Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 760  —  480. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Þuríður Backman, Jón Kristjánsson.



1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tengistígar eru göngu- og hjólreiðastígar milli þéttbýlisstaða, þar sem börn og unglingar fara daglega á milli til að sækja skóla, íþrótta- og tómstundastarf eða nauðsynlega þjónustu af öðrum toga, og eru kostaðir af opinberum aðilum.

2. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega og tengistíga, enda komi fullar bætur fyrir.

3. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Almennir vegir, einkavegir og tengistígar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.

         

Greinargerð.


    Löngu tímabært er að gefa meiri gaum að umferð hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda í samgöngumálum á Íslandi. Sú umferð er hluti af eðlilegri útivist og íþróttaiðkun, veitir holla hreyfingu og fellur afar vel að nútímaviðhorfum til umhverfismála enda fylgir henni hvorki hávaði né mengun af öðrum toga. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að betri þjónusta við þessa tegund umferðar leiði til þess að landsmenn tileinki sér hana í auknum mæli.
    Frumvarp þetta er lagt fram til að veita mikilvægum göngu- og hjólreiðastígum eðlilegan sess í vegakerfi landsins. Sums staðar háttar þannig til, m.a. í tengslum við samvinnu og/eða sameiningu sveitarfélaga, að börn og unglingar þurfa daglega að fara á milli þéttbýliskjarna til að sækja skóla, taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi eða sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu án þess að það kalli á akstur milli staða. Þar af leiðandi fara börn og unglingar þessara ferða ýmist gangandi eða hjólandi og sú umferð kallar á að lagðir séu fullnægjandi stígar fyrir göngu- og hjólreiðafólk. Öllum má vera ljós sú hætta sem stafar af því að beina þessari umferð inn á vegi fyrir vélknúin ökutæki.
    Hingað til hefur uppbygging slíkra stíga einkum strandað á óvissu um hverjum bæri að annast lagningu þeirra, umsjón og viðhald. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í þessu frumvarpi eru slíkir stígar settir í umsjá opinberra aðila. Stígunum er valið heitið tengistígar þar sem þeim er ætlað að tengja saman þéttbýliskjarna með fyrrgreindum hætti.