Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1032  —  558. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um staðfesta samvist.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Drífu Pálsdóttur og Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er m.a. lögð til rýmkun skilyrða til að stofna til staðfestrar samvistar til samræmis við löggjöf annars staðar á Norðurlöndunum. Nefndin leggur jafnframt til viðbótarbreytingu á frumvarpinu. Samkvæmt gildandi lögum eiga ættleiðingarlög ekki við um einstaklinga í staðfestri samvist. Leggur nefndin til breytingu sem felst í því að einstaklingi í staðfestri samvist verði heimilt að ættleiða barn maka síns sem hann hefur forsjá fyrir (stjúpættleiðing). Með hugtakinu „barn“ er með tillögunni átt við bæði kynbarn og ættleitt barn makans að því undanskildu að ættleitt barn samvistarmakans frá öðru landi en Íslandi fellur ekki hér undir. Tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir að ættleiðingarlög gildi um ættleiðinguna að öðru leyti. Reglur þær sem koma fram í ættleiðingarlögum um skilyrði ættleiðingar, meðferð og úrlausn ættleiðingarmála og réttaráhrif gilda því um ættleiðingu einstaklings í staðfestri samvist á barni hins. Leggur nefndin áherslu á að við beitingu ákvæðisins verði hagsmunir barnsins ætíð hafðir í fyrirrúmi. Þannig skuli nánast undantekningarlaust leita samþykkis barnsins sé það orðið tólf ára, sbr. 1. mgr. 6. gr. ættleiðingarlaga. Sé barnið yngra en tólf ára skal með hliðsjón af aldri og þroska þess leita eftir afstöðu þess til fyrirhugaðrar ættleiðingar, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá skal meginreglan vera sú að leitað sé samþykkis hins kynforeldrisins á ættleiðingunni, sbr. 7. gr. ættleiðingarlaga, og að öðru leyti fylgja þeim sjónarmiðum sem byggt er á þegar ákvörðun er tekin um leyfi til ættleiðingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
    Í stað 1. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón gilda ekki um staðfesta samvist. Þó getur einstaklingur í staðfestri samvist ættleitt barn hins sem hann hefur forsjá fyrir, nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Lög um tæknifrjóvgun gilda heldur ekki um staðfesta samvist.
    Lagaákvæði sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gilda ekki um staðfesta samvist.

    Sverrir Hermannsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. apríl 2000.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Ásta Möller.



Lúðvík Bergvinsson.


Vigdís Hauksdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Jónína Bjartmarz.