Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 842  —  370. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti, Borghildi Erlingsdóttur frá Einkaleyfastofunni og Ólaf Ragnarsson og Örn Þór frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa. Þá bárust umsagnir um málið frá Samtökum iðnaðarins, dómsmálaráðuneytinu og laganefnd Lögmannafélags Íslands.
    Megintilgangur frumvarpsins er að greiða úr réttaróvissu sem skapast hefur í kjölfar úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. nóvember 1999 þar sem máli íslensks aðila á hendur erlendum eiganda vörumerkis var vísað frá dómi á þeim forsendum að lagaheimild skorti til að reka málið fyrir íslenskum dómstóli. Ekki var fallist á að höfða mætti mál á hendur merkiseiganda á varnarþingi umboðsmanns hans skv. 35. gr. vörumerkjalaga, nr. 45/1997. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að í málum sem rekin eru samkvæmt vörumerkjalögum skuli varnarþing erlends eiganda vörumerkis vera í Reykjavík. Sambærilegt ákvæði var að finna í eldri vörumerkjalögum, nr. 47/1968. Með hliðsjón af því og áðurgreindum úrskurði héraðsdóms lítur nefndin svo á að brýnt sé að setja slíkt ákvæði í gildandi lög. Til samræmis við önnur ákvæði gildandi vörumerkjalaga, þar á meðal 35. gr. sem frumvarpinu er ætlað að auka við, virðist hins vegar eðlilegt að tala um eiganda vörumerkis í stað umsækjenda og eigenda skráninga og gerir nefndin því breytingartillögu þess efnis.
    Nefndin telur æskilegt að fella brott 4. mgr. 42. gr. vörumerkjalaga í því skyni að ekki þurfi að gefa út ákæru til að banna notkun vörumerkis, sem og að veita ráðherra ótvíræða heimild til að ákveða gjald fyrir áfrýjun í vörumerkjamálum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. Í stað orðanna „Umsækjendur og eigendur skráninga, sem hafa ekki lögheimili hér á landi, teljast“ komi: Eigandi vörumerkis, sem hefur ekki lögheimili hér á landi, telst.

    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2000.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Árni R. Árnason.



Pétur H. Blöndal.


Árni Steinar Jóhannsson.