Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 785  —  257. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu bráðabirgðasamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Frelsissamtaka Palestínu (PLO) fyrir hönd Þjóðarráðs Palestínu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Hauk Jóhannesson skrifstofustjóra og Auðbjörgu Halldórsdóttur frá viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytis. Þá bárust nefndinni skriflegar upplýsingar frá utanríkisráðuneyti um samskipti Íslands og palestínskra stjórnvalda.
    Árið 1989 var samþykkt á Alþingi þingsályktun þar sem meðal annars kemur fram að Alþingi telji að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu (PLO). Síðan þá hafa Palestínumenn fengið sjálfsstjórn á ákveðnum svæðum og palestínsk stjórnvöld hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem fulltrúar palestínsku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Í janúar samþykktu íslensk stjórnvöld að yfirmaður sendinefndar palestínskra stjórnvalda í Ósló yrði einnig fulltrúi þeirra gagnvart Íslandi.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á bráðabirgðasamningi milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Frelsissamtaka Palestínu fyrir hönd Þjóðarráðs Palestínu (PLO).
    Bráðabirgðasamningur sá við PLO sem hér um ræðir er hliðstæður öðrum fríverslunarsamningum sem EFTA-ríkin hafa gert. Meginfyrirmyndir þessa samnings eru fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna við Eystrasaltsríkin sem undirritaðir voru í desember 1995 og fullgiltir í febrúar 1996. Samningurinn fjallar eins og aðrir fríverslunarsamningar m.a. um meðferð tolla og samsvarandi gjalda, upprunareglur og samvinnu um tollaframkvæmd, ríkiseinokun, tæknilegar reglugerðir, greiðslur og yfirfærslur, opinber innkaup, vernd hugverka, samkeppni fyrirtækja, ríkisaðstoð, undirboð og erfiðleika vegna greiðslujafnaðar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 15. mars 2000.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Jónína Bjartmarz.



Einar K. Guðfinnsson.


Árni R. Árnason.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.