Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 902  —  407. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Grétar Mar Jónsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Í gildandi lögum er kveðið á um framsal veiðiheimilda í c-lið 2. gr. og þar segir orðrétt: „Innan hvers árs er heimilt að framselja ákveðinn hluta árlegs aflahámarks hvers skips miðað við aflareynslu þess við veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þremur síðustu vertíðum og leyfilegan heildarafla hvers árs. Skal það magn, sem heimilt er að framselja, nema 50% af sama hlutfalli heildarveiðiheimilda og nam hlutdeild sama skips í heildarafla síðustu þriggja síldarvertíða.“
    Með frumvarpinu er lagt til að aflétt verði takmörkunum á heimild til flutnings aflahámarks af skipum sem stunduðu síldveiðar á viðmiðunarárunum 1995, 1996 og 1997 og skipum sem hafa komið í þeirra stað. Hins vegar er skýrt kveðið á um að ekki megi framselja veiðiheimildir af skipum sem ekki stunduðu síldveiðar á viðmiðunarárunum eða komið hafa í stað þeirra. Er tilgangurinn með því að koma í veg fyrir að sótt verði um veiðileyfi og aflahámark fyrir skip í þeim eina tilgangi að flytja af þeim aflahámarkið.
    Ástæða er til að vekja athygli á því að samkvæmt gildandi lögum skal sjávarútvegsráðherra fyrir 1. nóvember nk. leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000. Því má vænta þess að breytingar verði á lögunum sem hafi áhrif á veiðistjórnunina þegar á næsta ári.
    Guðmundur Hallvarðsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. mars 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Árni R. Árnason.


Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson,


með fyrirvara.