Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 903  —  366. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, með síðari breytingu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir um það frá Leiðsöguskólanum, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Félagi leiðsögumanna, Ferðamálaráði Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Birnu G. Bjarnleifsdóttur, umsjónarmanni Leiðsöguskóla Íslands, og Félagi íslenskra framhaldsskóla. Þá óskaði nefndin eftir umsögn menntamálanefndar og er hún birt sem fylgiskjal með álitinu.
    Frumvarpið er flutt í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að mál sem varði menntun leiðsögumanna verði færð frá samgönguráðuneyti til menntamálaráðuneytis.
    Nefndin telur eðlilegt að menntun leiðsögumanna heyri undir menntamálaráðuneyti. Nefndin er jafnframt sammála því sem kemur fram í umsögn menntamálanefndar sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu, þar á meðal því að með frumvarpinu sé á engan hátt verið að breyta inntaki námsins, sem er mjög sérhæft, né inntökuskilyrðum, þ.e. að nemendur séu 21 árs og hafi m.a. lokið stúdentsprófi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jónína Bjartmarz, Lúðvík Bergvinsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2000.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Ólafur Örn Haraldsson.



Guðrún Ögmundsdóttir.


Sverrir Hermannsson.


Katrín Fjeldsted.




Fylgiskjal.

Umsögn menntamálanefndar.
(31. mars 2000.)


    Menntamálanefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, með síðari breytingum, 366. mál, í samræmi við bréf allsherjarnefndar frá 1. þ.m.
    Nefndin fékk á sinn fund vegna málsins Hörð Lárusson frá menntamálaráðuneyti, Margréti Friðriksdóttur frá Menntaskólanum í Kópavogi og Kristbjörgu Þórhallsdóttur frá Félagi íslenskra leiðsögumanna.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að flytja mál er varða menntun leiðsögumanna frá samgönguráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Nefndin mælir með tilfærslu námsins þar sem hún lítur svo á að menntamál heyri undir menntamálaráðuneyti samkvæmt eðlilegri skiptingu Stjórnarráðsins. Það er skilningur nefndarinnar að með þessu sé í engu verið að breyta inntaki þessa náms, sem er mjög sérhæft, né inntökuskilyrðum, þ.e. að nemendur séu 21 árs og hafi m.a. lokið stúdentsprófi. Nefndin leggur áherslu á að það sé tryggt.
    Þá kom fram í viðræðum í nefndinni að nú þegar er starfræktur samráðshópur þriggja aðila, þ.e. Menntaskólans í Kópavogi, Félags leiðsögumanna og Samtaka ferðaþjónustunnar, sem hefur það að markmiði að bæta menntun og þekkingu leiðsögumanna, m.a. með tilliti til Evrópustaðla. Niðurstöður hópsins verða sendar menntamálaráðuneytinu.
    Nefndin telur nauðsynlegt að þessi mál verði skoðuð í heild sinni, m.a. með tilliti til staðsetningar námsins í menntakerfinu.

Virðingarfyllst,

Helga E. Þórisdóttir,
ritari menntamálanefndar.