Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 687  —  422. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 1999.

Inngangur.
    Breytingar voru gerðar á skipulagi Norðurlandaráðs að loknu þingi þess í Reykjavík árið 1995. Síðan þá hefur norrænu samstarfi verið beint að þremur meginsviðum: Samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda og Evrópu (ESB/EES) og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða þeirra. Með skipulagsbreytingunum voru fagnefndir Norðurlandaráðs lagðar niður frá og með áramótum 1995–96 og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir um fyrrgreind meginsvið, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætisnefndin var stækkuð og auk þess stofnuð sérstök eftirlitsnefnd. Flokkasamstarf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Ráðið heldur nú eitt árlegt þing í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram. Reglubundið þing er nú haldið að hausti og formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar til að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig hefur samstarf og samráð við önnur alþjóðaþingmannasamtök, einkum evrópsk, verið bætt og unnið er að frekara samstarfi Norðurlandaráðs og fastanefnda norrænu þjóðþinganna. Þrátt fyrir að breytingarnar hafi um margt verið til hins betra heyrast stöðugt raddir um að Norðurlandaráð ætti að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrra skipulags, þ.e. með því að setja á stofn fagnefndir í stað þess að svæðisbundnar nefndir séu allar að vinna á ákveðnum fagsviðum. Þá hefur verið rætt um að færa þingið til og halda það á fyrri hluta árs, t.d. í mars, í stað þess að hafa það seint að hausti líkt og nú er. Ástæðan fyrir því er einkum sú að í nóvember fer fjárlagavinna fram í þjóðþingunum og erfitt getur verið að senda fjölda þingmanna utan á þing í nokkra daga.
    Á árinu var sett á fót sérstök nefnd vísra manna undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans og fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlanda, til að fara ofan í saumana á skipulagi Norðurlandaráðs og framtíðarsýn þess. Skýrslu nefndarinnar er beðið með eftirvæntingu en hún verður lögð fram 1. september og tekin til afgreiðslu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Svíþjóð fór með formennsku í Norðurlandaráði árið 1999 en forseti þingsins var Gun Hellsvik. Sigríður A. Þórðardóttir tók við embætti forseta um áramótin 1999–2000.

1. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1. Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 1999 sátu í Norðurlandaráði Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Sturla Böðv-


Prentað upp.

arsson og Siv Friðleifsdóttir. Varamenn í Norðurlandaráði voru Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðni Ágústsson, Árni Johnsen, Steingrímur J. Sigfússon, Árni M. Mathiesen og Ísólfur Gylfi Pálmason.
    Hinn 16. júní 1999 urðu breytingar á skipan Íslandsdeildarinnar en þá kaus Alþingi Ísólf Gylfa Pálmason, Sigríði Jóhannesdóttur, Sigríði A. Þórðardóttur, Sighvat Björgvinsson, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Hjálmar Jónsson og Steingrím J. Sigfússon til setu í Norðurlandaráði. Varamenn voru Árni Johnsen, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller og Þuríður Backman. Hinn 1. október 1999 voru sömu þingmenn kjörnir að nýju til setu í Norðurlandaráði.
    Á 50. þingi ráðsins í Ósló var fulltrúum Íslandsdeildar skipað í eftirfarandi nefndir: Valgerður Sverrisdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir voru skipaðar í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir og Sturla Böðvarsson tóku sæti í Evrópunefnd og var Siv jafnframt kjörin varaformaður nefndarinnar. Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir voru skipaðar í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson var svo kjörinn í eftirlitsnefnd ráðsins. Sigríður A. Þórðardóttir átti sæti í kjörnefnd sem starfar eingöngu á þingum Norðurlandaráðs og gerir tillögu um nefndaskipan. Þegar Sturla Böðvarsson tók við embætti samgönguráðherra tók Arnbjörg Sveinsdóttir sæti hans í eftirlitsnefnd og Hjálmar Jónsson í Evrópunefnd.
    Breyting varð svo á nefndaskipan Íslandsdeildar á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi 9. nóvember sl. Arnbjörg Sveinsdóttir var þá kjörin í Evrópunefnd, Steingrímur J. Sigfússon í Norðurlandanefnd og Hjálmar Jónsson í nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Á forsætisnefndarfundi í Jevnaker 9. desember var sú breyting gerð á skipan í nefndir að Steingrímur J. Sigfússon var færður úr Norðurlandanefnd í Evrópunefnd að ósk flokkahóps vinstri sósíalista.
    Íslandsdeild skipti með sér verkum á fundi 16. júní. Þá var Ísólfur Gylfi Pálmason kjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.

2.2. Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman sex sinnum á árinu. Að venju voru fundir í Norðurlandaráði og ráðstefnur undirbúnar en auk þess voru fjölmörg mál á dagskrá. Þá var ítarlega rætt um skipulagningu haustfunda Norðurlandaráðs sem haldnir voru á Akureyri 26.– 29. september. Tillaga um að flytja þing Norðurlandaráðs frá hausti til vors var til umfjöllunar og jafnframt hvort unnt væri að halda fyrsta vorfundinn á Íslandi árið 2000. Þessi tillaga á fyrst og fremst rætur að rekja til svonefnds Öngulsstaðabréfs sem forsetar þjóðþinganna rituðu Norðurlandaráði þar sem bent var á að örðugt væri að halda Norðurlandaráðsþing mitt í fjárlagavinnu þinganna. Íslandsdeildin var í sjálfu sér ekki mótfallin slíkri tilfærslu en taldi það þurfa töluverðan undirbúning og að frestur til ársins 2000 væri ansi skammur.
    Á fund nefndarinnar kom Berglind Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs. Hún gerði m.a. grein fyrir skipulagi ráðstefnu Norðurlandaráðs og norska Stórþingsins í Alta 7.–9. apríl 1999 og hugmynd um að halda forsætisnefndarfund í tengslum við vígslu nýju sendiráðsbygginganna í Berlín en auk þess var rætt um norrænt samstarf almennt. Þá komu Siv Friðleifsdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Snjólaug Ólafsdóttir frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytsins til fundar við nefndina og var rætt um helstu mál norrænu ráðherranefndarinnar. Fram kom m.a. að ráðherranefndin stæði straum af kostnaði þátttakenda frá Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum á ráðstefnunni Konur og lýðræði sem færi fram í Reykjavík dagana 8.–10. október 1999 og að stefnt væri að því að halda framhaldsráðstefnu í Litháen síðar. Þá kom fram að íslenska ríkisstjórnin ætlaði að standa fyrir ráðstefnu í Brussel um „norðlægu víddina“ og rætt var um hvernig gengið hefði með verkefnið Folk og hav i Nord, sem var meginverkefni ráðherranefndarinnar í formennskutíð Íslendinga. Miklar umræður urðu í nefndinni um meiri áherslu á norrænt samstarf í austri en minni áherslur í vestri. Nefndin var sammála um að mikilvægt væri að halda merki Vestur-Norðurlanda á lofti. Á síðasta fundi Íslandsdeildarinnar á árinu var svo 51. þing Norðurlandaráðs undirbúið.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar þann 26. maí en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur. Árið 1999 hlutu eftirfarandi fréttamenn styrki: Benedikt Sigurðsson, Elín Þóra Friðfinnsdóttir, Elmar Gíslason, Friðrik Á. Brekkan, Sveinn Helgason, Hjálmar Blöndal og Þorvaldur Örn Kristinsson.
    Í byrjun nóvember tók Einar Farestveit við starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs en Auðunn Atlason lét af störfum í september. Þá lét Kristín Ólafsdóttir, sem einnig hafði unnið fyrir Íslandsdeildina, af störfum í október.

3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1 Forsætisnefnd.
    Í byrjun árs 1999 tók Gun Hellsvik frá Svíþjóð við embætti forseta Norðurlandaráðs af Berit Brörby Larsen frá Noregi. Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Landsdeildir allra Norðurlanda og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs og á milli þinga, en hún hefur einnig með höndum erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, auk þess að fjalla um norrænu fjárlögin. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 1999, líkt og gert hafði verið árið áður. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Á starfsárinu 1999 hafa af hálfu Íslands setið í forsætisnefnd Valgerður Sverrisdóttir frá flokkahópi miðjumanna, Rannveig Guðmundsdóttir frá flokkahópi jafnaðarmanna og Sigríður A. Þórðardóttir frá flokkahópi hægrimanna. Þegar ný Íslandsdeild var kosin í júní 1999 tók Ísólfur Gylfi Pálmason sæti Valgerðar Sverrisdóttur og Sighvatur Björgvinsson tók sæti Rannveigar Guðmundsdóttur.
    Forsætisnefnd hélt níu fundi á árinu. Á fundi forsætisnefndar í febrúar var ákveðið að samþykkja samning Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar um samvinnu á sviði upplýsingaþjónstu en það mál hafði verið rætt árið áður. Nefndin hélt fund í Alta í Norður- Noregi í apríl og þar lá m.a. fyrir tillaga frá lettneska þinginu um að halda fund í Riga árið 2001 þegar haldið yrði upp á 800 ára afmæli Riga og tók nefndin vel í erindið. Umræðum um skipulag Norðurlandaráðsþings 1999 í Stokkhólmi var fram haldið og voru fundarmenn sammála um að reyna ekki flutning á þinginu frá nóvember fram í febrúar eða mars árið 2000 en Íslandsdeildin hafði rætt málið ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hyggilegt, a.m.k. ekki árið 2000.
    Samþykkt var tillaga Knuts Enggards um útgáfu afmælisrits í tilefni af 50 ára afmæli Norðurlandaráðs árið 2002. Hann mun ritstýra bókinni sem áætlað er að verði um 200 blaðsíður, um helmingur hennar fjalli um sögu Norðurlandaráðs 1978–2002 og sé ritaður af sagnfræðingi. Stjórnmálamenn riti svo stuttar greinar í bókina um norræn stjórnmál á tímabilinu.
    Forsætisnefnd hélt aukafund í lok maí í Kaupmannahöfn en megintilgangur fundarins var að ræða ráðningu nýs framkvæmdastjóra í stað Berglindar Ásgeirsdóttur sem hafði beðist lausnar frá embættinu og tók nefndin ákvörðun um nánari framkvæmd ráðningarferlisins.
    Í október hélt forsætisnefnd fund í tengslum við opnun samnorrænu sendiráðsbygginganna í Berlín.
    Forsætisnefnd fjallaði um nokkrar tillögur á árinu. Fyrir nefndinni lá tillaga um stöðu Sama í Norðurlandaráði en 50. þing Norðurlandaráðs hafði fallist á að fjalla að nýju um tillöguna að lokinni frekari athugun á málinu. Ákveðið var að fresta ákvörðun um tillöguna þar til pólitískur grundvöllur væri fyrir hendi en það gæti fyrst orðið þegar samstarf kæmist á milli norrænna ráðherra sem fjalla um málefni Sama. Þá fjallaði nefndin um tillögu hægrihópsins í Norðurlandaráði um aukna samvinnu við Eystrasaltslöndin. Á fundi nefndarinnar í Stokkhólmi var tillagan samþykkt með lítils háttar breytingu. Nefndin lagði til að tillaga hægrihópsins um að skorað yrði á ráðherranefndina að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 í evrum yrði vísað frá. Á fundi nefndarinnar í Jevnaker í desember voru ræddar ítarlega breytingar á upplýsingaþjónustu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Kynntar voru tillögur vinnuhóps um breytingar á tímaritinu Politik i Norden. Í megindráttum eru hugmyndirnar þannig að tímaritið verði gefið út fjórum sinnum á ári í stað sjö og að það komi út í öðru broti en nú. Stefnt er að því að gefið verði út stærra og vandaðra tímarit þar sem meiri áhersla verði lögð á menningarmál. Töluverðar umræður urðu um tillögu nefndarinnar um að hætta við sérstaka finnska útgáfu en prenta þess í stað sérstakt fylgirit þar sem allur texti tímaritsins væri birtur á finnsku. Þessi tilhögun var talin forsenda þess að það tækist að gera tímaritið vandaðra án þess að það yrði dýrara en talið var að sérstök finnsk útgáfa yki heildarkostnað um fimmtung. Þessu var mótmælt af hálfu fulltrúa Finnlands í nefndinni og er rétt að geta þess að á fundi forsætisnefndar í Helsinki í janúar sl. var ákveðið að gefa tímaritið út sérstaklega í finnskri útgáfu og að viðbótarfjármagn fengist af ráðstöfunarfé forsætisnefndar. Á þinginu í Stokkhólmi komu nefndarmenn sér saman um yfirlýsingu forsætisnefndar um Norðurlönd og „norðlægu víddina“ og var Johan J. Jakobsen kjörinn talsmaður nefndarinnar. Í stuttu máli kemur fram í yfirlýsingunni að forsætisnefnd leggi sérstaka áherslu á öryggi kjarnorkumála og orkudreifingu í Rússlandi og Eystrasaltslöndunum, umhverfismál á grannsvæðum Norðurlanda, atvinnumál og verslun, frekari þróun innri byggingar (infrastruktur), baráttu gegn glæpum og stuðning við lýðræðisþróun.

3.2. Norðurlandanefnd.
    Fulltrúar Íslands í Norðurlandanefnd á starfsárinu voru Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir en á 51. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var ákveðið að Arnbjörg tæki sæti í Evrópunefnd í stað Norðurlandanefndar.
    Málefni Norðurlandanefndar eru fyrst og fremst norræn samstarfsmálefni, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Norðurlandanefnd gerði sérstaka vinnuáætlun fyrir starfsárið 1999 og ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: menningu, kvikmyndum og miðlun, tungumálum, menntun og rannsóknum, félagslegum aðstæðum, t.d. barna og unglinga, og jafnréttismálum.
    Nefndin hélt sex fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópar nefndarinnar og formenn nokkrum sinnum. Vinnuhópurinn um börn og unglinga hélt vinnufund á Egilsstöðum í lok maí. Þar fluttu erindi Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, Helga Guðmundsdóttir frá Egilsstaðabæ og Karl Steinar Valsson frá karlanefnd Jafnréttisráðs. Miklar umræður spunnust síðan um erindi þeirra. Niðurstaða vinnuhópsins var svo birt í tillögu A1194/nord sem samþykkt var á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhómi 9. nóvember. Í tilmælunum felst m.a. að skorað er á norrænu ráðherranefndina að vinna sérstaka aðgerðaáætlun fyrir börn og unglinga, að þróa norræna samvinnu um andlega heilsu barna, að hafa samvinnu við norræna umboðsmenn barna um að skýrgreina hvað felist í hugtakinu „barnets beste“, að vinna að því að tryggja hagsmuni barna innan réttarkerfisins, að innleiða og framkvæma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að innleiða aðferðir sem tryggi börnum og ungu fólki áhrif í samfélaginu. Þá voru samþykkt tilmæli um að m.a. verði unnin rannsókn á aðstæðum barna og ungs fólks í dreifðum byggðum á Norðurlöndunum. Athugun ráðherranefndarinnar á m.a. að leita svara við hvernig réttindi barna og unglinga eru virt m.t.t. möguleika til menntunar og félagslegra aðstæðna, sérstaklega barna og unglinga í þéttbýli. Þá skal afla þekkingar á kostum og göllum þess að vera barn eða unglingur í dreifbýli og hvernig þróun upplýsingatækninnar getur haldið hugsanlegum ókostum þess í lágmarki og hvernig unnt sé að styrkja þá þróun.
    Vinnuhópur á vegum nefndarinnar vann að verkefni um frjáls félagasamtök á Norðurlöndunum. Niðurstöður hópsins voru birtar í skýrslunni „Håndslag til det frivillige Norden“ og var hún samþykkt á Norðurlandaráðsþinginu í nóvember. Í stuttu máli má segja að skýrslan sé innlegg í umræðuna um Norðurlönd framtíðarinnar. Hún fjallar fyrst og fremst um það hvernig stoðir sem frjáls félagasamtök á Norðurlöndunum byggjast á geta myndað grundvöll fyrir ný sóknarfæri og stuðlað að þróun lýðræðis í grannsvæðum Norðurlanda en starfsemi frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum er einstök. Norðurlandanefnd hitti Gun Hellsvik forseta Norðurlandaráðs á fundi í lok júní þar sem farið var yfir stefnumörkun fyrir framtíðarstarf ráðsins. Rætt var um þemu fyrir 51. þing ráðsins í Stokkhólmi og tillögur að þemaráðstefnu árið 2000.
    Um miðjan október fóru nokkrir fulltrúar nefndarinnar í upplýsingaheimsókn til Weimar en borgin var menningarborg Evrópu árið 1999. Tilgangurinn með heimsókninni var m.a. að fylgja eftir menningarráðstefnunni árið 1997 og ræða skipulag menningarstarfsemi ráðsins næstu árin. Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir voru fulltrúar Norðurlandanefndar í heimsókninni. Þá tók Sigríður Jóhannesdóttir þátt í kvennaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Færeyjum í byrjun júlí. Á ráðstefnunni voru vinnuhópar sem tóku fyrir sex meginþemu: konur og stjórnmál, konur og vinnumarkað, jafnrétti, fjölskyldustefnu, ofbeldi gegn konum og konur og upplýsingar (kvinfo). Vinnuhóparnir skiluðu svo álitum í lok ráðstefnunnar og er þau að finna í skýrslu Vestnorræna ráðsins um ráðstefnuna sem gefin var út í janúar sl.
    Í lok september hélt Norðurlandaráð haustfundi sína á Akureyri og þóttu þeir takast mjög vel. Í tenglsum við fundina stóð Norðurlandanefnd fyrir málþingi um líftækni og lífsiðfræði. Þar fluttu erindi dr. Linda Nielsen prófessor, formaður norrænu lífsiðfræðinefndarinnar, Vilhjálmur Árnason, prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ehf., og Högni Óskarsson geðlæknir. Á fundinum voru m.a. reifuð lögfræðileg vandamál sem tengjast líftækni, siðfræðileg vandamál í tækniheimi nútímans og fyrirhugaður gagnagrunnur á heilbrigðissviði á Íslandi og ýmsar spurningar honum tengdar. Þá átti Norðurlandanefnd fund á Akureyri með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra þar sem rætt var um norræna vöruflutninga og framtíð norrænnar samvinnu á sviði umferðar-, umferðaröryggis- og fjarskiptamála.

3.3. Nærsvæðanefnd.
    Fulltrúi Íslands í nærsvæðanefndinni fram til vors var Sturla Böðvarsson. Í vinnuáætlun sinni fyrir starfsárið ákvað nefndin að leggja áherslu á nánara samstarf við Eystrasaltslöndin og önnur grannsvæði Rússlands og heimskautasvæðin. Umhverfismál skipuðu sem fyrr stóran sess í starfi nefndarinnar og sérstök áhersla var lögð á aðstæður barna og unglinga. Verkefni til að fylgja eftir ráðstefnunni BarnForum, sem haldin var í Stokkhólmi í desember árið áður, var hleypt af stokkunum og fékk einn nefndarmanna það hlutverk að skoða málið nánar og gefa nefndinni skýrslu. Verkefnið var unnið samhliða verkefni vinnuhóps um málefni barna og unglinga á Norðurlöndunum en skýrsla hópsins var til umræðu á þinginu í nóvember.
    Nefndin hélt fimm fundi á árinu og voru hefðbundin nefndastörf undirbúningur funda og meðferð tillagna, erinda og skýrslna. Þá voru skipulögð nokkur málþing og á árinu var unnið að skýrslu um baráttu gegn glæpum, einkum gegn glæpum ungmenna. Skipaður var vinnuhópur til að athuga og koma með tillögur um hvernig unnt væri að fylgja eftir niðurstöðum Barentsráðstefnunnar í Alta sem haldin var í apríl. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu í nóvember þar sem lagðar eru til ýmsar aðgerðir til að fylgja Barentsráðstefnunni eftir og hefur hópurinn óskað eftir umboði til að halda vinnunni áfram í samráði við rússneska þingmenn. Fjölmörg áhugaverð mál voru tekin upp og rædd í nefndinni, t.d. hugmyndir um nemendaskipti við Eystrasaltsríkin og stjórnmálaþátttöku kvenna á norðlægum svæðum. Þá hélt nærsvæðanefnd fund í lok júní um norðurskautsmál með fulltrúum norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið fundarins var einkum að fá upplýsingar um rannsóknir á málefnum norðurskautsins og frekari upplýsingar um starfsemina. Af hálfu ráðherranefndarinnar mættu Sören Christensen, Birgitte Skjoldager Wöhlk og Niels Petersen, auk Lars-Erik Liljelund frá AMAP og Lars Kullerud frá GRID/Arendal. Ákveðið var að fylgja eftir ráðstefnunni BarnForum með því að halda aðra slíka ráðstefnu, BarnForum II, sem haldin yrði á vordögum árið 2000. Nærsvæðanefnd tók þátt í Barentsráðstefnunni en þar voru þrjú meginmálefni til umræðu: framtíð samvinnu Norður-Evrópu og Rússlands, samskipti og samgöngur á Barentssvæðinu og þróun velferðarmála á Barentssvæðinu. Þá tóku fulltrúar nefndarinnar þátt í ráðstefnu um Evrópusambandið hjá Eystrasaltsþinginu sem haldið var í Helsinki, fjölmiðlaráðstefnu í Vilnius, ráðstefnu um kjarnorkumálefni og stefnu Eystrasaltsríkjanna sem haldin var í Vilnius og áttu enn fremur fund með þingmannasambandi NV-Rússlands í Viborg.

3.4. Evrópunefndin.
    Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon en Siv vék úr nefndinni þegar hún tók við embætti umhverfisráðherra. Hjálmar Jónsson kom í hennar stað um sumarið. Hlutverk Evrópunefndarinnar er að sinna samstarfi Norðurlanda og EFTA-ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndunum auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum töluvert um mál sem tengjast EMU og stöðu ríkjanna, einkum gjaldmiðla þeirra, gagnvart EMU-skilyrðum og hver áhrif þau hefðu á hagkerfi landanna. Fulltrúar einstakra ríkja í Evrópunefndinni gáfu skýrslu um stöðuna í vaxta- og gengismálum.
    Evrópunefndin skipaði sérstakan vinnuhóp um Norræna iðnaðarsjóðinn og var vinnu hans haldið áfram. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn skili skýrslu sem verður lögð fram á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Ráðstefna nefndarinnar um svæðisbundna samvinnu í ört stækkandi Evrópusambandi var haldin í samvinnu við norrænu ráðherranefndina og Benelux-löndin í apríl í Kaupmannahöfn. Nefndin var sammála um að Norðurlöndin hefðu ekki áhuga á blokkamyndun en sæktust eftir samvinnu á ákveðnum sviðum þegar hagsmunir ríkjanna færu saman. Nefndin hélt svo fund með Evrópu- og/eða utanríkismálanefndum þjóðþinga Norðurlanda. Fundurinn var haldinn í Helsinki og þótti takast vel. Á fundinum var einkum fjallað um „norðlægu víddina“ og voru menn sammála um mikilvægi hennar innan ESB-samstarfsins og kom meðal annars fram að margir töldu sérstaklega mikilvægt að Kólaskagi félli þar undir. Rétt er að geta þess að á fundi með Paavo Lipponen í Helsinki í lok janúar sl. ítrekaði hann að Evrópusambandið hefði fallist á að „norðlæga víddin“ yrði á aðgerðaáætlun sambandsins. Hins vegar mundi taka tíma að koma því í framkvæmd því að kerfið væri fremur svifaseint.
    Að lokum má geta þess að Evrópunefndin fjallaði sérstaklega um meðferð ESB/EES-mála í þjóðþingum Norðurlanda.

3.5. Eftirlitsnefndin.
    Fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 1999 var Sturla Böðvarsson en Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti hans þegar Sturla tók við embætti samgönguráðherra um mitt sumar.
    Nefndin fór yfir ársreikninga Norræna menningarsjóðsins og hóf athugun á því hvernig tilmælum og ályktunum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar væri fylgt eftir í þjóðþingunum. Niðurstaða þeirrar athugunar kemur fram í tillögu A1209/k sem var samþykkt á 51. þingi ráðsins í Stokkhólmi. Þá tók nefndin til sérstakrar skoðunar málefni Norræna menningarsjóðsins. Rannsaka skyldi úthlutun styrkja og sérstaklega hugað að hvernig styrkveitingar skiptust á milli einstakra landa, að sjálfsstjórnarsvæðunum meðtöldum, og málefna. Þá skyldi sérstaklega athugað hvort sömu aðilar fengju styrk til mismunandi verkefna. Í nóvember var nefndinni skilað áfangaskýrslu um styrkveitingar árin 1997 og 1998. Þar kemur fram hvernig styrkveitingar skiptast milli umsækjenda, svæða sem verkefnin voru unnin á, stofnana sem heyra undir norrænu ráðherranefndina og listgreina. Upplýst var að tölur um styrki árið 1999 lægju ekki fyrir fyrr en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2000. Rétt er að geta þess að eftirlitsnefndin hittir stjórn menningarsjóðsins í mars á þessu ári, fer yfir málið með henni og gengur svo frá endanlegri skýrslu.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru nú þrenn, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun, og nema 350 þúsund dönskum krónum. Bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var úthlutað í tengslum við sameiginlegan fund Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins sem fram fór í Helsinki. Umhverfisverðlaunin voru afhent í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi í nóvember.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið þeirra er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1999 hlaut danska skáldkonan Pia Tafdrup, fyrir bók sína „Dronningeporten“.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað hvert ár tónskáldi og hitt ár tónlistarflytjanda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1999 hlaut finnski hljómsveitarstjórinn og tónskáldið Leif Segerstam.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni aðdáunarverða tillitsemi. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn á þingi ráðsins í Kuopio í nóvember 1995. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1999 voru afhent á þingi Norðurlandaráðs hinn 9. nóvember og hlutu samtökin „Natur og Miljø“ á Álandseyjum verðlaunin en þau vinna innan Dagskrár 21.

5. Ráðstefnur á vegum Norðurlandaráðs.
5.1. Barentsráðstefna Norðurlandaráðs og norska Stórþingsins í Alta.
    Dagana 8.–9. apríl 1999 stóð Norðurlandaráð, í samvinnu við norska Stórþingið, fyrir ráðstefnu um svæðasamstarf ríkja við Barentshaf. Þetta er fyrsta þingmannaráðstefnan um þessi mál og fór hún fram í bænum Alta í Norður-Noregi. Ráðstefnuna sóttu þingmenn úr Norðurlandaráði (nærsvæðanefnd og forsætisnefnd), þingmenn úr Dúmunni og fulltrúar af fylkisþingum þeirra svæða sem liggja að Barentshafi, t.d. Múrmansk og Arkhangelsk í Rússlandi og Finnmörku í Noregi, auk annarra gesta. Af hálfu Alþingis sóttu ráðstefnuna Valgerður Sverrisdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Sigríður A. Þórðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson.
    Eftirtaldir stjórnmálamenn héldu framsöguerindi á ráðstefnunni: Eva Nielsen, formaður sveitarstjórnar Alta, Svein Ludvigsen, forseti efri deildar norska Stórþingsins og varaformaður Norðurlandanefndar, Gun Hellsvik, forseti Norðurlandaráðs, Heikki Puurunen, sendiherra Finnlands í Noregi, fyrir hönd utanríkisráðherra Finnlands, Julij Kvitsinskij, sendiherra Rússlands í Noregi, Georg Andersson, landshöfðingi í Finnmörku, Sven-Eric Söder, fulltrúi sænska samstarfsráðherra Norðurlanda, Peter Angelsen, samstarfsráðherra Norðurlanda og sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Noregs, en hann flutti jafnframt ávarp fyrir hönd Knuts Vollebæks, utanríkisráðherra Noregs, dr. Arthur Chilingarov, varaforseti Dúmunnar, Hannes Manninen, fulltrúi í Norðurlandaráði, Maj-Inger Klingvall, félagsmálaráðherra Svíþjóðar, og Ragnhild Nystad, varaforseti norska Samaþingsins. Auk þess tóku fjölmargir þingmenn og ráðstefnugestir til máls í almennum umræðum.
    Þrjú meginmálefni voru til umræðu á ráðstefnunni: framtíð samvinnu Norður-Evrópu og Rússlands, samskipti og samgöngur á Barentssvæðinu og þróun velferðarmála á Barentssvæðinu. Í opnunarræðu sinni sagði Svein Ludvigsen að tilgangur ráðstefnunnar væri að varpa ljósi á viðfangsefni fólks á svæðinu og ræða mögulegar úrlausnir.
    Í umræðum um framtíðarsamvinnu Norður-Evrópu og Rússlands voru ræðumenn sammála um að mikilvægt væri að efla enn frekar samvinnu svæðanna. Fram kom að forsenda þess væri efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki. Rætt var um gífurlegar auðlindir á Barentssvæðinu, bæði á landi og í hafi.
    Finnski sendiherrann í Noregi gerði grein fyrir áætlun Evrópusambandsins um „norðlæga vídd“, sem nær einnig til Barentssvæðisins, og benti á að í samstarfsverkefnum ESB á sviði orku- og samgöngumála væri ýmislegt sem snerti samvinnu á því svæði. Fulltrúi Rússlands minnti á að nú stæði yfir styrjöld á Balkanskaga og sagði að slíkt mætti ekki gerast á Barentssvæðinu. Þess vegna væri samstarf þingmanna þar mikilvægt, enda væru þeir fulltrúar íbúanna. Undir þetta tók m.a. Georg Andersson, landshöfðingi í Finnmörku, sem benti á að íbúarnir væru um fimm milljónir og svæðið auðugt. Hann ítrekaði mikilvægi þess að sveitastjórnir, fylkisþing, þjóðþing og ríkisstjórnir ynnu saman að málefnum Barentssvæðisins. Fleiri ræðumenn hvöttu til þess að slíkar ráðstefnur yrðu haldnar reglulega svo og að skipuð yrði sérstök þingmannanefnd um þessi mál með svipuðu sniði og þingmannanefnd um norðurskautsmál. Í umræðum um samskipti og samgöngur lögðu fundarmenn áherslu á möguleikana sem fælust í nýrri tækni. Rætt var um hugsanlegt samstarf í menntamálum, t.d. með því að nýta betur fjarnám og tölvutækni og lagt var til að opnuð yrðu svokölluð „Noregs-hús“ á Barentssvæðinu, svipuð norrænu húsunum á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi, til að greiða fyrir frekara samstarfi. Arthur Chilingarov, varaforseti Dúmunnar, benti á að þrátt fyrir að 60% af landi Rússlands teldist til Barentssvæðisins byggju þar einungis 11% þjóðarinnar. Engu að væru þar mikilvægar forsendur efnahagslegrar uppbyggingar landsins, þ.e. 75% af olíuauðlindnum og 90% af gasauðlindum Rússlands, auk sjávarauðlinda. Chilingarov minntist einnig á átökin í Kosovo og sagði erfitt að ræða friðsamlegt samstarf á Barentssvæðinu þegar NATO stæði fyrir sprengjuárásum á Serbíu. Í umræðum um velferðarmál voru kynntar upplýsingar um bága félagslega stöðu íbúa í Múrmansk þar sem félagsleg þjónusta er af skornum skammti, atvinnuleysi mikið og vændi útbreitt vandamál.
    Skipuleggjendur ráðstefnunnar höfðu dreift uppkasti að lokaskjali áður en hún hófst og var sérstakur vinnuhópur skipaður til að ná samkomulagi um það. Í hópnum voru fulltrúar frá öllum ríkjum Barentsráðsins, auk fulltrúa frá Norðurlandaráði og norska Stórþinginu. Fulltrúi Alþingis var Guðmundur Árni Stefánsson. Á fyrsta fundi vinnuhópsins lagði fulltrúi Dúmunnar, Boris Mischnik þingmaður frá Múrmansk, fram tillögu rússnesku sendinefndarinnar um að ráðstefnan fordæmdi sprengjuárásir NATO á Serbíu og hvetti aðildarríki Barentsráðsins til að binda tafarlaust enda á það blóðbað. Þessari tillögu var einróma vísað frá af öðrum fulltrúum í vinnuhópnum með þeim rökum að ráðstefnunni væri ætlað að vinna að málefnum Barentssvæðisins og því væri hún ekki rétti vettvangurinn til að álykta um átökin í Serbíu og Kosovo. Á hinn bóginn var ekki lagst gegn því að rússneska sendinefndin legði fram skjal með þessari afstöðu í eigin nafni og væri ráðstefnugestum í sjálfsvald sett hvort þeir undirrituðu það.
    Af öðrum málum sem komu til umræðu í vinnuhópnum má geta hugmyndar um að setja á laggirnar fastanefnd þingmanna um málefni Barentssvæðisins til að fylgja eftir ályktunum ráðstefnunnar og skipuleggja framtíðarsamstarf, sem og að opna sérstaka skrifstofu til að halda utan um það. Þessi hugmynd hafði verið umdeild í forsætisnefnd og var nokkur andstaða við hana, m.a. frá fulltrúum Finnlands, Íslands og Danmerkur. Lögð var fram málamiðlunartillaga þess efnis að nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs, í samvinnu við rússneska þingmenn í þjóð- og fylkisþingum, skyldi sinna samstarfi við Barentssvæðið og að þjónusta yrði veitt af skrifstofu Norðurlandaráðs. Tillagan var samþykkt.
    Þá lagði Guðmundur Árni Stefánsson til að ályktað yrði um samstarf í stjórn fiskveiða í Barentshafi, en í uppkastinu sem dreift var fyrir ráðstefnuna var ekki minnst á slíkt. Samþykkt var að bæta setningu í lokaskjalið þar sem hvatt er til eflingar samstarfs um fiskveiðistjórnun í Barentshafi. Tillögu norska þingmannsins Steinars Bastesens um að hefja hvalveiðar á nýjan leik og að aðildarríkin beittu sér gegn viðskiptaþvingunum gegn hvalveiðiþjóðum var hins vegar vísað frá.
    Þá skoraði ráðstefnan á Norðurlandaráð að halda ráðstefnu fyrir unga stjórnmálamenn frá Barentssvæðinu árið 2000.

5.2. Sameiginlegur fundur Norðurlandráðs og Eystrasaltsráðsins.
    Dagana 8.–9. febrúar 1999 héldu Norðurlandaráð og Eystrasaltsráðið annan sameiginlegan fund sinn en fyrri fundurinn var haldinn í Vilnius í Litháen í apríl árið 1996. Að þessu sinni fór fundurinn fram í finnska þinginu í Helsinki. Aðalumræðuefnin voru þrjú: „norðlæga víddin“ í Evrópusambandinu, öryggismál í Eystrasalti og barátta gegn skipulögðum glæpum á Eystrasaltssvæðinu. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Valgerður Sverrisdóttir formaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Sturla Böðvarsson, Siv Friðleifsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Sigríður Jóhannesdóttir.
    Fyrsta dagskrármál var hugmynd Finna um „norðlæga vídd“ í Evrópusambandinu. Meðal framsögumanna voru Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, sem flutti inngangsræðuna, Göran Person, forsætisráðherra Svíþjóðar, Kjell-Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs og Niels-Helveg Pedersen, utanríkisráðherra Danmerkur. Auk þess tóku forsætisráðherrar Lettlands og Eistlands, þeir Vilis Kristopans og Mart Siimann, þátt í umræðunum en forsætisráðherrar Litháens og Íslands voru forfallaðir.
    Næst var rætt um öryggismál í Eystrasalti. Framsögumenn voru Éeslovas Stankeviéius, varnarmálaráðherra Litháens, Dag Jostein Fjærvoll, varnarmálaráðherra Noregs, litháíski þingmaðurinn Juris Dalbins frá Eystrasaltsráðinu og finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja úr Norðurlandaráði. Framsögumenn um baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi voru Christel Anderberg frá Svíþjóð, en hún hefur skrifað skýrslu fyrir Norðurlandaráð um þetta málefni, Liudvikas Sabutis, formaður laganefndar Eystrasaltsráðsins, Laila Freivalds, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, og Paul Varul, dómsmálaráðherra Eistlands.
    Umræður á fundinum voru líflegar og var mál manna að sú tilhögun að hafa stutt framsöguerindi og leyfa fyrirspurnir hafi gengið vel. Í lok fundarins héldu fulltrúar Eystrasaltsráðsins og Norðurlandaráðs sameiginlegan blaðamannafund og tók Valgerður Sverrisdóttir þátt í honum. Þar kom fram að ráðin hyggjast starfa náið saman í framtíðinni, m.a. í tengslum við stækkun Evrópusambandsins og NATO, um framkvæmd „norðlægu víddarinnar“ í ESB, um málefni barna og unglinga á nærsvæðunum og um baráttu gegn skipulögðum glæpum.

5.3. Málstofan Þýskaland og Norðurlöndin — eiga þau samleið í nýrri Evrópu?
    Ráðstefna fyrir þýska og norræna þingmenn var haldin í tengslum við vígslu samnorrænu sendiráðsbygginganna í Berlín hinn 21. október. Þar voru þrír málaflokkar til umræðu, evrópsk öryggismál, norðurevrópskt orkukerfi og samgöngur í Norður-Evrópu. Gun Hellsvik, forseti Norðurlandaráðs, setti ráðstefnuna og Rudolf Seiters, varaforseti neðri deildar þýska þingsins, og Hans Stimmann, borgarfulltrúi í Berlín, ávörpuðu þingmenn. Ávörp um evrópsk öryggismál fluttu þýska þingkonan Angelika Beer og norska þingkonan Berit Brørby. Beer lagði áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðir og samstarf við Rússland væri mikilvægast. Brørby talaði einnig um mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða og minnti á að Kákassusvæðið ylli mestum áhyggjum. Þá sagði hún að fyrirhugað væri að auka hlutverk ESB í friðargæslu en NATO mundi áfram sjá um varnir álfunnar.
    Framsögur um orkumál höfðu þýski þingmaðurinn Kurt-Dieter Grill og danski þingmaðurinn Svend Erik Hovmand. Þeir fjölluðu fyrst og fremst um Eystrasaltssvæðið, en báðir lögðu þeir áherslu á að hugtakið sjálfbær nýting orkulinda bæri m.a. að skilgreina út frá efnahags- og félagslegum sjónarmiðum.
    Framsögur um samgöngumál höfðu þýski þingmaðurinn Reinhold Hiller og finnska þingkonan Outi Ojala. Þau fjölluðu bæði fyrst og fremst um samgöngumál á Eystrasaltssvæðinu, en Ojala talaði jafnramt um „norðlægu víddina“.
    Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hélt lokaræðu málstofunnar. Hann sagði m.a. að undanfarin ár í norrænu samstarfi hefði mest farið fyrir svæðisbundnu starfi og þakkaði Finnum fyrir að koma á meiri tengslum við önnur Evrópuríki í formennskutíð sinni í ráðherraráði ESB. Hann sagði gríðarlega mikilvægt að Þýskaland tæki þátt í samstarfi á norðurslóðum. Þá sagði hann að í allri umræðunni um samstarf á Eystrasaltssvæðinu mætti ekki gleyma Atlantshafi. Hann fagnaði hugmyndum um eflda samvinnu ESB í öryggismálum, en sagði það ekki mega bitna á starfinu innan NATO eða samstarfi Evrópuríkja við Bandaríkin og Kanada. Halldór sagði Norðurlöndin geta haft mikil áhrif saman, t.d. væri hagkerfi þeirra stærra en það kanadíska. Hann hvatti til náinnar samvinnu Norðurlanda og Þýskalands, enda ættu löndin sameiginlega hagsmuni, sem og sögu og menningararf.

5.4. Ráðstefna um líftækni og lífsiðfræði.
    Í tengslum við haustfundi Norðurlandaráðs, sem haldnir voru á Akureyri 26.–29. september, stóð Norðurlandanefnd fyrir ráðstefnu um líftækni og lífsiðfræði á Hótel KEA. Pehr Löv formaður setti ráðstefnuna. Fyrirlesarar voru dr. Linda Nielsen, formaður norrænu lífsiðfræðinefndarinnar, Vilhjálmur Árnason, prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ehf., og Högni Óskarsson geðlæknir.
    Linda Nielsen sagði í ræðu sinni að mikilvægt væri að fjalla um lífsiðfræði á norrænum vettvangi og nefndi sérstaklega hlutverk norrænu lífsiðfræðinefndarinnar og umræðu um reglur um genabanka og vísaði til rits sem norræna ráðherranefndin hefði gefið út um efnið undir titlinum „Who owns our genes?“. Hún lagði jafnframt sérstaka áherslu á að ræða þyrfti lögfræðilegar hliðar einstakra aðferða í líftækni og að réttindi manna yrðu að ná yfir allt æviskeið manneskjunnar, frá vöggu til grafar. Fram kom að reglur um líftækni og lífsiðfræði eru nokkuð mismunandi á Norðurlöndunum, t.d. um upplýsingar um kynfrumugjafa. Að lokum nefndi Nielsen að nauðsynlegt væri að kanna mismunandi löggjöf Norðurlandanna og hverjar ástæður væru fyrir muninum, móta „norræna stefnu“ um líftækni og lífsiðfræði, gagnkvæma upplýsingamiðlun og vilja til að samræma reglur.
    Þá fór fram ítarleg umræða um íslenskan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í máli Nielsen kom m.a. fram að íslenska löggjöfin um gagnagrunn á heilbrigðissviði lofaði góðu og virtist taka á mörgum mikilvægum atriðum. Hins vegar gætu skapast vandamál við að gera upplýsingarnar ópersónugreinanlegar, einkum vegna smæðar íslensku þjóðarinnar. Vilhjálmur Árnason prófessor sagði í erindi sínu að breyta þyrfti reglunum þannig að sjúklingar þyrftu að veita upplýst samþykki fyrir þátttöku sinni í gagnagrunninum. Jafnframt sagði hann ekki væri tekið nægilegt tillit til barna og látinna. Þessar reglur væri brýnt að endurskoða þar sem ekki væri hægt að taka aftur skráðar upplýsingar.
    Kári Stefánsson ítrekaði notagildi gagnagrunnsins til rannsókna á sjúkdómum og sjúkdómsorsökum, þróunar nýrra lyfja og hagkvæmari og betri heilbrigðisþjónustu. Hann minnti og á að þessi starfsemi mundi færa vel menntuðum Íslendingum atvinnutækifæri, aukin tækifæri til rannsókna og ríkinu skatttekjur, auk þess sem gagnagrunnurinn mundi nýtast heilbrigðisyfirvöldum. Hann kvað öryggi gagna tryggt meðal annars með því að fjórum nefndum væri ætlað að hafa eftirlit með starfseminni, hvort sem um væri að ræða rekstur, aðgang að persónuupplýsingum, siðfræði við rannsóknir með aðstoð gagnagrunnsins eða hvaða spurninga væri spurt, hver spyrði og hvenær. Þá upplýsti Kári hvernig fyrirspurnarferlið gengi fyrir sig í grundvallaratriðum. Að erindum loknum gafst tími til fyrirspurna og umræðna.

6. 51. þing Norðurlandaráðs.
    51. þing Norðurlandaráðs var haldið í Stokkhólmi dagana 8.–11. nóvember 1999 og sótti Íslandsdeild Norðurlandaráðs það.
    Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru afhent 9. nóvember við hátíðlega athöfn í þinghúsinu.
    Fyrir setningu þingsins sátu forsætisráðherrar Norðurlanda fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs í Rosenbad. Forseti ráðsins, Gun Hellsvik, setti þingið formlega daginn eftir og gat þess m.a. í setningarræðunni að mörg mikilvæg mál lægju fyrir þinginu til afgreiðslu. Gerði hún sérstaklega að umtalsefni tillöguna um „Norðurlönd án landamæra“ en hún fól í sér afnám hindrana fyrir Norðurlandabúa til að flytjast á milli landa, jafnt til búsetu sem starfa. Því næst tók til máls forseti sænska þingsins, Birgitta Dahl, og minnti á að alþjóðastarf, hvort heldur væri svæðisbundið, á Evrópuvettvangi eða á heimsvísu, væri geysilega mikilvægt en hins vegar væri forsenda þess sú að slíkt samstarf ætti sér stoð í vitund þjóðanna. Í framhaldi af því minnti hún á að þjóðþing Norðurlanda og einstakir þingmenn bæru ábyrgð á að tryggja slíkt. Samkvæmt venju fluttu forsætisráðherrarnir skýrslur sínar og síðan fór fram umræða um þær. Í ræðu sinni talaði Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, um að á öldinni sem væri að líða hefði heimurinn þurft að þola tvær hörmulegar heimsstyrjaldir en hins vegar hefði þetta einnig verið öld framfara og tækninýjunga, lýðræðis og mannréttinda og bættra samskipta við Austur-Evrópu. Í máli sínu vék hann að málefnum nærsvæðanna og norðurheimskautsins og að samskiptum Norðurlanda og Evrópusambandsins. Síðan fóru fram almennar stjórnmálaumræður. Fyrir utan ráðherratillögu um fjárlögin fyrir 1999 fjallaði þingið um margar ráðherra-, nefnda- og þingmannatillögur, m.a. um umhverfismál, samvinnu við Eystrasaltslöndin, réttindi barna, málefni barna í dreifbýli, einelti og ofbeldi meðal barna og unglinga, norræna samvinnu á sviði menntunar og rannsókna, atvinnumál o.fl. Um tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni sem samþykkt voru á þinginu vísast til fylgiskjals. Á þinginu var í fjórða sinn beinn fyrirspurnartími þar sem samstarfsráðherrar Norðurlanda sátu fyrir svörum og skapaðist mjög lífleg umræða.
    Þá fór fram kjör í nefndir og voru Sigríður A. Þórðardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sighvatur Björgvinsson kjörin til setu í forsætisnefnd, Sigríður Jóhannesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon í Norðurlandanefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd og Hjálmar Jónsson í nærsvæðanefnd. Þá var Sigríður A. Þórðardóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2000.
    Í ræðu sinni vék nýkjörinn forseti sérstaklega að samkennd Norðurlandþjóða sem birtist t.d. í sameiginlegu átaki þeirra við að koma upp sendiráðum í Berlín en þar þætti takast sérstaklega vel til. Þá lagði hún áherslu á nauðsyn þess að styrkja norræna samvinnu til að halda frið, vinna að mannúðarmálum og við að hafa frumkvæði að umræðu um stöðu minnihlutahópa, flóttamanna og innflytjenda, einkum m.t.t. uppgangs nýnasismans síðstu ár sem margir gerðu að umtalsefni á þinginu. Jafnframt ítrekaði hún mikilvægi samvinnu á norðurskautssvæðinu, Barentssvæðinu og Eystrasaltssvæðinu. Þá minnti Sigríður á nauðsyn þess að styrkja samstarf við Vestur-Norðurlönd. Í máli sínu vék hún einnig að norrænni tungu og sagðist vilja að minni tungumálasvæðin væru styrkt, skilningur aukinn milli einstakra svæða og stuðlað að frekari samvinnu sjónvarpsstöðva og á sviði menningarlífs. Að lokum minnti hún á að samvinna í menntamálum hefði ávallt verið forgangsmál á Norðurlöndum.
    Fráfarandi forseti Norðurlandaráðs, Gun Hellsvik, sagði í lokaræðu sinni að framtíð Norðurlandaráðs stæði og félli með þingmönnunum sem það skipuðu. Starfsemi þess og áhrif væru háð því að þingmenn væru tilbúnir til að takast á við vandamálin og leysa þau í fullri sátt. Að lokum varaði Hellsvik við vaxandi tilhneigingu til þjóðernishyggju og kynþáttafordóma. Sagði hún að menn yrðu að taka þetta alvarlega og hefja næsta árþúsund á baráttu gegn einstaklingshyggju, umburðarleysi og eigingirni en hvetja til umburðarlyndis og virðingar fyrir náunganum.

Alþingi, 15. febr. 2000.



Ísólfur Gylfi Pálmason,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir,


varaform.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Sighvatur Björgvinsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Hjálmar Jónsson.



Steingrímur J. Sigfússon.





Fylgiskjal.


Tilmæli, álit og ákvarðanir um innri málefni


samþykkt á 50. þingi Norðurlandaráðs.


(Stokkhómi, 8.–11. nóvember 1999.)



     1.      Tilmæli nr. 2/1999 um að koma af stað þverfaglegri aðgerðaáætlun fyrir börn og ungt fólk (A 1194/nord).
     2.      Tilmæli nr. 3/1999 um réttindi barna (A 1194/nord).
     3.      Tilmæli nr. 4/1999 um börn og ungt fólk í dreifbýli (A 1195/nord).
     4.      Tilmæli nr. 5/1999 um rannsóknir á einelti og ofbeldi meðal barna og unglinga (A 1196/nord).
     5.      Tilmæli nr. 6/1999 um aukna samvinnu við Eystrasaltsríkin (1203/P).
     6.      Tilmæli nr. 7/1999 um fjárhagsáætlun fyrir norræna samvinnu árið 2000 (C1, C2, B 187/p).
     7.      Tilmæli nr. 8/1999 um hvernig framfylgja beri tilmælum Norðurlandaráðs (A 1209/k).
     8.      Tilmæli nr. 9/1999 um stefnumörkun í samvinnu á sviði menntunar og rannsókna árin 2000–2004 (B 186/nord).
     9.      Tilmæli nr. 10/1999 um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum kvikmyndaeftirlits innan Norðurlandanna (A 1193/nord).
     10.      Tilmæli nr. 11/1999 um fulltrúa starfsmanna í stjórnum fyrirtækja sem starfa í mörgum löndum (A 1198/euro).
     11.      Tilmæli nr. 12/1999 um aðgerðaáætlun til að afnema hindranir innan Norðurlanda (A 1207/nord).
     12.      Tilmæli nr. 13/1999 um norræna atvinnumiðlun og miðlun upplýsinga um vinnumarkaðinn til að auka hreyfanleika vinnuafls milli svæða (A 1200/euro).
     13.      Tilmæli nr. 14/1999 um kynjaskiptingu við vinnslu opinberra tölfræðiupplýsinga (A 1192).
     14.      Tilmæli nr. 15/1999 um norrænt framtak til að hvetja Alþjóðabankann til að veita velferðarmálum vinnuafls meiri athygli (A 1197/euro).
     15.      Tilmæli nr. 16/1999 um kennslu í fangelsum (A 1199/nord).
     16.      Tilmæli nr. 17/1999 um viðskipti með C02-kvóta innan Norðurlandanna (A 1201/när).
     17.      Umsögn nr. 1/1999. Skýrsla frá Norræna menningarsjóðnum ásamt skýrslu endurskoðenda (C 5/k).
     18.      Ákvörðun nr. 1/1999 um heildarsýn á kennslu og félagsþroska (A 1196/nord).
     19.      Ákvörðun nr. 2/1999 um samvinnu og miðlun upplýsinga milli Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins (A1203/p).
     20.      Ákvörðun nr. 3/1999 um hvernig framfylgja beri tilmælum Norðurlandaráðs (A 1209/k).