Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 933  —  261. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133 21. desember 1994.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Rúnu Jónsdóttur frá Stígamótum, Georg Kr. Lárusson og Jóhann Jóhannsson frá Útlendingaeftirlitinu, Helgu Haraldsdóttur frá samgönguráðuneyti og Karl Steinar Valsson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Útlendingaeftirlitinu, Bandalagi íslenskra listamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra leikara, Bandalagi háskólamanna, Félagi nýrra Íslendinga, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisráði og Miðstöð nýbúa. Þá barst nefndinni erindi frá félagsmálaráðuneyti í tengslum við umfjöllun málsins um breytingu á 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga varðandi réttarstöðu erlendra maka íslenskra ríkisborgara.
    Nú fer fram heildarendurskoðun á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneyti hefur orðið gífurleg fjölgun í hópi þeirra sem koma hingað til lands í allt að fjórar vikur árlega og stunda vinnu á nektarstöðum í þann tíma á grundvelli undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi. Frumvarpinu er einkum ætlað að veita félagsmálaráðherra skýra lagaheimild til að setja reglur sem skilgreina hverjir falli undir undanþágu b-liðar 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og geti talist listamenn í skilningi laganna. Með því er unnt að gera erlendra nektardansara sem koma hingað til lands í atvinnuskyni háða reglum um atvinnuleyfi. Slíkir dansarar hafa fram til þessa hlotið undanþágu á grundvelli þess að hér sé um listamenn að ræða, en ljóst er að undanþáguákvæði 14. gr. laganna var aldrei ætlað að halda uppi viðvarandi atvinnustarfsemi útlendinga hér á landi með þeim hætti sem orðið hefur. Reynsla erlendis sýnir að slíku umhverfi fylgir iðulega vændi, eiturlyfjasala og önnur neðanjarðarstarfsemi. Umsagnir um málið voru almennt jákvæðar, en í umsögnum Bandalags íslenskra listamanna og Félags íslenskra leikara komu fram efasemdir um réttmæti þess að félagsmálaráðherra setti reglur sem skilgreindu störf listamanna. Buðust samtökin til þess að aðstoða við skilgreiningu á því hver væri listamaður ef verulegur vafi léki á því hvort viðkomandi stundaði listræn störf. Þess skal þó getið að breytingunni er aðeins ætlað að veita félagsmálaráðherra heimild til að skilgreina hverjir eru listamenn í skilningi laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, og þar með undanþegnir kröfum um atvinnuleyfi, en ekki að ráðstafa réttindum listamanna á annan hátt.
    Meðan frumvarpið var til meðferðar hjá nefndinni lagði samgönguráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum (406. mál). Þar er m.a. gert ráð fyrir þremur nýjum flokkum veitingastaða í þeim tilgangi að veita sveitarstjórnum úrræði til að hafa áhrif á hvar rekstur „erótískra“ veitingastaða fer fram, en þar er skilgreint hvers konar veitingastaður telst vera næturklúbbur. Í tengslum við frumvarp samgönguráðherra komu fram hugmyndir um hvort ekki væri æskilegt að tilgreina skýrt í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hverjir féllu ekki undir undanþágu samkvæmt lögunum miðað við skilgreiningu frumvarpsins á næturklúbbum. Tillaga þess efnis að þeir sem kæmu fram á næturklúbbum féllu ekki undir undanþáguna kom fram við meðferð málsins. Nefndin lítur svo á að hér sé um að ræða ákvæði sem taki ótvírætt til nektardansara og er gerð breytingartillaga um það í sérstöku þingskjali.
    Nái frumvarpið fram að ganga verður unnt að skylda erlenda nektardansara sem hingað koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að sækja um dvalarleyfi hér á landi og leggja fram heilbrigðisvottorð. Nefndin lítur svo á að ákvæði frumvarpsins muni auðvelda yfirvöldum að hafa eftirlit með a.m.k. hluta þeirra kvenna sem hingað koma í stuttan tíma árlega í þeim tilgangi að stunda nektardans og þar með sporna við starfsemi hluta þeirra staða sem teljast til næturklúbba, þ.e. hinna „erótísku“ veitingastaða.
    Jafnframt leggur nefndin til breytingu á 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, samkvæmt tillögu félagsmálaráðuneytis, en henni er ætlað að undanþiggja maka íslenskra ríkisborgara með skýrum hætti frá skilyrðum laganna um atvinnuleyfi, enda hafi þeir fengið dvalarleyfi hér á landi eða afhent skráningaryfirvaldi norrænt flutningsvottorð. Breytingartillaga þess efnis er gerð í sérstöku þingskjali.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram ábending um að mikil og brýn þörf væri á heildstæðri löggjöf um útlendinga hér á landi og tekur nefndin heils hugar undir það.
    Steingrímur J. Sigfússon skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. apríl 2000.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Kristján Pálsson.



Jónína Bjartmarz.


Pétur H. Blöndal.


Vigdís Hauksdóttir.



Kristján L. Möller.


Drífa Hjartardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.