Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 786  —  236. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Schengen–upplýsingakerfið á Íslandi.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Þorstein A. Jónsson frá dómsmálaráðuneyti, Þóri Oddsson og Smára Sigurðsson frá ríkislögreglustjóra, Arnar Guðmundsson frá Lögregluskóla ríkisins, Jóhannes Jensson og Jónas Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna, Friðrik Georgsson og Steingrím P. Björnsson frá Tollvarðafélagi Íslands, Ragnar Aðalsteinsson hrl. og Pál Hreinsson og Sigrúnu Jóhannesdóttur frá tölvunefnd.
    Nefndarmenn fóru ásamt utanríkismálanefnd í kynnisferð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og skoðuðu breytingar á flugstöðinni vegna Schengen-samstarfsins. Þar áttu nefndirnar jafnframt fund með Óskari Valdimarssyni frá Framkvæmdasýslu ríkisins og Helga Gunnarssyni frá Verkfræðistofunni VSÓ, sem einnig sat fundinn fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins, Ómari Kristjánssyni, Stefáni Jónssyni og Einari M. Jóhannssyni frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Birni Inga Knútssyni og Ómari Ingvarssyni frá Flugmálastjórn, Sævari Lýðssyni og Óskari Þórmundssyni frá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Ingimar Erni Péturssyni frá Atlanta, Ómari Benediktssyni og Gunnari Þorvaldssyni frá Íslandsflugi og Sigþóri Einarssyni, Hrafni Þorgeirssyni og Gunnari Ólsen frá Flugleiðum.
    Þá bárust umsagnir frá ríkistollstjóra, tölvunefnd, Útlendingaeftirliti, Hagstofu Íslands, Lögmannafélagi Íslands, ríkissaksóknara og Landhelgisgæslu Íslands.
    Frumvarpið er eitt af þremur frumvörpum sem nefndin hefur haft til umfjöllunar vegna lögfestingar nauðsynlegra ákvæða vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Nefndin hefur einnig haft til umfjöllunar vegna samstarfsins frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu (237. mál, þskj. 289) þar sem lagðar eru til breytingar á fimm lagabálkum og frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 45/1965 (328. mál á þskj. 578). Þá liggur fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og undirritaður var í Brussel á síðasta ári (206. mál, þskj. 240).
    Frumvarpið fjallar um rekstur Schengen-upplýsingakerfisins hér á landi. Rekstur þess er mikilvægur þáttur Schengen-samstarfsins en upplýsingakerfinu er ætlað að styrkja eftirlit á ytri landamærum og gera lögregluyfirvöldum kleift að viðhalda öryggi innan aðildarríkjanna samhliða því að persónueftirlit er afnumið á innri landamærum. Schengen-samstarfið er uppbyggt á þann hátt að hvert aðildarríkjanna starfrækir staðbundið upplýsingakerfi eða landseiningu (N.SIS) þar sem upplýsingar frá öllum aðildarríkjum eru varðveittar. Til stuðnings staðbundnu kerfunum er tæknileg stoðeining (C.SIS) í Strassborg í Frakklandi sem annast miðlun upplýsinga aðildarríkjanna hvers til annars með beinlínutengingu svo að tryggt sé að gagnasöfn landseininganna samsvari hvert öðru. Upplýsingar sem skráðar eru í landskerfi aðildarríkis fara þannig í landskerfi allra aðildarríkja samstarfsins í gegnum stoðeininguna í Strassborg en aðildarríki sem skráir upplýsingar inn í kerfið ber ábyrgð á skráningunni. Frumvarpið fjallar eins og áður sagði um rekstur landseiningarinnar á Íslandi, þar sem m.a. er kveðið á um hvað má skrá í kerfið, í hvaða tilvikum og hversu lengi upplýsingar mega standa og settar eru reglur um hverjir skuli hafa aðgang að upplýsingunum og um ábyrgð á skráningu þeirra í kerfið. Jafnframt er tölvunefnd falið almennt eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög og reglur.
    Nefndin ræddi allítarlega 5.–8. gr. frumvarpsins. Í 5. gr. er tilgreint hvaða upplýsingar skrá má í upplýsingakerfið. Í a–j-lið 1. mgr. er talið upp hvað heimilt er að skrá í kerfið og eru þessir liðir í samræmi við a–j-lið 3. mgr. 94. gr. Schengen-samningsins frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins. Jafnframt kemur fram í 4. gr. frumvarpsins að í upplýsingakerfið skuli aðeins skrá upplýsingar sem um getur í 5. gr., enda sé skráningin nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi skráningar skv. 6.–8. gr. frumvarpsins og tilefni til skráningar nægjanlega brýnt. Samkvæmt þessu er óheimilt að skrá aðrar upplýsingar en heimilað er í 5. gr. og því t.d. óheimilt að skrá kennitölur einstaklinga í kerfið. Í 6.–8. gr. er að finna tæmandi talningu á því í hvaða tilvikum heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga, ökutæki eða aðra hluti. Skv. i-lið 1. mgr. 5. gr. má skrá ástæður fyrir skráningu skv. 6.–8. gr. Með hliðsjón af því að þær upplýsingar sem skrá má um einstaklinga í upplýsingakerfið teljast viðkvæmar persónuupplýsingar og því að þær mega ekki standa lengur en þörf krefur, sbr. 1. mgr. 17. gr., telur nefndin að ástæðu fyrir skráningu skv. i-lið verði að skrá í öllum tilvikum. Jafnframt þurfi ekki að skrá jafnítarlegar upplýsingar þegar leitað er t.d. að vitni skv. d-lið 1. mgr. 6. gr. og þegar leitað er t.d. að eftirlýstum manni skv. a-lið 1. mgr. sömu greinar. Þannig verði ekki skráðar meiri upplýsingar en nauðsyn ber til í kerfið.
    Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram sú gagnrýni að einstök ákvæði frumvarpsins séu of óljós og opin. Má þar sem dæmi nefna h-lið 1. mgr. 5. gr. þar sem heimilað er að skrá hvort viðkomandi er ofbeldishneigður. Að mati nefndarmanna verða að vera sterk rök fyrir slíkri skráningu, t.d. að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot.
    Nefndarmenn ræddu sérstaklega um heimildir tölvunefndar til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tölvunefnd verði eftirlitsaðili kerfisins hér á landi. Hins vegar er gert ráð fyrir að eftirlit með upplýsingakerfinu verði nokkuð frábrugðið eftirliti nefndarinnar með öðrum gagnagrunnum. Þannig er tölvunefnd t.d. ekki falið að kveða upp úrskurð í ágreiningsmálum heldur verður það á hendi ríkislögreglustjóra. Úrskurði hans má kæra til dómsmálaráðherra. Með hliðsjón af hlutverki tölvunefndar telur nefndin rétt að ríkislögreglustjóri óski eftir umsögn tölvunefndar þegar ágreiningsmál koma til kasta hans.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Samkvæmt c-lið 10. gr. verður skráningarstofa ökutækja beinlínutengd við upplýsingakerfið til að kanna hvort vélknúin ökutæki, eftirvagnar eða hjólhýsi séu skráð í upplýsingakerfið. Schengen-samningurinn tiltekur hins vegar hverjir megi leita beint að upplýsingum í upplýsingakerfinu og aðili á borð við skráningarstofu ökutækja er ekki þar á meðal. Nefndin leggur því til að c-liður falli brott og að b-liður 19. gr. breytist í samræmi við það.
     2.      Við 16. gr. Nefndin telur að fyrningarfrestur bótakröfu samkvæmt greininni sé of knappur og leggur til að hann verði lengdur í tvö ár.
     3.      Að mati nefndarinnar er gildistökuákvæði frumvarpsins ekki nægilega skýrt. Með því að heimila dómsmálaráðherra að ákveða hvenær lögin öðlist gildi er verið að framselja heimild löggjafans til að ákvarða um gildistöku laga. Hér er um að ræða undantekningu frá því sem almennt tíðkast og ekki í samræmi við þá lagahefð sem skapast hefur hér á landi að Alþingi ákveði hvenær lög sem það hefur samþykkt öðlist gildi. Við meðferð málsins hjá nefndinni hefur komið í ljós að fátt er því til fyrirstöðu að lögin öðlist þegar gildi. Undirbúningur fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu stendur yfir og til þess að honum verði fram haldið með eðlilegum hætti, m.a. með móttöku gagna og ýmissa upplýsinga frá öðrum aðildarríkjum verða ákvæði Schengen-samningsins að hafa verið lögfest hér á landi. Er því lagt til að lögin öðlist þegar gildi.
     4.      Lagðar eru til málfarsleiðréttingar á 6. og 12. gr.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er andvígur áliti þessu.

Alþingi, 13. mars 2000.


                                  

Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Guðjón Sigurjónsson.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Jónina Bjartmarz.


Ásta Möller.



Ólafur Örn Haraldsson.