Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 774  —  199. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.
                             

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Finn Sveinbjörnsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti og Hjálmar Jónsson og Þór Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands, Verðbréfaþingi Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Samtökum fjármálafyrirtækja, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, Alþýðusambandi Íslands og Blaðamannafélagi Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að styrkja starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Er með því leitast við að tryggja betur en áður aðgang að gögnum og upplýsingum og auka möguleika Fjármálaeftirlitsins til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Hlaut frumvarpið ítarlega umfjöllun í nefndinni og var við hana höfð hliðsjón af máli þingmanna Samfylkingarinnar um sama efni (þskj. 99, 98. mál, eftirlit með fjármálastarfsemi).
    Nefndin leggur áherslu á að með víðtækari og skýrari heimildum Fjármálaeftirlitsins í frumvarpinu er ekki ætlunin að færa ábyrgð á rekstri eftirlitsskyldra aðila frá þeim sjálfum til hins opinbera. Þvert á móti beinist styrking Fjármálaeftirlitsins að því að það geti enn frekar stuðlað að því að eftirlitsskyldir aðilar axli þá ábyrgð sem þeim er falin.
    Þá telur nefndin mikilvægt að hugað verði að því að setja löggjöf um fjármálastarfsemi sem ekki er starfsleyfisskyld samkvæmt núgildandi lögum.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að ný grein bætist við frumvarpið sem breyti 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi þar sem segir að lögin nái m.a. til „kauphalla og annarra skipulegra tilboðsmarkaða“. Til að hugtakanotkun í lögunum sé í samræmi við hugtakanotkun í lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, er lagt til að orðið „annarra“ falli brott.
     2.      Þá er lögð til sú breyting að tekið verði fram að leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins til eftirlitsskyldra aðila verði að varða hóp eftirlitsskyldra aðila og vera almenn. Er það gert til að taka af öll tvímæli þar um.
     3.      Lagt er til að kostnaður við starf sérfræðings sem skipaður er af Fjármálaeftirlitinu til að gera athuganir á tilteknum þáttum í starfsemi og rekstri eftirlitsskylds aðila falli á þann sem sérfræðingsins nýtur, að hluta eða öllu leyti. Telur nefndin að slíkt eftirlit sé oft þess eðlis að viðkomandi aðili eigi að standa undir kostnaði við það. Er það í samræmi við 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en þar er kveðið á um greiðslu kostnaðar við sérhæft eftirlit. Verður Fjármálaeftirlitinu falið að meta hverju sinni hve hátt hlutfall kostnaðarins eftirlitsskyldi aðilinn greiði.
     4.      Lagt er til að í stað orðanna „ákveðins“ og „tiltekins“ í 1. og 2. efnismgr. 3. gr. komi orðið „hæfilegs“. Er með því lögð áhersla á að eftirlitsskyldum aðila verði að gefa sanngjarnan og eðlilegan frest til að bregðast við kröfum Fjármálaeftirlitsins. Telur nefndin að við mat á því hvort frestur teljist hæfilegur skuli horft til mikilvægis þess að úrbætur nái fram að ganga.
     5.      Lagt er til að stjórnvaldssektir sem Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að leggja á fyrirtæki sem brjóta gegn fyrirmælum þess verði nefndar févíti, en það heiti er í samræmi við orðanotkun í lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Þá er lagt til að sektarfjárhæðir verði lækkaðar nokkuð frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Geti dagsektir numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag, en févíti frá 10.000 kr. til 2 millj. kr.
     6.      Lagt er til að nýju ákvæði verði bætt við frumvarpið þar sem fram komi að upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila séu háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Fjármálaeftirlitinu. Er þessi breyting lögð til þar sem mjög mikilvægt er að eftirlitsskyldir aðilar geti treyst því að svo sé. Geti því Fjármálaeftirlitið aflað upplýsinga í trúnaði frá eftirlitsskyldum aðilum án þess að verða skylt með vísan til upplýsingalaga að láta af hendi upplýsingar sem eðli máls samkvæmt væru bundnar þagnarskyldu samkvæmt lögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila.
     7.      Lagt er til að viðskiptaráðherra geri Alþingi árlega grein fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Getur ráðherra annaðhvort lagt fram skýrslu um starfsemi eftirlitsins eða látið yfirlit um starfsemi þess fylgja með frumvarpi til breytinga á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem líklegt er að breyta þurfi á hverju haustþingi.
     8.      Lagt er til að 120 þús. kr. kærugjald sem kveðið er á um í 5. mgr. 17. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi verði fellt niður þar sem svo hátt gjald er í andstöðu við almenna stefnumörkun um greiðan aðgang aðila að kæru- og áfrýjunarnefndum. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í frumvarpinu að úrskurður kærunefndar skuli liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst henni.
     9.      Lagt er til að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og sjóðum sem gert er ráð fyrir í 9. gr. frumvarpsins skuli einungis vera að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi. Með þessari breytingartillögu er leitast við að afmarka eftirlit Fjármálaeftirlitsins við nauðsynlegt eftirlit með viðkomandi viðskiptabanka eða sparisjóði þótt hluti fjármálastarfseminnar sé rekinn í sjálfstæðu félagi. Ákvæðinu svo breyttu er m.a. ætlað að tryggja að ekki sé unnt að koma tilteknum þáttum fjármálastarfsemi undan eftirliti eða byggja þá þjónustu á sjónarmiðum sem fara í bága við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Ekki er gert ráð fyrir að dótturfyrirtæki, hlutdeildarfyrirtæki eða sjóðir greiði eftirlitsgjald sérstaklega nema kveðið sé á um það í lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     10.      Lögð er til sams konar breyting á orðalagi í 2. efnismgr. 9. gr., 2. efnismgr. 12. gr., 1. efnismgr. b-liðar 13. gr. og 1. efnismgr. 14. gr. frumvarpsins. Þar er í öllum tilvikum talað um hæfni tiltekinn aðila þar sem greinilega er átt við hæfi þeirra.
     11.      Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 10. gr. laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði að Fjármálaeftirlitinu verði falið að setja þær reglur um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli lánastofnana sem nú er gert ráð fyrir að Seðlabankinn setji.
     12.      Loks er lagt til að bætt verði tveimur nýjum greinum við frumvarpið sem verði 16. gr. og 18. gr. Í þeim felist að vátryggingafélög og stjórnir lífeyrissjóða skuli setja sér verklagsreglur um verðbréfaviðskipti félaganna og sjóðanna, stjórna þeirra og starfsmanna. Verklagsreglurnar skulu staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Með þessu er lögð sambærileg skylda á þessa aðila og kveðið er á um í 21. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Er Fjármálaeftirlitinu ætlað að gæta þess að samræmi sé milli verklagsreglnanna að teknu tilliti til eðlis viðkomandi starfsemi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 20. mars 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.