Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1048  —  110. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lausafjárkaup.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Atla Frey Guðmundsson, Tryggva Axelsson og Birgi Má Ragnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Erlend Gíslason frá Lögmannafélagi Íslands, Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins, Jón Magnússon og Telmu Halldórsdóttur frá Neytendasamtökunum og Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Neytendasamtökunum og Lögmannafélagi Íslands. Þá tók nefndin til skoðunar umsagnir sem borist höfðu um málið þegar það var til umfjöllunar á 122. og 123. löggjafarþingi.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um lausafjárkaup sem komi í stað laga frá 1922 um sama efni. Byggist það í meginatriðum á tillögum samnorræns vinnuhóps til norrænna kaupalaga frá árinu 1984, en þó er í sumum tilvikum tekið tillit til séríslenskra aðstæðna. Þá hefur frumvarpið verið lagað að svokölluðum CISG-samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1980, um sölu á vöru milli ríkja, auk þess sem höfð var til hliðsjónar tilskipun Evrópusambandsins nr. 99/44/EB.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að reglur verslana um skilarétt eru mjög misjafnar og hefur það leitt til óþæginda fyrir kaupendur, sérstaklega eftir jól. Beinir nefndin því til viðskiptaráðherra að hann beiti sér fyrir að mótaðir verði viðskiptahættir sem feli í sér samræmdar reglur um skilarétt.
    Nefndin leggur til allnokkrar breytingar á frumvarpinu. Flestar þeirra eru aðeins orðalagsbreytingar, en þó eru lagðar til eftirfarandi efnisbreytingar.
     1.      Lagt er til að í 8. gr. frumvarpsins verði tekið fram að sé söluhlutur ekki tryggður í flutningi beri seljanda að tilkynna kaupanda um það.
     2.      Til að taka af öll tvímæli er lagt til að í þeim tilvikum þar sem heimilað er að semja um að víkja frá efni laganna í neytendakaupum verði slíkur samningur að vera kaupanda í hag.
     3.      Lögð er til breyting á 25. gr. sem felur í sér að kaupandi geti rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða ef ljóst er að seljandi muni ekki efna.
     4.      Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 32. gr. að til að byggingarefni falli undir þann fimm ára tilkynningarfrest sem þar er kveðið á um verði því að vera ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti.
     5.      Lagt er til að tekið verði fram í 2. mgr. 48. gr. að auk greiðslu í reiðufé verði kaupanda heimilt að inna greiðslu af hendi með öðrum viðurkenndum greiðslumiðlum. Er þessi breyting lögð til vegna örrar þróunar greiðslumiðla.
     6.      Lagt er til að skýrar verði kveðið á um greiðsluskyldu skuldara í 71. gr.
     7.      Þá er loks lagt til að kveðið verði á um það í bráðabirgðaákvæði að frá gildistöku laganna og út árið 2005 skuli starfa kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa sem starfi bæði á grundvelli laga um lausafjárkaup og laga um þjónustukaup. Þar sem um er að ræða nýja heildarlöggjöf um lausafjárkaup telur nefndin að sú leið að aðilar að lausafjárkaupum geti leitað til óháðs stjórnvalds til að fá túlkun á lögunum ætti að gefast vel. Eru fjölmargar slíkar nefndir starfandi, m.a. kærunefnd húsaleigumála og kærunefnd fjöleignarhúsa, og hafa þær reynst vel. Lagt er til að einn nefndarmanna verði skipaður eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annar eftir tilnefningu Verslunarráðs Íslands og þann þriðja skipi ráðherra án tilnefningar. Lagt er til að kostnaður af störfum kærunefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar verður hann að lágmarki 2–3 millj. kr. á ári.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Verði frumvarpið að lögum leggur nefndin áherslu á að viðskiptaráðuneytið kynni efni þeirra vel áður en þau taka gildi þar sem um er að ræða ný heildarlög sem varða bæði almenning og seljendur lausafjár miklu.
    Að síðustu vill nefndin taka fram að hún telur að frágangur málsgreina í frumvarpinu sé ekki í samræmi við þá meginreglu í frágangi frumvarpa að hafa málsgreinar ónúmeraðar. Ekki er rökstutt sérstaklega af hvaða ástæðu málsgreinar eru númeraðar og því verða númer málsgreina felld niður og stafliðum breytt í töluliði í lokafrágangi verði frumvarpið samþykkt.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.