Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 930  —  549. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas N. Möller og Bergþór Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Katrínu Ólafsdóttur frá Þjóðhagsstofnun, Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Jónas Þór Steinarsson og Boga Pálsson frá Bílgreinasambandinu og Arnór Sighvatsson frá Seðlabanka Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum.
    Helsta breytingin sem lögð er til er fækkun á flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar úr þremur í tvo og að vörugjald á fólksbifreiðar með aflmeiri vélar verði lækkað nokkuð frá núgildandi lögum. Með breytingunni er stefnt að því að gera fleirum kleift að kaupa öruggari og betur búnar bifreiðar en einnig mun breytingin að líkindum leiða til þess að draga mun úr innflutningi notaðra bifreiða sem oft eru búnar ófullkomnum mengunarvarnabúnaði.
    Meðal annarra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að vörugjald af bifhjólum, vélsleðum og fjórhjólum verði lækkað úr 70% í 30%. Þá er lagt til að lækkað verði gjald af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum þannig að bílaleigur hérlendis verði samkeppnishæfari samanborið við slíka þjónustu í öðrum löndum. Loks er lögð til veruleg lækkun á vörugjaldi á bifreiðar sem eru sérútbúnar fyrir fatlaða.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.


Gunnar Birgisson.


                        

Einar Oddur Kristjánsson.


Jón Kristjánsson.


Vigdís Hauksdóttir.