Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1029  —  543. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um veiðieftirlitsgjald.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson, Jón B. Jónasson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að öll ákvæði um gjald fyrir veiðieftirlit verði sameinuð í ein heildarlög til að samræma gjaldtökuna og gera hana skýrari.
    Tillaga er gerð um nokkrar breytingar á gildandi gjaldtökuákvæðum. Lagt er til að grundvöllur veiðieftirlitsgjalds vegna úthlutaðra aflaheimilda verði lögfestur skýrar en nú er. Einnig að grunnfjárhæð gjaldsins, sem ákvörðuð hefur verið með reglugerð, verði lögfest, sem og útreikningsaðferð verðmætahlutfalla einstakra tegunda sem gjaldið miðast við. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem er ætlað að tryggja samræmda álagningu gjalds og loks að heimild til töku gjalds vegna fjareftirlits nái til slíks eftirlits jafnt innan lögsögu sem utan.
    Auk framangreindra breytinga er, í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka breytingu gjalda til að sporna við þenslu í hagkerfinu, lagt til að vísitölubinding gjaldsins verði afnumin.
    Ekki eru lagðar til breytingar á fjárhæð gjalda að öðru leyti en því að eðlilegt þykir að gjöld sem hafa verið uppfærð með reglugerð miðað við byggingarvísitölu uppfærist nú miðað við byggingarvísitölu í janúar 2000.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „íslenskum deilistofnum“ í fyrri málslið 2. mgr. 2. gr. komi: vegna íslenskra deilistofna.

Alþingi, 13. apríl 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Guðmundur Hallvarðsson.


Árni R. Árnason.


Vilhjálmur Egilsson.



Guðjón A. Kristjánsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Jóhann Ársælsson.