Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 952  —  289. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Í lögum um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, nr. 103/1996, segir í lok 2. mgr. 4. gr.: „Hlutabréf, sem gefið verður út í tengslum við stofnun félagsins eða skiptingu þess samkvæmt niðurlagsákvæði í 2. mgr. 2. gr. skal undanþegið stimpilgjöldum.“
    Samkvæmt heimild í 2.mgr. 2. gr. hafa nú verið stofnuð tvö hlutafélög, Landssími Íslands hf. og Íslandspóstur hf. Ekki verður séð að síðan þá hafi nokkuð gerst sem ekki var fyrirséð við setningu laganna árið 1996 og því er ekki sérstök ástæða nú fremur en þá til að innheimta stimpilgjöld af viðkomandi hlutabréfum sem eru að fullu í eigu ríkisins. Miðað við óbreytt eignarform, þjónustuskyldur og kvaðir gangvart landsmönnum öllum, óháð búsetu og stöðu í þjóðfélaginu, er ekki nú frekar en við setningu laganna sérstök ástæða til að ríkið innheimti þessi gjöld. Allur arður af hlutafélögunum rennur til ríkissjóðs.
    Skýrt kom fram við setningu laganna að ekki stæði til að setja hlutabréf Pósts og síma hf. á markað eða selja fyrirtækin sem stofnuð væru á grundvelli þeirra. Eigi hins vegar að selja Landssíma Íslands hf. eða Íslandspóst hf. að hluta eða öllu leyti er þessi lagabreyting vafalaust nauðsynleg. Eina sýnilega ástæðan með þessu frumvarpi er að búa í haginn fyrir sölu fyrirtækjanna. Sé svo hefðu þær ástæður einfaldlega átt að koma fram í greinargerð með frumvarpinu.
    Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er andvígur öllum tilburðum stjórnvalda sem lúta að sölu og einkvæðingu þessara mikilvægu þjónustustofnana almennings og því styður minni hlutinn ekki frumvarpið.

Jón Bjarnason.