanefndar Rauða krossins, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Skender Gjinushi, forseti albanska þingsins, og Antonio de Almeida Santos, forseti portúgalska þingsins.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir spurði formann ráðherranefndarinnar hvort hann teldi hlutverkið sem Evrópuráðinu væri fengið í yfirlýsingu Sarajevo-fundarins um stöðugleikasáttmála í Evrópu fullnægjandi. Fram kom í svari formannsins að mikilvægt væri að halda á lofti merki Evrópuráðsins við framkvæmd stöðugleikasáttmálans. Aðkoma ráðsins að þeim málaflokkum sem það hefði sérþekkingu á væri tryggð en ráðherrann sagði hins vegar mikilvægt að aðildarríkin gerðu Evrópuráðinu kleift að sinna þessu starfi með nægum fjárframlögum. Íslenska sendinefndin tók að venju þátt í nefndarstörfum. Stýrði Lára Margrét Ragnarsdóttir fundi heilbrigðisnefndar þingsins í fjarveru formanns og tók þátt í umræðum um framtíðarstöðu eldri borgara fyrir hönd nefndarinnar. Loks var Lára Margrét kjörin til setu í stjórn Alþjóðalýðræðisstofnunar Evrópuráðsins (IID).

5. Nefndarstörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Á árinu sat Lára Margrét Ragnarsdóttir í forsætisnefnd Evrópuráðsþingsins en hún tekur ákvarðanir um stjórn þingsins, hvaða mál eru tekin á dagskrá o.s.frv. Sem varaforseti stýrði Lára Margrét þingfundum reglulega. Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndarstarfi skiptist svo:

Fram til 16. júní Frá og með 16. júní
Forsætisnefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Margrét Frímannsdóttir     Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnarnefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Margrét Frímannsdóttir     Ólafur Örn Haraldsson
Stjórnmálanefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Margrét Frímannsdóttir     Tómas Ingi Olrich
Laga- og mannréttindanefnd:
Margrét Frímannsdóttir Margrét Frímannsdóttir
    Til vara:
    Bryndís Hlöðversdóttir
Jafnréttisnefnd:
Margrét Frímannsdóttir Margrét Frímannsdóttir
    Til vara:
    Bryndís Hlöðversdóttir
Efnahagsnefnd:
Margrét Frímannsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Hjálmar Jónsson     Tómas Ingi Olrich
Umhverfis-, skipulags- og sveitarstjórnarmálanefnd:
Ólafur Örn Haraldsson Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara:
    Hjálmar Árnason     Kristinn H. Gunnarsson
Þingskapanefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Tómas Ingi Olrich
Fjárlaganefnd:
Hjálmar Jónsson Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Tómas Ingi Olrich
Landbúnaðarnefnd:
Ólafur Örn Haraldsson Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara:
    Hjálmar Jónsson     Kristinn H. Gunnarsson
Vísinda- og tækninefnd:
Tómas Ingi Olrich Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Hjálmar Árnason     Tómas Ingi Olrich
Mennta- og menningarmálanefnd:
Hjálmar Árnason Ólafur Örn Haraldsson
    Til vara:
    Tómas Ingi Olrich     Kristinn H. Gunnarsson
Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Tómas Ingi Olrich
Nefnd um fólksflutninga og málefni
flóttamanna:
Hjálmar Árnason Margrét Frímannsdóttir
    Til vara:
    Bryndís Hlöðversdóttir
Nefnd um almannatengsl þingsins:
Hjálmar Jónsson Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Til vara:
    Tómas Ingi Olrich

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þingfunda.
    Utan reglulegra þingfunda halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða í einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í sautján slíkum fundum árið 1999 og var fundur stjórnmálanefndar haldinn í Reykjavík 6. september. Þetta er einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru á árinu. Þó má segja að starf Íslandsdeildarinnar hafi verið kröftugt. Þess má m.a. geta að á fundi stjórnarnefndar (sem kemur fram fyrir hönd þingsins á milli þingfunda) þann 4. nóvember kynnti Lára Margrét Ragnarsdóttir skýrslu og ályktunardrög um óhefðbundnar lækningar sem hún vann á vegum heilbrigðis- og félagsmálanefndar þingsins. Stjórnarnefndin samþykkti ályktunina en þar er óhefðbundnum lækningum tekið með opnum hug þótt hvatt sé til ákveðinnar varúðar, auk þess sem hvatt er til frekari rannsókna á sviði þeirra. Þá hefur Tómas Ingi Olrich haldið áfram vinnu við skýrslu vísinda- og tækninefndar um orkustefnu Evrópu sem rædd verður í þinginu árið 2000.

Alþingi, 21. jan. 2000.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Ólafur Örn Haraldsson,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.



Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins


samþykkt á Evrópuráðsþinginu árið 1999.


Fyrsti hluti þingfundar, 25.–29. janúar.
     1.      Ályktun nr. 1177 um þróun sameinaðrar Evrópu.
     2.      Ályktun nr. 1178 um pólitískan ramma fyrir samstarf Evrópuríkja á nýrri öld.
     3.      Ályktun nr. 1179 um skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins.
     4.      Ályktun nr. 1180 um stöðu efnahagsmála í Rússlandi og Úkraínu.
     5.      Ályktun nr. 1181 um framlag Evrópuráðsþingsins til annarrar herferðar Evrópuráðsins gegn fátækt og félagslegri útskúfun.
     6.      Álit nr. 208 um skýrslu „vitringanefndar“ ráðherraráðsins um þróun sameinaðrar Evrópu.
     7.      Álit nr. 209 um umsókn Georgíu um aðild að Evrópuráðinu.
     8.      Álit nr. 210 um drög að starfsreglum fyrir sérlegan fulltrúa Evrópuráðsins í mannréttindamálum.
     9.      Tilmæli nr. 1394 um framtíðarskipan milliríkjasamstarfs í Evrópu.
     10.      Tilmæli nr. 1395 um skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríkis Evrópuráðsins.
     11.      Tilmæli nr. 1396 um trúarbrögð og lýðræði.
     12.      Tilmæli nr. 1397 um ástand mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu og í Kosovo-héraði.
     13.      Tilmæli nr. 1398 um stöðu barna í Albaníu.
     14.      Tilmæli nr. 1399 um líffæra- eða vefjaflutninga úr dýrum í menn eða á gervilíffærum og -vefjum.

Annar hluti þingfundar, 26.–30. apríl.
     1.      Ályktun nr. 1184 um þörf aukinnar efnahagssamvinnu ríkja Suðaustur-Evrópu.
     2.      Ályktun nr. 1185 um skuldbindingar Króatíu sem aðildarríkis Evrópuráðsins.
     3.      Ályktun nr. 1186 um stefnu Evrópuríkja í samgöngumálum.
     4.      Tilmæli nr. 1402 um eftirlit með starfsemi innanríkisöryggisstofnana í Evrópu.
     5.      Tilmæli nr. 1403 um átök í Kosovo og stöðu mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu.
     6.      Tilmæli nr. 1404 um ástand flóttamanna frá Kosovo.
     7.      Tilmæli nr. 1405 um skuldbindingar Króatíu sem aðildarríkis Evrópuráðsins.
     8.      Tilmæli nr. 1406 um komu flóttamanna til heimila sinna í Króatíu.
     9.      Tilmæli nr. 1407 um fjölmiðla og lýðræðismenningu.

Þriðji hluti þingfundar, 21.–25. júní.
     1.      Ályktun nr. 1192 um starfsemi Þróunarbanka Evrópu í Mið- og Austur-Evrópu.
     2.      Ályktun nr. 1193 um sérstök skólakerfi fyrir fólk sem ekki hefur lokið grunnnámi.
     3.      Ályktun nr. 1194 um skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Evrópuráðsins.
     4.      Ályktun nr. 1195 um félagslegt hlutverk samvinnufélaga í Evrópu.
     5.      Tilmæli nr. 1411 um samskipti Evrópuráðsins við Sameinuðu þjóðirnar.
     6.      Tilmæli nr. 1412 um ólöglegar athafnir sértrúarhópa.
     7.      Tilmæli nr. 1413 um jöfnun á stöðu kynjanna í stjórnmálum.
     8.      Tilmæli nr. 1414 um átök í Kosovo og stöðu mála í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu.
     9.      Tilmæli nr. 1415 um viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um félagsleg grundvallarréttindi.
     10.      Tilmæli nr. 1417 um díoxín og öryggi matvæla.
     11.      Tilmæli nr. 1418 um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar fólks með ólæknandi sjúkdóma og fólks á dánarbeði.

Fjórði hluti þingfundar, 20.–25. september.
     1.      Ályktun nr. 1196 um skuldbindingar Slóvakíu á vettvangi Evrópuráðsins.
     2.      Ályktun nr. 1197 um frið, lýðræði og sjálfbæra þróun við Miðjarðarhaf og Svartahaf. með áherslu á samvinnu þjóðþinga á svæðinu í þessu sambandi.
     3.      Ályktun nr. 1198 um nauðsyn aukinnar efnahagssamvinnu Miðjarðarhafslanda.
     4.      Ályktun nr. 1199 um OECD og stöðu efnahagsmála í heiminum.
     5.      Ályktun nr. 1200 um kosningu dómara við mannréttindadómstólinn í Strassborg.
     6.      Tilmæli nr. 1419 um skuldbindingar Slóvakíu á vettvangi Evrópuráðsins.
     7.      Tilmæli nr. 1420 um Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.
     8.      Tilmæli nr. 1421 um stöðu mála á Austur-Tímor.
     9.      Tilmæli nr. 1422 um Kosovo og stöðu mála í Suðaustur-Evrópu.
     10.      Tilmæli nr. 1423 um efnahagslega uppbyggingu Suðaustur-Evrópu í kjölfar átaka í Kosovo.
     11.      Tilmæli nr. 1424 um mat á stöðu mála í Júgóslavíu, sérstaklega í Kosovo og Svartfjallalandi, út frá mannúðarsjónarmiðum.
     12.      Tilmæli nr. 1425 um líftækni og hugverkarétt.
     13.      Tilmæli nr. 1426 um hvernig lýðræðisríki í Evrópu bregðast við hryðjuverkum.
     14.      Tilmæli nr. 1427 um hvernig Evrópuríki virða alþjóðleg lög um mannúð.
     15.      Tilmæli nr. 1428 um framtíðarstöðu eldri borgara.
     16.      Tilmæli nr. 1429 um aðferðir aðildarríkja við að tilnefna frambjóðendur í kosningu til dómara við mannréttindadómstólinn í Strassborg.
    Þá kemur stjórnarnefnd þingsins fram fyrir hönd þess á milli þingfunda og hefur hún á árinu afgreitt fjölda ályktana og tilmæla til ráðherranefndarinnar, m.a. ályktun nr. 1206 um óhefðbundnar lækningar, sem fjallað var um í kaflanum um nefndarstarf Íslandsdeildar. Lára Margrét Ragnarsdóttir var höfundur skýrslunnar fyrir hönd heilbrigðis- og félagsmálanefndar þingsins.