Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1046  —  460. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Auðun Ágústsson frá Fiskistofu, Kristján Ragnarsson og Björn Jónsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Grétar Mar Jónsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Hilmar Baldursson frá Landssamtökum útgerðarmanna kvótalítilla skipa. Umsagnir um málið bárust frá Landssambandi smábátaeigenda, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambandi Íslands. Þá bárust fjölmargar umsagnir um málið frá sjómönnum.
    Megintilgangur frumvarpsins er að fresta um eins árs skeið gildistöku nokkurra ákvæða varðandi veiðar smábáta sem taka áttu gildi 1. september nk. Helsta ástæða þess er að nú stendur yfir heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Ekki þykir heppilegt að taka upp nýja skipan við stjórn veiða smábáta meðan endurskoðunin stendur yfir.
    Ljóst er að á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrrgreind ákvæði gengu í gildi, 15. janúar árið 1999, hafa ýmsir tekið ákvarðanir byggðar á lögunum og því að þau kæmu til framkvæmda 1. september nk. Þannig hafa allnokkrir ákveðið nýsmíði á bátum og stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga með það í huga að hefja veiðar á þeim innan hins nýja krókaaflamarks frá 1. september nk. Meiri hlutinn leggur því til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem gera það mögulegt. Þá er í breytingartillögum meiri hlutans kveðið á um að horfið verði frá því að binda veiðileyfi með krókaaflamarki við 6 brúttótonna stærðarmörk. Þess í stað er veiðileyfi þeirra einvörðungu bundið við tegundir sem þeir hafa krókaaflamark í og tegundir sem sæta ekki takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess megintilgangs frumvarpsins að fresta gildistöku lagaákvæða er snerta fiskveiðistjórnun báta innan við 6 brúttótonn, en að öðru leyti er ekki um efnislega breytingu á stjórn fiskveiða að ræða.
    Ástæða er til að árétta að einvörðungu er um að ræða frestun á gildistöku tiltekinna lagaákvæða. Brýnt er á hinn bóginn að um þennan hluta fiskveiðistjórnarinnar verði mótaðar heildstæðar reglur til lengri tíma, líkt og um aðra útgerð í landinu. Ljóst má vera að slíkt er ekki einasta þýðingarmikið vegna þeirra sem beina hagsmuni hafa af útgerð þessara báta, heldur ekki síður til þess að tryggja stjórnskipunarlega stöðu þessa útgerðarflokks til framtíðar.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að kveðið verði á um að hafi krókaaflahlutdeild í þorski á fiskveiðiárinu 1999/2000 verið flutt af báti sem veiðileyfi hefur með föstu hámarki í þorski til báts sem veiðileyfi hefur með þorskaflahámarki skuli úthluta þeim báti sem þorskaflahlutdeildin var flutt af veiðileyfi með þorskaflahámarki nema valið sé fyrir þann bát veiðileyfi með krókaaflamarki. Ef ekki væri kveðið á um þetta leiddi flutningur á þorskaflahlutdeildinni á fiskveiðiárinu 1999/2000 til þess að aflaheimildir í þorski mundu aukast á fiskveiðiárinu 2000/2001 á þeim báti sem aflahlutdeildina hefði fengið, án þess að þorskveiðiheimildir þess báts sem aflahlutdeildina lét mundu minnka þar sem hann hefur fast hámark á þorski á því fiskveiðiári. Fái hins vegar sá bátur sem krókaaflahlutdeildin var flutt af veiðileyfi með þorskaflahámarki eða krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/ 2001 skerðast veiðiheimildir hans í þorski í samræmi við það magn sem af honum var flutt.
     2.      Lagt er til að horfið verði frá því að binda veiðileyfi með krókaaflamarki því skilyrði að viðkomandi bátur sé ekki 6 brúttótonn eða stærri. Í staðinn er lagt til að bátum sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki verði einungis heimilt að stunda veiðar á þeim tegundum sem þeir hafa krókaaflamark í og tegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Með þessu móti er komið í veg fyrir að krókabátar sem leyfi hafa til veiða með krókaaflamarki fái ríkari heimildir en aðrir bátar til að stunda veiðar á tilteknum tegundum. Þá er lagt til að allir bátar eigi kost á veiðileyfi með krókaaflamarki frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001. Er þetta gert til að koma til móts við þá sem gert höfðu ráðstafanir á grundvelli laga sem samþykkt voru um stjórn veiða smábáta í janúar og mars 1999. Í 2. málsl. greinarinnar er kveðið á um að þeir sem stundað hafa veiðar samkvæmt leyfum með föstu hámarki á þorskafla eða þorskaflahámarki skuli sækja um veiðileyfi með krókaaflamarki fyrir 15. maí 2000, en úthlutað krókaaflamark þeirra geti þó aldrei orðið hærra en sem leiðir af þeirri krókaaflahlutdeild sem bundin var viðkomandi skipi 1. apríl 2000. Þessi takmörkun er sett til að koma í veg fyrir að flutningur á krókaaflahlutdeildum milli skipa á fiskveiðiárinu 1999/2000 geti leitt til þess að óeðlilegar umframveiðiheimildir skapist hjá skipi sem veiðileyfi fær með krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001, án þess að veiðimöguleikar þeirra sem krókaaflahlutdeildin var flutt af skerðist. Loks er lagt til að heimilað verði, með ákveðnum skilyrðum, að flutt verði krókaaflahlutdeild af báti sem ekki hefur veiðileyfi með krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001 til báts sem slíkt leyfi hefur. Er þetta sérstaklega gert til þess að leysa mál þeirra aðila sem hafa til ráðstöfunar veiðiheimildir sem ekki eru tímabundið bundnar við báta í eigu þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Árni R. Árnason.


með fyrirvara.